Árið 2006 stóð ég í stappi við Reykjavíkurborg vegna gagna sem borgin bjó yfir um verðmæti Landsvirkjunar. Akureyrarbær og Reykjvíkurborg voru þá að selja frá sér 45 prósent hlut í Landsvirkjun til ríkisins. Samhliða þeirri vinnu voru unnin verðmöt á fyrirtækinu, þar sem grundvallaratriði í verðmatinu voru raforkusölusamningar Landsvirkjunar við viðskiptavini. Borgin neitaði að afhenda gögnin, nema með því að afmá upplýsingarnar sem mestu skipta til að glöggva sig á verðmæti Landsvirkjunar. Það gerði Landsvirkjun líka og stjórnvöld. Það dugði ekki að kæra þetta til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, þar sem réttur stjórnvalda til þess að upplýsa almenning ekki um það sem mestu skipti, var lögvarinn. Það einkennilega í þessu tilviki, var að almenningur var alls staðar við borðið sem eigandi. Að mati stjórnvalda var virði Landsvirkjunar jafnt innra virði (1*price to book) þess á þessum tíma, eða sem nam rúmlega 60 milljörðum.
Jákvæðar breytingar
Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim átta árum sem liðin eru frá því að þessi pólitíska leyndarhyggja fékk að viðgangast. Nú hefur Landsvirkjun, að eigin frumkvæði, hætt þessari leyndarhyggju og gefur upp mun dýpri og betri upplýsingar um það sem er að gerast í rekstrinum en áður. Það er auðveldara að glöggva sig á gangi máli í þessu stóra hagsmunamáli almennings, sem á fyrirtækið. Meðal þess sem hefur þrýst á um þessar breytingar er betri tækni og auðveldari leiðir til þess að safna saman upplýsingum og greina þær.
En hvað með stjórnmálamennina?
Undarleg staða er nú uppi hjá stjórnmálamönnunum á Alþingi. Þeir komu almenningi inn í haftabúskap með lagasetningu, skömmu eftir hrun bankanna á þeirra vakt, og fólu Seðlabanka Íslands það flókna verkefni að framkvæma fjármagnshöftin á alla einstaklinga og fyrirtæki í landinu.
Stjórnmálamennirnir vinna nú að því að rýmka höftin, eða afnema þau, og samhliða á að endurskipuleggja fjármálakerfið og jafnvel að gera stórfelldar breytingar á eignarhaldi banka. Þetta ferli fer nú fram í skjóli leyndar. Raunar svo mikillar leyndar að stjórnarandstöðuþingmenn eins og stjórnarþingmenn, dansa með stjórnvöldum og undirrituðu þagnareið um allar upplýsingar sem tengjast þessari vinnu. Þeir hafa skuldbundið sig til þess að upplýsa almenning ekki um framgang málsins. Það segir mikið um máttleysi stjórnarandstöðunnar.
Þetta er þeirra ákvörðun
Það kann að vera að stjórnmálamönnunum gangi gott eitt til með leyndinni, þó erfitt sé að átta sig á því. En þetta er mikið umhugsunarefni finnst mér, og það er ekki víst að sagan muni dæma þetta sem réttar ákvarðanir hjá stjórnmálamönnunum. Þetta er þeirra ákvörðun, að gera þetta bak við luktar dyr. Engin krafa er um um hana í lögum í grunninn, þvert á móti er gagnsæi meginreglan í stjórnsýslunni.
Þá má velta því fyrir sér hvernig örmarkaðurinn íslenski, sem heldur úti skráðum markaði með verðbréf, getur yfir höfuð réttlætt leyndina um málið í ljósi stærðar þess. Halda fjárfestar í alvöru, í ljósi heildarumfangs málsins, að það muni ekki hafa nein áhrif á verð eigna á skráðum markaði og því sé leyndin um ferlið réttlætanleg? Ég geri ekki ráð fyrir að það viðhorf sé almennt á markaðnum, og mér heyrist ekki á samtölum við fólk sem þar starfar.
Sagan er eins og hún er
Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í að rifja upp sögulega atburði, þegar kemur að miklum breytingum á eignarhaldi banka og kerfislægum breytingum á regluverkinu hér á landi, en það má velta því fyrir sér hvort það hefði ekki breytt einhverju ef einkavæðing bankanna og fjármálakerfisins, á árunum 1998 til og með 2003, hefði átt sér stað eins og hún var úr garði gerð, fyrir opnum tjöldum. Hefði jafnt aðgengi að upplýsingum mögulega geta breytt hlutum til góðs, og hámarkað líkur á réttri ákvörðun? Stjórnmálamennirnir ættu að setja sig auðmjúklega í stellingar þegar þeir svara þessar spurningu játandi.
Allar leiðir úr vandanum liggja fyrir
Í ljósi aðstæðna sem fjármagnshöftin hafa skapað þarf ekki að viðhalda leyndinni, þar sem allar sviðsmyndir um mögulegar lausnir á vandanum sem stjórnmálamennirnir komu hagkerfinu í með lagasetningu um höft, liggja fyrir og hafa verið teiknaðar upp fyrir löngu. Núna er verið að velja hvaða leið er best. Hver tapar á því að fólk fái að fylgjast með þeirri vinnu? Að mínu mati enginn en stjórnmálamennirnir horfa öðruvísi á málið. Þeir vilja ekki að almenningur hafi möguleika á því að fylgjast með.
Grundvallarröksemdin fyrir því að setja allar upplýsingar um málið upp á borð, og vinna málið þannig áfram, er að mínu mati sú að ef það eru almannahagsmunir undir í málinu, sem ég efast ekki um, þá á almenningur rétt á því að vita hvaða upplýsingar stjórnmálamennirnir eru að sýsla með og hvaða hugmyndir stjórnmálamennirnir og umboðsmenn þeirra eru að leggja fram til lausnar á vandamálunum. Það má ekki koma í ljós eftir á hvað stjórnmálamennirnir voru að hugsa og hvaða hagsmuni þeir höfðu sem leiðarljós í sínu hagsmunamati. Þegar allt er um garð gengið. Það er of seint.
Það sitja allir uppi með haftabúskapinn
Fjármagnshaftabúskapurinn, sem stjórnmálamennirnir bera ábyrgð á, er ekki einkamál þeirra. Það sitja allir uppi með hann. Hvaða leið verður valinn út úr honum mun marka lífskjör í landinu til langrar framtíðar, í það minnsta að einhverju leyti. Jafnt aðgengi að upplýsingum væri best fyrir alla og myndi skapa traust á ákvörðunum sem allir átta sig á að stjórnmálamennirnir standa frammi fyrir. Það að þeir vilji fá að taka ákvarðanir og skoða upplýsingar bak við luktar dyr gæti bent til þess að þeir séu hræddir eða óöruggir, og það er ekki gott.