Stjórnvöld hafa ekki teiknað upp heildræna stefnu um innviðauppbyggingu fyrir ferðaþjónustu. Á þetta hefur oft verið bent, og var þetta meðal annars gert að umtalsefni í dögunum, í pistli um mikilvægi innviðafjárfestinga fyrir samfélög. Skúli Mogensen, fjárfestir og forstjóri WoW Air, segir í viðtali í dag að líklega hafi stjórnvöld, með hægagangi sínum og stefnuleysi þegar að ferðaþjónustu kemur, valdið 100 til 200 milljarða tjóni fyrir íslenska hagkerfið. Þetta eru stór orð, en upphæðirnar eru vafalítið frekar vanáætlaðar en hitt.
Grunnurinn lagður
Oft er það svo, að innviðafjárfestingar í borgum og ríkjum, t.d. þegar kemur að samgöngumálum, leysa krafta úr læðingi og örva vöxt. Hér á landi er staðan sú, að ferðamönnum hefur fjölgað mikið frá ári til árs, þrátt fyrir að innviðir í þessum stærsta atvinnuvegi landsins séu miklu veikari en þeir þyrftu að vera.En hvaða innviðir eru það sem eru veikir á Íslandi, sem stjórnvöld þurfa að koma að?
1. Samgöngur eru líklega stærsti einstaki þátturinn, og eru flugsamgöngur þá meðtaldar. Fyrirhuguð er milljarða uppbygging á fluvellinum í Keflavík. Vonandi tekst að vanda til verka í þeim efnum og stórbæta þjónustuna frá því sem nú er, því margir sem þekkja vel til, hafa bent á að flugvöllurinn anni vart álagi á sumrin, með tilheyrandi þjónustuskerðingu fyrir flugvallargesti og fyrirtæki.
Vegasamgöngur þarf líka að skoða í þessu samhengi. Stundum er umræða um þær stórundarleg, og það er eins og stjórnmálamenn sérstaklega, hafi engan áhuga á því að hugsa til mikilvægi ferðaþjónustunnar þegar er verið að bæta vegasamgöngur. Vestfirðir eru t.d. í brýnni þörf fyrir meiri innviðafjárfestingu í vegasamgöngum, enda koma þangað nokkur hundruð þúsund ferðamenn á hverju ári til að skoða stórbrotna náttúru og upplifa einstakt mann- og dýralíf.
Það sama má segja um Austfirði. Þar þarf að huga að innviðauppbyggingu, á grundvelli sömu sjónarmiða, og blessunarlega er verið að gera það á Norðurlandi eystra. En það þarf að ganga mun lengra.
Héðinsfjarðargöng, sem ýmsir finna allt til forráttu vegna þess að ríkissjóður borgaði þau - eins og reyndar alla vegi á Íslandi - eru líka dæmi um vegasamgöngur sem hafa skipt sköpum fyrir nýfjárfestingu í ferðaþjónustu. Þetta hefur Róbert Guðfinnsson, sem fjárfest hefur fyrir milljarða í ferðaþjónustu á Siglufirði, með eftirtektarverðum árangri, staðfest sjálfur. Göngin skiptu sköpum, og opnuðu dyr fyrir möguleika á fjárfestingu. Líklega hafa ferðamenn nú þegar skilið eftir gjaldeyri á Siglufirði sem er nálægt kostnaði Héðinsfjarðarganga. Aldrei hefði komið til þess, ef ekki væri fyrir göngin, samkvæmt þeim sem fjárfesti sjálfur.
Samgöngur í víðu samhengi
Það sama má raunar segja um höfuðborgarsvæðið. Það er afar brýnt að draga úr bílaborgarbrag og stuðla að hagkvæmari samgöngum, meðal annars út frá þeirri staðreynd að meirihluti ferðamanna sem kemur til landsins stoppar þar. Fólki fjölgar um tugþúsundir í Reykjavík á sumrin, svo dæmi sé tekið, og þessi atriði skipta máli.Fjárfesting í betri samgöngum er eitthvað sem stjórnvöld þurfa að huga betur að, og rökræða um fjárfestingu í þeim má ekki byggjast á misskilningnum um að það sé fyrst og fremst íbúar á Íslandi sem not þær. Fjöldi sem nemur margföldum íbúafjölda landsins sækir landið heim árlega, og því skipta samgöngurnar miklu máli fyrir það fólk líka.
2. Stjórnvöld verða að hugsa út í það hvernig Ísland eigi að geta tekið á móti fjölda af ferðamönnum, sem reiknað er að með að fjölgi um tugi prósenta á ári á næstunni. Nýjasta spáin gerir ráð fyrir tveimur milljónum ferðamanna á ári, árið 2018. Í fyrra náði fjöldinn fyrst nærri milljón. Samt sjást vaxtaverkirnir víða.
Það sem dregur fólk til landsins, samkvæmt rannsóknum sem Höfuðborgarstofa hefur gert með könnunum, er fyrst og fremst íslensk náttúra. Ef stjórnvöld hafa áhuga á því að verðleggja hana í beinhörðum peningum, þá er það hægt meðal annars út fyrir þessari staðreynd. Velta sem tengd er ferðaþjónustu nemur mörg hundruð milljörðum á ári.
Uppbygging þjóðgarða og aðgangsstýring
Eitt af því sem stjórnvöld hafa trassað - ekki aðeins núverandi ríkisstjórn og sveitarfélög - er að hugsa um þjóðgarða landsins út frá þeirri staðreynd að gestum í þeim fjölgar gríðarlega hratt og hin einstaka viðkvæma náttúra sem er innan þeirra, þarfnast aðgangsstýringar, öryggisuppbyggingar og sérfræðiþekkingar. Líklega er milljarða fjárfesting í þjóðgörðunum, ekki síst á Þingvöllum, nágrenni Snæfellsjökuls, Skaftafelli og í Vatnajökulsþjóðgarðinum vítt og breitt, algjörlega óhjákvæmileg. Það hefði átt að fara út í hana fyrir löngu, enda lágu upplýsingar fyrir um vöxtinn í ferðaþjónustunni og margbúið að benda stjórnvöldum á mikilvægi þess að huga að þessum málum. En betra er seint en aldrei.Hættumerki í löggæslu
Annað sem má nefna er löggæsla. Ekki er langt síðan að lögreglumaður á Norðurlandi eystra sagði mér að örfáir lögreglumenn væru stundum á vakt, á svæði sem þekur á fimmta hundrað ferkílómetra, þar á meðal á Mývatnssvæðinu. Þangað koma mörg hundruð þúsund ferðamenn á hverju sumri, og einnig mikill fjöldi yfir vetrarmánuðina. Það má ekki mikið útaf bregða, svo það myndist óöruggt ástand. Það er vel hugsanlegt að þetta viðbótarálag á löggæslu sem fylgt hefur ferðaþjónustunni hafi aldrei verið fullkannað eða kortlagt almennilega. Því þarf að kippa í liðinn.Vonandi verður vitundarvakning hjá stjórnmálamönnum þegar kemur að ferðaþjónustunni. Það er kominn tími á að þeir átti sig á því að þetta er orðið langsamlega stærsti gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur landsins. Vaxtaverkirnir sjást, og það þarf að bregðast við þeim.