Skjótt skipast veður í lofti. Undanfarin tvö ár hafa viðbrögð við farsótt mótað bæði peningastefnu og stefnu í ríkisfjármálum. Hallarekstur ríkissjóðs studdi við innlenda eftirspurn og hélt lífinu í fyrirtækjum í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Sjálfvirkum sveiflujöfnurum var einnig leyft að hafa áhrif á heildareftirspurn og samdráttur skattstofna kom fram í auknum hallarekstri. Halli á rekstri ríkissjóðs var þannig 8,2% af VLF á síðasta ári. Á sama tíma voru vextir lækkaðir um 200 punkta, úr 2,75% í 0,75%, og laust fé í bankakerfinu aukið með lækkun bindiskyldu og afnámi 30 daga bundinna innlána í seðlabanka ásamt öðrum aðgerðum.
Markmið Covid aðgerðanna var að vernda þann hluta hagkerfisins sem ekki varð fyrir beinum áhrifum af farsóttinni með því að örva almenna eftirspurn. Segja má að þessu markmiði hafi verið náð þótt nú megi líta í baksýnisspegilinn og spyrja hvort of langt hafi verið gengið. Áhrif vaxtalækkananna voru mikil og komu m.a. fram í mikilli hækkun húsnæðisverðs en kostnaður vegna eigin húsnæðis hafði í apríl hækkað um 17,2% síðustu 12 mánuði. Þessi hækkun, sem ekki var fyrirséð, hefur haft örvandi áhrif á framkvæmdir í greininni og í gegnum auðsáhrif á einkaneyslu.
Verðbólguvandi
Þótt ekki sé útilokað að ný afbrigði af Covid veirunni komi upp á næstu mánuðum er nú útlit fyrir að áhrif farsóttarinnar séu að fjara út. Búist er við auknum fjölda ferðamanna á komandi mánuðum og að þeir verði um 1,4 milljón á árinu. Einkaneysla og fjárfesting fara vaxandi og styrjöldin í Úkraínu hefur jákvæð áhrif á viðskiptakjör í gegnum hærra fiskverð sem stafar af viðskiptabanni á Rússland. Hagvöxtur var 4,3% á síðasta ári og búist er við að hann verði 4,6% á þessu ári.
Hagkerfi okkar og flestra vestrænna ríkja glíma nú skyndilega við gamalkunnugt vandamál sem er vaxandi verðbólga. Þótt viðbrögð við verðbólgu séu þekkt þá getur hún orðið langvinn ef viðbrögð eru ekki rétt eins og reynslan frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar sannar.
Atvinna vex hratt og atvinnuleysi mælist nú 4,1% og er á niðurleið. Störfum fjölgar ört og stór hluti fyrirtækja segist ætla að bæta við sig starfsfólki á næstu mánuðum. Frekari lækkun atvinnuleysis mun leiða til spennu á vinnumarkaði með tilheyrandi þrýstingi á laun. Fleiri fyrirtæki segja að þau vilji fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum en áður (39%).
Verðbólgan einskorðast ekki við húsnæðisliðinn. Verð almennrar þjónustu hefur hækkað um 5,7% síðustu 12 mánuði og launavísitalan um 7,2% á milli ára. Verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði hafa hækkað. Samkvæmt könnunum búast markaðsaðilar við því að verðbólga verði 5% að ári liðnu og 3,5% eftir tvö ár.
Viðbrögð hagstjórnar
Við aðstæður sem þessar er mikilvægt að hagstjórn bregðist við með aðhaldi. Á skömmum tíma verður peningastefna og ríkisfjármál að skipta um gír. Útlit er fyrir að halli á rekstri ríkissjóðs fari minnkandi næstu tvö árin bæði vegna vaxandi skatttekna og vegna þess að Covid aðgerðum er hætt. Hallinn var 8,2% árið 2021 og spáð er að hann verði 4,7% árið 2022 og minnki enn meira árið 2023. Peningastefnan hefur þegar orðið aðhaldssamari. Covid-lækkanirnar voru teknar til baka í nokkrum skrefum og voru virkir vextir Seðlabankans 2,75% fyrir síðustu vaxtaákvörðun sem eru sömu vextir og voru í byrjun árs 2020 áður en farsóttin barst til landsins. Nú í maí voru virkir vextir síðan hækkaðir um 100 punkta og eru þeir því 3,75%. Engu að síður eru virkir raunvextir, mismunur nafnvaxta og verðbólgu, neikvæðir en síðasta verðbólgumæling var 7,2%.
Þegar litið er fram í tíma þá er hætta á vaxandi verðbólgu. Neikvæðir raunvextir styðja enn við eftirspurn og þótt ríkisfjármálastefnan sé að verða aðhaldssamari þá er sú breyting ekki kröftug. Í haust verða kjarasamningar lausir. Sambland mikillar og vaxandi verðbólgu, neikvæðra raunvaxta, vaxandi eftirspurnar og spennu á vinnumarkaði getur hæglega framkallað miklar launahækkanir og vaxandi verðbólgu.
Við þessar aðstæður er mikilvægt að peningastefna og ríkisfjármál séu samstillt jafnframt því sem aðilar vinnumarkaðs sýni ábyrgð með því að taka þjóðhagslegar afleiðingar kjarasamninga til greina við gerð þeirra. Á næstu mánuðum er nauðsynlegt að virkir vextir Seðlabankans hækki nægilega mikið til þess að raunvextir hans verði jákvæðir að nýju. Það hversu mikið nafnvextir munu þurfa að hækka fer þá eftir þróun verðbólgu. Jafnframt þarf að taka aftur þær aðgerðir sem juku við laust fé í bankakerfinu. Þessar aðgerðir myndu auka peningalegt aðhald verulega frá því sem nú er. Virkir vextir sem eru 3,75% væru nægilega háir ef verðbólga væri í markmiði, 2,5%, en hún er langt yfir markmiði og gæti vaxið enn frekar á næstu mánuðum. Aukið aðhald í ríkisrekstri myndi auðvelda hagstjórn með því að draga úr þörfinni á vaxtahækkunum. Ekki er þó líklegt að sú verði raunin.
Á vinnumarkaði er samið um skiptingu þjóðartekna á milli fjármagns og launa. Ósætti leiðir þá til ófriðar sem yfirleitt endar í því að laun hækka meira en framleiðni sem síðan veltur út í verðlag. Auðvelt er að benda launþegahreyfingunni á að stilla kaupkröfum í hóf en einnig verður að gera þær væntingar til eigenda fjármagns að stilla eigin væntingum í hóf.
Í kennslubókum í hagfræði er bent á að leiðin til friðar á vinnumarkaði sé að hafa nægilegan slaka á vinnumarkaði til þess að aðilar verði sammála og er þá talað um jafnvægisatvinnuleysi. Núverandi atvinnuleysi, 4,1%, er samkvæmt mati Seðlabankans nálægt jafnvægi sínu. Líklegt er að atvinnuleysi lækki á næstu vikum og mánuðum og fari þá undir jafnvægisstig sitt jafnframt því sem framleiðsluspenna myndist, eftirspurn meiri en sú framleiðslugeta sem samræmist verðstöðugleika. Þótt aðflutningur erlends vinnuafls muni auka framleiðslugetu þá mun, samkvæmt mati Seðlabankans, engu að síður myndast vaxandi verðbólguþrýstingur við óbreytta vexti.
Að ganga (ekki) í takt
Auðvelt er að benda á hvernig best væri að bregðast við þeim aðstæðum sem nú blasa við. Aðhald ríkisfjármála er þá aukið á þessu ári og því næsta meira en nú er gert ráð fyrir með hækkun skatta eða lækkun útgjalda; vextir seðlabanka hækka í júní og ágúst og þá einnig raunvextir bankans og raunvextir útlána viðskiptabanka og lífeyrissjóða; og aðilar vinnumarkaðs koma sér saman um hóflegar launahækkanir sem samræmast lægri verðbólgu.
En hvernig er útlitið þegar þetta er skrifað? Sumir leiðtogar launþega hrópa hástöfum þegar vextir hækka í 3,75% þótt raunvextir séu neikvæðir og raunvirði óverðtryggðra lána að lækka um rúmlega 7% á ári. Jafnframt er ekki að heyra enn sem komið er að vilji sé til sátta á vinnumarkaði í haust. Á fjármagnshlið vinnumarkaðarins er heldur ekki að heyra sáttatón. Eigendur margra stórra skráðra fyrirtækja greiða sér milljarða í arð. Mörg þessara fyrirtækja starfa við skilyrði fákeppni í krónuhagkerfinu þar sem hagnaður stafar ekki að fullu af því að stjórnendur hafi tekið áhættu í ákvörðunum eða komið með nýjungar í rekstri, svo vægt sé til orða tekið. Fréttir berast einnig af háum launagreiðslum stjórnenda margra af þessum fyrirtækjum. Þótt þessar launagreiðslur skipti litlu máli í þjóðhagslegu samhengi þá gefa þær tóninn fyrir hinn almenna vinnumarkað. Viðskiptabankar fækka útibúum og draga úr kostnaði sínum og greiða síðan út milljarða arð. Greiðslukerfið er dýrt og fer í gegnum þessa viðskiptabanka, kortafyrirtæki eru í erlendri eigu og ekki bólar á ódýrri innlendri greiðslumiðlun.
Skortur á meiri samstöðu og samhæfingu peningastefnu og ríkisfjármála mundi líklega hafa í för með sér að vextir seðlabanka verði að hækka meira en annars væri nauðsynlegt á þessu ári og því næsta. Ófriður á vinnumarkaði og miklar launahækkanir myndi kalla á enn meiri vaxtahækkanir. Nú er tími til að sættast!
Hvernig getur farið illa?
Þau okkar sem eldri erum getum auðveldlega gert sér í hugarlund hvernig mál geta þróast á neikvæðan hátt næstu misseri. Byrjendakennslubækur í hagfræði lýsa því.
Hækkandi verðbólguvæntingar gætu valdið því að krafist verði hærri launa í haust til þess að bæta launafólki upp bæði verðbólgu þessa árs og væntanlega verðbólgu á næsta ári. Þessar launahækkanir fara síðan út í verðlag sem kallar á enn aðrar launahækkanir. Slík víxlverkun launa og verðlags getur varað í áraraðir. Þegar svo seðlabankar reyna ná tökum á verðbólgunni þá krefst slíkt atvinnuleysis með tilheyrandi hörmungum fyrir þá sem fyrir því verða.
Verðbólga er nú 8,5% í Bandaríkjunum og 7% í Bretlandi og fer vaxandi. En seðlabankavextir eru einungis á bilinu 0,75-1% í fyrrnefnda ríkinu og 1% í Bretlandi. Í nágrenni okkar mælist verðbólga nú 6,7% í Danmörku, 6,0% í Svíþjóð og 5,4% í Noregi. Seðlabankavextir eru einungis 0,25% í Svíþjóð, -0,45 í Danmörku og 0,75% í Noregi. Allar líkur eru á því að vaxtahækkanir hafi byrjað of seint of verið of litlar í þessum löndum sem síðan kallar á hærri vexti og meiri samdrátt á næstu árum. Mistökin frá áttunda ártugnum hafa þá verið endurtekin.
Greinin birtist fyrst í síðasta tölublaði Vísbendingar. Hægt er gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.
Höfundur er ytri meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabankans og prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Þær skoðanir sem koma fram í þessari grein eru hans og endurspegla ekki skoðanir annarra nefndarmanna.