Hrunið markar endalok og nýtt upphaf í senn. Ósjálfbæru neyslufylleríi fólks og fyrirtækja lauk hratt og með skelli. En hagkerfið verður ekki dæmt af því hvernig það féll heldur hvernig það mun rísa. Enn eru ekki öll kurl komin til grafar en mesta pólitíska friðarskjól sem stjórnvöld hafa fengið til þess að bæta erfiða stöðu er nú fram undan. Ástæðan er sú að þrjú ár eru í næstu kosningar, lengsta samfellda skeið á milli kosninga á sveitarstjórnar- og/eða landsmálastigi frá hruni. Þetta tímabil getur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, nýtt til þess að styrkja hagkerfið og opna það upp á gátt fyrir mannauði og fjárfestingu. Umfram allt verður að gefa fólki sjálfstraust til þess að það trúi því að góðar hugmyndir geti orðið að veruleika. Gert gagn.
Læra af því sem aflaga fór
Það er auðvelt að velta sér upp úr neikvæðum afleiðingum hruns bankanna og krónunnar og það er að vissu leyti nauðsynlegt. Sérstaklega að reyna að leggjast yfir stöðuna, safna upplýsingum saman og greina þær svo að hægt sé að fyrirbyggja að sambærileg staða komi upp aftur. Það má ekki gleyma því að neyðarlögin eru einstök í mannkynssögunni. Aldrei fyrr hefur þjóð staðið frammi fyrir efnahagslegu altjóni, eftir að fífldjörf hagstjórn stjórnmálamanna og stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins leiddi landið næstum til efnahagslegrar glötunar. Vonandi verður hægt að læra af þessum mörgu og stóru mistökum sem augljóslega voru gerð. Komandi kynslóðir eiga það skilið.
Það sem blasir nú við sem helsta verkefnið fram undan er að finna leið út úr haftabúskapnum. Það ömurlega við hann er að hann býr til stéttaskipt samfélag með margvíslegum neikvæðum áhrifum. Enginn ætti að sætta sig við slíkt.
Að þessu sinni verður þessi staða ekki gerð að helsta umfjöllunarefni en ég trúi því að ríkisstjórn Íslands sé einbeitt í því að koma landinu úr þessari ömurlegu veröld hafta og hagsmunabaráttu. Það er gott að hún sé að vinna með færum sérfræðingum á þessu sviði en best væri að hafa gagnsæi að leiðarljósi í þeirri vinnu, þar sem almannahagsmunir eru undir.
Jákvæðar hliðar hrunsins
Jákvæðar hliðar hrunsins hafa ekki verið mikið ræddar og kannski ekki að ástæðulausu. Af nægu neikvæðu er að taka. En hinar jákvæðu hliðar eru sýnilegar og birtast ekki síst í kröftugra nýsköpunarumhverfi en hér hefur verið um árabil. Ástæðan fyrir því held ég að sé mannleg fremur en nokkuð annað. Þegar bankarnir hrundu hætti margt vel menntað og reynslumikið fólk störfum og fór að gera eitthvað annað. Þetta á ekki síst við um tæknimenntað fólk á sviði verkfræði og fleiri raungreina. Þetta fólk hefur síðan látið til sín taka á öðrum vettvangi en í fjármálageiranum. Dæmi um þetta er fyrirtækið Meniga, sem beinlínis fæddist í þessum aðstæðum. Auk þess hafa fleiri fyrirtæki í örum vexti á undanförnum árum, eins og TM Software og CCP, notið góðs af þessu þar sem hæft fólk hefur gengið til liðs við þessi fyrirtæki. Þorsteinn Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla, hefur tjáð sig um það sama; hér á Íslandi séu að mörgu leyti kjöraðstæður til þess að byggja upp fyrirtæki sem hyggst hasla sér völl erlendis. Ekki síst vegna þess hvað mannauðurinn er mikill.
Ég fylgdist með ráðstefnunni Startup Iceland sem fram fór í Hörpu um síðastliðna helgi, en þar lýstu virtir erlendir fyrirlesarar, þar á meðal Bre Pettis, forstjóri þrívíddarteiknifyrirtækisins MakerBot, Íslandi sem suðupotti fyrir frumkvöðla og nýsköpun. Þeir fyndu fyrir því að þessar aðstæður væru fyrir hendi hér, ekki síst vegna mannauðs og vaxandi skilnings atvinnulífsins á mikilvægi frumkvöðlastarfsemi. Nokkur atriði hafa skipt miklu máli í þessu samhengi eftir hrunið. Endurreistu bankarnir hafa sýnt þessum anga meiri áhuga en fyrir hrun. Ekki síst hefur Startup Reykjavík viðskiptahraðallinn, sem Arion banki og Klak Innovit hafa leitt, dregið frumkvöðlastarfið fram í skýrara dagsljós og gefið fólki tækifæri til að koma hugmyndum sínum á næsta stig. Á þeim þremur árum sem viðskiptahraðallinn hefur staðið yfir hafa 30 fyrirtæki á frumþroskastigi orðið til, og tugir starfa á ársgrundvelli í kjölfarið. Sum þessara fyrirtækja standa á spennandi tímamótum og eru að sækja sér fé á erlenda markaði. Íslandsbanki og Landsbankinn hafa enn fremur verið að styrkja fjárfestingaumhverfi á sínum vettvangi, sett upp sjóði sem fjárfesta í nýsköpun á ýmsum sviðum og horfa til langs tíma. Þá stigu Samtök atvinnulífsins mikilvægt skref og stofnuðu sérstakan vettvang, Litla Ísland, sem vinnur að framgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Rannsóknir sýna að 70 til 80 prósent fólks á vinnumarkaði starfar hjá þessum fyrirtækjum. Athyglin í fjölmiðlum og umræðu um hagsmunamál atvinnulífsins er yfirleitt ekki í samræmi við þetta.
Langtímahugsun
Kraftmikið frumkvöðlastarf hefur eina forsendu fyrir velgengni. Það er innbyggð langtímahugsun og þolinmæði. Nýleg ákvörðun ríkisstjórnarinnar, um að styrkja nýsköpunar- og rannsóknarstarf svo um munar, er gott innlegg í frumkvöðlastarf í landinu. En það má ekki falla í þá gryfju að halda að það verði strax hægt að mæla mikinn árangur. Hann sést á lengri tíma. Í frumkvöðlafræðum er þekkt setning sem er svona; Árangur yfir nótt tekur ellefu ár. Stjórnmálamenn, og þeir sem stýra fjárfestingu og fjármagnshreyfingum yfir höfuð, ættu að hafa þetta hugfast þegar frumkvöðla- og nýsköpunarstarfið er annars vegar.