Í nóvember var haldin flugeldasýning í Hörpu þar sem sýnt var á nokkrum glærum hversu frábær hugmynd millifærsla á 80 milljörðum króna úr vasa allra í vasa sumra væri. Í kjölfarið var nánast sama greinin um gæði þessarra aðgerða skrifuð í blöðin og tveir til þrír þingmenn Framsóknar látnir kvitta undir í hvert sinn. Sjálfstæðismenn hafa mest megnis bara skammast sín fyrir að taka þátt í þessum risavöxnu pólitísku hrossakaupum, sem eru andstætt öllu sem flokkurinn stendur fyrir, en voru samt sem áður verðmiðinn sem settur var á endurkomu þeirra að valdastóli.
Vandamálið við kynninguna var að hún sýndi bara það sem ríkisstjórnin vildi sýna. Út frá henni var ómögulegt að sjá hverjir frádráttarliðirnir yrðu, hvernig peningarnir skiptust á milli tekju- og eignarhópa, milli landshluta og ómögulegt að sjá hvernig þeir skiptast á milli kynslóða.
Svarið bendir til annars af tvennu. Annað hvort liggja þessar upplýsingar ekki fyrir, sem er með ólíkindum, eða ríkisstjórnin er að draga það að upplýsa nákvæmlega um hversu stór hluti af þessum peningum lenti hjá fólki sem borgar auðlegðarskatt, skuldar lítið eða ekkert eða er með margföld meðallaun, sem er líka með ólíkindum.
Þetta er auðvitað afleitt þegar um er að ræða fordæmalausa peningagjöf og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, lagði fram prýðilega fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra í 15 liðum til að fá betri útskýringar á þessu. Hann svaraði í vikunni með því að svara fyrirspurninni ekki. Þess í stað boðaði hann skýrslu um málið í vor.
Svarið bendir til annars af tvennu. Annað hvort liggja þessar upplýsingar ekki fyrir, sem er með ólíkindum, eða ríkisstjórnin er að draga það að upplýsa nákvæmlega um hversu stór hluti af þessum peningum lenti hjá fólki sem borgar auðlegðarskatt, skuldar lítið eða ekkert eða er með margföld meðallaun, sem er líka með ólíkindum.
Rifist að ástæðulausu um höft
Í þessari viku var ljósi varpað á áform stjórnvalda um afnám hafta. Í grófum dráttum munu þau snúast um að þvinga aflandskrónueigendur í löng óarðbær skuldabréf og setja útgönguskatt á þá sem vilja yfirgefa íslenskt haftahagkerfi.
Þessi hugmynd er í grunninn nákvæmlega sú sama og Seðlabanki Íslands kynnti í mars 2011 og hann hefur leynt og ljóst unnið að síðan. Þar var gert ráð fyrir útgáfu ríkisskuldabréfa til margra ára í erlendri mynt og útgöngugjaldi.
Á þeim rúmu þremur og hálfu ári sem er liðið frá því að Seðlabankinn sýndi á þessar tillögur höfum við þurft að hlusta á endalausar pólitískar vígayfirlýsingar um kylfur, gulrætur og vélbyssur sem nota eigi til að brenna eigendur krafna á þrotabú föllnu bankanna, með gjaldþrotaleiðum eða stjórnvaldsaðgerðum á grunni einhvers ímyndaðs neyðarréttar, til að búa til gullpott sem ætti að leysa öll okkar vandamál. Eina sem þyrfti væri pólitikusa sem þyrðu að segja alþjóðasamfélaginu hvert það eigi að stinga sínum reglum og hagsmunum. Út á þessa harðhausaafstöðu unnust fjölmörg atkvæði.
Svo er niðurstaðan bara sú sem Seðlabankinn hefur alltaf verið að vinna eftir. Og morgunljóst að allt tal um afnám hafta er ekki raunveruleikatengt. Höft verða losuð, en þau verða ekki afnumin að fullu í nánustu framtíð. Og mögulega aldrei.
Kunnum við ekki að reikna hagvöxt?
Allt þetta ár höfum við hlustað á fulltrúa stjórnarflokkanna mæra sjálfa sig og ríkisstjórnina fyrir að hafa stuðlað að stórkostlegum efnahagslegum aðstæðum hérlendis. Stjórnarandstæðan grípur þetta á lofti og segir þetta allt síðustu ríkisstjórn að þakka, hún hafi fræst gólfið undir góðærisparketið sem nú sé verið að leggja.
En svo kemur í ljós að hagvöxturinn var bara 0,5 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins. Það er aðeins öðruvísi en sá 2,7 prósent hagvöxtur sem forsendur fjárlaga fyrir árið 2014 byggðu á, eða sá 2,9 prósent hagvöxtur sem Seðlabankinn spáði, eða sá 3,1 prósent hagvöxtur sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði.
Á þriðja ársfjórðungi var hagvöxturinn meira að segja neikvæður um 0,2 prósent. Til samanburðar má nefna að í löndum Evrópusambandsins, sem oft er talað um hérlendis að séu að hverfa í efnahagslegt hyldýpi, mældist hagvöxtur jákvæður um 0,3 prósent á sama tíma.
Menn keppast nú um að segja að þetta sé misskilningur og spátölurnar séu réttar. Hagstofan rífur hins vegar bara kjaft og segir tölurnar sínar réttar.
Menn keppast nú um að segja að þetta sé misskilningur og að spátölurnar séu réttar. Hagstofan rífur hins vegar bara kjaft og segir tölurnar sínar réttar.
Staðan er því þannig að annað hvort höfum við lifað í einhverri ímyndunar-bólu undanfarin misseri og látið stjórnmálamenn fóðra okkur af hugmyndum um góðæri sem til sé komið vegna ágætis þeirra, eða sú stofnun sem við treystum til að reikna út hagvöxt kann það ekki. Bæði er auðvitað mjög alvarlegt.
Stöðugleika ógnað
Og svo eru læknar í verkfalli. Þeir eru búnir að vera í verkfalli í margar vikur og það sér ekki fyrir endann á þeirri baráttu. Búið er að fresta yfir 700 aðgerðum og læknanemar hafa komið því skýrt á framfæri við fjármála- og efnahagsráðherra að þeir muni ekki sækja um kandidatsstöður á næsta ári.
Kjaradeilur lækna eru tæklaðar eins og efnahagsmál. Að ekki sé hægt að mæta kröfum þeirra vegna þess að það ógni stöðugleika. En staðan eins og hún er í dag ógnar stöðugleika. Hún ógnar lífsgæðum í landinu og tilurð boðlegs velferðarkerfis.
Fjórir af hverjum tíu íslenskum læknum búa erlendis. Hluti þess hóps er í sérnámi. Þeir halda hópinn og gera stundum kannanir um hversu líklegt það séu að þeir séu á leiðinni heim til Íslands. Samkvæmt mínum upplýsingum sjá langflestir þeirra heimför ekki fyrir sér næstu tíu árin. Á sama tíma eru margir sérfræðilæknar á Íslandi að komast á aldur.
En kannski eigum við bara að lækna okkur sjálf, föst í gjaldeyrishöftum, með fulla vasa af leiðréttingapeningum í ímynduðu hagvaxtarumhverfi.
Staðan í heilbrigðismálum er bráðavandi en hún er líka stórhættulegur framtíðarvandi. Fjöldi Íslendinga yfir 67 ára aldri mun þrefaldast á næstu 45 árum. Gamalt fólk þarf meiri heilbrigðisþjónustu. Það er staðreynd. Og við þurfum að bæta stórkostlega í heilbrigðiskerfið til að taka á þessari lýðfræðilegu kúvendingu sem er að fara að eiga sér stað. Við erum að breytast úr ungri þjóð í gamla þjóð.
En kannski eigum við bara að lækna okkur sjálf, föst í gjaldeyrishöftum, með fulla vasa af leiðréttingapeningum í ímynduðu hagvaxtarumhverfi.
Þetta er staðan. Og forsætisráðherra fór í frí.