Samviskufrelsi virðist vera hugtak sem á einungis við um presta sem vilja ekki gifta samkynhneigt fólk. Þegar því er flett upp í fjölmiðlavakt Creditinfo kemur fram að á árunum 2005 og út ágústmánuð síðastliðinn hafði það komið 36 sinnum fyrir í íslenskum fjölmiðlum. Í öllum þeim fréttum og greinum er hugtakið notað um rétt presta til að mismuna samkynhneigðum.
Á síðustu vikum hefur hugtakið svo aftur ratað inn í fréttir. Frá 12. september, þegar Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, lagði fram fyrirspurn um samviskufrelsi presta á Alþingi, hefur það komið fyrir í 31 frétt eða grein, nánast jafn mörgum og síðustu tæpu tíu árin á undan. Aftur er umræðan sú sama: um rétt kirkjunnar þegna til að neita að gefa saman samkynhneigða ef það samrýmist ekki samvisku þeirra.
Það er ekki til neitt samviskufrelsi í lögum
Samviskufrelsi er ekki skilgreint í stjórnarskrá lýðveldsins. Þótt stjórnarskráin segi að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar þá veitir það skoðanafrelsi ekki rétt til að sniðganga lög. Í kaflanum um Þjóðkirkju á Íslandi er ekkert minnst á það að prestar hafi ríkari rétt til að mismuna en aðrir þegnar, bjóði samviska þeirra þeim það. Í næsta kafla á eftir er hins vegar fjallað um mannréttindi. Í 65. grein stjórnarskráarinnar segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“.Á Íslandi gilda ein hjúskaparlög. Í fyrstu grein laganna kemur fram að þau gildi um hjúskap tveggja einstaklinga, óháð kyni. Nokkrir aðilar hafa leyfi til að stofna til löglegs hjúskapar. Þeir eru prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga sem hafa sérstaka vígsluheimild samkvæmt lögum og borgaralegir vígslumenn (sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra).
Það er því bæði andstætt stjórnarskrá og í andstöðu við hjúskaparlög að beita fyrir sig hugtaki sem á sér enga lagalega stoð til að neita að gefa samkynhneigða saman. Raunar er ekki til nein lögformleg skýring á því hvað felist í hugtakinu samviskufrelsi. Túlkun þess virðist einungis á færi þeirra sem eru í sambandi við æðri máttarvöld og er því ansi víð.
Prestar eru opinberir starfsmenn
Og prestum ber að fara eftir lögum. Um þá gilda veraldlegar reglur líkt og aðra sem búa í regluvæddum samfélögum. Þeir geta ekki borið fyrir sig að vera fulltrúar æðri máttarvalda eða órætt kristið siðgæði og þannig fengið að sniðganga þau lög sem passa ekki við kreddur þeirra. Kreddur sem byggja á túlkun á Biblíu sem nánast er hægt að túlka á hvern þann mannhatandi hátt sem til er ef ríkur vilji er til. Ekkert í stjórnarskrá eða lögum gerir bókstafstrúartúlkun á Biblíunni hærra undir höfði en þeim reglum sem aðrir þegnar þurfa að lifa eftir.Þess utan eru prestar opinberir starfsmenn. Þeir fá laun frá ríkinu sem eru fjármögnuð með skattfé. Á meðan að svo er þá eru prestar í þjónustuhlutverki gagnvart þjóðinni. Allri þjóðinni, líka samkynhneigðum.
Sýslumenn, sem sinna sama hlutverki og prestar þegar kemur að framfylgd hjúskaparlaga, hafa ekki samviskufrelsi til að meina þeim að gefa saman fólk vegna þess að þeir hafa neikvæða skoðun á lífstíl þess. Kennarar mega ekki sleppa því að kenna öðrum börnum en hvítum ef samviska þeirra segir þeim að halda skuli íslenska kynstofninum hreinum. Læknar mega ekki hafna því að sinna konum sem vinna úti þótt þeir séu þeirrar skoðunar að staða þeirra sé heima við eldavélina. Það þætti fjarstæðukennt ef svo væri.
Stjórnarskrá og lög tryggja jafnrétti og jafnræði. Og opinberum starfsmönnum ber að framfylgja þeirri grundvallarréttlætishugmynd.
Stofnun sem gengur á vegum æðri máttarvalda
En Þjóðkirkjan telur sig ekki vera venjulega stofnun. Hún gengur á vegum æðri máttavalda þótt hún sé fjármögnuð að fullu með veraldlegum skattpeningum mannfólks óháð því hvort það sé fylgjandi tilvist hennar eða ekki. Heildarframlög til kirkjumála eiga að vera 5.848 milljónir króna á næsta ári samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Þau hækka um 400 milljónir króna á milli ára. Það samsvarar því að hver einasti Íslendingur greiði tæplega 18 þúsund krónur á ári til kirkjumála á ári.Þótt innan kirkjunnar séu margir skynsamir og réttsýnir prestar og leikmenn sem iðka sína trú með kærleiksboðskap Krists að leiðarljósi, í stað þeirra fordóma gagnvart völdum hópi sem hægt er að rökstyðja með túlkunum á biblíutexta, þá virðist þessi hópur ekki vera ráðandi innan Þjóðkirkjunnar. Þessir prestar sjá að fordómar og miðaldasýn þeirra sem stýra ríkiskirkjunni gera ekkert annað en að stækka það bil sem er milli þjóðar og kirkju. En kirkjuforystunni virðist vera alveg sama.
Þegar umræða um breytingar á lögum um staðfesta samvist stóð sem hæst síðla árs 2007 (breytingar á þeim lögum tóku gildi árið 2008 með þeim hætti að prestar gátu staðfest samvist samkvæmt lögum) lagði þáverandi biskup, Karl Sigurbjörnsson, fram tillögu á Kirkjuþingi þar sem lögð var áhersla á að staðið yrði áfram við hefðbundin skilning Þjóðkirkjunnar á hjónabandinu og því var ekki gert ráð fyrir að samkynhneigðir einstaklingar gætu gengið í hjónaband.
Eftirmaður hans á biskupsstóli, Agnes M. Sigurðardóttir, hefur lýst því yfir opinberlega að hún vilji að prestar hafi rétt til að neita að gifta samkynhneigða. Það gerði hún í viðtali við DV skömmu eftir að hún var kjörin árið 2012. Hún hefur ekki tjáð sig um málið í þeirri umræðulotu sem nú stendur yfir en það hefur Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti og starfandi biskup gert. Hann sagði í fréttum Stöðvar 2 í vikunni að stjórnarskráin veitti prestum frelsi til skoðana og sannfæringar sem þeir gætu nýtt sér til að hafna því að gifta samkynhneigða.
Það er því nokkuð ljóst hvar biskupar síðustu ára standa í þessari umræðu.
Það þarf að breyta lögum
Það er gott að æðstu ráðamenn kirkjunnar opinberi þessar skoðanir sínar ítrekað og komi því þar með á framfæri að þeir telja sig ekki bundna af lögum. Þá er komið kjörið tækifæri til að draga úr áhrifamætti þeirra og auka aðskilnað ríkis og kirkju.Ólöf Norðdal innanríkisráðherra, og æðsti yfirmaður þeirra presta sem þiggja laun frá íslenska ríkinu, telur að minnsta kosti að þeir, sem opinberir starfsmenn sem framkvæmi hjónavígslum sem hafi lögformlegar afleiðingar, geti ekki hafnað því að gefa pör saman á grundvelli kynhneigðar þeirra. Brynjar Níelsson, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, hefur lagt til að taka hjónavígslur sem löggjörning „alfarið úr höndum forstöðumanna trúfélaga svo þeir geti blessað hjónin eða hjónaefnin eftir því sem samviskan býður þeim.“
Þetta er svipuð sjónarmið og Þjóðkirkjan hefur sjálf viðrað í umræðum um rétt samkynhneigðra til jafnræðis. Þegar umræða um breytingar á lögum um staðfesta samvist og ein hjúskaparlög stóð yfir síðla árs 2007 sagði Karl Sigurbjörnsson, þáverandi biskup, við RÚV að ef hjúskaparlögunum yrði breytt þannig að orðið hjónaband eigi ekki lengur einungis við samband konu og karls ætti að svipta presta réttinum til hjónavígslu. „Þá tel ég að grundvöllurinn fyrir því að prestar, og forstöðumenn trúfélaga séu vígslumenn, ég held að, þá tel ég að hann sé fallinn“. Hjúskaparlögum var breytt með þessum hætti árið 2010 þannig að hjónaband er nú skilgreint, samkvæmt lögum, milli tveggja einstaklinga í stað karls og konu.
Það þarf því augljóslega að fara skarpt í það að taka lögformlega hjónavígslu alfarið úr höndum trúfelaga. Samhliða er hægt að draga úr fjárstreymi úr opinberum sjóðum til þeirra.
Höfnum samviskufrelsinu
Og best væri auðvitað að aðskilja ríki og kirkju að fullu þannig að svartstakkarnir sem hafa þessa skoðun geta haft hana í friði fyrir skattpeningunum okkar og hinir prestarnir, sem eru vel meinandi og ekki skyni skroppnir, geti sinnt trúarlegri þjónustu fyrir þá sem slíka kjósa án þess að vera klyfjaðir af kreddufarangri miðaldalegra kenninga þeirra sem öllu ráða í Þjóðkirkjunni.Allar kannanir sýna að meirihluti landsmanna er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Auk þess fækkar þeim sem eru skráðir í Þjóðkirkjuna jafnt og þétt. Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í Þjóðkirkjuna. Um aldarmótin var það hlutfall komið niður í 89 prósent og í dag er það 73,8 prósent. Þeim íslensku ríkisborgurum sem kusu að standa utan Þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldarmót. Í byrjun þessa árs voru þeir 86.357 talsins. Þeim hefur því fjölgað um rúmlega 55 þúsund á 15 árum.
En fyrst og fremst þurfum við að verða sammála um að samviskufrelsi, í þeim skilningi sem sumir prestar eru að nota hugtakið, er ekkert annað en fínt og sakleysislegt orð sem notað er til að fela fordóma, forpokun, afturhald, andúð, hræðslu, frekju og illgirni lítils hóps manna sem vill fá að skilgreina samfélagið sem við búum í út frá sínu heimatilbúna siðgæði.
Það skulum við ekki leyfa þeim að gera.