Öfgar og nafnið á hópnum hefur verið svolítið á milli tannanna á fólki. Til að útskýra aðeins nafnið þá vildum við að það myndi passa við áform hópsins. Við erum róttækir femínistar og notum róttækar aðferðir gegn rótgrónum vanda. Eins og fólk hefur eflaust tekið eftir þá erum við ekki hér til að vera þægileg. Við viljum sjá breytingar og við erum ekki hrædd við að rugga bátnum. Nafnið Öfgar er því ádeila. Það er oft sagt að róttækir femínistar séu öfgafemínistar og við ákváðum því bara að eigna okkur nafnið. Við kennum okkur ekki við öfga eða beitum öfgum. Við beitum vissulega oft á tíðum róttækum aðferðum en það er að virka, við sjáum það.
Hópurinn Öfgar var stofnaður með þeim tilgangi að vera með fræðslu, ádeilu og létt grín inni á samfélagsmiðlinum TikTok. Þar hefur fengið að þrífast mikið hatur gegn minnihlutahópum óáreitt, fitufordómar, hómófóbía, transfóbía, kvenfyrirlitning og fötlunarfordómar meðal annars. Við sáum fyrir okkur að þar myndum við ná til unga fólksins og þannig gætum við mögulega haft áhrif á hugarfarsbreytingu ungu kynslóðarinnar í þessum efnum.
Við áttuðum okkur fljótlega á því að mikil þörf væri á róttækum aktívisma í málaflokki kynbundins ofbeldis. Stjórn hópsins þekkja sjálfar kynbundið ofbeldi á eigin skinni, brotalamir réttarkerfisins, úrræðaleysi, gerendameðvirkni og afleiðingar ofbeldis.
Réttlæti brennur okkur á hjarta og við fórum fljótlega að rýna í réttarkerfið. Við höfum verið í sambandi við þingfólk, þolendur og aðra aktívista varðandi þarfar breytingar. Það er okkur hjartans mál að gera réttarkerfið þolendavænna sem verður þá vonandi til þess að þolendur veigri sér síður við að kæra.
Þegar okkar fyrsta stóra verkefni fór af stað í sumar sáum við það svart á hvítu hversu fáar konur kærðu. Í tölum Stígamóta kemur fram að 84% þeirra sem leita sér aðstoðar vegna nauðgunar kæra ekki. Einungis 12,2% mála komust til opinberra aðila (1).
Við ákváðum þá að teygja anga okkar út til þolenda til að fá svör. Þar kom í ljós að réttarkerfið grípur ekki þolendur sem hefur það í för með sér að þau vantreysta kerfinu og kæra síður. Aðrar ástæður eru einnig viðbrögð samfélagsins við þolendum ofbeldis. Þolendur eru útskúfaðir frá fjölskyldu, vinahópum og vinnustöðum. Þolendum er ekki trúað þrátt fyrir að tölfræðin sé þeim í hag. Tölfræðin sýnir okkur að rangar sakargiftir í kynferðisofbeldismálum eru á bilinu 2-5% hér á landi sem og úti í heimi. Ef litið er til annarra brotaflokka þá erum við að sjá svipaðar tölur eins og Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari kemur inn á í hlaðvarpsþættinum Karlmennskan. Það er því rangfærsla að þolendur séu alltaf að ljúga (2).
Við erum föst í því að góðir menn geti ekki gert slæma hluti og finnst því auðveldara að trúa því að konur ljúgi heldur en að góðir menn geri slæma hluti, sem er ein birtingarmynd gerendameðvirkni.
Við viljum fræða fólk um aðstæðurnar sem kynbundið ofbeldi fær að þrífast í, vankanta réttarkerfisins og veita þolendum stuðning. Öfgar eru mikið í því að reyna að opna augu fólks fyrir nauðgunarmenningu og þolendaskömmun. Það hefur sýnt sig að þolendaskömmun getur haft ýmis konar áhrif á þolendur, til dæmis fælt þau frá því að kæra.
Gerendameðvirknin í samfélaginu fælir einnig þolendur frá því að kæra, leita sér aðstoðar, tala opinskátt um reynslu sína og skila skömminni. Gerendameðvirknin er það sterk að jafnvel þó að þolendur komist í gegnum óþolendavænt réttarkerfið og vinni sín mál eru þau skömmuð fyrir að ræða brotið. Allt í nafni þess að verja mannorð gerenda, því þegar uppi er staðið þá vegur mannorð gerenda meira en líf þolenda. Við sjáum endurtekið að samfélagið hefur litla samúð með þolendum og þolendum er ýtt inn í þögnina með öllum tilteknum ráðum eins og með aðför á opinberum vettvangi, fortíð þeirra dregin upp til þess að smána og rengja frásögn þeirra, lygasögur búnar til og þeim kennt um ofbeldið. Til að mynda tóku 32.811 konur þátt í rannsókninni Áfallasaga kvenna þar sem 40% af þátttakendum höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Yfir 25% þeirra, á aldrinum 18-24 ára, höfðu orðið fyrir opinberri aðför á netinu eða í fjölmiðlum (3). Gerendur fá ekki þessar móttökur frá samfélaginu. Þeim er boðið í viðtöl og leyft að tala frjálslega um sannleikann. Þeir skrifa bækur um ofbeldisverk sín og þeim er vorkennt þegar tilraunir til að endurheimta forréttindi sín á kostnað þolenda er gagnrýnd. Gerendur hafa alltaf fengið að njóta vafans.
Þriðja bylgjan
Þetta leiðir okkur að þriðju bylgju Me Too hreyfingarinnar sem Öfgar hafa tekið virkan þátt í. Þessi bylgja sýndi okkur að þolendur hafa einfaldlega fengið nóg. Að sjá geranda sinn í sviðsljósinu baðaðan dýrðarljóma og hampað í gríð og erg í fjölmiðlum getur verið verulega triggerandi fyrir þolendur. Í þessari bylgju tóku þolendur völdin í sínar hendur og ásamt því að skila skömminni fóru þeir að nafngreina gerendur, sem hafði ekki verið gert mikið af áður. Fólk hefur sett spurningarmerki við það að mestmegnis frægir séu nefndir í þessari þriðju bylgju, en hvað er svona skrítið við það? Þegar þú ert ítrekað að triggera þolendur sem gerandi, því þú ert í sviðsljósinu, þá er ekkert skrítið að þolendur skili skömminni varðandi þig. Þetta eru meintir gerendur sem oft hafa fengið að njóta vafans þrátt fyrir að flest hafi vitað um meint brot þeirra.
Við sjáum að skilningur samfélagsins á vandanum hefur verið af skornum skammti og fólki er mikið í mun um að berjast gegn réttindum þolenda ef aðferðir þeirra og baráttufólks sé ekki þeim að skapi. Það sem er mikilvægt að muna er að baráttufólk og þolendur hafa knúið fram allar þær breytingar sem orðið hafa í þessum málaflokki með pressu á samfélagið og pressu á stjórnvöld. Við erum að berjast fyrir því að þolendur fái réttláta meðferð í réttarkerfinu, að líf þolenda sé metið að sama virði og líf annarra samfélagsþegna og að bætt verði úr úrræðaleysinu sem ríkir á öllum sviðum hvað varðar stöðu þolenda.
Það sem hefur einnig vakið athygli okkar er skortur á skilningi þekktra hugtaka sem við og fleiri aktívistar notum í daglegu tali. Okkur langar aðeins að útskýra hvað kynbundið ofbeldi er, en sú tegund af ofbeldi getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir þolendur þess. Einnig getur það leitt til dauða. Okkur sem samfélagi ber skylda til þess að berjast gegn þessari tegund af ofbeldi sem ógnar lífi kvenna og annarra minnihlutahópa. Þessi tegund af ofbeldi brýtur gegn mannréttindum og grundvallarfrelsi kvenna.
Kynbundið ofbeldi er ofbeldi á grundvelli kyns og getur það verið kynferðislegt, andlegt, líkamlegt, í formi fjárhagskúgunar, hótana og annars konar stjórnunaraðferða. Barnabrúðkaup, limlestingar á kynfærum kvenna og „heiðursglæpir“ eru einn partur af kynbundnu ofbeldi (4). Með baráttum síðustu ára, t.d. Me too hreyfingunni og bylgjunum sem fylgt hafa henni, hefur umræðan aukist og mikil vitundarvakning orðið á þessari tegund af ofbeldi. Áður fyrr var litið á þetta sem vandamál sem ætti heima í einkalífinu og það þaggað niður því það mátti ekki tala um þetta. Það hefur breyst og í dag er kynbundið ofbeldi viðurkennt sem ein af verstu birtingarmyndum kynjamisréttis. Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur bent á að eftirlitsnefndir Sameinuðu þjóðanna hafi lýst yfir áhyggjum sínum af hárri tíðni heimilisofbeldis á Íslandi og hversu vægt og illa réttarkerfið okkar tekur á kynbundnu ofbeldi (5).
Rannsóknir og tölfræðin segja okkur að ofbeldi er rótgróinn vandi og UN Women hafa vakið athygli á að til að útrýma kynbundnu ofbeldi þá þurfi fyrst og fremst að trúa þolendum og ráðast að rót vandans (6). Því förum við eftir og styðjum heilshugar. Það eru allar forsendur þess efnis að þolendur séu að segja satt. Það þarf að ráðast gegn feðraveldinu þar sem allskonar fyrirfram ákveðnum hugmyndum um tvö kyn er viðhaldið þar sem hvítir cis karlar hafa verið skilgreindir sem æðri öðrum - en því fylgir alls kyns valdaójafnvægi. Kynbundnu ofbeldi er m.a. viðhaldið af feðraveldinu með því að karlar eru settir í að sinna mikilvægum störfum eins og að búa til lögin og standa vörð um þau. Þeir starfa sem dómarar eða við önnur háttsett störf þar sem þeir taka ákvarðanir er varða konur og önnur kyn. Þar sem fæstir eru meðvitaðir um feðraveldið þá eiga karlar í stjórnunarstöðum það til að líta framhjá ábyrgð sinni og gera lítið úr kynbundnu ofbeldi (7).
Hugtakið feðraveldi virðist einnig vefjast fyrir fólki. Algengur misskilningur er að feðraveldi snúist um feður. Feðraveldið er í grunninn félagslegt valdakerfi þar sem karlmenn hafa yfirráð. Þetta valdakerfi smitast í alla anga samfélagsins og meðal annars viðheldur kúgun á jaðarsettum hópum eins og til dæmis konum og kynsegin fólki.
Við þurfum að valdefla allar konur og stelpur, kvára og stálpa, gera fólk meðvitað um skaðsemi feðraveldis og berjast gegn því. Þannig ráðumst við að rót vandans enda eru hugmyndir samfélagsins um allar konur byggðar á skaðlegum hugmyndum sem koma frá feðraveldinu eins og sem dæmi þær hugmyndir um að konur séu undirgefnar, kynferðislegt viðfang og eigi að hlýða á meðan karlar eru andstæðan. Þessar hugmyndir eru skaðlegar og viðhalda kynbundnu ofbeldi. Samfélagið þarf að hjálpa okkur að berjast gegn feðraveldinu og það er ekki gert með því að biðja baráttufólk um að standa sig betur, heldur með því að við sem samfélag vinnum markvisst gegn ofbeldi og að við öll tökum baráttunni alvarlega, tökum samtalið og ekki síst karlmenn.
Þetta ár hefur sýnt okkur að baráttunni er hvergi nærri lokið og að við þurfum að halda áfram að hafa hátt, fræða, hlusta á þolendur og vinna að úrbótum á stöðu þolenda.
Baráttan á þessu ári hefur skilað sér í 35% aukningu á tilkynningum kynferðisbrota, sem er eitt skref í rétta átt. Núna þurfa stjórnvöld að bregðast við og samfélagið þarf að bregðast við. Þolendur eru að gefa ykkur annað tækifæri á að gera betur og það er hlutverk allra að grípa þau og hlúa vel að þeim.
Við þekkjum flest öll þolendur í okkar nærumhverfi.
Fæst af okkur þekkja gerendur.
Sú tölfræði gengur ekki upp.
Það er einn aðili sem hefur hagsmuna að gæta með því að ljúga og það er gerandinn.
Trúum þolendum, stöndum með þolendum, tökum höndum saman sem samfélag og gerum betur.
Þolendur, baráttufólk og stuðningsfólk. Við þökkum fyrir samstarfið á árinu, allan stuðninginn og allt hugrekkið.
Höfundar, fyrir hönd Öfga: Helga Ben, Hulda Hrund, Ninna Karla, Ólöf Tara, Tanja M. Ísfjörð og Þórhildur Gyða.
Heimildir:
UNHCR - Gender-based Violence