Milli lögreglu og almennings á Íslandi hefur lengi ríkt gott traust og lýsir það sé ekki síst í þátttöku almennings þegar lögreglan leitar aðstoðar við störf sín. Ég er þakklátur fyrir að búa í samfélagi þar sem slíkt traust ríkir. En nú ber skugga á og ég vil að við notum það tækifæri til að gera betur og fyrirbyggja það að hópur Íslendinga alist upp við það að treysta ekki lögreglunni.
Fyrir rétt um tveimur vikum síðan missti lögreglan úr haldi tvítugan íslenskan karlmann og var auglýst eftir honum á öllum miðlum með áberandi hætti og tilheyrandi myndbirtingum.
Næstu tveir dagar áttu eftir að verða örlagaríkir fyrir ungan íslenskan dreng. Ungan dreng sem er 4-5 árum yngri en strokufanginn og höfðinu lægri, en með sama húðlit og hár. Önnur sýnileg líkindi eru ekki með þeim.
Þann 20. apríl s.l., degi eftir að fanginn slapp úr haldi lögreglu, var ungi drengurinn ásamt nokkrum jafnöldrum á ferð í strætisvagni, eins og aðra daga. Skyndilega birtast blikkandi blá ljós og a.m.k. þrjár lögreglubifreiðar umkringja vagninn, inn í vagninn hlaupa nokkrir sérsveitarmenn, með vopn á lofti. Drengurinn vissi strax hvað var að fara að gerast þegar hann sá bláu ljósin blikka, aðrir farþegar sátu hins vegar áhyggjulausir.
Stöldrum aðeins við hérna. Drengurinn er 16 ára gamall og hefur ekkert sér til sakar unnið. Hann er með jafnöldrum og vinum inn í strætisvagni. Einu líkindi með honum og strokufanganum eru húðlitur og hárstíll. Setjum okkur aðeins í spor hans, setjum okkur í spor foreldra hans. Hvernig liði okkur ef að lögreglan sæti fyrir barninu okkar með vopn á lofti? Hvernig liði okkur ef eina sýnilega skýringin á fyrirsátinni væri sú að hann væri ljóshærður með blá augu? Skoðum hvað gerist ef að ungi drengurinn verður hræddur og bregst óskynsamlega við, reynir t.d. að hlaupa? Hvað gerir lögreglan með vopn á lofti þá? Hvað gerir lögreglan ef drengurinn stingur hendi í vasa til að ná í símann sinn, til að hringja í mömmu og pabba? Þessi ungi drengur var settur í stórhættulegar og algerlega vanhugsaðar aðstæður. Ef að við horfum framhjá því að drengurinn varð fyrir þessu eingöngu fyrir sakir húðlitar. Spyrjum okkur þá, hversu ígrunduð var sú aðgerð lögreglunnar að vaða inn í strætisvagn, fullan af farþegum, með vopn á lofti. Hvað ætlaði lögreglan að gera ef hinn „stórhættulegi“ strokufangi hefði verið í vagninum? Hvað ætlaði lögreglan að gera innan um saklausa farþega ef strokufanginn hefði reynt að leggja á flótta eða berjast á móti? Munið, lögreglan er með vopn inni í strætisvagni, í þröngu rými innan um almenna borgara! Drengurinn komst þó að lokum til síns heima og í faðm fjölskyldunnar sem hlúði að honum.
Öllum geta orðið á mistök og ég hef skilning á því að hinn almenni borgari telji sig gera gagn með því að hringja inn ábendingu til lögreglunnar. Ég er meðvitaður um það að úti í samfélaginu er fordómar. Ég er meðvitaður um það að hinn almenni borgari gat farið mannavillt, en það er þekkt að fólk á oft erfiðar með að greina á milli einstaklinga þegar um ræðir fólk með önnur uppruna einkenni, t.d. annan húðlit. Ég hef hins vegar engan skilning og enga samúð með þeim vinnubrögðum sem lögreglan viðhafði í ofangreindum tilvikum. Það er algerlega ófyrirgefanlegt að bregðast við með þeim hætti sem lögreglan gerði í fyrra tilvikinu. Lögreglan rauk inn í strætisvagn með vopn á lofti til þess að áreita ungan íslenskan dreng, án þess að, að því er virðist, gera nokkra greiningu á upplýsingunum sem lágu að baki.
Hvað átti lögreglan að skoða? Hvernig átti lögreglan að bregðast við?
Skoðum málið. Strokufanginn er tvítugur maður, áberandi hávaxinn (192 sm skv. auglýsingu lögreglunnar). Birtar eru af honum áberandi andlitsmyndir og það tekið fram að hann sé hættulegur. Drengurinn í strætisvagninum er 16 ára gamall og á ferð með jafnöldrum sínum. Einu líkindin með honum og strokufanganum eru húðlitur og hárlokkar, það eru engin önnur líkindi! Við verðum sjálfsagt að sætta okkur við að þau líkindi eru því miður nóg til þess að einhver „árvökull“ borgari hringi inn ábendingu. Spurning mín er til lögreglunnar. Var það talið líklegt að fangi á flótta, með jafn áberandi sérkenni og um ræðir, tæki sér far með strætisvagni á milli borgarhluta? Að mínu mati er það þegar tilefni til að slá varnagla við tilkynningunni. Drengurinn var í hópi jafnaldra, taldi lögreglan líkur á því að hinn tvítugi strokufangi væri á ferð með hópi 16 ára barna? Var drengurinn í strætisvagninum áberandi hávaxinn? Athugið að maðurinn sem lýst var eftir er 192 sm að hæð, er sýnilega höfðinu hærri en flestir aðrir, eða vel yfir meðal hæð. Skoðaði lögreglan þessi atriði áður en vopnaðir lögreglumenn voru sendir inn í vagninn til að áreita ungan íslenskan dreng og skapa þar með óþarflega hættulegar aðstæður innan í lokuðu rými fullu af almennum borgurum?
Átti lögreglan ekki að bregðast við? Jú, lögreglan átti að bregðast við. En, lögreglan átti, að mínu mati og að teknu tilliti til þess sem að ofan greinir, að beita meðalhófsreglu. Ef að lögreglan hefði framkvæmt lágmarks greiningu á upplýsingunum, hefði lögreglan mátt vita að hverfandi líkur væru á að þarna færi strokufanginn. Lögreglan átti vissulega að fylgja eftir ábendingunni, til þess að staðfesta hið augljósa, þetta var ekki strokufanginn. Þetta var hægt að gera með mun mildari aðgerð, aðgerð sem að væri ekki til þess fallin að áreita ungan saklausan dreng og valda honum ótta og enn einni staðfestingu þess að hann er ekki „venjulegur“ Íslendingur. Þetta var hægt að gera með aðgerð sem væri ekki til þess fallin að skapa óþarfa hættu í lokuðu almannarými.
Þangað til annað kemur í ljós, tel ég að lögreglunni hafi einfaldlega nægt að heyra að þarna væri brúnn drengur með lokka og vopnin fóru á loft. Þarna er vandamálið. Ég geri meiri kröfur til lögreglunnar, en til borgarans sem hringdi inn ábendinguna. Ég ætlast til þess að lögreglan hafi fengið fræðslu um kynþáttafordóma og þá kynþáttamiðuðu greiningu (e. Racial Profiling) sem þekkt er að litar löggæslustörf víða um heim. Ég ætlast til að lögreglan geri betur.
Hér, alveg eins og í fyrra tilvikinu, verður ekki annað ráðið en að engin greining fari fram á ábendingunni. Maðurinn sem tilkynnti sat inn í bifreið sinni og horfði á mæðginin, hann sá bílinn sem þau komu á, hann fylgdist með þeim ganga inn í bakaríið á meðan hann talaði í símann. Hvernig gat lögreglan greint ábendinguna? Hvaða spurninga hefði mátt spyrja? Lögreglan gat spurt með hverjum hann væri. Lögreglan gat spurt sig, er strokufanginn líklegur til að dóla sér inn í næsta bakari með mömmu? Lögreglan gat spurt þann sem hringdi inn ábendinguna hvort að þessi drengur væri áberandi hávaxinn? Lögreglan gat spurt um bílnúmer á bílnum sem mæðginin komu á (og hefði þá komist að því að þar færi móðir drengsins sem þeir áreittu deginum áður)?
Átti lögreglan ekki að fylgja eftir ábendingunni í bakaríinu? Jú, en lögreglan átti að greina ábendinguna. Lögreglan átti að spyrja ofangreindra spurninga og í ljósi þess að augljóst mætti telja, að fengnum svörum við þessum spurningum, að þar færi ekki strokufanginn, átti lögreglan að senda inn óeinkennisklæddan mann til að staðfesta að ábendingin væri röng, í stað þess að áreita með ólögmætum hætti ungan dreng sem situr í bakarí með móður sinni að reyna að ná áttum eftir ólögmæta vopnaða fyrirsát lögreglunnar deginum áður.
Ég vil að lögreglan birti eftirrit samtala, þegar þessar ábendingar komu inn, og sem leiddu til þeirra atburða sem hér um ræðir. Ég vil fá að sjá svart á hvítu hvað þarf til þess að sérsveit lögreglunnar er send vopnuð inn í strætisvagn til þess að áreita og hræða 16 ára barn.
Hvaða reglur gilda um vopnaburð lögreglunnar? Hvaða reglur segja til um það hvenær sérsveitin er send umfram hefðbundna fyrstu svörun? Ég vil fá að vita hvort lögreglumenn hafa fengið fræðslu um kynþáttafordóma? Ég vil fá að vita hvort lögreglumenn hafa fengið fræðslu um hættur kynþáttamiðaðrar greiningar (e. Racial Profiling)?
Ég er nefnilega hræddur. Ég er hræddur fyrir hönd barnanna minna. Ég er hræddur fyrir hönd frændsystkina þeirra. Ég er hræddur fyrir hönd allra barna sem bera annan húðlit en við sem rekjum ættir okkar til víkinga. Ég á ungan fallegan dreng með brúna húð og dredda (lokka). Ég veit að börnin mín, eins og önnur börn með dökkan húðlit, munu mæta fordómum í samfélaginu. Það er barátta okkar og þeirra að breyta því og sú barátta er lýjandi. Ég mun hins vegar aldrei sætta mig við að börnin þurfi að alast upp til að óttast lögregluna (sem margir gera í dag, og kannski með réttu).
Ég vil búa í samfélagi þar sem drengurinn minn getur setið óhræddur og ááreittur í strætó með jafnöldrum sínum, þó hann sé brúnn. Sönn saga.
Ég vil búa í samfélagi þar sem drengurinn minn getur óhræddur og óáreittur farið í bakaríið með móður sinni, þó hann sé brúnn. Sönn saga.
Ég vil búa í samfélagi þar sem drengurinn minn getur staðið í strætóskýli með vinkonu sinni án þess að lögreglan stöðvi, taki vinkonu hans til hliðar og spyrji hana hvort þessi „maður“ sé að ógna henni. Af því að hann er brúnn. Sönn saga.
Ég vil búa í samfélagi þar sem drengurinn minn getur gengið um götur með vini sínum án þess að út úr nærliggjandi bíl fljúgi lögreglumenn og setji hann í handjárn. Af því að hann er brúnn. Sönn saga.
Ég vil búa í samfélagi þar sem drengurinn minn getur leikið sér með leikfangabyssu (e. Replica) án þess að sérsveit lögreglunnar mæti með vopn á lofti og handjárni hann. Af því að hann er brúnn. Sönn saga.
Svona gæti ég haldið lengi áfram. Sögur af áreiti íslensku lögreglunnar í garð hörundsdökkra eru margar og mismunandi og það er kominn tími til að við trúum þessum sögum. Það er kominn tími til að gera rannsókn á störfum lögreglunnar, alvöru rannsókn. Ég treysti ekki lögreglunni til að annast það sem sjálfsskoðun. Ég treysti ekki dómsmálaráðherra og hans aðstoðarmönnum, að gefnu tilefni. Ég vil rannsóknarnefnd með víðtækar heimildir til að taka út störf lögreglunnar með tilliti til undirliggjandi kynþáttafordóma. Ég vil tölfræðilega greiningu. Ég vil áætlanir um úrbætur. Ég vil að brugðist verði við strax áður en óafturkræf mistök verða gerð, mistök sem verða ekki tekin til baka.
Kynþáttafordómar eru samfélagslegt vandamál sem varðar okkur öll og lita allt samfélagið. Við verðum að spyrja okkur hvort að við viljum búa í samfélagi sem er í afneitun um vandann eða hvort við viljum búa í samfélagi sem viðurkennir vandann og leggur sig fram um að gera betur? Ég hef enga trú á að slíkir fordómar séu í ríkara mæli innan lögreglunnar en annars staðar. Hins vegar geri ég ríkari kröfur til lögreglunnar en ég geri til hins almenna borgara. Ég ætlast til að lögreglan viðurkenni og sé meðvituð um þá fordóma sem þrífast í samfélaginu og taki tilliti til þess við úrvinnslu ábendinga frá almenningi. Lögreglunni er fært vald og hefur „einkarétt“ á valdbeitingu. Þess vegna eru fordómar hættulegri þegar þeir þrífast innan raða lögreglunnar.
Höfundur er faðir barna með brúna húð og lokka í hári.