Flóttamannavandinn sem Evrópa stendur frammi fyrir er ógvænlegur. Hundruð þúsunda flykkjast frá Miðausturlöndum og Norður-Afríku til álfunnar í leit að betra lífi. Slíkur straumur hefur ekki átt sér stað frá því í seinni heimstyrjöld og ljóst að samstillt, víðferm og óvenjuleg viðbrögð þarf til að mæta þeirri ömurð sem blasir við flóttafólkinu. Víkja þarf hefðbundnum leiðum og reglum til hliðar. Um er að ræða neyðarástand, á sama hátt og þegar náttúruhamfarir ganga yfir.
Um 50 milljónir manns hafa flúið heimili sín. Lítið brot þess hóps leggur á sig ótrúlega erfiða, og oft á tíðum lífshættulega, för til Evrópu til að sækja um hæli þar. Slíkt er ekki hægt í sendiráðum Evrópuríkjanna í nágrannalöndum þeirra, heldur þarf fólkið að ferðast ólöglega og á forsendum svarta markaðarins þúsundir kílómetra til að ná loks á strendur Evrópu á flekum eða míglekum gúmmíbátum. Þ.e. ef það drukknar ekki á leiðinni, líkt og þúsundir hafa þegar gert.
Flóttamennirnir eru að flýja ástand í heimalöndum sínum sem er þess eðlis að tilveru þeirra hefur verið snúið á hvolf. Engin framtíðarsýn er til staðar fyrir flóttamennina eða börn þeirra í löndum þar sem allir innviðir hafa hrunið, stríð er viðvarandi ástand og oft á tíðum eru báðir valkostirnir sem berjast um yfirráðin jafn slæmir. Líkt og oft áður í sögunni er fullorðið fólk til í að skilja öll sín tækifæri og rætur eftir til að veita börnunum sínum betra tækifæri á sómasamlegri framtíð í framandi löndum.
Getum við tekið við fimm þúsund?
Viðbrögð íslensks almennings við neyð flóttafólks hafa verið mögnuð. Þúsundir bjóðast til að taka að sér fólk, borga fyrir það flutning, lána því húsnæði eða sjá því fyrir þeim nauðsynjum sem til þarf. Nálægt þúsund manns hafa boðið sig fram til sjálfboðaliðastarfa. Þverpólitísk samstaða hefur myndast í borgarstjórn Reykjavíkur um tillögu þar sem borgin lýsir sig reiðubúna til að taka við fleiri flóttamönnum en áður var áætlað. Fleiri stór sveitarfélög hafa einnig gert það.
Mikið hefur verið rætt um töluna fimm þúsund í samhengi við hversu mörgum flóttamönnum Íslendingar ættu að taka við. Ef þeirri tölu yrði skipt niður á 35 stærstu sveitarfélög landsins, í réttu hlutfalli við núverandi íbúafjölda þeirra, myndi skiptingin verða eftirfarandi:
Skilaboð ríkisstjórnarinnar hafa hins vegar verið afar óskýr. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, svaraði því ekki í fréttum RÚV á fimmtudag hvort Ísland væri tilbúið að taka á móti fleirum en 50 flóttamönnum heldur sagði að Íslendingar hefðu lagt áherslu á að taka á móti einstaklingum í sérstaklega erfiðri stöðu, til dæmis hinsegin fólki og einstæðum mæðrum.
Á sunnudag hvatti hún síðan almenning til að hjálpa flóttamönnum sem hingað koma og sagði að hún persónulega vildi taka við fleirum. Ákvörðun um það hefði hins vegar ekki verið tekin.
Í dag var svo mynduð ráðherranefnd um málefni flóttafólks og innflytjenda. Í fréttatilkynningu vegna myndunar hennar kemur ekkert fram um hvort til skoðunar sé að fjölga kvótaflóttamönnum sem tekið verður á móti. Ríkisstjórnin á því alveg eftir að sýna á spilin í þessum efnum.
Andúðin tekin á nýtt stig
Morgunblaðið hefur hins vegar heldur betur sýnt á spilin undanfarna daga. Þar birtist skýr andstaða þeirra sem skrifa ritstjórnarefni blaðsins við það að Íslendingar taki á móti fleiri flóttamönnum í ritstjórnargreinum. Sumir lesendur blaðsins eru líka mjög sammála skoðunum ritstjóra þess og hafa skrifað aðsendar greinar þar sem tekið er undir andstöðuna.
Í leiðara blaðsins í gær, sem að öllum líkindum er skrifaður af Davíð Oddssyni, fyrrum forsætisráðherra og ritstjóra blaðsins, sagði:„Hér á landi fer engin umræða fram um ástæður flóttamannasprengjunnar. Eingöngu kjánaleg yfirboð og samkeppni um það hver sé snjallastur við að finna greiðustu leiðina til að sökkva Íslendingum á kaf í afleiðingar upplausnarinnar. Slík tilþrif hafa sést áður.“
Í dag voru Staksteinar blaðsins, sem oftar en ekki eru notaðir í rætnar árásir á raunverulega og ímyndaða andstæðinga forsætisráðherrans fyrrverandi, er, líkt og oft áður, vitnað í skrif Páls Vilhjálmssonar. Í þetta skiptið var Páll að tjá sig um flóttamenn. Þar sagði m.a., samkvæmt endurbirtingu Staksteina: „Látum vera þótt pólitískir lukkuriddarar á vinstri væng stjórnmála komi með tillögur um að Ísland taki við fimm þúsund flóttamönnum. Örvænting vinstriflokka lætur ekki að sér hæða. En við sem kusum Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk og tölum máli ríkisstjórnarinnar eigum betra skilið en að stjórnarliðar hoppi á popúlistavagn vinstrimanna“.
Látum vera þótt pólitískir lukkuriddarar á vinstri væng stjórnmála komi með tillögur um að Ísland taki við fimm þúsund flóttamönnum. Örvænting vinstriflokka lætur ekki að sér hæða.
Í Velvakanda, sem á að vera nafnlaus dálkur sem lesendur geta sent efni inn til, en er oft skrifaður innanhús án þess að það sé tilgreint, er birt bréf frá manni sem titlar sig sem „skattgreiðanda“. Í bréfi hans stendur m.a.: „Verður almennur skattgreiðandi kátur með að lenda enn aftar í biðröðum eftir aðstoð? Getur það hugsanlega valdið gremju í garð flóttafólksins sem flutt er inn í æðinu? Viljum við fá öfgahópa sem gera aðsúg að þessum gestum okkar? Við höfum ekki verið að standa okkur vel í flóttamannamálum og sorglegt er dæmið af sjúka flóttamanninum sem sleppt var á almenning áður en heilsufar hans var kannað og hann náði að setja líf fjölda ungra stúlkna í hættu. Íslendingar hafa aldrei haft nýlendur né farið með hernaði á hendur þessa fólks (pólitík Bjarkar). Við eigum að vanda okkur og taka ekki við öllum því með getur flækst stórhættulegt fólk og við þurfum að skoða bakgrunn þess áður en við tökum við því, tökum frekar færri og gerum vel við þá. Látum þjóðina njóta vafans“.
Tryggur lesandi Morgunblaðsins, Stefanía Jónasdóttir frá Sauðarkróki, skrifar oft aðsendar greinar í blaðið. Í einni slíkri sem birtist í dag segir hún m.a.: „Ég mótmæli harðlega móttöku hælisleitenda frá ríkjum þar sem ekki geisar stríð og ég vara ykkur við því að fjölga Albönum í landinu. En endilega haldið áfram að leika ykkur, hlaupa maraþon og flykkjast á drykkjuhátíðir út um allt land. Ykkar er að fá á baukinn þegar allt fer í óefni og þið ráðið ekki við neitt á glæpaeyjunni Íslandi.[...] En það er ykkar komandi kynslóð að vinna, ekki bara fyrir ykkar lífi heldur líka til þess að halda uppi hælisleitendum, þar sem þið lítið á það sem siðferðislega skyldu ykkar að bjarga heiminum, en það geri ég ekki. Ég fæddist ekki til þess að standa undir heimsku mannanna. En ég vara ykkur við, vitið þið hvað það er að missa landið sitt, sem þið munið á endanum gera? Því sterkari öflin munu ráða yfir grátklökkum kjánum.“
Það ósmekklegasta af öllu sem birtist í Morgunblaðinu í dag er síðan skopmyndin. Það var ritstjórnarleg ákvörðun að birta hana. Um hana er óþarfi að hafa mörg orð. Það nægir að horfa á hana.
Sá sem ber mesta ábyrgð
Það sem setur þessa afstöðu ritstjóra Morgunblaðsins í sérkennilegt samhengi er að fólkið sem er á flótta er margt hvert að flýja ástand sem er afleiðing innrásarinnar í Írak sem forsætisráðherrann Davíð Odsson studdi. Uppgangur ISIS, ástandið í Afganistan og Pakistan og vitanlega upplausnin sem enn ríkir í Írak eru allt beinar afleiðingar hennar. ISIS er síðan stór ástæða þess að Sýrlendingar eru að flýja heimili sín.
Tveir menn ákváðu að Ísland myndi styðja þá innrás og veita henni lögmæti á alþjóðavísu. Við þá ákvörðunartöku var farið fram hjá utanríkismálanefnd Alþingis. Davíð er því sá Íslendingur sem ber mesta ábyrgð á því ástandi sem nú hrekur flóttafólk í gúmmíbátum yfir Miðjarðarhafið í leit að betra lífi.
Fyrir mér er mjög einfalt að réttlæta það að við, eitt ríkasta samfélag heims, ýtum okkar fyrsta heims vandamálum til hliðar stundarkorn og bregðumst við neyðinni sem við okkur blasir með öllum þeim leiðum sem við finnum til þess. Við, hinn vestræni heimur, berum stóran hluta ábyrgðar á því ástandi sem hefur svipt þetta fólk tilveru þess og okkur sem manneskjum ber siðferðileg skylda til að hlaupa undir bagga þegar lífi þúsunda manna er ógnað.
Við getum ekki staðið hjá á hliðarlínunni. Sagan dæmir þá sem gera ekkert til að hjálpa ekki síður en þá sem bera ábyrgð á ömurleikanum.