Íbúum höfuðborgarsvæðisins hefur fjölgað mjög og samtals um 17,1% á síðasta áratug. Fjölgað hefur í öllum þéttbýlissveitarfélögunum; mest í Mosfellsbæ, 47,1% en minnst á Seltjarnarnesi, 9,4%. Þrátt fyrir íbúafjölgunina hefur börnum á leikskólaaldri (1 til 5 ára) ekki fjölgað heldur þvert á móti. Þau urðu flest 2014 en hefur síðan fækkað um 7,7%, 1.355 frá því þau voru flest. Það fækkar ekki í öllum sveitarfélögunum eins og sjá má í töflu 1 sem sýnir íbúaþróun undanfarinn áratug.
Í þremur sveitarfélögum fækkar börnum á leikskólaaldri, þrátt fyrir íbúafjölgun og í sveitarfélögum þar sem leikskólabörnum fjölgar er hún hlutfallslega minni en gildir um fjöldann í heild nema á Seltjarnarnesi. Meginskýring á á íbúaþróun höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum er aðflutningur, einkum frá útlöndum. Þetta hefur haft áhrif á fjölda barna á leikskólaaldri. Til dæmis má nefna að 2017 voru 11,5% barna í Reykjavík innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð en árið 2021 var hlutfallið orðið 16,9%. Á þessu tímabili hafði börnum á leikskólaaldri í Reykjavík fækkað um 778, eða 9,5%, en á sama tímabili hafði börnum innflytjenda á leikskólaaldri fjölgað um 313 eða um réttan þriðjung. Börnum á leikskólaaldri í Reykjavík fjölgaði svo á árinu 2021, um 101, en það hafði þá ekki gerst í átta ár.
Til viðbótar við aðflutning frá útlöndum hefur íbúaþróun á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum einkennst af miklum flutningi fólks frá Reykjavík til nágrannasveitarfélaganna sem ýtt hefur undir fækkun barna á leikskólaaldri í höfuðborginni og fjölgun í aðalvaxtarsveitarfélögum svæðisins, einkum Garðabæ og Mosfellsbæ. Þetta sést í töflunni enda er hlutfall barna á leikskólaaldri hæst í þeim sveitarfélögum þar sem íbúum hefur fjölgað mest. Í yfirstandandi kosningabaráttu hefur komið í ljós að mikill fjöldi leikskólabarna í Urriðaholti kom bæjaryfirvöldum í Garðabæ í opna skjöldu.
Reykjavíkurborg hefur nýlega kynnt metnaðarfull áform um fjölgun leikskóla í borginni í endurskoðaðri áætlun sem nefnist Brúum bilið. Samkvæmt áætluninni verða 850 ný leikskólarými tekin í notkun í ár, átta nýir leikskólar verða opnaðir og fram kemur að þörf sé fyrir 1.680 ný leikskólapláss á næstu þremur árum. Þarna er gengið út frá því að fjölga þurfi plássum í leikskóla sem svarar til þess íbúafjölda sem talið er að muni búa í nýjum byggingarhverfum og að þau séu hrein viðbót við þörf þeirra íbúa sem fyrir eru. Þessi áætlun rímar ekki við reynslu undanfarinna ára. Það kann að vera að misræmi verði milli staðsetningar íbúða og leikskóla þannig að nýja skóla þurfi þótt aðrir séu ekki fullnýttir. Ef hins vegar er tekið mið af því að undanfarin ár hefur íbúum borgarinnar fjölgað og íbúðum í Reykjavík fjölgað umtalsvert (þótt ótrúlega erfitt sé að afla gagna um fjölda íbúða í sveitarfélögum landsins eða breytingar á honum) þarf að horfa til þess að á sama tíma hefur börnum á leikskólaaldri fækkað fyrir utan síðasta ár. Ég tel að þessi áform séu að þessu leyti byggð á ófullnægjandi faglegri greiningu á íbúaþróun í borginni og staðan í Garðabæ sömuleiðis. Fjöldi barna á biðlista eftir leikskólaplássi er ekki endilega vísbending um að pláss vanti enda útskrifast einn árgangur á hverju ári og nýir koma í staðinn. Það er ekkert óeðlilegt við það að foreldrar sæki um pláss fyrir börn sín allnokkru áður en þau komast að. Sömuleiðis eru fjölskyldur stöðugt að flytjast milli hverfa og því fylgja væntanlega oft óskir um að börn flytjist milli skóla sem ekki er endilega hægt að verða við strax. Ef hins vegar biðlistar eru orðnir stærri en sem nemur einum árgangi er ljóst að pláss vantar.
Gögn Hagstofu um fjölda barna á leikskólum á höfuðborgarsvæðinu og íbúafjöldatölur benda til þess að langstærstur hluti barna sem eru 2ja ára og eldri séu í leikskólum og það gildir um öll sveitarfélögin. Hlutfall leikskólabarna sem eru 1 árs er hins vegar mismunandi eftir sveitarfélögum og fer þar væntanlega bæði eftir framboði leikskólaplássa og óska foreldra um vistun fyrir börn sín. Lausn á því að koma til móts við eftirspurn eftir vistun svo ungra barna er ótengd nýbyggingum í borginni. Ég hef ekki getað skoðað með fullnægjandi hætti hvernig saman fara íbúaþróun, fjöldi barna á leikskólaaldri og framboð leikskólaplássa í einstökum hverfum höfuðborgarsvæðisins en fyllsta ástæða er til þess. Það hlýtur að vera mikið hagsmunamál íbúa höfuðborgarsvæðisins að sveitarstjórnir séu vakandi yfir íbúaþróuninni og byggi ákvarðanir á faglegri ráðgjöf enda er kostnaður sveitarfélaganna af leikskólastiginu um það bil fimmtungur af skatttekjum þeirra.
Höfundur er skipulagsfræðingur.