Hvers vegna má ekki veita Erlu Bolladóttur efnislega meðferð fyrir dómi á ný vegna sakfellingar hennar fyrir rangar sakargiftir í Geirfinnsmálinu? Vegna þess að ef málið verður tekið upp á ný og hún sýknuð, þá verður ástæðan sú að málatilbúnaðurinn sem leiddi til bæði allskyns sakbendinga og loks dóma fyrir morð, hafi ekki komið að frumkvæði hennar heldur þeirra sem áttu að gæta réttvísinnar en misfóru illilega með þá aðstöðu sína.
Eftir áralanga baráttu þar sem allt dómskerfið stóð þvert á móti, tókst loks að fá endurupptöku á morðmálunum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Þá þurfti að skipa sérstakan saksóknara til að sækja það mál og leggja fyrir hæstarétt. Saksóknarinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri efni til að halda fram ákæru í málinu þar sem gildar forsendur í nútíma réttarfari skorti og málið verið á sandi byggt á sínum tíma. Hæstiréttur tók málið til dóms og dæmdi snarlega að þar sem saksóknarinn legði ekki fram ákæru og verjendur krefðust sýknu, þá væri ekki annað hægt en að sýkna þá sem áður höfðu verið dæmdir fyrir morð. Þarna slapp hæstiréttur fimlega við að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þjóðin stendur eftir með margfalt morðmál sem allt í einu var með enga morðingja sem þó höfðu afplánað margra ára fangelsisrefsingu fyrir morð og enga skýringu á því hvað fór úrskeiðis. Í ofanálag eru þau sem sýknuð voru af morðunum ennþá sek um að hafa logið þeim upp á sjálfa sig og aðra, öll þeirra en ekki bara Erla sem var aldrei dæmd fyrir morð.
Við úrskurð endurupptökudóms, sem hafnar beiðni Erlu Bolladóttur um endurupptöku á dómi yfir henni fyrir rangar sakargiftir, er margt að athuga. Of margt til að taka það fyrir í einni grein. Byrja samt. Meira væntanlegt.
Kviksögur úr Keflavík
Í 3. lið segir:
„Lögreglan í Keflavík hóf rannsókn á hvarfi Geirfinns Einarssonar í kjölfar þess að tilkynnt var um hvarf hans 21. nóvember 1974 en þá hafði ekkert til hans spurst síðan að kvöldi 19. nóvember sama ár.“ Þetta er ekki alls kostar rétt. Félagar í björgunarsveitinni Stakki hófu eftirgrennslan að beiðni konu Geirfinns á miðvikudag 20. og fundu þá bíl hans og kölluðu til sporhund og létu lögreglu vita.
Þá segir: „Miklar kviksögur urðu til í kringum rannsóknina, meðal annars sú að Magnús Leópoldsson og Sigurbjörn Eiríksson hafi verið viðriðnir hvarf Geirfinns eða valdir að því.“ Hvað höfðu kviksögurnar með lögreglurannsóknina að gera? Jú, lögreglan í Keflavík bar myndir af ýmsum mönnum undir vitni og þá sem fengnir voru til að teikna og móta í leir eftirmyndir af ókunnugum manni sem lögreglan taldi hafa hringt í Geirfinn og þar á meðal mynd af Magnúsi Leópoldssyni. Þá spurði lögreglan líka marga þá sem þeir töluðu við hvort þeir teldu að eitthvað hefði gerst í Klúbbnum þegar Geirfinnur var þar á sunnudagskvöldinu á undan, ásamt fjölda Suðurnesjamanna. Líka það að lögreglan í Keflavík fól lögreglunni í Rangárvallasýslu að gera húsleit á býli í eigu Sigurbjörns Eiríkssonar í þágu mannshvarfsrannsóknarinnar.
Enn segir: „Rannsókn á hvarfi Geirfinns stóð yfir hjá lögreglunni í Keflavík fram til 4. júní 1975.“ Rannsókn málsins lauk reyndar fyrir miðjan desember 1974 og ekkert nýtt kom fram sem varðaði hvarf Geirfinns og lögreglan sneri sér að spíra og smyglmálum og allskyns rugli í leit að Leirfinni. Málið var formlega lagt upp 4. júní 1975, en rannsóknin var þá löngu runnin út í sandinn.
Raus í Reykjavík
Í lið 4 segir:
„Næst dró til tíðinda í rannsókn á hvarfi Geirfinns í október 1975, en þá gáfu aðstandendur A sig fram og tilkynntu lögreglunni í Reykjavík um frásögn hans um aðild að hvarfi Geirfinns.“ Þarna er rakinn stuttlega söguþráðurinn í drykkjurausi manns sem dró frásögn sína jafn skjótt til baka og það rann af honum. Af hverju er verið að rekja þessa sögu án þess að geta þess á hvern hátt hún kom málinu raunverulega við? Það eina í sögunni sem kemur málinu við er að sagan bergmálaði síðar í frásögnum sakborninga um að þeir hafi verið með Klúbbmönnum og fleirum að þvælast í Dráttarbrautinni í Keflavík og ýmist drepa Geirfinn þar eða verða vitni að því að hann drukkni. Nafngreindir einstaklingar og aðstæður voru kópía með tilbriðgum af sögu drykkjuraftsins. Frá þessu máli var ekki sagt opinberlega fyrr en löngu seinna.
Póstávísanir í pækli
Í 5. lið segir:
„Allt frá byrjun nóvember 1974 hafði rannsóknarlögreglan í Reykjavík haft til rannsóknar fjársvik gagnvart Pósti og Síma, í svokölluðu póstsvikamáli. Í byrjun desembermánaðar 1975 veitti refsifangi á Litla - Hrauni, B, lögreglu upplýsingar um að Sævar Marinó Ciesielski og endurupptökubeiðandi stæðu að baki fjársvikunum. Leiddi rannsókn lögreglu til þess að Sævar var úrskurðaður í 30 daga gæsluvarðhald og fluttur í Síðumúlafangelsið.“
Hvað gerðist á þessu tímabili frá nóvember 1974 til desember 1975? Skiptir það einhverju máli?
Já. Lögreglan vissi um aðkomu Erlu að póstávísanasvikunum í heilt ár áður en Erla og Sævar voru handtekin vegna málsins. Það er því rangt að upphafið að því að handtaka Erlu og Sævar fyrir póstávísanasvikin hafi verið framburður Malagafangans (B) á Litla-Hrauni.
Njörður Snæhólm aðalvarðstjóri og rannsóknarlögreglumaður í Reykjavík rannsakaði málið í nóvember og desember 1974 og bar þá myndir af nokkrum stúlkum undir vitni, sem bentu á mynd af Erlu Bolladóttur. Hann vissi þá að hún hafði unnið hjá Pósti og síma og myndi því þekkja hvaða aðferðir þyrfti að viðhafa til að svíkja út póstávísanir. Fyrri fjársvikin áttu sér stað 23. og 28. ágúst og voru kærð 6. nóvember og rannsökuð af N.Snæhólm 8. - 13. nóvember. Síðari fjársvikin voru framin 18. október, kærð 29. nóvember og rannsökuð til 17. desember 1974. Njörður lét síðan kyrrt liggja þar til heilu ári síðar, í desember 1975, þegar lögreglan lét til skarar skríða á ný. Af hverju?
Á vefsíðunni mal214.com eru pdf.skjöl tengd Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, þar sem eru tölusettar bækur með ýmsum málsskjölum sem lögð voru fyrir Sakadóm Reykjavíkur. Þar á meðal er í bók VII „Málsskjöl vegna ætlaðra þjófnaðarbrota“ Sævars og Erlu, þar sem póstávísanasvikin voru stærsta málið.
Á milli fyrri og seinni atrennu Njarðar Snæhólm í að upplýsa póstávísanasvikin, kom hann til liðs við lögregluna í Keflavík við rannsókninni á hvarfi Geirfinns. Þess er ekki getið í lögregluskjölum, en gögn og vísbendingar hafa samt fundist. Njörður átti þar áhugaverða aðkomu og aftur á síðari stigum Geirfinnsmálsins. Þess má geta að Njörður Snæhólm tók skýrslunar um drykkjurausið. Hann rannsakaði líka hvarf Guðmundar Einarssonar í janúar 1974. Það tók hann þrjá daga.