Kona nennir sjaldnast að kvarta. Kannski bara því ég vil ekki vera kvartandi kerling, ég er jú orðin 49 ára og upplifi mig gamla skrukku þegar ég tuða um hvað mætti betur fara. Hégóminn stendur mér fyrir þrifum. En! Ef ég er hvort sem er að verða gamall kverúlant, þá er líka allt í lagi að leyfa sér að vera það. Og tuða! Nú eru jú páskar, hátíð vorsins. Upprisan bíður okkar og myrkrið verður ljós. Af hverju ekki að leyfa sér að trúa að sumt sé hægt að laga? Hér er smá listi yfir umkvörtunarefni sem hafa lengi legið mér á hjarta. Öll eiga þau sameiginlegt að vera tímaþjófar.
Tímaþjófur númer eitt
Hér gæti ég byrjað að tuða yfir nokkrum vinum mínum sem koma oft seint en tíminn er það dýrmætasta sem ég á. En ég nenni ekki að tuða yfir vinunum svo ég beini orðunum frekar að fyrirtækjum.
Fyrst má nefna bakarí í nágrenni mínu sem tilheyrir vinsælli keðju; Brauð & Co. Á kóvidtímum ánetjaðist sonur minn brauðmetinu þar, enda tók bara nokkrar mínútur fyrir mig að skjótast þangað. Nú er staðan hins vegar sú að þegar verst lætur getur tekið hálftíma að fara þangað, þó að bakaríið sé við hliðina á okkur, á Frakkastíg. Bakaríið er ofur vinsælt hjá ferðafólki – sem væri bara fagnaðarefni, ef ekki fyrir þá staðreynd að of oft er það undirmannað miðað við fyrirsjáanlegan fjölda viðskiptavina. Í þessu bakaríi hef ég aðeins hitt frábært starfsfólk; eldsnöggt og raunar sérstaklega elskulegt, en á mestu annatímunum hamast það klukkutímunum saman til að hafa við biðröðinni sem getur náð langt út á götu. Svo ég spyr: Hvernig væri að fjölga starfsfólki og jafnvel afgreiðslukössum, nú þegar er viðbúið að viðskiptavinum eigi eftir að fjölga? Að öðrum kosti eru eigendur fyrirtækisins að ræna mig tíma. Ég er nefnilega sauðtryggur viðskiptavinur því sonur minn dýrkar bakaríið svo að ég hætti ekki að skipta við það, þó að ég húki þar í langri röð, stundum nývöknuð á náttfötunum úti í rigningu. Og ekki búin að fá morgunkaffi!
Þetta á reyndar við ýmis vinsæl fyrirtæki í miðbæ Reykjavíkur. Til að mynda Sandholt, annað bakarí í næstu götu. Þangað hef ég í tvígang skotist þegar ég gefst upp á röðinni í þessu. Þar er sama sagan; hætta á biðröð út á götu og starfsfólkið gott en á yfirsnúningi. Svo í bæði skiptin hef ég gefist endanlega upp og farið brauðlaus heim.
Tímaþjófur númer tvö
Um daginn, þegar sonur minn átti afmæli, skaust ég í Bónus á Laugaveginum. Á síðasta snúningi að kaupa inn fyrir afmælið sem var sama dag. Það skrifast á mig en ekki bætti úr skák að þegar ég kom í búðina var hvergi innkaupakerru að sjá. Þegar ég spurði um kerru sagði afgreiðslustúlkan að það væru bara fimm kerrur í búðinni en allar í notkun svo ég þyrfti að bíða.
Þegar biðin slagaði upp í tuttugu mínútur fór ég að ókyrrast. Á endanum spurði ég um yfirmanninn og þá kom greiðvikinn piltur aðvífandi og gekk strax í málið, skömmu síðar var búið að finna kerru handa mér. En þá var líka búið að snuða mig um næstum því hálftíma af tíma mínum – sem er af svo skornum skammti að ég hafði ekki haft tíma fyrr í innkaupaferðina.
Tími minn er of dýrmætur til að ég tími að spreða honum í vinsæl fyrirtæki á spariskónum. Og ég á ekki að þurfa þess. En Bónus snuðaði mig um meiri tíma því þegar ég ætlaði að kaupa burðapoka til að rogast með matinn heim kom í ljós að pokarnir voru búnir. Ég komst ekki heim með allan þennan mat í pínulitlum pokum svo ég hringdi í systur mína og beið í annan hálftíma þangað til hún sótti mig og matinn. Við rétt náðum að rigga upp afmæli áður en gestirnir komu. Svo Bónus skuldar mér klukkutíma úr lífi mínu!
Tímaþjófur númer þrjú
Svo eru það sundbrautirnar. Ég geri mér grein fyrir að þetta umkvörtunarefni er einkennandi fyrir kverúlant. En ég læt það gossa því ég er alltaf að hugsa um þetta. Svo er mál með vexti að mér finnst skemmtilegast að synda rösklegt bringusund. En þegar ég mæti í almenningslaug á annatíma þarf ég oft að bíða lengi með að synda vegna þess að á brautunum eru stunduð ólík sundtök. Á fyrstu brautinni er manneskja að synda baksund, hægt og á miðri brautinni. Á næstu braut er einhver að synda íþróttamannslegt skriðsund svo þar er heldur ekki gott að synda bringusund. Á þriðju brautinni er ekki ólíklegt að sjá aðra manneskju að synda baksund. Og á þeirri fjórðu er einhver að synda höfrungasund með töluverðri fyrirferð. En hvar á ég þá að synda?
Hvernig væri að eyrnamerkja allavega eina braut fyrir hið ofur vinsæla bringusund? Slíkt fyrirkomulag myndi auðvelda líf mitt til muna. Reyndar lagði ég þessa hugmynd undir góðvin minn og hann sagði: „Í Þýskalandi tíðkast ekki sá siður að fólk syndi þvert á móti hvert öðru, heldur syndir fólk hvert á eftir öðru og í hringi eftir brautunum. Og þykir þar almenn kurteisi að taka ekki mikið framúr eða býsnast yfir öðrum. Almennt er svona skipulagning á hlutunum talin Þjóðverjum til lastar og til marks um skort á frjálsræði. Það er ekki rétt. Fáar þjóðir eru eins frjálsar í hugsun eins og Þjóðverjar. Kjörsundstíll Þjóðverja er, líkt og allir vita, bringusund. Öfugt við til dæmis Bandaríkjamenn sem frekar kjósa skriðsund. En hraðsyndur maður lenti þó í því, bundinn af hringsundhefð Þjóðverja og almennu óþoli gagnvart framúrtökum, að þurfa að stilla sundhraðann í takt við aðra og fóru þar fjörutíu mínútur.“
Ég er sammála hinum ónefnda vini mínum að meintur skipulagsagi í þýskri þjóðarsál sé til marks um frelsi í hugsun. Samt getur of úthugsað skipulag haft ókosti í för með sér, eins og frásögn hans ber vitni um. Það breytir þó ekki því að regluverk í þágu neytenda verður seint ofmetið, samanber hin atriðin á listanum mínum. Og þá að leigubílum.
Tímaþjófur númer fjögur
Ég á ekki bíl og tek oft leigubíl ef ég þarf að koma mér skyndilega á milli staða, eins og til tannlæknis eða í útvarpsviðtal. Of oft hef ég lent í því að þurfa að bíða svo lengi eftir bíl að á endanum er erindið orðið úrelt og ég neyðist til að sleppa tíma hjá tannlækni eða missi af fundi. Ástæðan! Jú, stórt skemmtiferðaskip liggur við höfnina og því eru engir leigubílar lausir á meðan. Eða eitthvað annað furðulegt. Ég veit ekki hversu oft ég fengið að heyra að bílarnir séu uppteknir og nokkur bið á að bíllinn komi. Stundum hef ég haldið langa ræðu fyrir einhvern á símanum hjá Hreyfli þess efnis að það flokkist undir þjóðfélagslegt öryggisatriði að leigubílar séu tilbúnir þegar þörf er á þeim. Ég er farin að vorkenna fólkinu þar að þurfa ítrekað að hlusta á mig í ræðuham.
Reyndar hef ég einstaklega góða reynslu af leigubílstjórunum hjá Hreyfli sem eru hver öðrum skemmtilegri að spjalla við. Og skjótir að keyra á milli staða þegar bíllinn er á annað borð kominn og lagður af stað. En ef að fyrirtæki gefur sig út fyrir að þjónusta landann með leigubílum, þá verða bílarnir að vera tilbúnir akkúrat þegar kona þarf á þeim að halda. Annars er ekki hægt að reiða sig á leigubíla. Þá er skárra að létta á regluverkinu í þessum efnum og leyfa frjálsari og fjölbreyttari markað. Í þágu neytandans. Þjóðverjar vita það jú, að regluverk kallar á frjálsa hugsun – og öfugt. Í öllum viðskiptum þarf ramma – en að sama skapi er bráðnauðsynlegt að hugsa út fyrir rammann.
Nú er þessi pistill orðinn of langur svo ég læt hér við sitja, þó að ýmislegt annað brenni á mér, og bið lesendur að afsaka tímaþjófnaðinn. Gleðilega páska!