Í ræðu á Alþingi í vikunni vakti ég máls á því að skoða þyrfti starfsumhverfi alþingismanna. Starfsumhverfi og kjör hafi áhrif á vilja fólks til að sinna tilteknu starfi.
Mín spurning er hvort að það sé klárt að núverandi starfsumhverfi alþingismanna laði að okkar hæfasta og besta fólk, og hvetji það til að leggja sig fram? Ég tel ástæðu til að taka þá umræðu upp – jafnvel þó að það séu væringar á almennum vinnumarkaði.
Sigurður Örn Ágústsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og forstjóri.
Starf alþingismanns er einstakt að því leiti að verk, eða verkleysi, alþingismanna hefur bein áhrif á líf allra íslendinga.
Það eru ríkir almannahagsmunir að á þingi séu hverju sinni fólk sem hefur reynslu af því að taka mikilvægar ákvarðanir, fólk sem hefur sýnt getu, dug og árangur í einkageiranum eða hjá hinu opinbera. Að sem hæfast fólk fáist til starfa. Fólk með fjölbreyttan bakgrunn. Því betra fólk, því betri ákvarðanir. Því betra samfélag.
Starfsaðstaða hefur áhrif á mengi „umsækjenda“, þ.m.t. vinnutími, álag, fjölmiðlasirkusinn, kommentastóðið, laun, tækifæri til að hafa áhrif.
Alþingi nýtur rúmlega tíu prósent trausts í samfélaginu. Er það vísbending um að engu þurfi að breyta?
Alþingi nýtur rúmlega tíu prósent trausts í samfélaginu. Er það vísbending um að engu þurfi að breyta?
Ein leið til að bæta vinnustaðinn er að endurskoða og endurhugsa starfsaðstöðuna í heild sinni. Sem dæmi þarf ekki lengur að taka sérstakt tillit til sauðburðar þegar verið er að setja upp starfsáætlun fyrir þingið. Lagasetningu í sífellt flóknara samfélagi þarf að bæta. Til þess þarf tíma og góðar upplýsingar. Það þarf að vera betri eftirfylgni og endurgjöf vegna starfa og vinnu þingmanna. Í dag geta alþingismenn komist upp með að mæta illa í nefndir og í þingið, jafnvel verið í fullu námi eða starfi, með þessu mikilvæga starfi. Þessu þarf að breyta – sem dæmi má nefna að ég hef mætt á nefndarfund þar sem 5 af 9 þingmönnum voru mættir – engir varamenn boðaðir.
Þá stendur útaf sá þáttur sem fjölmiðlar hafa mest fjallað um; launakjör.
Laun þingmanna samanburðarhæf við önnur störf?
Grunnlaun alþingismanna eru 651.446 krónur á mánuði. Ég notaði grunnlaun alþingismanna sem viðmið því það er einfaldast að bera þau saman við grunnlaun alþingismanna í samanburðarlöndum. Sá samanburður verður þá fyrst marktækur þegar grunnlaun eru borin saman við meðallaun í viðkomandi landi. Launakjör íslenskra alþingismanna eru mun lakari en almennt þekkist erlendis.
Nú er ljóst að grunnlaun alþingismanna eru umtalsvert hærri en lægstu laun í landinu, og ívið hærri en meðallaun. Samanburður launa þingmanna við aðrar starfsstéttir er skemmtilegur leikur, en oft ekki sanngjarn. Það er einfaldlega eðlismunur á störfum og alþingismanna og annarra stétta. Hlutverk alþingismanna er að gera samfélagið betra, bera ábyrgð á umhverfi atvinnulífs, halda úti góðri grunnþjónustu. Síðast en ekki síst setja leikreglur fyrir okkur hin. Þeir sem vinna við að setja leikreglur eru eftirsóknarverður félagsskapur þeirra sem vilja hafa áhrif á reglurnar. Í flestum lýðræðissamfélögum er sátt um að þeir hópar þurfi að búa við nægilega góð kjör til að vera ekki háðir fjárhagslegum stuðningi þeirra sem vilja hafa áhrif á leikreglur.
Þeir sem vinna við að setja leikreglur eru eftirsóknarverður félagsskapur þeirra sem vilja hafa áhrif á reglurnar. Í flestum lýðræðissamfélögum er sátt um að þeir hópar þurfi að búa við nægilega góð kjör til að vera ekki háðir fjárhagslegum stuðningi þeirra sem vilja hafa áhrif á leikreglur.
Endurgjald fyrir vinnuframlag fer almennt eftir vinnuframlaginu. Á almennum vinnumarkaði fá stjórnendur alla jafna greitt eftir hæfileikum, getu og árangri. Á þessu eru undantekningar, t.a.m. held ég að flestir íslendingar geti verið sammála því að bónussamningar í íslenskum bönkum fyrir hrun voru glórulausir – enda engin tenging milli launa/bónusa og raunverulegra verðmætasköpunar og það eru vísbendingar um að slíkt ástand sé að skapast afur – en það er efni í aðra grein. Árangur þingmanna ætti að vera mældur í gæðum þeirra reglna sem þeir setja, ekki í mínútum í ræðustól Alþingis, veislustjórn á þorrablótum eða eknum kílómetrum um kjördæmið.
Þöggun eða umræða?
Ég vek máls á þessu núna, svo hægt sé í tíma, að reyna að laða að enn betra og öflugra fólk að starfinu fyrir næsta þing. Það er afar ólíklegt að ég sjálfur njóti betri kjara og starfsaðstöðu sem ég er að kalla eftir. Enda er leikurinn ekki til þess gerður. Ég vil einfaldlega laða að öflugra fólk, fá betri ákvarðanatöku, öflugri þingmenn. Af því að ég trúi því að það sé gott fyrir alla á Íslandi.
Til að mæta kostnaði sem af þessu myndi hljótast má vel hugsa sér að fækka þingmönnum.
Það virðist vera áhugi á að taka þessa umræðu, en ótti hefur leitt til þöggunar. Tveir fyrirsvarsmenn verkalýðsfélaga hafa sagt við mig að þeir væru efnislega sammála mér, en það væri erfitt fyrir þá að taka þessa umræðu. Sama má segja um starfandi þingmenn í öllum flokkum. Þótt þetta sé viðkvæmt, þá verður að vera hægt að ræða þetta - málefnalega.
Því segi ég, til þess að þetta starf sé raunverulegur valkostur, fyrir þá sem hafa úr spennandi störfum að velja, þá þarf að hugsa starfsumhverfi og kjör alþingismanna upp á nýtt.