Í nóvember í fyrra fór ég niður í Kauphöll Íslands og hitti Pál Harðarson, forstjóra og doktor í hagfræði frá Yale háskóla. Ég var að fara taka við hann viðtal sem átti að spilast í hlaðvarpsþætti á vef Kjarnans. Því miður varð aldrei neitt af því vegna þess að ég klúðraði upptökunni. Þetta var bagalegt þar sem þetta var eftiminnilegt samtal. Páll var vægast sagt gagnrýninn á haftabúskapinn og þær máttlitlu tilraunir sem gerðar hafa verið til að brjótast út úr honum.
Pólitísk lögfesting hafta
Páll hefur frá upphafi þess að stjórnmálamenn lögfestu höft á fjármagnsflutninga, í nóvember 2008, verið mjög gagnrýninn á þá ráðstöfun, og talið hana vera til þess að fallna að grafa undan hagkerfinu. Ekki hægt og bítandi, heldur hratt og örugglega. Þá hefur hann einnig gagnrýnt fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands harðlega, og sagt hana vera til merkis um það, að það standi ekki til að taka ákvarðanir um að afnema höftin, heldur frekar að festa þau í sessi með því að aðlaga þarfir fjárfesta að höftunum. „Þetta er stórhættulegt“ sagði Páll. Hann sagði líka að útboðin hefðu „afar takmarkaða þýðingu“ fyrir heildarvandann og væru alltof tímafrek. Það er ákveðin vísbending um að það sé rétt hjá honum, að þeim var fyrst að ljúka núna í þessum mánuði, tæplega sex og hálfu ári eftir að stjórnmálamenn lögfestu haftabúskapinn. Ríflega milljarður evra hefur komið inn í landið, í skiptum fyrir 206 milljarða króna.
Hvað með almenning? Er hann snjóhengjan?
Seðlabanki Íslands hefur greint vandamálin nokkuð ítarlega, en það er eitt vegamikið atriði sem hann veit ekkert um frekar en aðrir, sagði Páll. Hvert er markaðsgengi krónunnar? Hvernig horfa þeir sem eiga sparnað á Íslandi á stöðuna? Hvers vegna er verið að einblína meira á erlenda krónueigendur, sem kallaðir eru snjóhengjan, frekar en kerfið í heild sinni?
Afnemið höftin!
Páll sagði eftirminnilega í lok viðtalsins að hann væri þeirrar skoðunar að það ætti að afnema höftin, beinlínis opna fyrir hefðbundin alþjóðleg viðskipti og fjármagnsflutninga, og treysta á undirstöður hagkerfisins. Mögulegt væri að hin falska veröld hafta myndi falla, með einhverjum neikvæðum áhrifum, t.d. falli á gengi krónunnar og erfiðleikum fyrir einhverja, en það væru leiðir til að draga verulega úr þessum áhrifum og jafnvel koma í veg fyrir þau, til að mynda með útgönguskatti á fjármagn. Útgönguskatturinn gæti tekið mið af aðstæðum á gjaldeyrismarkaði. Auðvitað fylgdi þessu alltaf einhver áhætta, en það væri þess virði að gera þetta samt. Stjórnmálamenn mættu ekki vantreysta íslenska hagkerfinu og atvinnulífinu fyrir því að geta starfað í opnum markaðsbúskap. Haftabúskapurinn yrði annars hluti af íslensku samfélagi áratugum saman, með tilheyrandi spillingu, eignabólum, ójafnvægi og sífellt versnandi samkeppnisstöðu við umheiminn. Það væri einfaldlega ekki hægt að bjóða ungri og vel menntaðri þjóð, með sterka innviði, upp á slíkt.
Auglýsing