Evrópa, gamla álfan, er að breytast fyrir augum okkar. Stemming augnabliksins er aldrei áræðanlegur fyrirboði um framtíðina en Evrópa verður ekki aftur söm og hún var fyrir örlagaríka innrás Rússa í Úkraínu. Það er raunar líklegt að breytingarnar verði enn umfangsmeiri en það sem blasir nú við. Þar kemur tvennt til.
Annað er að almenningur um alla Evrópu virðist hafa vaknað til vitundar um að friður, frelsi, lýðræði og mannréttindi eru ekki sjálfsögð og sjálfgefin einkenni álfunnar. Fyrir þessu þarf hver kynslóð að berjast bæði innávið og útávið. Þetta er alveg nýr tónn frá álfu sem hefur minnt marga utan hennar á vanþakklátt, sjálfhverft og ofdekrað fólk sem telur sín eigin forréttindi vera eðlilega skikkan lífsins.
Hitt er að margvísleg þróun undanfarinna ára hafði leitt til innri ógna við lýðræði og mannréttindum í álfunni auk þess að gera Evrópu áhrifalitla um gang heimsmála, þótt ESB sé hátt í það eins stórt hagkerfi og Bandaríkin, og stærra en Kína.
Um hvað snýst stríðið?
Fyrir leiðtoga Rússa eru þetta átök um mörkun áhrifasvæða stórvelda og þá fyrst og fremst Rússlands og Bandaríkjanna. Pútín hefur lengi reynt að haga hlutum þannig að Rússland og Bandaríkin semji beint sín a milli um Evrópu. „Því skyldi ég tala við undirsáta,“ spurði hann inntur eftir mögulegum samningum við ríki ESB. Sem þó eru í sameiningu tífalt auðugri en Rússland og til mikilla muna öflugri um flest annað en kjarnorkuvopn.
Frá sjónarhóli Úkraínu og flestra Evrópumanna snýst stríðið hins vegar ekki um átök um áhrifasvæði stórvelda og ekki heldur um álíka gamaldags spurningar um sögulegt þjóðerni. Fyrir þá er þetta stríð um opið samfélag eða lokað.
Opnun útávið og innávið
Spurningin um lokun eða opnun hefur tvær hliðar. Annars vegar opnun útávið gagnvart djúpri samvinnu við önnur ríki, sem frjálsastri för fólks og sem ótrufluðstum viðskiptum.
Hins vegar er opnun innávið þar sem jafnrétti einstaklinga og hópa ríkir í stað gamals stigveldis, þar sem frelsi einkennir menningarsköpun og þar sem stjórnendur ríkisins úthluta hvorki efnahagslegum né pólitískum tækifærum. Opnun þýðir alltaf að stigið er á margar og stórar tær, allt frá notalegum fordómum til rammra efnahagslegra hagsmuna.
Atlögur síðustu ára gegn opnu samfélagi frá hreyfingum þjóðernispopúlista í Evrópu hafa líklega stuðlað að því að gera árás Pútíns á Úkraínu enn alvarlegri í augum Evrópumanna.
Þetta lítur raunar ekki alls staðar eins út. Pólland er til dæmis í þeirri sérstöku stöðu að stjórnvöld eru fylgjandi lokun innávið en opnun útávið, að minnsta kosti gagnvart Evrópu, og það sama má segja um Ungverjaland. Átakaefnin þarna eru meðal annars um óháða dómstóla, réttindi minnihlutahópa eins og samkynhneigðra, rétt kvenna yfir eigin líkama og sjálfstæði menntakerfis og borgaralegs samfélags frá stjórnendum ríkisins. Ummæli æðsta patríarka rússnesku kirkjunnar nú um daginn minna hins vegar á þetta samhengi. Hann kenndi dekri Úkraínumanna við homma eða hinsegin fólk um innrásina. Samhengið á milli árása popúlista á opið samfélaga og árásar Pútíns að utan virðist ljósara í hugum almennings en margir hefðu vænt.
Almenna svarið og sterkara ESB
Í flestum ríkjum Evrópu er opnun útávið og innávið í reynd ein og sama spurningin. Almenna svarið við henni er aðild að ESB með öllum þeim efnahagslegu, þjóðfélagslegu og pólitísku skuldbindingum sem því fylgja. Aðild að ESB er í raun árás á forréttindi, fákeppni, valdstjórn og staðbundna pólitíska duttlunga.
Deilur hafa að vonum alltaf einkennt ESB enda hljóta hörð skoðanaskipti að vera hið eðlilega ástand í nánu samfélagi nær 30 þjóða sem allar lúta lýðræði og búa við mjög skiptar skoðanir heima fyrir um flesta hluti eins og vera ber í opnum samfélögum.
Deilur um meginatriði hafa hins vegar hljóðnað í ESB síðustu misseri. Þar kemur þrennt til, Eitt var Brexit sem stappaði meginlandsbúum saman. Annað var Covid sem full eining var um að berjast sameiginlega gegn. Einingin var ekki aðeins um viðbrögð við sjúkdómnum sjálfum og heldur líka, og það með sögulegum hætti, við efnhagslegum afleiðingum farldursins í álfunni með risastórum sameiginlegum sjóði.
Áfall fyrir evrópskan þjóðernispopúlisma
Stríðið í Úkraínu bætist nú við. Það sýnir fólki með skelfilegum hætti lógíska endastöð pólitískrar þjóðernishyggju og þá siðferðilegu fátækt sem að baki hennar liggur.
Hugmyndafræði popúlista er krafa um afturhvarf til ímyndaðrar fortíðar þegar fólk í sama samfélagi deildi þjóðernislegum og menningarlega uppruna. Við þetta bætist andúð á samtíðinni sem lýsir sér í andstöðu við feminisma, hinseginn fólk auk og auðvitað útlendinga. Pútín hefur verið einlægt dáður af fólki sem leitar skjóls gegn nútímanum í faðmi slíkra hreyfinga.
Evrópa er hins vegar alþjóðleg táknmynd víðtækrar opnunar samfélaga. Þeir sem hafa haft tíma og tækifæri til að kynna sér heiminn utan okkar álfu finna yfirleitt sterklega fyrir þeirri staðreynd að Evrópa er í mörgum afar veigamiklum atriðum nánast einstæð í heiminum. Einfaldasti prófsteinn á þjóðfélög er spurningin um hverng þau búa að þeim sem ekki tilheyra valdamesta hópnum. Í heiminum er oftast himinn og haf á milli slíkra hópa.
Sérstaða Evrópu
Evrópa með sín öll sín dýru velferðarkerfi og almenna viðurkenningu á víðtækum mannréttindum skarar hér frammúr. Merkel kanslari benti eitt sinn á að Evrópa hefði 7% af íbúum heimsins, 25% auði veraldar og 50% af öllum útgjöldum heimsins til velferðarmála.
Evrópa er frá Venusi en Bandaríkin frá Mars, sagði stjórnmálafræðingurinn Robert Kagan, sem sjálfur er frá Mars. Venus er gyðja ástarinnar en Mars er guð stríðsins. Bandaríkin og Evrópa sjá heiminn með ólíkum augum og sá munur hefur farið vaxandi. Evrópa vill áfram vera á Venusi en virðist nú í fyrsta sinn um langa hríð tilbúin að borga þar leigu.
Stóru áhrifin
Ein stærstu áhrifin af stríðinu í Úkraínu á heimsmálin verða þau að breyta Þýskalandi úr lítt vopnuðu efnahagsveldi í að verða á næstu árum þriðja stærsta herveldi heimsins, að minnsta kosti hvað útgjöld varðar. Önnur, ekki minni, snúa að ESB, mögulegri stækkun þess og dýpkun samstarfs innan sambandsins. Enn önnur felast í viðbrögðum Kína sem enn er að þreifa fyrir sér í stöðunni og ein þau mikilvægustu í áhrifum stríðsins á almenning og valdakerfi í Rússlandi sem enn eru óljós.
Þýskaland verður aftur herveldi
Þýskaland hefur að undanförnu varið litlu meira til hermála en Japan, Suður-Kórea og Sádí-Arabía og minna en Rússland, Bretland, Frakkland og Indland. Svo gæti farið að innan fimm ára muni Þýskaland og Frakkland verja í sameiningu tvöfalt hærri upphæð til hermála en Rússland. Ef plön þýsku stjórnarinnar ganga eftir munu einungis Kína og Bandaríkin verja meiru til hermála en Þýskaland. Þetta er bylting frekar en breyting.
Það sama má segja um þá pólitísku breytingu sem fylgir með. Þarna eru kaflaskipti í þýskri sögu. Stutt er síðan umræður þýskra stjórnmálamanna um öryggismál snerust ekki síst um að aukin þróunaraðstoð væri helsta vopn Þýskalands gegn vaxandi alþjóðlegri upplausn í samtímanum. Nú er rætt um þriðja best búna her í heimi.
Með þessu treystir Þýskaland ekki aðeins stöðu sína sem alvöru stórveldi heldur breytir þetta stöðu ESB í heimsmálum og þá sérstaklega öryggismálum í Evrópa. Fyrir liggur fyrir með þetta eins og allt annað í þýskri pólitík að Þjóðverjar mun ekki móta sína eigin sjálfstæðu stefnu útavið heldur reiða sig á samstöðu ESB. Beiting þýsks herafla verður áfram óhugsandi án náins samráðs innan ESB.
Þegar stríðinu lýkur
Stríðið breytir þó ekki öllu. Það eru fjórar meginástæður fyrir því að Evrópuríki og þá alveg sérstakega Þýskaland hafa viljað sýna Rússlandi sérstaka tillitssemi. Þær eru allar enn til staðar og munu móta samskipti Evrópu og Rússlands áfram þrátt fyrir stríðið.
Ein er sú að Rússland á sjö þúsund kjarnorkusprengjur sem nægja til þess að sprengja mannkynið aftur á steinöld. Pólitískt veikt Rússland er í þeim efnum hættulegra en sterkt Rússland. Annað er að Rússand er fjölmennasta ríki Evrópu og sérlega mikilvægt fyrir Evrópu í efnahagslegu tilliti. Þótt orkulindir Rússlands víki fyrir vindi og sól með orkuskiptum næstu ára skiptir Rússland áfram miklu máli fyrir efnahagslega framtíð Evrópu.
Þriðja ástæðan er heimspólitísk. Evópumenn vilja ekki að Rússum sé þröngvað til sífellt nánara bandalags við Kína, sérstaklega þar sem slíkt bandalag yrði sífellt meira á forsendum Kínverja en ekki Rússa.
Fjórða og síðasta ástæðan er sú að án Rússlands verður Evrópa aldrei heil. Hlutur Rússa í menningu og sögu Evrópu er slíkur að álfan verður aldrei heil, hvorki í menningarlegu né pólitísku tilliti án náinna samskipta við okkar mikla nágranna í austri.
Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur.