Líftæknifyrirtæki Orf Líftækni ehf hefur sótt hjá Umhverfisstofnun um leyfi til að rækta í tilraunaskyni erfðabreytt byggyrki í landi Landgræðslunnar í Gunnarsholti þar sem 2000 fm verða fyrst um sinn „leigð á gangverði“ til þess. Það er nauðsynlegt að taka strax fram að hér virðist ekki eiga við ræktun til að framleiða stofnfrumuvaka sem verða markaðssettir, heldur einungis ræktað í tilraunaskyni (á þó 2000 fm til að byrja með) til að bera saman mismunandi byggyrki, samkvæmt því sem kemur fram í umsóknargögnum og á kynningarfundi Umhverfisstofnunar þ. 26. mars. Leyfi fyrir útiræktun til markaðssetningar heyra undir ESB tilskipunum þar sem ákvörðun er tekin í Brussel, og hingað til hafa einungis verið veitt slík leyfi fyrir ræktun utandyra á erfðabreyttum maísyrkjum í örfáum tilfellum. Árið 2020 hafa alls verið veitt 5 leyfi til sleppinga í tilraunaskyni í 27 löndum ESB, öll á vegum rannsóknastofnana eða háskóla, ekkert leyfi hefur verið veitt einkafyrirtækis líkt og Orf Líftækni.
Það er margt í þessari umsókn og í leyfisferlinu öllu sem vekur athygli.
Náttúrufræðistofnun Íslands og Ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur eru lögbundnir umsagnaraðilar þegar umsókn um sleppingar erfðabreyttra lífvera er lögð inn og var það tilfelli hér, umsagnirnar snérust báðar einungis um tæknileg atriði og hversu öruggt það sé að sleppa þessu erfðabreyttu byggi í landi Landgræðslunnar undir góðu eftirliti, þó ekki sé hægt að fullyrða að þessar sleppingar séu með öllu áhættulausar – slíkt er aldrei hægt að fullyrða. Ekki var spurt um nauðsyn þess að hafa þessa tilraun utandyra í stað þess að rækta í hátækni gróðurhúsi sem Orf líftækni á í námunda við Grindavík. Væri það ekki eðlilegt að ganga fyrst úr skugga um það áður en leyfi sé veitt eða að mælt sé með að veita leyfinu? Er að þróast í samfélaginu hér sem annars staðar „vísindablindni“, nýyrði sem lýsir ágætlega hvernig er horft eingöngu í smásjá án þess að gefa stóru myndinni gaum? Það á að sannfæra okkur um að engin hætta sé á ferðinni, engin áhætta, því það er ekki hættulegt að borða DNA og að jarðvegurinn mun ekki mengast. Það gildir kannski í 100 fm reit, en hver getur ábyrgt að það verði tilfelli í 5 hektara landi eins og stendur til, samkvæmt umsókn Orfs Líftækni hjá ESB, að verði notað eftir 4 ár? Hingað til hefur varúðarreglan verið reglan, hefur eitthvað breyst sem fór fram hjá okkur?
Það kom skýrt fram á kynningarfundinum þegar Björn Örvar, vísindastjóri Orf Líftækni, var spurður hver vísindaleg rök fyrir útiræktun vs ræktun í gróðurhúsi væru. Engin vísindaleg rök knýja á um að framkvæma þessar tilraunir utandyra, það er mögulega bara ódýrara fullyrðir hann. Það kom líka fram að það þurfi að bera saman hvernig erfðabreyttu plönturnar höguðu sér í Kanada og á Íslandi þar sem veðurskilyrði væru ekki þau sömu. Gengur verkefnið út á það að gera tilraunir úti í náttúrunni á Íslandi og framleiða svo einnig úti í náttúrunni í Kanada? eða seinna á Íslandi?
Verkefni ORF Líftækni er styrkt (ca 400 milj. ÍSK) af Evrópusambandinu í gegnum áætlun sem heitir Horizon 2020 sem var til 7 ára, 2014 til 2020, metnaðarfyllsta áætlun ESB til að fjármagna rannsóknir og nýsköpun í löndum ESB og var til þess 80 milljarða Evru sjóður stofnaður. Markmið áætlunarinnar er að gefa löndum ESB tækifæri til að vera í fremstu röð í heiminum þegar kemur að vísindalegum rannsóknum og nýsköpun, í þágu samfélagsins alls. Flest verkefni eru samstarf tveggja fyrirtækja eða fleiri frá ESB (eða frá löndum í EES sem samstarfsaðilar) en í þessu tilfelli er ORF Líftækni eina fyrirtækið sem stendur fyrir verkefninu eins og Björn Örvar upplýsti á kynningarfundinum. Einnig nefndi hann möguleikana á að framleiða í Kanada. Í opinberum kynningum á netinu, segir: „With innovations in our technology we will produce affordable, endotoxin-free growth factors designed specifically for CCM: the MESOkine® line (patent to be filed in June 2020). This will be done by scaling cultivation from our 2000m2 state-of-the-art geothermally powered greenhouse in Iceland to in-field cultivation sites“ eða „í gegnum nýsköpun sem okkar tækni býður uppá, munum við geta framleitt á viðráðanlegu verði, endotoxín-frí dýrafrumvaka, sérstaklega hannaða fyrir CCM (Cell Cultured Meat): MESOkine lína (skráð vörumerki í júní 2020). Það verður gert með því að stækka ræktun út frá okkar 2000 m2 gróðurhúsi hitað upp með jarðvarma á Íslandi, út í náttúrunni.“
Hvað á að lesa úr þessu: Er þessi umsókn um tilraunaræktun fyrsti vísirinn af allsherjar ræktun á mörgum hekturum í Gunnarsholti? Það er ekki alveg sjálfsagt mál að ESB gefi ORF Líftækni leyfi til að rækta utandyra erfðabreytt bygg með stofnfumuvaka („Human growth factors“) – það hefur hingað til verið algjört bann fyrir þessa ræktun til markaðssetningar utandyra, eins og Björn Örvar viðurkenndi fúslega sjálfur á kynningarfundinum. Mun ræktun og framleiðsla fara fram þá í landi sem ORF Líftækni á eða leigir við aðsetur sitt í Kanada þar sem regluverkið er ekki eins strangt og í ESB? Ættu þessar tilraunir að eiga sér stað inni í gróðurhúsinu eins og upplýsingar á vef ESB segja, eða utandyra eins og raun ber vitni í umsókninni? Tilraun eða framleiðsla? Á Íslandi eða í Kanada, fjármagnað af ESB? Til hvers annars að bera saman viðbrögð byggyrkjanna á Íslandi og í Kanada?
Það eru háleitar hugmyndir hjá ORF Líftækni um markaðshlutdeild fyrir þetta gervikjöt (sem verður ekki einu sinni vegan), sem á að bjarga heiminum með því að útrýma neyslu kjöts af dýrum (hvað segja bændur við þessu?) en það er í sjálfu sér ekkert að því að gera þessar tilraunir og sjá hvernig neytendur munu taka þessum hugmyndum. En er það ekki óþarfi að nota landbúnaðarland til þess? Er ekki öruggast fyrir alla aðila að hafa þessar tilraunir – hvað þá þessa framleiðslu – innandyra, og að náttúran njóti vafans?
Leyfisveitingin er í höndum Umhverfisstofnunar og er tillaga um leyfi tilbúin. Það er kannski kominn tími til að minna á hlutverk Umhverfisstofnunar eins og stendur á heimasíðu þeirra:
„Umhverfisstofnun hefur hag komandi kynslóða og náttúrunnar að leiðarljósi í stefnumótun og störfum stofnunarinnar.
Gildi Umhverfisstofnunar eru framsýni, samstarf og árangur.
Umhverfisstofnun er leiðandi afl í umhverfismálum og náttúruvernd í samfélaginu. Hlutverk stofnunarinnar er að fylgjast grannt með þróun mála og gæta velferðar almennings.“
Við krefjumst þess að leyfi til Orfs Líftækni um að sleppa erfðabreyttu byggi með stofnfrumuvaka í náttúru Íslands verði ekki veitt á þeim forsendum sem lýst er í umsókninni, sem sagt á 2 000 fm og upp í 5 ha landi sem verður engan veginn kallað „tilraunareitur“, en aftur á móti þeim leyft að sleppa sínum erfðabreyttu byggyrkjum í hátæknigróðurhúsi þeirra í Grindavík þar sem öll vinnan og allt eftirlitið geta verið til fyrirmyndar.
Höfundur er formaður Slow Food á Norðurlöndum og fyrrverandi formaður Slow Food á Íslandi.