Árið 2020 sagði Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, að kerfisbundinn rasisma megi finna í öllum stofnunum í Kanada, þar á meðal lögreglunni. Sú yfirlýsing kom í kjölfar þess að alríkislögreglustjórinn þar í landi lýsti því yfir opinberlega að kerfisbundinn rasismi væri ekki vandamál innan lögreglunnar, stuttu eftir að George Floyd var drepinn af lögreglumanni.
Það var ekki auðvelt fyrir Trudeau að viðurkenna að ríkisstjórn hans „sem reynir að vera framsækin og opin og reynir að verja minnihlutahópa sé sek um kerfisbundinn rasisma.“ Trudeau vissi hins vegar að fyrsta skrefið í því að takast á við vanda eins og kerfisbundinn rasisma er að viðurkenna að vandinn sé til staðar, horfast í augu við hann og grípa svo til aðgerða til þess að útrýma honum.
Með kerfisbundnum rasisma er átt við að kynþáttafordóma megi finna í löggjöf, regluverki og verklagi stofnana og samtaka í samfélaginu. Það birtist síðan í verki sem mismunun vegna húðlitar, uppruna og menningar, til dæmis í heilbrigðisþjónustu, húsnæðismálun, menntun, atvinnu og réttarkerfinu.
Innan lögreglunnar birtist kerfisbundinn rasismi til dæmis í hegðun, framkomu, vinnulagi og þjónustu við fólk og því hvernig hún er mismunandi eftir húðlit, uppruna eða öðrum persónueinkennum. Með því er til dæmis átt við að hegðun og viðbrögð lögregluþjóna við atvikum eru mismunandi eftir húðlit eða uppruna fólksins sem óskar eftir aðstoð eða er ástæða þess að óskað er eftir aðstoð og framkoma lögreglunnar er neikvæðari og viðbrögðin verri ef fólkið deilir ekki persónueinkennum, eins og húðlit, með þeim og/eða meirihluta samfélagsins.
Kerfisbundinn rasismi lögreglunnar birtist einnig í stereótýpum um til dæmis glæpamenn og hryðjuverkamenn og hvernig fólk er grunað um glæpi einungis vegna húðlitar, útlits eða annarra mismunarþátta. Það á einnig við þegar ráðist er til atlögu gegn fólki og það jafnvel handtekið einungis vegna þess að það hefur sama húðlit og jafnvel svipuð útlitseinkenni og einhver sem lögreglan leitar af.
Að gefa sér einungis slíkar sterótýpískar forsendur og réttlæta einhvers konar aðgerðir eða afskipti af einstaklingi eða hópi fólks vegna þeirra, og eingögnu þeirra, kallast racial-profiling, sem á íslensku mætti kalla kynþáttamiðaða greiningu.
Hluti af hinum kerfisbundna rasisma er svo að leyfa slíkri framkomu og vinnubrögðum að viðgangast og/eða hunsa það og neita að horfast í augu við að slíkt viðgangist innan löggæslunnar. Að afsaka slíka hegðun er líka hluti af vandamálinu.
Þessi kerfisbundni rasismi verður til þess að minnihlutahópar treysta ekki lögreglu, fólk sem ekki er hvítt á litinn lifir í stöðugum ótta við lögregluyfirvöld og leggur sig markvist fram um að verða ekki á vegi yfirvalda því það getur kostað fólk lífið. Sama fólk er einnig ólíklegt til þess að óska eftir aðstoð lögreglu ef það þarf á henni að halda.
Munurinn á „racial profiling“ og „criminal profiling“
Margir hafa furðað sig á þeirri gagnrýni sem lögreglan hefur setið undir eftir að hún gerði atlögu að ungum dreng, í tvígang, eftir að hafa fengið ábendingu um að um væri að ræða ungan mann sem var eftirlýstur af lögreglu. Einu forsendurnar sem þeir sem tilkynntu hann höfðu eru húðlitur hans og hárgreiðsla. Lögreglan hafði ekki heldur neinar aðrar forsendur en ákveða samt að ráðast til atlögu og gera sig líklega til þess að handtaka drenginn, í annað skiptið með aðstoð sérsveitar lögreglunnar.
Það er „racial profiling“.
Það er mikilvægt að gera greinarmun á „racial profiling“ og „criminal profiling“, eða afbrotamiðaðri greiningu, af hálfu lögreglunnar, en afbrotamiðuð greinin byggir á raunverulegri hegðun og/eða upplýsingum um grunsamlegt athæfi af hálfu einstaklings sem passar við lýsingu á einstaklingi sem lögreglan hefur lýst eftir. Það er því einhver rökstuddur grunur að baki greiningarinnar, ekki bara persónueinkenni.
Hið síðarnefnda á ekki við um ungan dreng í strætó eða í bakaríi með móður sinni.
Skortur á menntun, næmi og meðvitund
Þegar lögreglan fer í aðgerð vegna heimilisofbeldis og hún veit að það er barn inni á heimilinu fer hún eftir ákveðnu verklagi með það að markmiði að aðgerðin komi með sem minnstum hætti niður á barninu, því til verndar. Það er til komið vegna menntunar og þekkingar.
Ef lögreglan fengi sambærilega menntun í fjölmenningarfræðum, menningarnæmi og gagnrýnum kynþáttafræðum þá væri til staðar mikilvæg meðvitund þegar farið er í aðgerðir sem snúa að minnihlutahópum þar sem hugað væri að því hvaða afleiðingar aðgerðin getur haft á þá sem lögreglan fer til móts við.
Þá væri til staðar verklag sem stuðlaði að því að minnka skaðann sem aðgerðin gæti haft á einstaklinginn eða hópinn, traust hans til lögregluyfirvalda, útsetningu fyrir jaðarsetningu og sjálfsvitund. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar um ungt fólk er að ræða.
Ég þori að fullyrða að ef þessi meðvitund og næmi væri til staðar hjá lögregluyfirvöldum hefðu aðgerðir lögreglu síðustu daga ekki verið með sama hætti.
Það er því fyrst og fremst ámælisvert að enginn rökstuðningur liggur að baki ákvörðunar lögreglu um að grípa til aðgerða með sérsveitinni og framkvæmd aðgerðinnar.
Ég neita því að samþykkja orð ríkislögreglustjóra um að lögreglan hafi gert allt rétt þegar hún gerði tvisvar sinnum atlögu að sama drengnum eftir að hafa fengið tilkynningu byggða á kynþáttamiðaðri greiningu.
Að halda því fram að „ekkert hafi verið gert rangt,“ að ekki hafi verið „neitt merki um rasisma að ræða“ og að lögreglan hafi „bara verið að vinna vinnuna sína“ gefur til kynna sama skort á meðvitund og næmi. Það ber líka merki um þekkingarleysi og afneitun. Það eina sem skiptir máli í þessu samhengi er upplifun drengsins og þær alvarlegu afleiðingar sem þessar aðgerðir geta haft á hann og hans lífsgæði. Það var ekki hugað að því.
Að draga úr trausti og trúverðugleika lögreglu
Það sem hefur átt sér stað síðustu daga er ein af mörgum birtingarmyndum kerfisbundins rasisma hjá lögreglunni. Að lokka flóttamenn til sín á fölskum forsendum og láta sérsveitina handtaka þá er önnur. Lögregla með haturstákn innan klæða er önnur nýleg birtingarmynd. Að leggja niður hatursglæpadeildina og fella niður flestar kærur fyrir hatursorðræðu og hatursglæpi er enn önnur. Ég gæti haldið áfram en margar af frásögnunum eru ekki mínar að segja frá.
Þegar fréttir bárust af því á síðasta ári að lögregluþjónn bæri haturstákn innan lögregluklæða sagði formaður landsambands lögreglumanna að „lögreglumenn væru fordómalaus stétt“. Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, hefur nú sagt opinberlega að hann sé algjörlega sannfærður um að kerfisbundinn rasismi sé ekki vandamál innan lögreglunnar hér á landi. Þessar yfirlýsingar bera vott um einfaldleika. Það sem er alvarlegra er að slík yfirlýsing grefur með alvarlegum hætti undan trausti minnihlutahópa til lögreglunnar, því slík yfirlýsing er ósönn.
Ríkislögreglustjóri hefur sagt að hún ætli að eiga „samtal við samfélagið um fordóma“. Það er mikilvægt að hún byrji sér nær. Fyrsta skrefið er að viðurkenna vandann eins og Trudeau til þess að tryggja að sagan endurtaki sig ekki. Svo þarf að stórauka menntun lögreglunnar um málefni fjölmenningar og minnihlutahópa, það þarf að endurvekja hatursglæpadeildina svo jaðarsett fólk geti sótt þá vernd sem það á rétt á til lögreglunnar og lögreglan þarf að losa sig við rasistana innan þeirra raða.
Svo getum við tekið samtalið og útrýmt kerfisbundnum rasisma í sameiningu!
Höfundur er formaður Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.