Seint á síðustu öld sat ég tíma í svokölluðum verslunarrétti í Verzlunarskóla Íslands. Í einum af fyrstu tímunum fór kennarinn yfir það með okkur að enginn væri sekur fyrr en sekt væri sönnuð. Hann útskýrði að það væri talið betra að einstaka sekir myndu sleppa með refsingu en að saklausu fólki yrði refsað. Í minningunni var þetta allt að því helg stund þarna í marmarahöllinni. Við vorum að læra um hluti sem skiptu virkilega máli; mannréttindi.
Nokkrum árum síðar upplifði ég það í fyrsta sinn að það væru ekki endilega allir jafnir í augum laganna, eða laganna varða. Þá vann ég í sjoppu í Efra-Breiðholti. Um tíma var oft brotist inn í sjoppuna. Einu sinni var brotist inn fimm sinnum á fjórum dögum í röð – eina nóttina voru innbrotin tvö. Yfirleitt var ekki miklu stolið enda verðmæti ekki geymd í sjoppunni af fenginni reynslu en allt tekið af tóbaki og skiptimynt og stundum öðrum vörum líka. Oft var meira tjón vegna innbrotsins sjálfs en þjófnaðar.
Í hvert skipti sem brotist var inn var hringt í lögregluna. Ég man ekki hvort hún kom alltaf en ég man að hún gerði ekki neitt. Ekki fyrr en líka var brotist inn í hárgreiðslustofuna við hliðina á sjoppunni. Þá kom tæknimaður til að leita að fingraförum. Þar. Ekki í sjoppunni. Samt var augljóst að um sama innbrot var að ræða og ef ég man rétt var engu stolið úr hárgreiðslustofunni enda ekkert tóbak geymt þar né annað sem auðvelt var að koma í verð.
Það var áfall fyrir unga manneskju að sjá svona mismunun en síðan þá hef ég séð mun fleiri og verri dæmi hér á landi. Meðal þeirra svæsnustu eru kynferðisbrot.
Nú ríður önnur bylgja #metoo hreyfingarinnar yfir og veldur titringi víða og ekki eru allir sammála. Um daginn var ég í matarboði. Þar var kona sem sagði að svona mál ættu að fara í gegnum réttarvörslukerfið. Konur og aðrir þolendur ofbeldis ættu bara að kæra og málin fara sína leið. Sama viðhorf má sjá víða, t.d. á samfélagsmiðlum og í raun er ég hjartanlega sammála. Ég vildi ekkert frekar en að það myndi virka. Ímyndum okkur þá sviðsmynd. Manneskja verður fyrir kynferðisofbeldi af hálfu maka, kunningja eða þjóðþekkts manns af handahófi. Hún leitar á Bráðamóttöku þar sem Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis er staðsett. Þar er opið allan sólarhringinn og þolendur kynferðisbrota eru í forgangi og þurfa aldrei að bíða frammi. Þolendur fá aðstoð, geta fengið sálfræðiþjónustu, réttargæslumann, upplýsingar og ráðgjöf, lífsýnum og sakagögnum er safnað sem og atvikalýsing tekin niður. Einnig er gert að áverkum brotaþolans eftir atvikum. Þjónustan kann að vera öðruvísi annars staðar á landinu.
Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að yfirfull og undirmönnuð Bráðamóttakan í Fossvogi er sennilega sá staður í kerfinu sem virkar einna best. Því flestallt sem gerist svo er í algjöru fokki eins og ímyndaða söguhetjan okkar myndi kynnast ef hún færi áfram með málið.
Fyrst ber að nefna að fæstir brotaþolar treysta sér til að kæra kynferðisbrot. Margir brotaþolar leita ekki einu sinni á Neyðarmóttökuna eða í aðra sambærilega þjónustu víða um land. Þeir brotaþolar sem kæra halda út í óvissuferð í bókstaflegum skilningi því eftir kæru eru þeir ekki aðilar máls heldur vitni. Þeir hafa því lítil tækifæri til þess að fylgjast með framgangi málsins, hvernig rannsókninni miði eða hreinlega hvort einhver sé að rannsaka málið yfir höfuð. Sakborningur er hins vegar aðili máls og getur fylgst með öllu. Hann fær einnig tækifæri til að greina frá sinni hlið málsins fyrst ef kemur til réttarhalda. Brotaþoli fær sjaldnast að sitja réttarhald í eigin máli enda er réttarhaldið yfirleitt lokað í kynferðisbrotamálum og brotaþolinn bara „vitni“ en ekki aðili máls.
Margir brotaþolar hafa sagt frá áfallinu sem þeir hafa orðið fyrir þegar þeir fengu bréf frá yfirvöldum um að málið hafi verið látið niður falla oft löngu eftir að brotið var framið. Brotaþolar hafa jafnvel greint frá því að aldrei hafi verið tekin almennileg skýrsla af þeim nema rétt eftir brotið þegar hugsun þeirra hafi ekki verið skýr og þeir í áfalli.
Nýlega kærðu níu konur íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málsmeðferðar íslenska réttarkerfisins. Konurnar höfðu kært ofbeldisbrot, nauðganir og áreitni til lögreglunnar en málin voru felld niður. Í minnst einu tilfelli hafði málið fyrnst í meðförum lögreglunnar eftir margra mánaða bið. Kvartað var yfir ýmsu, m.a. því að málsmeðferð tæki alltof langan tíma. Lykilvitni voru ekki kölluð til skýrslutöku og litið fram hjá skýrslum vitna sem studdu frásögn brotaþola. Litið var framhjá sönnunargögnum og líkamlegum áverkum og stundum var játning sakbornings jafnvel hunsuð. Neitun sakbornings virtist almennt vega þyngra en framburður brotaþola, studdur vitnum og sönnunargögnum.
Mannréttindadómstóllinn hefur krafið ríkið um svör vegna mála fjögurra kvennanna. Ríkið hefur ekki leitað sátta við konurnar fjórar en ríkinu ber að svara í síðasta lagi í september.
Dr. Hildur Fjóla Antonsdóttir er sennilega sá fræðimaður sem rannsakað hefur stöðu þolenda hvað best hér á landi. Fyrir tveimur árum vann hún prýðilega skýrslu fyrir stýrihóp forsætisráðherra um kynferðislegt ofbeldi.
Þar má lesa um upplifun brotaþola af réttarkerfinu hér á landi sem er nokkuð átakanleg lesning en einnig kynna sér réttarstöðu brotaþola á hinum Norðurlöndunum sem er nokkuð betri og tillögur til úrbóta svo sem að brotaþolar verði aðilar máls og fái aðgang að gögnum þess og að staða brotaþola verði jöfn stöðu sakbornings. Og atriði sem manni finnast svo sjálfsögð en eru alls ekki tryggð eins og að ríkið ábyrgist bætur til þolenda í einkamálum en þeir þurfi ekki sjálfir að standa í að reyna að rukka ofbeldismennina.
Eitt af því sem bent er á í skýrslunni er að brotaþolar upplifa oft að ofbeldinu sé með einhverjum hætti viðhaldið inni í refsivörslukerfinu. Þar segir:
„Erlendar rannsóknir á upplifun þolenda kynferðisbrota sem leita réttar síns hafa einnig leitt í ljós að lögregla, saksóknarar, dómarar og læknar líta í sumum tilvikum svo á að brotaþoli hafi með einhverjum hætti borið ábyrgð á ofbeldinu eða sé jafnvel að ljúga til um það (Campbell o.fl. 2001). Slík viðbrögð geta valdið því að brotaþolar upplifa það sem kallað er önnur árás eða annað áfall (Williams 1984; Madigan og Gamble 1991; Martin og Powell 1994). Það eru ekki eingöngu neikvæð viðbrögð opinberra aðila sem geta valdið brotaþolum öðru áfalli heldur einnig ákvörðun yfirvalda um að ekki verði aðhafst í málinu. Brotaþolar geta upplifað annað áfall ef lögregla ákveður að hætta rannsókn eða þegar saksóknarar ákveða að gefa ekki út ákæru í málinu (Campbell 1998; Hildur Fjóla Antonsdóttir 2018). Viðmót fagaðila innan réttarkerfisins og hvernig málið er meðhöndlað getur því verið gríðarlega mikilvægt fyrir andlega og líkamlega heilsu þeirra sem kæra brot.“
Öllum sem fylgst hafa með ætti að vera ljóst að kerfið er stórgallað og bregst brotaþolum ítrekað. Brotaþolum finnst þeir ekki fá áheyrn eða vera teknir alvarlega. Upp á síðkastið höfum við einnig horft upp á að Landsréttur hefur ítrekað mildað dóma í þeim fáu málum sem þó rata sína leið í gegnum dómskerfið og enda með sakfellingu.
Ég er ekki að halda því fram að rannsókn kynferðisbrota sé einföld. Það sem gerist á milli tveggja og engin vitni eru að getur verið, eðli málsins samkvæmt, erfitt að sanna. En stundum eru vitni, áverkar eða ýmis sönnunargögn en það virðist litlu skipta. Það er því ekkert skrítið þótt brotaþolar kæri sjaldnast brot sem þeir verða fyrir eða hafi gefist upp á réttarkerfinu.
Kynferðisbrot eru hræðilegir glæpir og afleiðingarnar geta verið langvarandi. Samfélagið allt hefur ítrekað brugðist brotaþolum og ekki bara nýlega. Fyrr á öldum var konum refsað fyrir barneignir utan hjónabands hér á landi, jafnvel þótt barnið hafi komið undir við nauðung. Nauðgarinn var oftar en ekki laus allra mála og jafnvel prestur eða sýslumaður. Svoleiðis er staðan jafnvel enn í einhverjum löndum heims. Það er heldur ekki svo langt síðan umræðan var á þann veg að konur gætu sjálfum sér um kennt ef brotið var á þeim kynferðislega. Þær voru ekki rétt klæddar, voru druslur, voru undir áhrifum áfengis, döðruðu eða brostu of mikið, buðu hættunni heim o.s.frv. Þessi viðhorf eru á undanhaldi en heyrast þó enn. Um kynferðisbrot gegn öðrum en konum var einfaldlega ekki talað.
Nú er árið 2021. Töluvert hefur áunnist í áranna rás en samt er staðan sú að margar konur hafa ítrekað lent í kynferðisbrotum, krafist réttlætis eftir lögformlegum leiðum en ekkert gerist. Þær gætu allt eins hafa talað við stein og stundum hefur baráttan fyrir réttlæti viðhaldið skaða ofbeldisins, virkað eins og önnur árás.
Ég vil lifa í samfélagi þar sem enginn er fundinn sekur uns en sekt er sönnuð en þá verður líka að taka kynferðisbrot alvarlega, hlusta á brotaþola, styrkja stöðu þeirra í réttarvörslukerfinu, rannsaka málin og fylgja þeim eftir. Á meðan málsmeðferð þessara mála er jafn broguð og raun ber vitni hafa brotaþolar engin önnur úrræði en að segja frá – nýta málfrelsi sitt, jafnvel þótt töluverðar líkur séu á að þeir hljóti dóm fyrir meiðyrði. Samt er tjáningarfrelsi brotaþola er líka mannréttindi og allir eiga rétt á að greina frá reynslu sinni og upplifun án þess að hljóta dóma fyrir.
Almenningsálitið og opinber umræða um einstök mál er sannarlega ekki heppileg málsmeðferð en nú er svo komið að margir brotaþolar og aðstandendur þeirra sjá ekki aðra leið færa. #metoo frásagnir eru í raun neyðarréttur fólks sem kerfið og samfélagið allt hefur brugðist.
Höfundur er rithöfundur.