Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, skrifar grein sem birtist á Kjarnanum í dag með fyrirsögninni „Leiðréttingin hefur hverfandi áhrif á verðbólgu“. Þar segir hann meðal annars að vel heppnuð skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar hafi „farið mjög fyrir brjóstið á pólitískur andstæðingum“ hennar.
Sigurður Már fjallar í kjölfarið um að „hrakspár spámanna, m.a. Kjarnans, um stóraukna verðbólgu hafa augljóslega ekki gengið eftir. Verðbólguvæntingar hafa ekki hækkað vegna Leiðréttingarinnar sem sennilega kemur til af ánægju markaðsaðila með framkvæmd hennar“. Þessa pillu rökstyður upplýsingafulltrúinn síðan með því að verðbólga sé lítil.
Sigurður Már fullyrðir svo eftirfarandi: „Þann 27. mars sl. kynnti Kjarninn þá stórfrétt að Leiðréttingin ýtti undir verðbólgu. Þá hafði verðbólgan hækkað einn mánuðinn og var 1,6%, eða tæpu prósentustigi lægri en verðbólgumarkmið Seðlabankans. Ekki taldi Kjarninn það hins vegar fréttnæmt mánuði síðar þegar verðbólgan fór niður í 1,4%. Það er einfaldlega fráleitt að bera verðbólguáhrif Leiðréttingarinnar saman við þá verðbólguógn sem stafar af kjarasamningum. Þangað ættu tíðindamenn Kjarnans að beina sjónum sínum.“
Hærra húsnæðisverð=hærri verðbólga
Þessi framsetning er verulega skökk. Til að byrja með treystir Sigurður Már sér ekki til að fullyrða að skuldaleiðréttingin valdi ekki verðbólgu, heldur segir hana hafa hverfandi áhrif. Ástæðan er væntanlega sú að hann veit, líkt og allir greiningaraðilar utan þess sem ríkisstjórnin réð sérstaklega til þess að greina verðbólguáhrif, hafa komist að þeirri niðurstöðu að leiðréttingin muni skapa verðbólgu. En þeir eru kannski allir pólitískir andstæðingar.
Áhrif skuldaleiðréttingarinnar, sem byrjað var að greiða út á fyrstu mánuðum þessa árs, eru rétt að byrja að koma í ljós. Það er kannski bara tilviljun að raunfasteignaverð hafi hækkað um fimm prósent á síðustu mánuðum, á sama tíma og áhrif leiðréttingarinnar byrja að tikka inn, en líklegra er að um ruðningsáhrif vegna leiðréttingarinnar sé að ræða. Enda hefur íbúðaverð hækkað meira á nokkrum mánuðum en næstum árið á undan.
Á Íslandi er húsnæðisliðurinn hluti af neysluvísitölunni og því leiðir hækkandi húsnæðisverð til...hærri verðbólgu. Án húsnæðisliðarins hefði verið verðhjöðnun á Íslandi undanfarna mánuði.
Sigurður Már virðist halda að lág verðbólga sé vegna ánægju með leiðréttinguna. Í nýbirtu Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands segir að verðbólga hafi verið töluvert undir verðbólgumarkmiði þorra síðasta árs, en hafi hækkað síðan þá. „Sterkt gengi krónunnar ásamt lágu innflutningsverði, einkum olíu, ræður miklu um verðbólgustigið. Horfur eru á að verðbólga aukist hóflega næstu misserin en hún gæti aukist mun hraðar ef olíuverð hækkar umtalsvert á ný eða ef samið verður um ríflegar launahækkanir í yfirstandandi kjaraviðræðum.“ Seðlabankinn er því þeirrar skoðunar að það sé einkum verðlækkun á olíu sem veldur lægri verðbólgu. En hann er kannski líka pólitískur andstæðingur.
Sigurður Már klikkir síðan út að Kjarninn hafi flutt frétt um að Leiðréttingin hefði ýtt undir verðbólgu. Hann lætur í það skína að eitthvað óeðlilegt hafi ráðið þeim fréttaflutningi og segir að Kjarninn hafi ekki séð tilefni til að segja fréttir af því næstu mánaðarmót eftir þegar verðbólgan lækkaði lítillega.
Ekki skoðun heldur niðurstaða greiningardeildar
Í fyrsta lagi var sú frétt Kjarnans sem Sigurður Már vísar í um greiningu Greiningardeildar Íslandsbanka. Hún benti á að vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, hafi hækkað um eitt prósentustig milli febrúar og marsmánaða og að jafn snörp hækkun hafi ekki átt sér stað milli mánaða síðan í febrúar 2013. Niðurstaða Greiningardeildar Íslandsbanka, ekki Kjarnans, var sú að þessi hækkun væri, að minnsta kosti að hluta, tilkomin vegna Leiðréttingarinnar enda hafi áhrif hennar á greiðslubyrði og veðrými lántakenda að langmestu leyti komið fram á því tímabili.
Greiningardeildin bætti svo um betur í apríl þegar hún sagði að hröð hækkun á kaupmætti ráðstöfunartekna heimilanna og áhrif aðgerða ríkisstjórnarinnar til lækkunar á verðtryggðum lánum heimila, hin svonefnda Leiðrétting, eru undirliggjandi ástæður þess að hækkun íbúðaverðs hefur verið hröð undanfarið. Þessi hækkun hefur einnig valdið aukinni verðbólgu og þar með „dregið úr þeim ávinningi mælt í auknu eigin fé heimilanna sem húsnæðisverðhækkunin hefur skilað.“ Greiningardeild Íslandsbanka er líklega pólitískur andstæðingur.
Og það er rangt að Kjarninn hafi ekki greint frá því að verðbólga hafi lækkað um síðustu mánaðarmót. Þá frétt má lesa hér.
Í ritstjórnarefni Kjarnans hefur aldrei verið borið saman verðbólguáhrif Leiðréttingarinnar annars vegar og hins vegar sú ógn sem starfi af kjarasamningum. Þeir tíðindamenn sem Sigurður Már ræðir um eru því aðrir en Kjarnans.
Það stendur því eiginlega ekkert eftir af málflutningi upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar nema rangar ásakanir.
Varðhundur hagsmuna og sjónarmiða
Kjarninn hefur verið berorður í skoðanagreinum um Leiðréttinguna. Hún er að mati ritstjórnar hans óréttlát og tilviljunarkennd aðgerð sem veldur hækkun á verðbólgu og ruðningsáhrifum á fasteignamarkaði. Þetta eykur misskiptingu milli þeirra sem eiga mikið og þeirra sem eiga ekkert í íslensku samfélagi, þeim sem eiga mikið í hag. Peningarnir sem verið er að gefa úr ríkissjóði enda að hluta til hjá efnafólki á meðan að þeir sem minnst mega sín í samfélaginu fá ekkert út úr Leiðréttingunni annað en hærra verð á húsnæði (sem þeir hafa hvorki efni á að kaupa eða leigja) og aukna verðbólgu. Þessi afstaða ritstjórnar Kjarnans byggir á skynsemi og gögnum eftir að staðreyndir málsins höfðu verið skoðaðar. Um þessa afstöðu má til dæmis lesa hér.
Afstaðan hefur líkast til gert okkur að pólitískum andstæðingum ríkisstjórnarinnar í huga Sigurðar Más og því ákveður hann að beina röngum fullyrðingum sínum að Kjarnanum.
Við þetta er margt að athuga. Sigurður Már er upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Íslands. Hann er á launum hjá almenningi. Þau laun virðist hann þiggja fyrir að vera varðhundur sjónarmiða ákveðins hluta ríkisstjórnarinnar. Þess hluta sem á mikið pólitískt undir því að Leiðréttingin verði litin jákvæðum augum. Í starfi hans virðist því felast mun frekar spuni en nokkurn tímann upplýsingagjöf. Það er óskiljanlegt að skattgreiðendur þurfi að greiða beint fyrir slíkt starf. Betur færi á því að flokkarnir sem telja sig njóta ábata af spunanum greiði fyrir hann af sínu rekstrarfé.
Ef þú ert ekki sammála mér þá ertu andstæðingur
Í þeirri grein sem Sigurður Már birti á Kjarnanum í dag sjást tilþrif sem hafa verið einkennandi fyrir hann í því starfi sem hann gegnir. Þar er verið að reyna að hólfa þá sem eru ósammála honum og hans yfirmönnum niður sem einhverja sérstaka „andstæðinga“. Í þann hóp falla þá væntanlega þingmenn Sjálfstæðisflokksins á borð við Pétur Blöndal, Vilhjálm Bjarnason og varaþingmanninn Oddgeir Ágúst Ottesen sem allir hafa gagnrýnt Leiðréttinguna. Fleiri skoðanir en ein á fordæmalausum stjórnvaldsaðgerðum rúmast víst ekki í svart hvítum heimi Sigurðar Más.
Verst er þó niðurlag pistils upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar þar sem hann segir „tíðindamönnum“ Kjarnans hvert þeir eigi að beina sjónum sínum. Er það hlutverk hans að segja fjölmiðlum hvað þeir eigi að skrifa um? Hvaða fréttir skipti máli og hverjar ekki? Nei, og það er beinlínis ósmekklegt hjá manni í hans stöðu að leggja slíkt til.
Það blasir við að mikill titringur er á meðal þeirra sem bundu sitt pólitiska líf við Leiðréttinguna. Framkvæmd hennar hefur ekki skilað þeim neinu nema fylgistapi. En það réttlætir ekki þá aðgerð upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar að bera ósannindi upp á nafngreindan fjölmiðil sem hefur skrifað skoðanagreinar um hversu vond aðgerð tugmilljarða króna peningagjöf úr ríkissjóði til sumra var. Ritaðir fjölmiðlar hafa alltaf haft skoðanir á stærstu málefnum líðandi stundar. Og óþol Sigurðar Más gagnvart þeim munu ekki breyta neinu þar um. Að minnsta kosti ekki hjá ritstjórn Kjarnans.