Þessa dagana á sér stað umræða um að takmarka réttindi þeirra sem ekki hafa látið bólusetja sig gegn COVID-19, líkt og gert er víða í Evrópu. Ástæða þess er sú að óbólusettir eru líklegri til að smitast og bera smit áfram auk þess að vera hlutfallslega séð þyngri baggi á heilbrigðiskerfinu. Með því að takmarka réttindi óbólusettra má hugsa sér að einhverjir myndu láta til leiðast og þiggja bólusetningu, sem myndi svo hjálpa til í baráttunni við veiruna og þar með auka frelsi og hag heildarinnar. Þetta er þó flóknara álitaefni en svo því það er alls ekki öruggt að slíkar takmarkanir á réttindum óbólusettra muni bera tilætlaðan árangur. Þeir sem ekki hafa þegið bólusetningu gætu, eðlilega, upplifað takmarkanirnar niðurlægjandi og styrkst í neikvæðri afstöðu sinni til bólusetninga. Þeir gætu enn fremur í mótmælaskyni virt sóttvarnarreglur og -tilmæli að vettugi og þar með aukið smithættu. Þá erum við á sama stað og áður nema með aukna sundrung og óeiningu. Fyrir utan að slík stefna jaðarsetur tiltekinn hóp og það eitt og sér eru sterk rök á móti.
Sérfræðingar telja líka að skilningur gagnvart þeim sem eru hikandi við bólusetningar sé heppilegri leið en jaðarsetning til að sannfæra þá um gildi bólusetningu (þó mismunandi reglur fyrir bólusetta og óbólusetta séu vissulega sanngjarnar og réttmætar við ákveðnar aðstæður, t.d. varðandi reglur um sóttkví og einangrun). Því verður samt ekki neitað að það er samfélagslegt vandamál þegar stór hópur fólks neitar bóluefnunum í miðjum heimsfaraldri. Rót vandans liggur aftur á móti ekki í þeirri ákvörðun hvers og eins að neita sprautunni. Nei, rót vandans liggur í þeim upplýsingum sem sá hópur hefur fengið um bóluefni. Rót vandans er óreiða upplýsinga.
Faraldur rangra og villandi upplýsinga
Upplýsingaóreiða er samfélagslegt mein. Hún hefur til að mynda gert vart við sig í frjálsum stjórnmálakosningum í lýðræðisríkjum og mögulega haft áhrif á niðurstöður einhverra þeirra. Þá er hún oft áberandi í umræðunni um hlýnun jarðar og getur þannig komið í veg fyrir eða hindrað þær aðgerðir sem þörf er á til að afstýra yfirvofandi umhverfishörmungum. Hún er þó ekki minna vandamál á tímum heimsfaraldurs þar sem líf, heilsa og viðurværi fólks er undir. Við þurfum ekki að leita langt til að sjá þær hörmulegu afleiðingar sem upplýsingaóreiða getur leitt af sér. Þannig hefur verið afar slæm þátttaka í bólusetningum í Bandaríkjunum, þrátt fyrir að landið hafi eitt besta aðgengi að bólusetningu og hefði fyrir löngu getað verið búið að bólusetja allt fullorðið fólk og unglinga, en yfir 170.000 manns hafa dáið þar í landi vegna veirunnar frá 1. júlí 2021 og smitum hefur tekið að fjölga á ný. Sama er á uppi á teningnum í ýmsum Evrópulöndum þar sem skelfilega lágt bólusetningarhlutfall hefur þvingað ríkisstjórnir til að grípa til harðra sóttvarnaaðgerða á borð við útgöngubann til þess að verja heilbrigðiskerfi þeirra.
Það er því ekki að ástæðulausu að í september á síðasta ári gáfu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, Sameinuðu þjóðirnar, UNICEF auk fjölda annarra alþjóðastofnana út sameiginlega fréttatilkynningu þar sem þjóðir heimsins voru hvattar til að grípa til aðgerða gegn útbreiðslu rangra og villandi upplýsinga um heimsfaraldur COVID-19, því sem hefur verið kallað upplýsingafaraldur (e. infodemic).
„Skop“myndateikningar Morgunblaðsins
Teiknarinn Helgi Sigurðsson hefur lengi verið þekktur fyrir vondar skoðanir (og lélegan húmor). Það kemur því ekki á óvart að hann hafi gleypt við hverju því bulli og vitleysu sem rekið hefur á fjörur hans um COVID-19. Afar reglulega hefur hann birt á síðum Morgunblaðsins skopmyndir sem eru hreinn hræðsluáróður um bóluefni COVID-19. Þá hefur hann líka kolfallið fyrir hinu meinta kraftaverkalyfi Ivermectin þrátt fyrir að það sé breið samstaða meðal læknasamfélagsins að lyfið hafi ekki sannað gildi sitt gegn COVID-19 sjúkdóminum, þó ekki sé útilokað að það geti haft einhver jákvæð áhrif en þá helst í löndum þar sem þráðormur er landlægur. Eina sem er verra en skopmyndir Helga er sú ákvörðun ritstjórnar Morgunblaðsins að leyfa þessum áróðri að birtast í blaðinu. Til að sýna samfélagslega ábyrgð og auka trúverðugleika væri réttast ef blaðið myndi slíta samstarfi sínu við Helga Sig, en líkurnar á því eru álíka miklar og að næsta mynd Helga verið fyndin. Það er samt mikilvægt að halda því til haga að Morgunblaðið ber ábyrgð á upplýsingaóreiðu Helga.
Grímulaus greinaskrif
Í þeim tilgangi að styrkja opna þjóðfélagsumræðu leyfa flestir fjölmiðlar aðsendar blaðagreinum óháð efnistökum og að uppfylltum formskilyrðum. Það er gott og blessað. Að mínu mati ættu fjölmiðlar þó ekki sjálfkrafa að birta greinar ef í þeim er að finna augljóslega rangar og villandi upplýsingar sem varða almannaheill, en þá markalínu getur verið erfitt að finna. Ef við tökum grímur sem dæmi þá er afstaða heilbrigðisyfirvalda hér á landi og vísindamanna almennt sú að grímur draga úr smitum. Aftur á móti er deilt um hversu mikið grímur draga úr smitum og sömuleiðis hvernig er best að haga grímureglum eða -tilmælum. Hvað þá með grein sem dregur virkni gríma í efa með vafasamri vísindalegri nálgun? Anna Tara Andrésdóttir, doktorsnemi í heila-, hugarstarfsemi og hegðun, skrifaði slíka grein síðasta vor og Vísir mun hafa hafnað henni, m.a. með vísan til þess að þú eigir rétt á þínum skoðunum en ekki þínum staðreyndum. Kjarninn mun hafa birt hana og þá birtist framhaldsgrein í Stundinni, en síðarnefndi fjölmiðill birti hana þó með fyrirvara um að efni hennar hafi ekki verið sannreynt af ritstjórn auk þess að vísa í opinberar ráðleggingar um grímunotkun. Að mínu mati eru greinarnar skýrt dæmi um upplýsingaóreiðu en hvort ábyrgum fjölmiðli bæri að synja þeim birtingu skal ósagt látið.
„Raddir verða að heyrast"
Það er ágætt að hafa í huga að fjölmiðill brýtur ekki á tjáningarfrelsi neins með því að neita viðkomandi um birtingu greinar. Að sama skapi ber fjölmiðlum engin skylda til að sjá til þess að öll sjónarmið komist að þegar málefnið varðar almannaheill. Slíkt getur leitt til svokallaðs falsks jafnvægis, t.d. þegar talsmaður efahyggjumanna um hnattræna hlýnun, agnarsmár hópur, er fenginn til að rökræða við vísindamann í loftslagsmálum hvort athafnir manna séu að valda hlýnun jarðar. Þetta á sérstaklega við þegar viðmælandinn er þekktur fyrir ofurdreifingu rangra upplýsinga.
Fyrir stuttu mætti Jóhannes Loftsson, formaður Frjálshyggjufélagsins, forsprakki Kóviðspyrnunnar og leiðtogi stjórnmálaaflsins Ábyrg framtíð, í útvarpsþáttinn Í bítið á Bylgjunni. Þáttastjórnendur hófu viðtalið á orðunum „Raddir verða að heyrast“ og því var ljóst að þeir Gulli og Heimir vissu vel upp á sig sökina að fá Jóhannes til sín, enda ekki í fyrsta skipti sem hann mætir til þeirra. Með óljósri tilvísun í meinta skyldu sína um að leyfa öllum röddum samfélagsins að heyrast vörpuðu þeir hins vegar frá sér allri ábyrgð á því sem Jóhannes hafði að segja. Það var síðan viðbúið að hlustendum var boðið upp á andvísindalegt bull og kjaftæði um COVID-19, bóluefni og Ivermectin (og nei, Robert Malone er ekki uppfinningamaður mRNA tækninnar og alls ekki marktækur sérfræðingur). Þrátt fyrir að þáttastjórnendur hefðu reynt hvað þeir gátu að hrekja staðhæfingar Jóhannesar þá skipti það ekki máli. Með gish gallop tækni var Jóhannes búinn að tryggja sér „sigur“ áður en viðtalið byrjaði og skaðinn skeður að því loknu. Rétt eins og með Morgunblaðið og Helga Sig þá væri réttast, ef Gulli og Heimir vilja sýna samfélagslega ábyrgð og auka trúverðugleika þáttar síns, að Jóhannesi verði ekki boðið aftur í þáttinn. Sama gildir um aðra þætti sem hafa fengið hann í viðtal, m.a. síðdegisútvarpið á Útvarpi Sögu, Ísland vaknar á K-100 og Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.
Hversdagsleg, væg upplýsingaóreiða
Dreifing rangra og villandi upplýsinga er ekki nýtt vandamál en með tilkomu internetsins og samfélagsmiðla hefur það orðið stærra og flóknara. Þeir sem búa til og eru uppspretta upplýsingaóreiðu fá góðan stuðning frá algrímum samfélagsmiðla og tæknifyrirtækja, sem eiga það til að ýta undir öfgakennd sjónarmiðið eins og hræðsluáróður um bólusetningar. Þegar hinn alræmdi Joseph Mercola, einn af þeim 12 einstaklingum sem bera ábyrgð á megninu af rangfærslum um bóluefni og bólusetningar á netinu, deildi skopmynd á Twitter af fólki ganga inn og út um dyr til að þiggja bólusetningu þá er það óumdeilanlega skaðleg upplýsingaóreiða um bóluefni.
Við berum líka ábyrgð
Að lokum er rétt að spyrja: Hef ég með þessum pistli stuðlað að upplýsingaóreiðu? Ég vona sannarlega ekki. Aftur er á móti er ég enginn sérfræðingur, hvorki á sviði læknisfræði, faraldsfræði, veirufræði né nokkurra annarra tengdra sérfræðisviða. Þó ég hafi eftir fremsta megni reynt að byggja á skoðunum málsmetandi sérfræðinga þá er næstum því allt í þessum faraldri háð samhengi og blæbrigðum sem auðvelt er að yfirsjást. Með öðrum orðum: Þetta er flókið. Vísindaleg þekking er alltaf á hreyfingu og í miðjum heimsfaraldri er hún á sérstaklega hraðri hreyfingu. Það þýðir ekki að við getum ekki tekið afstöðu en við þurfum þrátt fyrir það að vanda okkur og undirbyggja umræðuna með réttum upplýsingum og nauðsynlegu samhengi. Þá eigum við heldur ekki að vera óhrædd að breyta skoðunum okkar í ljósi nýrra upplýsinga og rannsókna, því þannig virka vísindi.
Þó ein endurunnin plastflaska geri ekkert í stóra samhengi umhverfis- og loftslagsmála þá erum við samt flest öll sammála um að endurvinnsla sé af hinu góða, enda gerir margt smátt eitt stór. Að sama skapi, þó þátttaka hvers og eins í umræðunni um COVID-19 og bóluefnin spili lítið hlutverk þá skiptir samtakamátturinn máli. Búum því til betri umræðu og gefum ekki upplýsingaóreiðunni andrými.
Höfundur er lögfræðingur.