Könnun MMR um mat almennings á persónueiginleikum nokkurra stjórnmálaleiðtoga vakti mikla athygli í vikunni. Þar kom fram að afar fáir aðspurðra töldu Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra (níu prósent) og Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, (tíu prósent) vera heiðarlega. Þá töldu einungis fimm prósent svarenda að leiðtogar sitjandi ríkisstjórnar væru í tengslum við almenning.
Bjarni gagnrýndi könnunina í gær og setti spurningarmerki við hvort hægt sé að mæla heiðarleika eða tengsl við almenning í svona könnununum. „Erum við virkilega í svo slæmum málum að það sé óþarfi að efast þegar „stjórnmálastéttin“ fær falleinkunn?,“ spurði Bjarni.
Allar kannanir sýna gjá
Það er samt ekki eins og að nýjasta könnun MMR sé eina vísbending þess að lítið traust sé milli almennings og þeirra stjórnmálamanna sem stjórna landinu. Traust á Alþingi Íslendinga mælist 18 prósent. Það þýðir að rúmlega fjórir af hverjum fimm Íslendingum treystir ekki löggjafasamkundunni. Enn færri, 17,4 prósent, bera frekar eða mjög mikið traust til ríkisstjórnarinnar. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist síðan 35,9 prósent. Það þýðir að tæplega tveir að hverjum þremur landsmönnum styður hana ekki.
Stuðningur við flokkinn sem leiðir ríkisstjórnina, Framsóknarflokkinn, mælist tíu prósent. Níu af hverjum tíu landsmönnum með kosningarétt myndi ekki kjósa flokk forsætisráðherrans. Einungis tæplega einn af hverjum fjórum myndi kjósa samstarfsflokk hans, Sjálfstæðisflokkinn.
Vantraust líka til staðar á síðasta kjörtímabili
Vantraust á stjórnmálin er raunar ekkert nýtt. Traustið hvarf við hrunið og hefur ekki verið til staðar nema að litlu leyti og til skamms tíma í senn síðan þá. Árið 2011 töldu til að mynda einungis 1,8 prósent aðspurðra í könnun Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, vera gædda persónutöfrum og 5,4 prósent töldu hana ekki vera í tengslum við almenning. Útkoma Steingríms J. Sigfússonar, hinu höfðinu á síðustu ríkisstjórn, var aðeins skárri, en ekki mikið. Sú könnun var reyndar tekin mánuði fyrir síðari Icesave-þjóðaratkvæðagreiðsluna, einu erfiðasta máli sem íslensk samtímastjórnmál hafa tekist á við þar sem ásakanir um landráð gengu á víxl og vinsældir vinstri stjórnarinnar voru meira að segja litlar sem engar innan eigin raða.
Árið 2011 töldu til að mynda einungis 1,8 prósent aðspurðra í könnun Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, vera gædda persónutöfrum og 5,4 prósent töldu hana ekki vera í tengslum við almenning. Útkoma Steingríms J. Sigfússonar, hinu höfðinu á síðustu ríkisstjórn, var aðeins skárri, en ekki mikið.
Á þessum lágpunkti töldu samt sem áður 20,5-22,1 prósent þau Jóhönnu og Steingrím vera heiðarlegt fólk. Það eru margfalt fleiri en telja Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugssson vera heiðarlega nú. Það sýnir alvarlega stöðu stjórnmálanna í dag.
Hegðun sem skapar tortryggni
Hvað veldur? Af hverju treysta Íslendingar ekki stjórnmálamönnunum sínum? Af hverju telja þeir þá ekki heiðarlega eða í tengslum við almenning?
Ástæðan er einföld. Það er of margt í atferli og ákvörðunum stjornmálamanna sem gefur tilefni til að tortryggja tilgang og markmið þeirra.
Bara í þessari viku er hægt að telja til fjölmörg dæmi. Til dæmis var upplýst að eiginkona þingmanns Framsóknarflokksins myndi fá tugmilljóna króna makrílkvóta gefins verði frumvarp um að gefa makrílkvótann að lögum. Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, snéri aftur á þing og fór í viðtal þar sem hún virtist líta meira á sig sem fórnarlamb en geranda í því dæmalausa valdníðslumáli sem kennt er við leka fyrrum aðstoðarmanns hennar á persónulegum upplýsingum um hælisleitendur.
Eftir að hafa verið þráspurður um fjárhagsleg tengsl sín við orkuútrásarfyrirtæki í 20 daga upplýsti Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, loks að stjórnarformaður fyrirtækisins, sem hann veitti stuðning á erlendum vettvangi, hefði keypt af honum íbúð og leigt aftur til að hjálpa sér í miklum fjárhagslegum erfiðleikum. En ekki fyrr en að blaðamaður hafði komist að því og beint spurningum til Illuga um málið. Sem hann kaus síðan að svara á öðrum vettvangi sem hafði aldrei spurt hann út í íbúðarkaupin.
Bankabónusar og Borgun
Í vikunni var líka upplýst um að fjármála- og efnahagsráðuneyti Bjarna Benediktssonar telji ekkert athugavert við að starfsmenn í viðskiptabönkum með ríkisábyrgð sem voru endurreistir með innstæðum almennings og völdum eignum eftir að fyrirrennarar þeirra settu Ísland á hausinn fái allt að 50 prósent af árslaunum í bónusa.
Ráðuneytið sendi frá sér minnisblað um þetta í sömu viku þúsundir eru að fara í verkfall vegna þess að þeir vilja fá lágmarkslaun sem duga fyrir framfærslu. Það er hins vegar ekki hægt að veita þessu fólki þau lágmarkslaun vegna þess að þá étur verðbólga upp kaupmátt. En hærri laun bankamanna, atvinnustjórnarsetumanna eða annarra í efra lagi íslensks samfélags virðast ekki valda verðbólgu. Þegar þau hækka er talað um leiðréttingu, ekki launahækkun.
Og loks var í vikunni skýrt frá nýjasta kaflanum í hinni ótrúlega atburðarrás í kringum eignarhaldið á Borgun. Sú hófst í lok síðasta árs þegar hópur, sem inniheldur meðal annars skyldmenni fjármála- og efnahagsráðherra, keypti tæpan þriðjung í Borgun af ríkisbankanum Landsbanka á bakvið luktar dyr, án auglýsingar og, að margra mati, á allt of lágu verði. Nokkrum mánuðum síðar var borgaður arður út úr Borgun upp á 800 milljónir króna. Þar af fóru 250 milljónir króna til hópsins sem var nýbúinn að kaupa sig inn í Borgun.
Ekki þjóðinni að kenna að hún treystir ekki stjórnmálamönnum
Það er alveg rétt hjá Bjarna Benediktssyni að könnun sem mælir heiðarleika eða tengsl stjórnmálamanna við almenning er alls ekki hafin yfir gagnrýni. En hún, og allar hinar kannanirnar, sýna að við sem samfélag glímum við ótrúlega djúpa stjórnmálakreppu. Einu stjórnmálaleiðtogarnir sem taldir eru sterkir eru forsetinn, sem þjóðin annað hvort elskar eða hatar, og Katrín Jakobsdóttir, sem stýrir flokki sem mælist með minna fylgi en Framsókn í könnunum.
Þjóðin treystir ekki stjórnvöldum og það leysir ekki vandamálið að láta eins og að það sé þjóðinni að kenna, ekki stjórnmálamönnunum. Að halda því bara fram að ástæðan sé sú að þjóðin hafi bara ekki náð því hversu góðir stjórnmálamennirnir séu.
Þjóðin treystir ekki stjórnvöldum og það leysir ekki vandamálið að láta eins og að það sé þjóðinni að kenna, ekki stjórnmálamönnunum. Að halda því bara fram að ástæðan sé sú að þjóðin hafi bara ekki náð því hversu góðir stjórnmálamennirnir séu. Eða að sökin liggi í neikvæðni fjölmiðla og illmælgi samfélagsmiðlakóna.
Það skortir algjörlega alla auðmýkt gagnvart því að almenningur sé ekki heimsk hjörð sem fylgi múgæsingu í blindni. Almenningur er nefnilega ekki heimskur. Þvert á móti er hann alltaf að verða upplýstari með betra aðgengi að upplýsingum. Og þá upplýsingu notar hin vel gefna íslenska þjóð til að undirbyggja skoðanir sínar betur og betur.
Kannanirnar sem farið er yfir hér að ofan sýna að íslenskur almenningur er ekki ánægður með það sem stjórnmálamenn bera á borð fyrir hann. Þær eru að minnsta kosti skýr skilaboð til stjórnmálamanna um að þeir þurfi að breyta því hvernig þeir vinna vinnuna sína. Samanreiknaðar sýna þær að stjórnmálunum hefur verið gefin falleinkunn.
Ef stjórnmálamennirnir sjá það ekki þá eru þeir ekki bara úr tengslum við almenning, heldur úr tengslum við raunveruleikann.