Útskýring – leikrit í einum þætti

Anna Dóra Antonsdóttir, rithöfundur, skrifar leikrit um meðlimi í „sérstöku Öryggisráði plágunnar sem stofnað var á dögum heimsfaraldurs“.

Auglýsing

Sviðið er fundarherbergi á ótilgreindum stað. Fundarborð og átta stólar á sviði.

Persónur eru 8: Forsætisráðherra, fjármálaráðherra, sóttvarnarráðherra, flug- og rútubílaráðherra, sá bólusetti (aldraður maður með staf), sá óbólusetti, litli símamaðurinn og fulltrúi lækna.

Allar persónur eru meðlimir í Sérstöku Öryggisráði plágunnar sem stofnað var á dögum heimsfaraldurs. Deilur stóðu um hvort litli símamaðurinn ætti erindi í slíkt Ráð en niðurstaðan varð sú að það gæfi Ráðinu trúverðugan svip út á við.

Forsætisráðh.: Þar sem ég er sjálfskipaður fundarstjóri býð ég ykkur öll velkomin og vona að umræður verði málefnalegar. Ennþá er vá fyrir dyrum í samfélaginu þar sem enn greinast smit, nú er indverska veiran komin til landsins og hópsmit úti á landi.

Sóttvarnarráðh.: Ég er órólegur, ég verð að segja það. B.1.617 er ekkert lamb að leika sér við. Ég hefði líklega átt að vera ákveðnari í reglugerðunum. Kannski hefði átt að vanda betur síðasta frumvarp.

Fjármálaráðh.: Síðasta frumvarp, bíddu, hvaða frumvarp var það nú aftur? Var það krossgötufrumvarpið?

Litli símam.: (Skellihlæjandi) Krossgötur, hvert lágu þessar götur allar? Var einhver smitlaus gata?

Forsætisráðh.: (Lítur hvasst á litla símamanninn) Ég frábið mér allan galgopaskap, þetta verður að taka alvarlega. Strákarnir eru víst farnir að auglýsa á Times Square svo eitthvað verður til bragðs að taka. Þeir vilja fara að fá peninga í kassann aumingja mennirnir, annars fáum við bara fluggeirann í fangið.

Hitt er spurning hvort við ættum ekki að bólusetja ríkisstjórnina í þriðja sinn, svona til öryggis.

(Litli símamaðurinn hlær ákaft og sá óbólusetti býr sig undir að taka til máls).

Auglýsing

Flug- og rútub.ráðh.: (Lágt við fjármálaráðherra sem situr við hlið hans) Ég var alltaf á móti því að hleypa litla símamanninum í þetta Ráð. (Hærra) Auðvitað vilja allir peninga í kassann og það verður bara að segja eins og er að fermingar, brúðkaup og jarðarfarir gefa lítið af sér, að minnsta kosti í samanburði við blessaða túristana. Túristarnir koma með peningana sem við þurfum svo sárt á að halda.

Sá óbólusetti: (Óþolinmóður) Mætti maður taka til máls, minn hópur er auðvitað algjörlega andvígur opnun landamæra og við höfum á tilfinningunni að bóluefni sé af skorn ...

Sóttvarnarráðh.: (Grípur fram í) Við höfum nægar brigðir af þessu danska þarna – Jansen og Kínverjar hafa lofað okkur ótakmörkuðu magni af sínu efni, þeir eru nú alltaf í þumlinum við okkur. Svo hafði Kýpur samband, og vildi bjóða okkur bóluefni sem þeir framleiða, þeir mega nú kallast vinaþjóð okkar og mér finnst ekki skipta höfuðmáli hvort Evrópusambandið er búið að leggja blessun sína yfir það. Við eigum bara að sprauta með því sem við fáum. Okkur kemur ekkert við hvað Norðmenn og Danir eru að banna eða ekki banna.

Fjármálaráðh.: (Hallar sér fram á borðið með hönd á lofti) Algjörlega sammála síðasta ræðumanni. Danir voru búnir að stjórnast nógu lengi með okkur, við hlustum ekki á bullið í þeim lengur. (Þegir smástund) Eða þá Norðmenn, sem vildu og vilja enn stela sjálfum Snorra Sturlusyni frá okkur og konungasögunum og, og …

Forsætisráðh.: Svona, svona við skulum halda okkur við efnið, bóluefnið.

Sá bólusetti: Já, í öllum guðanna bænum takið hlutunum með ró, nú er búið að bólusetja fullt af fólki, fullt af fólki ...

Sá óbólusetti: (Grípur fram í, orðinn mjög æstur) Þú getur trútt um talað, kominn á eftirlaun og þarft ekkert fyrir lífinu að hafa, en við, við sem berum atvinnulífið uppi og framfærsluna, við eigum bara að vera úti í kuldanum og veikjast. Ég segi það satt að ...

Litli símam.: (Iðar í skinninu) Já láttu þá hafa það óþvegið, ætli sé ekki komin bullandi spilling í þessi bólusetningarmál, lyfjafyrirtækin græða og græða, Indverjar eiga í vök að verjast og við eyðum tímanum í einskis nýtar umræður.

Forsætisráðh.: Þið eruð með alltof mikil framíköll, mér finnst ég sé að missa tökin á fundinum, ég bið ykkur að rétta upp hönd og þá fáið þið orðið.

Fulltrúi lækna: (Réttir upp hönd) Það verða öll sjónarmið að koma fram, við læknar erum fremur andvígir opnun landamæra og ég verð bara að segja að þegar heimsfaraldur geisar ætti heldur að hlusta á lækna en forystumann ferðamála sem útskýrir allt á einn veg sem sé: okkur vantar túrista, okkur vantar peninga. Við verðum líka að huga að sjúkrahúsplássum, og mannskap. Það þarf mannskap til að sprauta, gleymið því ekki, hvort sem við tölum um Jansen, Kínverja eða Kýpur. Heimsplága getur staðið lengi yfir.

Flug- og rútub.ráðh.: (Mjög óþolinmóður) Já, já já, stórabóla gekk í margar aldir og voru það ekki prestar og hreppstjórar sem bólusettu við henni, ekki man ég betur, við getum látið prestana bólusetja þeir kunna bæði grísku og latínu og geta vel lært að fara með sprautunál, það geta raunar allir lært.

Og ég segi bara, ekki tala illa um útskýringar ferðamálaforystunnar. (Lágt við fjármálaráðherra) Við hefðum eiginlega átt að fá Útskýrandann sjálfan sem gest á fundinn, hann er svo sannfærandi. (Enn lægri röddu) Hann er að setja pressu á okkur fyrir kosningarnar í haust. Þeir vilja auðvitað fá okkur aftur í stjórnarráðið.

Fjármálaráðh.: (Svarar flug og rútub.ráðh í sömu tóntegund) Já, að okkur skyldi ekki detta það í hug. Hann hefði tekið þetta lið niður á augabragði, eða bara að fá Boga.

Forsætisráðh.: ( Hefur fylgst með hjali fjármálaráðh. og flug og rútub.ráðh.) Ég bendi á að þetta er fundur um sóttvarnir og bendi líka á að Íslandi er ekki stjórnað af sérhagsmunaöflum.

(Flestir fundarmenn skella uppúr og fjármálaráðherra hlær hátt).

Sóttvarnarráðh.: (Óeðlilega hátt) Þeir sem voru utan sóttkvíar í gær voru tiltölulega nýkominn til landsins og gætu hafa sloppið í gegnum kerfið á landamærunum og valdið smitum. Þetta þarf að skoða. Hins vegar hefur smitum á landamærunum fækkað að undanförnu og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hafa væntanlega hjálpað þar til. Ég held að það sé engin sérstök ástæða til að hafa áhyggjur. Núgildandi aðgerðir duga gegn B.1.617. myndi ég halda. 

Litli símam.: (Enn hlæjandi) Herra Sóttvarnarráðherra heitir vænti ég ekki Ragnar Reykás?

Forsætisráðh.: Ég bið fundarmenn að gæta allrar kurteisi. (Reiðilega til litla símamannsins) Og enga hótfyndni hér.

(Hávær hlátur litla símamannsins kveður við og deyr smán saman út).

Tjaldið

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
N1 er vinsælasti viðkomustaður þeirra sem hafa notað nýju ferðagjöf stjórnvalda.
Bensínstöðvar, baðlón og skyndibitastaðir vinsælust hjá notendum nýrrar ferðagjafar
Yfir 10 þúsund manns hafa nýtt nýja ferðagjöf stjórnvalda og um 50 milljónir króna verið greiddar út. Kunnugleg nöfn raða sér í efstu sæti þeirra fyrirtækja sem tekið hafa við mestu en baðlónið Sky Lagoon kemur nýtt inn á lista og tyllir sér í annað sæti.
Kjarninn 17. júní 2021
Guðjón Sigurðsson
Alþjóðlegur MND dagur 20. júní 2021
Kjarninn 17. júní 2021
Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Fyrrverandi seðlabankastjóri fékk fálkaorðuna
Forseti Íslands sæmdi fjórtán manns fálkaorðunni á Bessastöðum í dag.
Kjarninn 17. júní 2021
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.
Vilja endurvekja sjálfstæðisbaráttuna
„Eins og fyrri kynslóðum tókst að umbreyta íslensku samfélagi með sjálfstæðisbaráttu almennings þá mun okkur takast það einnig. Þeim tókst það og okkur mun líka takast það.“ Sósíalistaflokkurinn sendi frá sér tilkynningu í tilefni af 17. júní.
Kjarninn 17. júní 2021
Ólafur Ólafsson
Mannréttindadómstóll Evrópu vísar kæru Ólafs Ólafssonar frá
MDE hafnaði í morgun með afgerandi hætti að Rannsóknarnefnd Alþingis hefði brotið gegn rétti Ólafs Ólafssonar til réttlátar málsmeðferðar.
Kjarninn 17. júní 2021
Dánartíðni var hærri í öllum öðrum EES-löndum, ef miðað er við sögulegt meðaltal.
Umframdánartíðnin minnst á Íslandi
Minnsti munur var á mánaðarlegri dánartíðni og sögulegu meðaltali hennar hér á landi af löndum EES.
Kjarninn 17. júní 2021
Sjúkratryggingar Íslands greiða stærstan hluta af þjónustu sem veitt er á Heilsustofnuninni í Hveragerði.
Lítið gerst í úttekt á Heilsustofnun í Hveragerði og óvíst hvort henni verði haldið áfram
Fyrir rúmum tveimur árum var gerður nýr þjónustusamningur við Heilsustofnunina í Hveragerði. Skömmu síðar var upplýst um rekstrarkostnað sem vakti upp spurningar. Ráðist var í úttekt á starfseminni í kjölfarið. Hún hefur engu skilað.
Kjarninn 17. júní 2021
Eimskip viðurkennir brot sín og greiðir einn og hálfan milljarð í sekt.
Eimskip viðurkennir alvarleg samkeppnislagabrot og fær 1,5 milljarða sekt
Eimskip hefur viðurkennt að hafa viðhaft ólögmætt samráð við Samskip árum saman og greiðir 1,5 milljarð króna í sekt vegna máls sem hefur verið til rannsóknar frá 2013. Samskip eru enn til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Kjarninn 16. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar