Á dögunum var uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson sæmdur WIN WIN Sjálfbærniverðlaunum Gautaborgar. Með fylgdu 120.000 dollarar sem samkvæmt gengi dagsins eru 14.568.000 krónur.
Ekki er kunnugt um að Jóhannes Stefánsson hafi getið sér orð fyrir pælingar í sjálfbærni eða sjálfbærri þróun en þema WINWIN-verðlaunanna þetta árið er baráttan gegn spillingu. Segir í fréttatilkynningu WIN WIN að árlega tapist 4000 milljarðar dollara vegna spillingar og í því samhengi er vitnað til úttekta Alþjóðabankans, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) og AGS.
Til samanburðar má nefna að árlega þarf 2.930 milljarða dollara til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir lok þessa áratugar.
Með lífið að veði
Að mati dómnefndar hefur Jóhannes Stefánsson – með lífið að veði – uppljóstrað um víðtæka spillingu í Namibíu sem tengist fiskveiðikvótum. Dómnefnd segir að á tímabilinu 2011 til 2016 hafi Jóhannes Stefánsson haft leiðandi stöðu innan hins íslenska fiskveiðifélags Samherja og að hann hafi áttað sig á að fyrirtækið væri þátttakandi í víðtækri spillingu í tengslum við úthlutun fiskveiðikvóta í Namibíu. Jafnframt segir að WikiLeaks hafi gefið út skjöl til staðfestingar á spillingunni sem hafi skekið iðnaðinn og forustufólk í stjórnmálum. Ennfremur, að Jóhannes Stefánsson hafi þrátt fyrir árásir, hótanir og hafa verið byrlað eitur sýnt að einstaklingar í viðskiptaheiminum geti tekið þátt í baráttunni gegn spillingu.
Meðal fyrri verðlaunahafa eru Gro Harlem Brundtland (2002), Al Gore (2007) og Margot Wallström, 2008.
Verðlaunin eru til marks um hversu vanhugsuð fjölmiðlaherferð Samherja hér á landi er. Til hvers að vega að Helga Seljan ef niðurstaðan á alþjóðavettvangi er að starf hans hafi verið mikilvægt framlag til baráttunnar gegn spillingu?
Þarf tvo til
Verði namibískir ráðamenn dæmdir fyrir spillingu gefur auga leið að þeir voru ekki einir að verki. Rányrkja sjávarútvegsfyrirtækja í krafti mútugreiðslna er veikleiki stjórnkerfa í þriðja heiminum en spillingin er einnig hjá þeim sem eiga bankareikninga í skattaskjólum á Kýpur eða annars staðar sem hentar til mútugreiðslna. Spillingin er einnig á ábyrgð auðugra þjóða.
Ríkisstjórnin viðurkenndi vandann og á ríkisstjórnarfundi 19. nóvember 2019 en þá var ákveðið að
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun hafa frumkvæði að því að Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) vinni úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir þ. á m. í þróunarlöndum.
Af þessu hefur þó ekki orðið enda óvíst að slík ráðstefna myndi efla traust á íslensku atvinnulífi.
Tengist Youtube-herferð Samherja kvótakerfinu?
Ein augljós ástæða þess að eigendur fyrirtækisins létu skapið hlaupa með sig í gönur er að þeir hafa aðgang að ógrynni fjár. Menn þurfa ekki að hugsa um kostnaðinn og þá er ákveðið þeir að láta starfsmenn RÚV finna fyrir því. Rétt eins og þeir ætla að láta starfsmenn Seðlabanka Íslands vita hvar Davíð keypti ölið. Mennirnir haga sér eins og þeir hafi unnið þorskastríðin þrjú; að kvótinn hafi fært þeim full yfirráð yfir 200 mílna efnahagslögsögu Íslands. Ófáir þingmenn virðast á sama máli og þá er erfitt að stilla skap sitt.
Færeyjar?
Kjarninn greindi frá því að dótturfélag Samherja í Færeyjum hefði greitt 345 milljónir króna vegna vangoldinna skatta. Einnig bárust fréttir um að skæruliðadeild Samherja hafi haft uppi áform um skaða trúverðugleika fréttamanna færeyska sjónvarpsins sem uppljóstruðu um meint skattsvik Samherja. En stjórnendur Samherja eru ekki svo vitlausir að þeir fjárfesti í slíku heldur greiddu umrædda upphæð umyrðalaust. Stjórnendur Samherja skilja mæta vel að árás á færeyska fjölmiðlamenn geri illt verra.
Útspil sjávarútvegsráðherra Noregs
Norski sjávarútvegsráðherrann, Odd Emil Ingebrigtsen, sá nýverið ástæðu til að benda á að mannorð Samherja sé laskað eða vafasamt. Ingebrigtsen lét þess einnig getið að Noregur beiti sér mjög baráttunni gegn glæpum sem tengist fiskveiðum.
Samherji lýsti vonbrigðum sínum með þessi ummæli norska ráðherrans og segir þau mjög ósanngjörn. Má vera, en það verður að teljast afar ólíklegt að Samherji láti framleiða Youtube-myndbönd til að klekkja á norska ráðherranum.
Eftir situr spurningin: Hvernig gat Samherjamönnum dottið í hug að hefja hernað gegn fréttastofu RÚV og Helga Seljan? Eitt svar við þeirri spurningu er að Samherji hefur staðið mjög lengi í þessu stríði við RÚV. Fram kemur í spjalli skæruliðanna að gott væri að láta Óðinn Jónsson, f.v. fréttastjóra hjá RÚV fá á baukinn en Óðinn hætti störfum sem fréttastjóri fyrir heilum sjö árum síðan.
Niðurstaðan
- ekki verður sagt að eigendur Samherja hafi dregið stysta stráið við skiptingu gæða hér á landi. Þeir eru vissulega dugnaðarforkar en hafa líka safnað miklum auði í krafti þeirra forréttinda að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar.
- óviðunandi er að stórfyrirtækið Samherji standi að árásum á fjölmiðla eða fjölmiðlafólk.
- viðbrögð erlendis benda til að umfjöllun Kveiks sé áreiðanleg.
- ef misbrestir reynast vera í rekstri útgerðarrisans liggur beinast við að eigendurnir veiti alla þá hjálp sem þeir geta til að upplýsa málið.
- þolinmæði fyrir glæpastarfsemi sjávarútvegsfyrirtækja fer þverrandi í lýðræðisríkjum.
Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.