Í Kjarnanum 11. nóvember s.l. birtir Ernu Bjarnadóttur (EB) verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni grein undir heitinu „Fyrirsagnagleði um landbúnað – hver er kjarni málsins?“.
Greinin er að formi til ádrepa á fyrirsagnahöfund Kjarnans, sem svarar fyrir sig, enda hafði fyrirsögninni sem kvartað var undan verið breytt að ábendingu EB löngu áður en greinin birtist. Undir fyrirsögninni umdeildu var frásögn af svari sem Vísindavefur HÍ birti nokkrum dögum fyrr. Í því svari leitast undirritaður við að svara spurningunni: Hvað greiðir ríkissjóður árlega mikið í formi beinna og óbeinna styrkja til landbúnaðar á Íslandi.
Kvartað til ritstjóra Vísindavefsins
EB líkaði ekki efnistök undirritaðs og kvartaði í nokkuð löngu máli við ritstjóra Vísindavefsins. Kvörtunin snéri bæði að þeirri ritstjórnarlegri ákvörðun ritstjórans að fela undirrituðum að svara umræddri spurningu og í öðru lagi að því að undirritaður smættaði ekki spurninguna í meiningarlitla endursögn á tölum og gögnum úr fjárlagafrumvarpi og fjárlögum. Þriðja og veigamesta kvörtunin sneri að því að undirritaður skildi ekki aðferðafræði OECD við útreikning á umfangi landbúnaðarstyrkja í aðildarlöndunum. Í grein EB í Kjarnanum kemur enn fremur fram að hún telur ekki rök til að fullyrða að bændur fengju ókeypis aðgang að afréttum sem síðan eru nýttir með ósjálfbærum hætti. Einnig taldi EB ósannaða þá staðhæfingu að undanþága vinnslustöðva landbúnaðar frá samkeppnislögum kynni að skaða samkeppni og þrýsta upp verði á neysluvöru sem þessar vinnslustöðvar landbúnaðarins framleiða. MS, vinnuveitandi EB er ein þessara vinnslustöðva.
Viðbrögð við aðfinnslum
Eins og verklagsreglur Vísindavefsins kveða á um eru aðfinnslur af þessu tagi sendar svarshöfundum og síðan brugðist við þeim eins og þurfa þykir. Við ritstjóri Vísindavefsins fórum í gegnum allar aðfinnslur og fjölguðum m.a. tilvísunum í vísindarit til að létta efasemdamönnum að slá efasemdir sínar út af borðinu. Það var sameiginleg niðurstaða okkar að það væri ekki verkefni verkefnastjóra hjá MS að taka ritstjórnarlegar ákvarðanir á borð við val á svarendum fyrir Vísindavefinn.
Skilur OECD ekki eigin aðferðafræði?
Víkjum þá að efnisatriðum í Kjarnagrein EB. Í kafla sem ber yfirskriftina „Hvernig ber að skilja aðferðafræði OECD?“ fullyrðir EB að aðferðafræði OECD dugi ekki til að meta vergan og hreinan stuðning við landbúnað. Svo segir EB: „....Vitaskuld eru þetta aldrei þau verð sem neytendur standa andspænis....“. Þarna er líklega kjarni gagnrýni EB á aðferðafræði OECD að ræða. En málið er að OECD er í þessu tilfelli ekki að meta stuðning við neytendur eins og EB lætur liggja að, heldur stuðning við framleiðendur. Og þá stendur þessi aðferðafræði fyllilega fyrir sínu! Svolítið einfaldað er spurningin sem OECD spyr þessi: Hvað myndi innflutt undanrennuduft eða smjör kosta heildsala samanborið við kostnað þess sama við að kaupa sama magn mjólkurprótíns og mjólkurfitu af innlendum framleiðanda. Neytendur kaupa vörur sem framleiddar eru úr mjólkurfitu og mjólkurprótíni þannig að hátt innanlandsverð á þessu vöru hefur áhrif á hag neytenda, sé heildsalanum gert að greiða himinhá aðflutningsgjöld ofaná verð ódýrari vörunnar. En OECD blandar þessu tvennu ekki saman, kostnaði neytenda og ávinningi framleiðenda, þó svo verkefnastjórinn sé ef til vill haldinn þeirri trú.
Hagræði neytenda af fákeppni?
Fullyrðingum EB um hagræði íslenskra neytenda af einokun, fákeppni og samkeppnislegs brussugangs vinnuveitenda síns hefur þegar verið svarað með vísan til áratuga baráttu samkeppnisyfirvalda gagnvart MS og tengdum fyrirtækjum. MS getur keypt eins margar skýrslur og það fyrirtæki treystir sér til að borga frá fyrirtækjum sem hafa hag og rannsóknir í nöfnum sínum og sem selja slíkar syndakvittanir án þess að það breyti þeirri niðurstöðu sem kemur fram í ótal álitsgerðum Samkeppniseftirlitsins.
Lokaorð um afrétti
Að lokum þetta: Í sumar átti ég leið um afréttarlönd í Emstrum og á Almenningum. Þar þóttist ég sjá nokkurn mun á gróðurþróun frá því ég gekk þessi lönd fyrir 25 árum síðan. Á Emstrum hafði framsýnn sveitarstjóri í samvinnu við bændur í Hvolhreppi hinum forna víðsýni til að friða fyrir sumarbeit árið 1990. Almenningarnir líða fyrir græðgi upprekstraraðila sem ekki mega vita af ójórtruðu strái á afrétti stundinni lengur. En vert að hrósa mínum gömlu sveitungum í Hvolhreppi sem vissulega þekktu sinn vitjunartíma hvað varðar afréttarbeitina, en eru þar því miður í miklum minnihluta meðal þeirra sem kalla sig bændur.
Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.