Atburðirnir hræðilegu í París, sem hófust á því að ráðist var á höfuðstöðvar skopmyndablaðsins Charlie Hebdo á miðvikudag, hafa fyllt heimsbyggðina óhug. Í þeim féllu alls 17 manns auk þess sem skotmarkið var valið vegna efnistaka þess. Því var árásin líka bein aðför að því mál- og tjáningarfrelsi sem við teljum sjálfsögð mannréttindi. Að minnsta kosti þegar okkur hentar.
Eftir samstöðugönguna í gær hafa samfélagsmiðlar logað með ábendingum um hræsnara á meðal þjóðarleiðtoga sem tóku þátt í henni. Menn eins og til dæmis Abdullah konungur Jórdaníu, Davutoglu forsætisráðherra Tyrklands, Netanyahu forsætisráðherra Ísraels og Lavrov utanríkisráðherra Rússlands eru allir fulltrúar ríkisstjórna sem hafa fangelsað eða drepið blaða-og fréttamenn. Á sama tíma og þeir sýndu samstöðu með frelsi í Frakklandi berja þeir fjölmiðlafrelsi harðlega niður á heimavelli.
Góð í orði, ekki á borði
Forsætisráðherrann okkar komst ekki í samstöðugönguna vegna skamms fyrirvara, ferðatíma (það tekur hálftíma lengur að fljúga beint frá Íslandi til Parísar en frá Stokkhólmi, samt mætti sænski forsætisráðherrann) og þéttskipaðrar dagskrár (það fæst reyndar ekki uppgefið hvað hann var að gera í staðinn).
Ýmsir íslenskir ráðamenn hafa hins vegar hoppað á „Ég er Charlie“ vagninn og segjast þar með standa dyggan vörð um þau grundvallargildi sem tjáningarfrelsið er. Í fljótu bragði er ekkert athugavert við þessa afstöðu. Hún lýsir samhug og stuðningi við aðra Evrópuþjóð sem gengur í gegnum hræðilega raun.
Íslendingar fangelsa ekki blaða- og fréttamenn og enginn slíkur hefur nokkru sinni verið drepinn vegna vinnu sinnar. Á borði lítum við því út fyrir að vera útverðir tjáningafrelsis og gagnrýnnar fjölmiðlunar. Í orði erum við hins vegar ekki alveg jafn góð og við viljum af láta.
Áhrif valdaafla
Saga íslenskrar fjölmiðlunar er ekkert sérlega beysin. Áratugum saman áttu stjórnmálaflokkar flest dagblöð, eða voru að minnsta kosti í nánu samkurli með þeim. Á góðærisárunum átti hver risa-viðskiptablokk sitt fjölmiðlaveldi. Baugur átti 365 og DV, Björgólfarnir Árvakur og Bakkavararbræður Viðskiptablaðið. RÚV, sem rekur sjálfstæða fréttastofu, heyrði undir pólitískt skipaða stjórn sem skipti sér meðal annars af ráðningum.
Meiðyrðamálum sem höfðuð eru á hendur blaðamönnum hefur fjölgað gríðarlega. Þau voru til dæmis jafn mörg árið 2011 og þau voru á fimm ára tímabili í kringum síðustu aldamót. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur þrívegis þurft að snúa dómum sem íslenskir dómstólar hafa fellt yfir íslenskum blaðamönnum vegna meiðyrða.
Fyrir fjölmiðla með lítið fjárhagslegt bakland getur meiðyrðamálsókn, sama hversu fjarstæðukennd hún er, sett hann á hliðina. Óumflýjanlegur lögmannskostnaðurinn einn og sér nægir til þess. Því geta peningakarlar hent peningum í galnar málsóknir án þess að eiga neina von á því að vinna þær með það að leiðarljósi að valda fjölmiðli sem er með leiðindi fjárhagslegum skaða. Dæmi um þetta er þegar blaðamanni DV var stefnt fyrir hatursáróður vegna leiðara sem hann skrifaði um arðgreiðslur til aflandsfélaga. Við þetta má reyndar bæta að sá lögmaður sem stefndi blaðamanninum fyrir hönd arðseigendanna er nú orðinn eigandi að fjölmiðlinum sem blaðamaðurinn starfaði á.
Dæmi um þetta er þegar blaðamanni DV var stefnt fyrir hatursáróður vegna leiðara sem hann skrifaði um arðgreiðslur til aflandsfélaga.
Í hinu víðfræga lekamáli óskaði lögreglan eftir því að dómstólar myndu knýja fréttastjóra mbl.is til að gefa upp heimildarmann vefsins, sem lak minnisblaðinu um hælisleitandann Tony Omos þangað. Sú beiðni fór alla leið til Hæstaréttar sem tók blessunarlega þá ákvörðun að beiðnin væri galin og stríddi gegn öllum meginreglum blaðamennsku. Það breytir engu um að þetta var reynt.
Áhrif stjórnvalda
Stjórnmálamenn hafa ekki látið sitt eftir liggja í því að grafa undan fjölmiðlum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hóf valdatíma sinn með því að skrifa blaðagrein þar sem hann kvartaði undan loftárásum fjölmiðla. Hann hefur síðan ítrekað bætt í gagnrýni sína þess efnis að hann telji fjölmiðla halda með einhverjum öðrum en honum.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sagði í fjölmiðlum að hún væri óánægð með fréttaflutning RÚV og að það væri óeðlilegt að ríkisstofnun sem fjalli um mál þannig að hún sé ósátt geri það. Aðspurð hvort hún myndi taka þessi ummæli um RÚV lengra sagði Vigdís: „Ég er náttúrulega í þessum hagræðingarhópi“ og átti þar við hóp sem átti að finna leiðir til að skera niður í ríkisfjármálunum. Rúmu ári síðar var búið að skera verulega niður í framlögum til RÚV. Það versta við þessa framgöngu formanns fjárlaganefndar eru ekki ummælin sjálf, heldur að hún skilji ekki hversu alvarleg þau voru.
Það versta við þessa framgöngu formanns fjárlaganefndar eru ekki ummælin sjálf, heldur að hún skilji ekki hversu alvarleg þau voru.
Nýr umhverfis- og auðlindarráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, kallaði eftir því opinberlega að Framsókn myndi eignast sitt eigið „Fréttablað“ sem skildi flokkinn betur.
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði grein þar sem hann fullyrti að nánast allir íslenskir fjölmiðlar, með örfáum undantekningum, séu á móti sitjandi ríkisstjórn. Óli Björn telur líka að flestir fjölmiðlar segi meðvitað ósatt í fréttaflutningi sínum, væntanlega í einhverjum annarlegum pólitískum tilgangi. Þar nefndi hann sérstaklega RÚV sem dæmi um miðil sem væri alltaf að ljúga upp á stjórnarliða. Því ættu þeir að beita sér fyrir að RÚV yrði lagt niður.
Og þetta eru bara dæmi frá þessu kjörtímabili.
Veikt starfsumhverfi
Starfsumhverfi blaða- og fréttamanna á Íslandi er veikara en í nágrannalöndum okkar. Hér geta áhrifamenn í stjórnmálum eða viðskiptum haft gríðarleg áhrif á störf þeirra ef þeim finnst á sig hallað í umræðunni eða ef þeir sjá sér hag í því að beina henni í aðrar áttir en að sér. Hér er starfsmannavelta fjölmiðla gríðarleg og þar af leiðandi tapast mikið af þekkingu og reynslu þegar frambærilegt fólk hverfur úr geiranum í önnur störf.
Þrátt fyrir þetta er enginn stjórnmálaflokkur með það á stefnuskránni, eða vinnur með nokkru móti að því, að bæta þetta umhverfi. Enginn þeirra hefur það á yfirlýstri stefnuskrá að styrkja stoðir íslenskrar fjölmiðlunar, sem þó er hornsteinn lýðræðislegrar umræðu.
Enginn þeirra hefur það á yfirlýstri stefnuskrá að styrkja stoðir íslenskrar fjölmiðlunar, sem þó er hornsteinn lýðræðislegrar umræðu.
Það skortir samt ekkert fólk með fjölmiðlareynslu á Alþingi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, Össur Skarphéðinsson, fyrrum formaður Samfylkingarinnar, Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum formaður Vinstri grænna, Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, og Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, hafa öll unnið á íslenskum fjölmiðlum. Meira að segja Gunnar Bragi Sveinsson ritstýrði einu sinni héraðsfréttablaði í Skagafirði.
Samt er ekkert að frétta. Bókstaflega.
Við erum ekki öll Charlie
Atburðirnir í Frakklandi eru hræðilegir. Þeir eru hræðilegir vegna þess að 17 manns voru myrtir með köldu blóði og þeir eru hræðilegir vegna þess að aðalskotmark hermdarverkamannanna var fjölmiðill sem þeim líkaði ekki hvernig starfaði. Þeir ætluðu að ritskoða með morðum og þannig reyna að hræða fjölmiðla frá því að fjalla um Islam á ákveðinn hátt.
Við þekkjum blessunarlega ekki þann veruleika þar sem fjölmiðlamenn eru myrtir sökum vinnu sinnar. En við þekkjum það vel að reynt sé að hræða þá til að fjalla um hlutina á ákveðinn hátt. Þeim skilaboðum er komið áfram á hverjum degi af valdaöflum í íslensku samfélagi.
Við erum því ekkert öll Charlie. Það eru fjöldamörg dæmi um hið gagnstæða. Og það er óvirðing við þá atburði sem áttu sér stað í Frakklandi þegar íslenskir stjórnmálamenn, allstaðar að úr hinu pólitíska litrófi, skreyta sig með þeim stolnu tjáningarfrelsisfjöðrum.