Það er algjörlega óþarfi að örvænta þótt tekið sé að hausta. Miðað við sumarið, sem eiginlega kom aldrei, er að minnsta kosti ekki von á því að veðrið breytist mikið. Það eina sem breytist í raun hvað það varðar er að sírakir regnstakkar og strigaskór víkja senn fyrir sírökum vetrarjökkum og bomsum. Svo eru líka fjölmargar ástæður til að fagna komu haustsins. Sjálfkrafa out of office-tölvupóstum fer ört fækkandi, sem og biðraðavaldandi ferðamönnum teljandi verðlaust íslenskt klink á kössunum í lágvöruverðsverslununum. Pirraði Íslendingurinn snýr nú til baka óendurnærður úr sögguðum sumarbústöðum, tilbúinn að láta til sín taka í þjóðmálaumræðunni sem aldrei fyrr.
Skemmtilegasta frétt vikunnar var án efa sagan af varabæjarfulltrúa Framsóknarflokksins í Kópavogi sem fór í fýlu þegar hann fékk ekki ókeypis miða á tónleika Justin Timberlake í Kórnum. Hann sem var svo klár í að mæta og dilla sér ásamt maka, í nafla Íslands að hans mati, Kópavoginum.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_09_04/4[/embed]
Þegar honum var tilkynnt að hann fengi ekki miða, því hann væri bara til vara í stjórnmálunum í Kópavogi, varð hann svo sármóðgaður að hann sakaði alvöru bæjarfulltrúana í miðju alheimsins um spillingu. Hann krefst þess nú að upplýst verði hvort Sena hafi fengið afslátt á leigu Kórsins í staðinn fyrir miðana.
Er það vel. Þrátt fyrir skyndisiðgæði varabæjarfulltrúans er auðvitað full ástæða til að fá þessar upplýsingar upp á borðið. Þótt í sjálfu sér sé ekkert athugavert við það að bæjarfulltrúar og starfsmenn stjórnsýslunnar óski eftir að fá að vera viðstaddir slíka stórviðburði í sínu sveitarfélagi. Það má hins vegar ekki vera að frumkvæði viðburðahaldara né í skiptum fyrir nudd.
Þorbjörn Þórðarson, hinn skeleggi fréttamaður Stöðvar 2, á heiður skilinn fyrir beina útsendingu frá Hamraborginni í Kópavogi, þar sem miðalausi varabæjarfulltrúinn var tekinn á beinið. Þessi epíska sjónvarpsútsending verður lengi í minnum höfð, bæði fyrir fréttina sem slíka og ekki síst fyrir óumdeilanlegt skemmtanagildið.
Framsóknarmenn eru nefnilega ansi oft skemmtilegir. Þótt vel megi vera að það sé oftast fyrir slysni er haustkoman óneitanlega tilhlökkunarefni því þá tekur Alþingi aftur til starfa.
Að minnsta kosti klæjar Vigdísi Hauksdóttur, þingkonu Framsóknarflokks, í fingurna að komast í ræðustól Alþingis í uppistand. Nýjasta sprell hennar átti sér stað í Síðdegisútvarpi RÚV í vikunni. Þar skammaði Vigdís Tryggva Þór Herbertsson, sem hún kallaði starfsmann skuldaleiðréttingaraðgerða ríkisstjórnarinnar, fyrir að hafa aldrei fundist aðgerðirnar sexí. Það var mjög fyndið og skemmtilegt.
Annar skemmtilegur þingmaður úr röðum Framsóknarmanna er að gera sig gildandi um þessar mundir. Það er þingkonan Silja Dögg Gunnarsdóttir. Hún fór með gamanmál í pistli sem hún skrifaði í Fréttablaðið í vikunni. Þar dásamaði hún skuldaniðurfellingarnar og sagði allt á uppleið vegna þeirra, þrátt fyrir að viðbúið sé að þær auki verðbólgu og geri láglaunuðum og eignalausum nánast ómögulegt um vik að kaupa sér þak yfir höfuðið. Besti brandarinn var samt þegar hún hreykti ríkisstjórn Sigmundar Davíðs af auknum hagvexti. Það er vissulega hagvöxtur og það er gott, en hann má helst rekja til sölu á fiski og áli, útlendra ferðamanna og aukinnar einkaneyslu, sem má ekki síst rekja til skuldaniðurfellingarinnar dásamlegu.
Það eina sem ríkisstjórnin getur stært sig af með hliðsjón af hagvextinum er aukin skuldsett einkaneysla, meðal annars vegna skuldaniðurfellinganna, sem kemur alltaf til baka á endanum og bítur okkur í rassinn. Ríkisstjórnin selur ekki ál, eða fisk, eða hefur í gildi heildstæða ferðamannamálastefnu. Suma brandara segir maður bara í góðra vina hópi.
Það er að minnsta kosti óþarfi að örvænta gagnvart skammdeginu með slíkt gallerí af skemmtikröftum við stjórnvölinn í landinu. Þegar allt um þrýtur höfum við alltaf Framsókn til að stytta okkur stundirnar.