Heimsfaraldur kórónuveiru hefur nú staðið í meira en ár. Hann hefur tekið af fólki lífsviðurværi, heilsuna og jafnvel lífið. Hann hefur líka tekið frá okkur daglegt líf, góðar stundir með vinum og ættingjum, ferðalög og tómstundir. Við erum öll orðin langeyg eftir eðlilegu lífi og viljum að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að sýkingar brjótist út að nýju.
Við slíkar kringumstæður er eðlilegt að huga að því hvernig veiran berst inn í landið og milli manna. En leit að sökudólgum getur líka verið hættuleg, því að oft er auðveldara að finna blóraböggla meðal þeirra sem standa okkur fjær. Það er stutt í „við og hinir“ hugsunina. Minnisstætt er þegar bæjarstjóri sagði sitt fólk fara vel eftir reglum og því væru smit þar fátíð. Þessi orð voru vel meinandi, en af þeim mátti skilja að öðru máli gegndi um utanbæjarfólk, sem væri þá orðið ógn við líf og heilsu bæjarbúa. Þetta eru kunnugleg stef, þau hafa valdið átökum milli fólks; allt frá slagsmálum á sveitaböllum til stríðsátaka.
Á sama tíma og við gerum allt til að sporna gegn útbreiðslu faraldursins getum við ekki látið eins og Ísland geti eitt landa heimsins orðið eyland. Veiran kom upphaflega með íslensku skíðafólki til landsins. Ef hún hefði ekki komið með þeim hefði hún komið síðar. Fólk ferðast milli landa af ýmsum ástæðum á þessum undarlegu tímum. Sumir þurfa að ferðast til að kveðja ættingja hinsta sinni, aðrir til að vera nærri fjölskyldu og vinum á erfiðum tímum. Höfum hugfast að við getum aldrei vitað að fullu hverjar aðstæður fólks eru.
Ég vara sterklega við því að gera erlenda atvinnuleitendur að blórabögglum fyrir mögulegri nýrri bylgju faraldursins eða að stimpla þá sem hafa sýkst. Það smitast enginn að gamni sínu og smit eru ekki borin á milli manna að ráðnum hug. Þetta er heimsfaraldur sem hegðar sér með ófyrirséðum hætti.
ASÍ varaði við opnun landamæranna sem er áformuð voru 1. maí og að keyra ferðaþjónustuna af stað áður en markmiðum um bólusetningar hefur verið náð. Það eru réttmæt varnaðarorð. Hins vegar er ekki þar með sagt að loka eigi landamærunum alfarið. Og það vekur upp hættulegar tilhneigingar að ætla að Ísland eitt geti verið ósnert á sama tíma og heimsfaraldur blossar í öllum löndum í kringum okkur. Þrátt fyrir bakslag höfum við marga styrkleika í þessari baráttu: sóttvarnir, upplýsingar og samstöðu.
Við skulum virkja þess þætti, en leggja til hliðar þörfina fyrir að leita að sökudólgum.
Höfundur er forseti ASÍ.