Fyrir nokkru bað ritstjóri Vísindavefsins undirritaðan um að svara spurningu um umfang beinna og óbeinna ríkisstyrkja til landbúnaðar. Svarið birtist á Vísindavefnum 9.11.2021. Í svarinu styðst ég við aðferðafræði sem Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur þróað. Samkvæmt þeim mælikvarða er stuðningur við landbúnað hvergi hærri á byggðu bóli sé stuðningurinn metinn sem hlutfall af heildartekjum landbúnaðarins, sjá hér. Ekki nóg með það, OECD metur það svo að yfir 70% af stuðningnum sé af þeirri tegund sem lakastur er frá efnahagslegu sjónarmiði („most-distorting to production and trade“). Það er hægt að horfa á stuðninginn sem hlutfall af Vergri Landsframleiðslu, en það breytir stöðunni lítið, Ísland á pari við Noreg og með helmingi til tvöfalt meiri stuðning en í Evrópusambandinu (sem er eilífðarviðmiðunarstærð landbúnaðarforystunnar).
Stuttu eftir að svar mitt birtist á Vísindavefnum upphófust bréfaskriftir Ernu Bjarnadóttur (EB) sem er verkefnastjóri hjá MS en var áður hagfræðingur Bændasamtakanna. EB líkaði illa að mælikvarði OECD skyldi notaður og lagði reyndar til að fulltrúar Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins yrðu fengnir til að svara spurningum um umfang ríkisstuðnings við landbúnað!
Eftir að ritstjóri Vísindavefsins hafði farið yfir athugasemdir EB varð niðurstaðan sú að hagga í engu við aðaltexta svars míns, en bæta við nokkrum tilvísunum svo efasemdarfólk mætti hætta að efast. Í millitíðinni hafði Kjarninn birt ágæta grein sem byggði í höfuðatriðum á svari mínu. Þegar EB varð ekki að þeirri ósk sinni að ritstýra Vísindavefnum beindi hún sjónum sínum að Kjarnanum. Þar endurtekur hún þær fullyrðingar um gagnsleysi mælikvarða OECD sem hún hafði áður haldið að ritstjóra Vísindavefsins. Þær fullyrðingar urðu hvorki sannari né sannar við endurtekninguna. Forstöðumaður Hagfræðistofnunar HÍ gerði einnig grein fyrir því á Kjarnanum að fulltrúar Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis hefðu haldið sömu sjónarmiðum um meinta misnotkun á tölum OECD í tengslum við verk sem Hagfræðistofnun vann fyrir ráðuneytið fyrir nokkrum árum. Þá leitaði Hagfræðistofnun til OECD sem sagði skilning Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis rangan eins og forstöðumaðurinn rekur í greininni.
Í grein í Vísi 15.11 endurtekur EB enn á ný fullyrðingar að ekki megi nota mælikvarða OECD til að meta beinan og óbeinan stuðning ríkisvaldsins við íslenskan landbúnað. Þrátt fyrir að fyrir liggi yfirlýsing frá yfirmönnum hjá OECD um að mælikvarðinn sé einmitt þróaður til að meta umfang þessa stuðnings! Þessi þrákelkni minnir vissulega á hin fleygu orð kaupmannsins í Flatey sem bað Skúla Magnússon að vikta rétt, þegar kaupmaður vildi að lestur Skúla af vöruvoginni væri viðskiptavininum í óhag. Landbúnaðarforystan og stöku starfsmenn Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins auk stöku einstaklinga í hópi stjórnmálamanna virðist hafa sannfært sjálf sig um að stuðningur íslenska ríkisins við landbúnað sé smáaurar og hafi engin áhrif á getu ríkissjóðs til að sinna bráðum verkefnum á borð við stuðning við sjúka og aldraða. Öll frásögn sem lýtur að því að skera gat á þann blekkingarvef landbúnaðarforystunnar er álitin svartigaldur og skal útrekinn með öllum tiltækum meðulum, endurtekinni síbylju þar á meðal.
En í öllu þessu síbyljufári hefur EB ekki uppljóstrað hvað hún telur „raunverulegt“ umfang beinna og óbeinna styrkja til landbúnaðar á Íslandi vera. Ég leyfi mér að fara fram á það að hún svari þeirri spurningu og dragi ekkert undan.
Höfundur er prófessor í hagfræði.