„Kreppan felst einmitt í því að hið gamla deyr og hið nýja getur ekki fæðst; í þessu millibilsástandi birtast hinir fjölbreytilegustu sjúkleikar.“
- Antonio Gramsci, Fangelsisdagbækurnar (1930)
Íslensk verkalýðshreyfing árið 2022 stendur frammi fyrir vanda: Alþýðusambandi Íslands hefur mistekist að laga sig að breytingum í stærstu aðildarfélögum sambandsins. Lýðræðislegum kröfum um nýjar áherslur og forgangsröðun hefur ekki verið sinnt. Það hefur verið vanrækt að endurskoða starfshætti og vinnubrögð. Í mörgum tilvikum hefur sambandið beinlínis lagt stein í götu stefnumála sem ný öfl í hreyfingunni hafa barist fyrir, og forysta sambandsins hefur grafið undir leiðtogum nýrra afla. Í ágústmánuði 2022 spilaðist þessi kreppa út fyrir almenningssjónum með því að Drífa Snædal, forseti ASÍ síðan árið 2018, sagði af sér embætti. Afsögn Drífu vakti mikla athygli en ekki er þó endilega öllum ljóst hvað býr að baki.
Í þessari grein og þremur sem munu fylgja í kjölfarið á næstu dögum lýsi ég vandanum eins og hann blasir við mér. Það byggir á reynslu minni af starfi í hreyfingunni yfir rúmlega fjögurra ára tímabil. Ég mun rekja nokkur svæsnustu dæmin um það hvernig Alþýðusambandið hefur á síðustu árum unnið gegn nýjum öflum innan verkalýðshreyfingarinnar, en um sum þessara dæma hefur ekki verið fjallað opinberlega áður eða aðeins með yfirborðskenndum hætti. Ég tel mikilvægt að halda því til haga og ræða fyrir opnum dyrum um hvað sá ágreiningur snerist um, sérstaklega vegna þess að valdamikil öfl reyna nú sem óðast að moka yfir þennan ágreining og endurskrifa söguna á þann veg að hann hafi aðeins snúist um samskipti og persónuleika. Í framhalds-greinum sem birtist á næstu dögum skyggnist ég dýpra og set kreppu Alþýðusambandsins í samhengi við breytingar á stéttasamsetningu í auðvaldssamfélögum Vesturlanda síðustu áratuga og almenna hnignun vinstristjórnmála. Þá sýni ég fram á að vandinn er ekki bundinn við persónur, eða við Alþýðusamband Íslands, heldur skólabókardæmi um áskoranir sem iðulega blasa við róttækum aðkomuöflum sem ná áhrifum innan valdastofnana. Að endingu legg ég fram tillögur um leiðir út úr vandanum.
Hallarbyltingar áranna 2017-2018
Ragnar Þór Ingólfsson náði kjöri til formanns í VR, stéttarfélagi skrifstofu- og verslunarfólks, árið 2017. Með því varð bylting í þessu stærsta aðildarfélagi ASÍ, sem jafnframt er stærsta stéttarfélag landsins. Byltingin fólst í því að til áhrifa komst nýr og dugmikill leiðtogi sem var ekki getinn innan úr verkalýðshreyfingunni sjálfri, heldur sem hafði upp á eigin spýtur áunnið sér traust og skapað sér öflugan fylgjendahóp. Í þessu fólst mikil nýlunda fyrir íslensku verkalýðshreyfinguna. Reyndar hafði það gerst á undan kjöri Ragnars Þórs að „aðkomufólk“ kæmist í formannsstól VR, en árin 2009-2013 höfðu verið sviptingatímabil þar sem skipt var um formann í þrígang. Munurinn á Ragnari Þór og skammlífari forverum hans var hins vegar sá að Ragnari Þór tókst að afla sér mun varanlegra umboðs og fjöldafylgis meðal félagsmanna. Ragnar Þór sýndi fljótlega og sannaði að hann væri kominn til að vera í formannssætinu. Hann hefur nú verið kosinn í formannsstól í þrígang, en til samanburðar voru allir þrír síðustu forverar hans aðeins kosnir í eitt kjörtímabil (Kristinn Örn Jóhannsson og Stefán Einar Stefánsson) eða tvö (Ólafía B. Rafnsdóttir).
Innmúruð Efling
Til að skilja muninn á innri pólitík Eflingar og VR má heldur ekki gleyma að Efling hefur frá stofnun félagsins, og lengra aftur í sögu forvera þess, verið mjög innanbúðar og innmúrað í Alþýðusamband Íslands. Yfirleitt hafa verið ræktuð náin tengsl milli formanna Eflingar og forystu ASÍ. Þetta er ólíkt VR og öðrum verslunarmannafélögum sem hafa frá upphafi vega haft ákveðna sérstöðu og fjarlægð gagnvart ASÍ, m.a. vegna þess að verslunarmannafélögin voru iðulega undir stjórn Sjálfstæðismanna ólíkt ASÍ sem jafnan var stýrt af Alþýðuflokksmönnum, sósíalistum og síðar arftökum þeirra. Sem dæmi um þetta má nefna að skrifstofuhöll verkalýðshreyfingarinnar í Guðrúnartúni 1 var aðeins byggð utan um ASÍ, Starfsgreinasambandið, Sjómannasambandið og Eflingu auk Gildis, lífeyrissjóðs sjómanna og Eflingarfélaga, á meðan VR hélt starfsemi sinni í Húsi verslunarinnar og félög iðnaðarmanna byggðu við sig annars staðar um borgina. Formenn Eflingar, sem og formenn eldri stéttarfélaganna sem gengu inn í Eflingu, höfðu auk þess ávallt komið innan úr sömu pólitísku og félagslegu hópum og forystufólk ASÍ, það er að segja gömlu íslensku vinstriflokkunum tveimur: Alþýðubandandalaginu og Alþýðuflokknum og síðar arftökum þeirra Vinstri grænum og Samfylkingunni. Hallarbylting mín og B-listans árið 2018 hafði þannig sérstaklega byltingarkennda þýðingu gagnvart Alþýðusambandinu, vegna þess hversu djúpt innmúruð Efling hafði verið í sambandið og eigendaklíku þess.
Ljóst var því að valdataka mín og félaga minna í Eflingu fól í sér riðlun á gamalgrónu valdajafnvægi og hlutaskiptakerfi innan ASÍ. Slíkur titringur, en í smærri mynd, hafði áður orðið þegar Vilhjálmur Birgisson náði kjöri sem formaður Verkalýðsfélags Akraness árið 2003. Vilhjálmur vann þá óvæntan sigur á sitjandi forystu innan síns félags, svipað og ég og Ragnar Þór. Ég og Ragnar mynduðu í upphafi ferils okkar góð tengsl við Vilhjálm, en við þrjú áttum fleira sameiginlegt en að vera aðkomufólk í verkalýðshreyfingunni. Við urðum til dæmis öll fyrir miklum áhrifum af íslenska efnahagshruninu 2008 og beittum okkur í átökunum í kjölfar þess. Einnig áttum við það öll sameiginlegt að hafa aldrei verið handgengin neinum af gömlu vinstriflokkunum tveimur sem í gegnum áratugina hafa haft mest ítök í verkalýðshreyfingunni.
Aðkomufólk og undanvillingar
Það verður ekki ofsögum sagt um þýðingu þess að við þrjú erum öll „aðkomumanneskjur“ innan íslenskrar verkalýðshreyfingar og er vert að staldra við þá staðreynd. Ólíkt nær öllum formönnum og forystufólki í íslensku verkalýðshreyfingunni þá vorum við ekki handvalin af forverum okkar. Við settumst ekki í formannsembætti eftir að hafa undirgengist áralanga tamningu og þjálfun í fylgispekt við hefðir hreyfingarinnar, líkt og hefur verið hin gamalgróna hefð og venja þegar formannaskipti eiga í hlut.
Fljótlega eftir sigra B-listans í Eflingu og Ragnars í VR, og raunar strax í kosningabaráttu minni og B-listans árið 2018, var farið að ræða um okkur ásamt Vilhjálmi Birgissyni sem boðberar nýrra tíma í verkalýðshreyfingunni. Við vorum réttilega talin standa gegn gömlum valdhöfum innan ASÍ, sem höfðu verið undir forystu Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ frá 2008. Í október 2018 gerðist það svo að Gylfi lét af störfum sem forseti ASÍ og nýr forseti var svo kjörinn á þingi Alþýðusambandsins haustið 2018, Drífa Snædal. Fljótlega upp úr því var Drífu stillt upp í samfélagsumræðunni við hlið okkar Ragnars og Vilhjálms og rætt um hana sem okkar samherja, til dæmis í Kveiks-þætti á RÚV í nóvember sama ár þar sem ég, Ragnar Þór og Drífa sátum þrjú saman í setti og ræddum um ástandið á íslenskum vinnumarkaði. Þá var Vilhjálmur kosinn 1. varaforseti ASÍ á sama þingi og Drífa var kosin til forseta, og þar með staðsettur henni við hlið í framvarðarsveit ASÍ.
Á yfirborðinu var til að byrja með ekki mikið um ágreining á milli Drífu og okkar aðkomufólksins. Þó má spyrja hvernig á því stóð að Drífa Snædal, sem þá hafði gegnt starfi framkvæmdastjóra Starfsgreinasambands Íslands (SGS) um árabil, var stundum sett í hóp með okkur þremur. Þegar Drífa tók við sem forseti ASÍ þá færði hún skrifstofu sína úr vesturálmu fyrstu hæðar í skrifstofuvirki verkalýðshreyfingarinnar í Guðrúnartúni 1, þar sem SGS er til húsa, yfir í austurálmuna þar sem ASÍ er staðsett. Áður en Drífa hóf störf sem framkvæmdastjóri SGS hafði hún verið framkvæmdastjóri Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, eins af gömlu íslensku fjórflokkunum. Sú ákvörðun Drífu að segja sig úr VG þegar flokkurinn hóf stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn árið 2017 virðist hafa dregið upp mynd í hugum margra af sjálfstæðri uppreisnarmanneskju.
Þegar samvinna nýrra leiðtoga Eflingar og ASÍ hófst haustið 2018 ríkti jákvæðni og bjartsýni í garð samstarfsins. Ég hafði ásamt félagsfólki í Eflingu stutt framboð Drífu Snædal til forseta á Alþýðusambandsþinginu haustið 2018 og tryggt henni kosningasigur. Drífa fékk 192 atkvæði gegn 100 atkvæðum mótframbjóðandans Sverris Albertssonar, og hefði aldrei borið sigur úr býtum nema með stuðningi þingfulltrúa Eflingar og VR sem eru lang stærstu aðildarfélög ASÍ. Ekki var gert ráð fyrir öðru en að böndin myndu styrkjast. Ég reiknaði aldrei með að samstarf yrði stirt eða krefðist erfiðra samningaviðræðna, einfaldlega vegna þess að ég gekk út frá því að ég og Drífa værum í grundvallaratriðum sammála um stóru baráttumálin, sér í lagi baráttuna gegn misskiptingu auðs og nauðsyn þess að rétta hlut láglaunakvenna, og samstiga í skilningi á því að berjast þyrfti og færa fórnir til að ná árangri í baráttunni. Jafnframt lá í loftinu að ferskir vindar myndu blása um vinnubrögð og starfshætti sambandsins, þar sem nýr forseti myndi nota nýfengið umboð sitt til að tryggja góða samvinnu við aðra nýja leiðtoga sem stutt höfðu hana til embættisins.
Skattkerfisbreytingar í gíslingu
Strax veturinn 2018-2019 kom hins vegar í ljós að ASÍ undir stjórn Drífu Snædal yrði ekki sérstaklega hliðhollt verka- og láglaunafólki. Þá fór fram mikil umræða á vettvangi hreyfingarinnar um nauðsyn skattkerfisbreytinga. Tvennt knúði þá umræðu áfram. Í fyrsta lagi hafði verið dreginn sá lærdómur af nafnlaunahækkunum í kjarasamningum eftirhrunsáranna að í næstu samningum þyrfti að gera aðlaganir á skattkerfinu til þess að launahækkanir yrðu ekki samstundis rýrðar vegna þess að skattleysismörk og persónuafsláttur stæðu í stað. Þá kom það einnig til, að ýmsar skattkerfisbreytingar á síðustu áratugum hafa í raun lækkað skattbyrði hátekjufólks í samanburði við lágtekjufólk, sem er óþolandi óréttlæti.
Með stuðningi Drífu Snædal var ég síðla hausts 2018 gerð að formanni í svokallaðri „Efnahags- og skattanefnd“ sem er ein af föstum starfsnefndum Miðstjórnar Alþýðusambandsins. Komu skattamálin til umræðu í þeirri nefnd strax þá um veturinn, en af mestum þunga eftir áramótin. Frá sjónarhóli Eflingar var það augljóst markmið nefndarinnar að afgreiða frá sér tillögu um leiðréttingu á þeirri óeðlilegu tilfærslu skattbyrði sem hafði átt sér stað á undangengnum árum. Með slíkri leiðréttingu myndi einnig hækkun skattleysismarka koma í veg fyrir rýrnun þeirra launahækkana sem samið yrði um. Fljótlega var starf þessarar nefndar hins vegar tekið í nokkurs konar gíslingu. Var það annars vegar vegna andstöðu fulltrúa hærra launuðu karlastéttanna, sjómanna og iðnaðarmanna, og hins vegar vegna andstöðu frá ósamvinnuþýðum starfsmönnum ASÍ. Svo virtist sem að hagfræðingar ASÍ teldu að félagslega kjörnir fulltrúar meðlima í aðildarfélögunum, hinir eiginlegu nefndarmenn, væru eingöngu til skrauts og til að kvitta undir vinnu hagfræðinganna. Hagfræðingunum til varnar má segja að þetta er vissulega hið viðurkennda fyrirkomulag í stefnumótunarvinnu innan verkalýðshreyfingarinnar. Slík vinnubrögð eru einnig dæmigerð fyrir valdatöku fagmenntunar- og stjórnendastéttarinnar innan hreyfinga vinnandi fólks, sem rætt er um síðar í þessum greinaflokki.
Í þessari vinnu, sem fljótt fór að litast af tregðu, togi og núningi við starfsfólk ASÍ sem virtist líta á það sem sitt hlutverk að kæfa niður nánast hvaðeina sem kæmi mér og Eflingu, leitaði ég í nokkur skipti til Drífu Snædal í von um stuðning. Þeim óskum tók forsetinn ætíð fálega, líkt og smám saman varð því sem næst ófrávíkjanleg regla í öllum tilraunum mínum og Eflingar til að biðla til hennar um stuðning. Leiddi þetta til þess að starf efnahags- og skattanefndarinnar varð að æ meiri erindisleysu. Mér varð það ljóst að starf nefndarinnar miðaði fyrst og fremst að því að framleiða niðurstöðu sem yrði þóknanleg annars vegar hálaunahópum og hins vegar sérfræðingum úr röðum starfsfólks sem ráðnir voru í forsetatíð Gylfa Arnbjörnssonar fremur en verka- og láglaunafólki.
Svo fór á endanum að Efling vann sína eigin stefnumótunarvinnu í skattamálum og skilaði hún sér í glæsilegri afurð sem var skýrsla Stefáns Ólafssonar og Indriða Þorlákssonar „Sanngjörn dreifing skattbyrðar“ sem Efling gaf út. Seinna náðist markverður árangur í skattkerfisbreytingum samhliða Lífskjarasamningunum, ekki síst fyrir tilstilli Vilhjálms Birgissonar sem beitti sér af fullum þunga. Það er sorgleg en raunveruleg staðreynd að sá árangur sem náðist í skattkerfisbreytingum í Lífskjarasamningum var á endanum vegna vinnu og baráttu allra annarra en Alþýðusambandsins.
Baráttan gegn launaþjófnaði kæfð
Eftir undirritun Lífskjarasamningana í apríl 2019 tók ASÍ að sér það hlutverk að eiga þríhliða viðræður við SA og Félagsmálaráðuneytið um framfylgd á loforði ríkisstjórnarinnar um viðurlög við kjarasamningsbrotum, nánar tiltekið launaþjófnaði. Launaþjófnaður á Íslandi var og er fyrst og fremst vandamál Eflingarfélaga og það voru Eflingarfélagar sem börðust fyrir því að fá málið á dagskrá í kjaraviðræðunum í aðdraganda Lífskjarasamninganna. Það tókst, en með fyrirvara um að samstaða næðist um útfærslu í ofangreindum þríhliða viðræðum sem hófust að lokinni undirritun Lífskjarasamninganna. Sú vinna gekk frá byrjun hægt og illa, og var þar fyrst og fremst um að kenna ósvífni Samtaka atvinnulífsins, en Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA er ekki þekktur fyrir að missa svefn yfir útbreiddum svikum atvinnurekenda á þeim kjarasamningum sem hann gerir fyrir þeirra hönd. Það breytir því ekki að meðhöndlun ASÍ á málinu var óásættanleg. Drífa Snædal kaus, eins og í nánast öllum öðrum málum er varða Eflingu sem sambandið hafði á sinni könnu, að haga vinnubrögðum þannig að öll upplýsingagjöf til mín var skorin við nögl. Ég þurfti ítrekað að biðja um að fá upplýsingar um gang þessara viðræðna, og fékk þær þá iðulega í símskeytastíl.
Í upphafi árs 2020 bar svo við að Drífa Snædal boðaði mig og Viðar Þorsteinsson þáverandi framkvæmdastjóra Eflingar á sinn fund til að færa okkur fregnir af því að hún hefði – án samráðs við Eflingu – boðið Samtökum atvinnulífsins að í skiptum fyrir efndir á loforðum tengt launaþjófnaðarmálinu yrði rykið dustað af gömlum tillögum úr tíð Gylfa Arnbjörnssonar um „gæðavottun“ á starfsmannaleigum. Samkvæmt þessum tillögum átti að stofna sérstaka vefsíðu með nöfnum starfsmannaleiga sem farið hefðu í gegnum vottunina, og áttu nöfn og lógó SA og ASÍ að standa hlið við hlið á síðunni. Tillögurnar fólu í sér ótrúlega eftirlátssamar kröfur og veikt eftirlit. Þær hefðu, svo dæmi sé nefnt, leitt til þess að starfsmannaleigur sem eru þekktar fyrir að hafa holað verkafólki niður í ólöglegu iðnaðarhúsnæði og snuðað það um laun hefðu fengið hvítþvott og gæðavottun frá sjálfu Alþýðusambandi Íslands. Þess má geta að áður hefur verið reynt að stofna til gæðavottana af þessu tagi í samvinnu við atvinnurekendur, til dæmis gæðavottunina „Vakinn“ í ferðaþjónustunni, en reynslan af því verkefni var mjög slæm og var því hætt, eins og sagt er frá í skýrslu eftir Írisi Hrund Halldórsdóttur og Magnfríði Júlíusdóttur (sjá bls. 51 o. áfr.). Því er það með ólíkindum að forseti ASÍ hafi talið það ráðlegt að endurtaka þann leik. Það sem kom mér á óvart við þetta var ekki aðeins hversu dauðadæmd hugmyndin var, heldur hitt að forsetinn skyldi einnig hafa talið það viðeigandi að ámálga stofnun sérstakrar vottunarsíðu um vinnustaði Eflingarfélaga við SA án samráðs við Eflingu. Þessi vinnubrögð áttu svo eftir að verða einkennandi fyrir áframhaldandi vinnu Alþýðusambandsins við starfskjaralögin svokölluðu sem hélt áfram næstu tvö ár.
Vinna Alþýðusambandsins við útfærslu á viðurlögum gegn launaþjófnaði fór þannig vægast sagt lítt gæfulega af stað, samanber tillöguna um gæðavottun starfsmannaleiga. Að lokum fór þó svo í febrúar 2021 að drög að lagabreytingum litu dagsins ljós. Þar hafði sannkallaður óskapnaður fæðst. Framkvæmdastjóri og lögmaður Eflingar lásu drögin nákvæmlega og settu saman ítarlega greinargerð um þau. Sú greinargerð rakti með skýrum hætti hvaða þýðingu umrædd lagasetning myndi hafa fyrir þolendur launaþjófnaðar. Niðurstaðan var skýr: Lögin hefðu engu breytt. Um var að ræða sýndarmennsku, sem myndi hafa þau einu áhrif að rýra enn frekar traust þolenda launaþjófnaðar á úrræðum kerfisins. Frumvarpsdrögin voru gerendavæn í nær öllum atriðum og settu aukna ábyrgð á herðar þolenda. Eins og Efling hefur iðulega gert þegar um er að ræða mikilvæg hagsmunamál félagsfólks var það upplýst um stöðu málsins. Var því greinargerð Eflingar send á fjölmiðla og birt á vef félagsins. Olli þetta mikilli gremju innan ASÍ, Drífa Snædal ásakaði mig um trúnaðarbrest og var Halla Gunnarsdóttir nýráðinn framkvæmdastjóri ASÍ send út af örkinni til að krefjast þess af Viðari Þorsteinssyni að hann tæki greinargerð félagsins um frumvarpsdrögin niður af vef félagsins. Efling hlýddi að sjálfsögðu ekki þessari íhlutun ASÍ í starf félagsins.
Svo fór að frumvarpið var ekki lagt fram, og hefur ekki verið enn, en ekkert hefur komið fram sem bendir til að Drífa og ASÍ hafi endurskoðað afstöðu sína eða dregið nokkurn lærdóm af málinu. Þess í stað hefur Drífa Snædal kosið að útmála alla málefnalega andstöðu við ákvarðanir sambandsins undir hennar forystu, sama hversu vel rökstudd sú andstaða hefur verið, sem einhvers konar atlögu að persónu sinni. Ásakanir Drífu um slíkar atlögur, sagðar koma frá mér, náðu nýjum hæðum í yfirlýsingu hennar vegna afsagnar sinnar í síðustu viku. Ekkert hefur komið fram, hvorki gögn né vitnisburðir, sem styðja það. Með skrifum mínum hér vil ég sýna íslenskum almenningi og félagsfólki hvaða átök hafa átt sér stað milli mín og Alþýðusambandsins, og hvernig ég hef beitt mér í þeim. Ég hef nú rakið dæmið af störfum efnahags- og skattanefndarinnar og af baráttunni fyrir févítisákvæði gegn launaþjófnaði.
Í næstu grein mun ég rekja dæmin af Grænbók, Icelandair-yfirlýsingunni og hugmyndum um frystingu launahækkana í Kórónaveirukreppunni.
Höfundur er formaður Eflingar.