Þetta er ógnvænlega spurning, en hún er löngu orðin tímabær. Jörðin brennur, jöklar bráðna, viðstöðulaus mengun og náttúran grætur af sársauka en gráðugum stórkapítalistum hér á landi og annars staðar er alveg sama! Skítt með börnin og barnabörnin.
Formúla kapítalista um leiðir til að sporna gegn hamfarahlýnun gengur ekki upp. Það dugar engan veginn að gera kapítalismann sjálfbæran eða grænan eins og nú er boðað af þeim sem vilja hanga á kapítalisma eins og hundar á roði. Það verður að umvefja jörðina kærleika, virðingu og umhyggju. Og það er það sem við sósíalistar viljum gera. Gera allt sem þarf til að bjarga mannkyni og náttúrunni.
Það er óstjórnleg tregða hjá þeim sem styðja núverandi efnahagskerfi, eða kapítalisma, að kyngja því að þeirra leiðir dugi ekki til. Það er erfitt að viðurkenna að sú hugmyndafræði sem maður hefur stutt, kannski alla ævi, gangi ekki lengur upp. Það þurfi að henda henni og það fljótt til að bjarga jörðinni og börnum okkar og barnabörnum. Þetta er risastór áskorun fyrir stjórnmálaflokka á Alþingi núna, því allir styðja þeir núverandi kerfi markaðshyggju, samkeppni og kapítalisma. Meira að segja Vg þó þeir þykist annað, en gerir það þó ekki miðað við frammistöðuna í núverandi ríkisstjórn. Skoðum þetta.
Stórfyrirtækin og gömlu sósíalistarnir
Núverandi efnahagskerfi gengur meðal annars út á að til þess að vaxa þurfi að auka hagvöxt. En þá strax loga allar viðvörunarbjöllur. Því hagvaxtarformúlan krefst aukinnar neyslu svo vöxturinn aukist. Aukinni framleiðslu og neyslu fylgir gríðarlegur vöxtur í mengun og hamfarahlýnun. Og það er það sem er að fara með jörðina að stórum hluta. Tortíma henni.
Svo eru það gamlir sósíalistar sem segjast hafa vitkast með árunum og styðja nú markaðskerfið, samkeppni og kapítalisma. Það er svolítið erfitt að viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér, einkum ef fólki finnst það tilheyra intellígensíunni á Íslandi.
Lóan okkar kemur ekki aftur?
Nú er svo komið að lífverur sem áður héldu til á Íslandi, finnast ekki lengur. Þær eru farnar eða á leiðinni að hverfa. Menn spá því að meira að segja lóan sem við öll elskum, vorboðinn okkar, komi ekki meir.
Eins og fyrr segir dugar engan veginn til, að gera kapítalismann sjálfbæran eða grænan. Það er heldur ekki nóg að gera einstaklinginn ábyrgan fyrir loftlagsvandanum, eins og að fara alltaf með tau-eða pappírspoka út í stórmarkað. En þar mæti fólk auðvaldinu í allir sinni mynd, fullar hillur af plasti og öðrum mengunarvaldandi umbúðum. Sem verða umfangsmeiri og umfangsmeiri.
Þú sem lagðir svo mikla áherslu á tau-eða pappírspoka, sem þú tókst með þér að heiman, fyllir þú við kassann í búðinni af plasti og umbúðum sem hafa valdið og munu valda hamfarahlýnun. Og afhverju það? Vegna þess að stórfyrirtækin og fleiri fyrirtæki hafa engan áhuga á að taka þátt í að verja umhverfið. Eins og fyrr segir er þeirra markmið að græða meira. Það er mikilvægt að fólk átti sig á þessu. Og stórfyrirtæki um alla heim ætla að nýta áfram mengandi jarðefnaeldsneyti og fleiri efni sem menga óstjórnlega. Við verðum að hverfa frá kapítalisma og taka upp raunverulega umhverfisstefnu eins og sósíalisminn boðar.
Höfundur er þingframbjóðandi Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavíkurkjördæmi suður og sósíalískur femínisti.