Fjármálaráðherra er verðlaunaður fyrir viðskipti ársins með því að selja 35% hlut Ríkisins í Íslandsbanka á undirverði sem færði fjárfestum 29 milljarða króna á silfurfati, á nokkrum vikum. Sérstök verðlaun voru svo veitt viðskiptamanni ársins fyrir að selja Mílu, eina mikilvægustu fjarskiptainnviði þjóðarinnar úr landi, og senda um leið himinháa kröfu á neytendur, á meðan arðgreiðslum viðskiptanna verður ráðstafað á blóðugar hendur nafntogaðra útrásarvíkinga og lærlinga þeirra.
Bankastjóri Arion banka er verðlaunaður fyrir sögulegan hagnað á tímum kreppuástands hjá þjóðinni. Í umsögn er honum sérstaklega hrósað fyrir háar arðgreiðslur og uppkaup á eigin bréfum bankans. Lítið fer fyrir samfélagslegri ábyrgð eins og hversu mörgum hann hefur sagt upp störfum eða hversu mörgum útibúum hefur verið lokað eða þjónusta í þeim stórlega skert.
Árið virðist einkennast af endurkomu þekktra útrásardólga úr bankahruninu sem keppast við að hreinsa út verðmæti úr fyrirtækjum sem þeir hafa komist yfir, sum þeirra fyrirtækja eru að mestu í eigu almennings í gegnum lífeyrissjóðina sem sitja eftir með tómar skeljar og áratuga skuldbindingar.
Kunnuglegar aðferðir hér á ferð.
Atvinnuleysi náði hámarki á árinu sem og hækkun hlutabréfa, hagnaður fjármálafyrirtækja og afkoma flestra skráðra félaga í Kauphöll íslands.
Arðgreiðslur og uppkaup eigin bréfa hafa ekki verið hærri frá hruni og stefnir í að bæti verulega í á næsta ári. Á sama tíma hafnar Alþingi tillögu FF um hækkun bankaskatts í 0,376% með nær öllum greiddum atkvæðum.
Ein alvarlegasta húsnæðiskreppa síðustu áratuga vofir yfir og leiga á þriggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu kostar meira heldur en útborgaður ellilífeyrir. Heilbrigðiskerfið er að þrotum komið og forsætisráðherra talar um grænar fjárfestingar. Mest allur stuðningur ríkisins vegna heimsfaraldursins hefur farið til atvinnulífsins.
Ríkisstjórnin, Seðlabankinn og talsmenn sérhagsmuna eru síðan sammála um að kjarasamningsbundnar launahækkanir séu helsta ógnin við stöðugleika.
Skipuð vitstola verum,
Skelfilegar afleiðingar ópíóða lyfja voru árum saman töluð niður af lyfjaframleiðendum og stjórnmálafólki í þeirra eigu. Framleiðsla þeirra og sala skiluðu ævintýralegum hagnaði þótt þau hefðu vitað af gríðarlegri skaðsemi og hrikalegum langtíma afleiðingum.
Græðgi sama hvað.
Johnson & Johnson, Teva, Endo og Allergan bættust í hóp lyfjafyrirtækja sem eru sökuð um að hafa gert lítið úr hættunni af langtímanotkun ópíóðaverkjalyfja, til þess að geta selt og grætt meira.
Tæplega hálf milljón Bandaríkjamanna hefur látist af völdum ofskömmtunar ópíóða síðustu tvo áratugi. Um 50 þúsund létust vegna þeirra á árinu 2019.
Alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið McKinsey náði einnig samkomulagi við bandaríska ríkið um að fyrirtækið greiði 573 milljónir Bandaríkjadala, 74.5 milljarða króna, í sátt vegna ásakana um að ráðgjöf McKinsey til lyfjafyrirtækjanna hafi aukið á ópíóðafaraldurinn banvæna í landinu.
Bara á árinu 2014 sköpuðu ópíóðar 11 milljarða Bandaríkjadala hagnað fyrir lyfjafyrirtækin sem samsvara 1.435 milljörðum íslenskra króna.
Eins og í fjármálahrunin 2008 voru raunverulegur gerendur ekki sóttir til saka eða sakfelldir heldur notuðu brot af illa fengnum gróða til að kaupa sig frá sök.
Staðan á erlendum fjármálamörkuðum er ógnvænleg og minnir um margt á aðdraganda bankahrunsins 2008, sem svo afhjúpaði eina umfangsmestu spillingu innan alþjóðlega fjármálakerfisins í nútíma sögu. Seðlabankar heimsins hafa séð til þess að keyra upp núverandi bólu með hrárri peningaprentun, magnbundinni íhlutun, á skala sem ekki á sér hliðstæðu.
Aldrei í sögunni hefur hlutabréfaverð verið eins hátt og aldrei í sögunni hefur hækkunarferlið verið lengra í árum talið. Rétt eins og í aðdraganda hrunsins 2008 haga sér allir þannig að verðið á hlutabréfum geti ekki farið annað en upp.
Óhætt er að fullyrða að allt sem fer upp kemur einhvern tíma niður. Sérstaklega þegar fjármálamarkaðir eiga í hlut.
Ótvíræðir sigurvegarar ársins eru fjármagnseigendur, fjármálakerfið og hlutabréfamarkaðir. Taparar eru þeir sem borga reikninginn á endanum.
Sem heyja stríð sín á milli,
Yfir 12 milljónir Sýrlendinga hafa misst heimili sín í stríðinu sem nú hefur staðið í áratug.
Sprengjum rignir yfir íbúa á Gaza og eldflaugum er skotið til baka. Tíu manns úr sömu fjölskyldu voru drepin í loftárás Ísraelshers á flóttamannabúðir á Gaza og skrifstofur alþjóðlegra fjölmiðla voru jafnaðar við jörðu.
Aðstandendur tíu almennra borgara, sem voru myrtir í Kabúl í drónaárás Bandaríkjahers í lok ágúst, vilja að haldin verði réttarhöld. Sjö börn voru á meðal fórnarlambanna, það yngsta tveggja ára.
10.000 börn í Jemen hafa annað hvort verið drepin eða illa særð frá því átök hófust.
Herinn í Mjanmar hefur myrt hundruð almennra borgara á götum úti. Þar á meðal eru börn.
Reglulegar fréttir af yfirfullum bátum af flóttafólki sem farast og týnast. Saklaust fólk sem í vonleysi og örvæntingu leggur líf sitt og barna sinna í stórhættu til þess eins að eiga möguleika á betra lífi. Minnst 1.300 manns hafa drukknað á leið sinni yfir Miðjarðarhafið. Þeir sem komast á leiðarenda mæta fordómum og útskúfun, fangelsuð í flóttamannabúðum við hörmulegar aðstæður.
Ég segi skoðun mína,
Hátíð ljóss og friðar er áminning um stöðu okkar í samfélaginu og hjá sumum rauða spjaldið ef þeir standa illa félagslega og/eða fjárhagslega. Við erum ríkt samfélag, ekki bara af veraldlegum gæðum og auðlindum, heldur líka af samkennd og náungakærleik.
En eitthvað höfum við villst af leið.
Það er búið að reka fleyg á milli stétta, fleyg á milli tekjuhópa, fleig á milli menntaðra og ómenntaðra, fleyg á milli fullfrískra og veikra. Samkenndin er ekki eins og hún var og við tölum minna saman um það sem skiptir máli. Okkur varðar minna um þá sem eru í verri stöðu eða minna mega sín, nema á tyllidögum þegar við kaupum armband, nælu, gloss, álf eða neyðarkall. Samviska í dag kostar 2.500 kall á mánuði hjá UNICEF og staðfestingu af herlegheitunum á samfélagsmiðlum.
Við lifum í yfirborðskenndri veröld samfélagsmiðla, og tökum þátt í yfirborðskenndum leik.
Vitandi vel að við erum ekki nema einum launaseðli frá því að geta staðið skil á skuldbindingum okkar, eða alvarlegum veikindum frá algjöru tekjuhruni.
Hvenær kemur röðin að okkur og hverja biðjum við þá um hjálp?
Við erum að fjarlægjast hvort annað.
Úthugsaðir Algrímar draga athyglina frá því sem mestu máli skiptir. Því þeir vita meira um okkur en við sjálf? Munum við enda sem þrælar eigin veikleika hverjir sem þeir kunna að vera?
Tæknin er alltaf langt á undan okkur og það er alltaf eitthvað nýtt sem talsmönnum sérhagsmuna dettur í hug.
Hvað drífur fólk áfram sem er á móti hækkun atvinnuleysis og örorkubóta?
Það nýjasta er að fagna mjög og tala upp Gigg hagkerfið eða hark hagkerfið. Það sé svo stórkostlegt að fólk geti unnið hvar sem er og hvenær sem er, ótryggt, án veikindaréttar eða launaðs orlofs.
Og samhliða því munu fyrirtækin spara launatengd gjöld og aðrar tryggingar.
Jú þetta gengur sjálfsagt upp þegar eftirspurn eftir giggurum er meiri en framboð. En hvað gerist þegar þetta snýst við og eftirspurn eftir vinnuafli verður minni en framboð sem er nær öruggt að gerist þar sem fólksfjölgun er mun meiri en fjölgun starfa, þá mun tækniþróun og sjálfvirknivæðing að öllum líkindum fækka störfum enn frekar? Eitthvað sem blasir við ef þróunin heldur áfram sem horfir.
Nýjustu kröfur atvinnurekenda er að fólk hafi aukið frelsi og sveigjanleika til vinnu. Í því felst að fólk fái að ráða hvenær það vinnur dagvinnu. Að það geti unnið dagvinnuna sína á næturnar og um helgar. Geti verið á föstum dagvinnu mánaðarlaunum en unnið minna einn mánuðinn en meira þann næsta, jafnvel sólarhringum saman, án þess að yfirvinna sé greidd sérstaklega.
Hvað gengur þessu fólki raunverulega til?
Þetta mun spara fyrirtækjunum, sem ganga almennt mjög vel, gríðarlegar upphæðir í launakostnaði og húsnæði.
Einnig hefur farvegur fyrir gul stéttarfélög verið grafinn. Stéttarfélög sem fara ekki í verkföll, eru hliðholl atvinnurekendum eða beinlínis stjórnað af þeim og vinnuaflið hefur enga félagslega eða stjórnunarlega aðkomu að.
Þetta er auðvitað sturlun.
Er framtíðarsýn talsmanna sérhagsmuna virkilega sú að fólk standi í röðum eftir vinnu, eða fyrstir koma, fyrstir fá, nokkra klukkutíma á álagspunktum tískuvöruverslana eins og í Bretlandi? Að verkefnin falla til þeirra sem bjóða lægst? Að afkomendur okkar geti stundað vinnu á öllum tímum sólarhringsins á dagvinnukaupi eða strípuðum töxtum?
Er þetta sú arfleið sem við viljum sjá samfélagið okkar þróast í og börnin okkar og afkomendur vitna til þegar okkar verður minnst?
Hvað get ég gert,
Ábyrgð okkar er mikil. Hvernig samfélagi ætlum við að skila til barna okkar og afkomenda þeirra? Það erum við sem mótum þá mynd og það erum við sem getum breytt af leið. En til þess þurfum við að vakna. Við þurfum að horfa innávið og taka afstöðu. Afstöðu gegn græðgi og sérhagsmunagæslu. Afstöðu gegn afvegaleiðingu umræðunnar og lygunum. Afstöðu gegn því niðurbroti á gildunum sem okkur var kennt. Við þurfum að safnast saman og standa saman. Við þurfum að hugsa um okkar veikustu bræður og systur og setja það sem viðmið um það hvernig við stöndum okkur sem heild.
Við getum það alveg og við getum það saman.
Við í verkalýðshreyfingunni, bæði á almennum markaði og hjá hinu opinbera, þurfum að skrifa nýjan samfélagssáttmála. Ég er sammála formanni BSRB að lykillinn sé að ganga sameinuð fram og skrifa okkar sögu. Nýja ósagða sögu sem skrifuð verður á okkar forsendum.
Ég er einn af þeim og þeir eru ég,
Rúna Sif Rafnsdóttir bjargaði lífi Elds Elís Bjarkasonar, lítils dauðvona drengs, þegar hún gaf honum lifur.
Haraldur Þorleifsson, sem hagnaðist um milljarða á sölu fyrirtækis síns til Twitter, tók þá eftirtektarverðu og fáheyrðu ákvörðun um að greiða skatta af sölunni á Íslandi. Í stað þess að greiða sem allra minnst til samfélagsins, eins og viðtekin venja auðmanna er, vildi hann greiða sem mest og til samfélagsins. Ekki nóg með að rampa upp Reykjavík auglýsti hann eftir fólki og fjölskyldum í neyð til að styðja við fjárhagslega yfir jólin.
Þúsundir framlínufólks í heilbrigðisgeiranum, í verslun og þjónustu hefur staðið vaktina við að halda samfélaginu gangandi á tímum heimsfaraldurs við afar erfiðar og krefjandi aðstæður.
Sjálfboðaliðar hjálparsveitanna sem leggja líf sitt í hættu við að bjarga öðrum og fjölda félagasamtaka sem hjálpa til við lina þjáningar samlanda sinna án launa eða endurgjalds.
En oft fæ ég snert,
Ég hef skrifað hátíðargreinar í Kjarnann síðustu ár og átti árið í ár ekki að vera undantekning frá þeirri hefð. Ég byrjaði að skrifa en var alveg stíflaður. Ekki vegna þess að ég hafði ekkert að skrifa um heldur var það of mikið.
Það er eitt að skrifa um allt það neikvæða og allt það jákvæða sem gerist í okkar samfélagi en að koma því í form sem fær fólk til að hugsa eða snerta er annað. Stundum leitast ég eftir fyrirsögnum til fá innblástur og hugmyndir og stundum stendur bunan út úr lyklaborðinu án þess að ég hafi nokkuð fyrir því, þegar mér finnst samfélagið tala í gegnum mig.
En stundum er ég stopp.
Kvöld eitt í aðdraganda jóla var ég, eins og oft áður að hlusta á tónlist. Þessi gömlu góðu. Einhverra hluta vegna datt textabrot úr lagi Pétur heitins Kristjánssonar í huga minn. Vitskert veröld eftir Einar Vilberg.
Ekki veit ég nákvæmlega hvað höfundi gekk til eða nákvæma meiningu þeirra orða sem hann skrifaði. En þau veittu mér innblástur á þessum tímapunkti og súmmeruðu nokkurn vegin það sem mér lá á hjarta.
Eins og við gerum flest leggjum við misjafna túlkun og tilfinningar í ljóð og listir, túlkum með okkar nefi og tengjumst með mismunandi hætti. Pétur Kristjánsson þekkti ég ekki en hitti hann þegar ég var á leið til Danmerkur á tónleika með Rolling Stones árið 1995, án þess að fara nánar út í flugferð þá, hafði hann einhverja ótrúlega nærveru sem hefur setið í mér alla tíð síðan og hafði kannski áhrif á efnistökin sem hér fara. Mögulega er þetta bara hallærislegur pistill en hann er einlægur og frá hjartanu.
Af blygðun, mig langar til dauðans,
Árið 2020 létust minnst 47 einstaklingar sem tóku sitt eigið líf. Ákvörðun að lífið sé ekki þess virði að lifa í því. Af hverju tölum ekki um það? Þetta eru álíka margir og létust af slysförum síðustu 5 árin. Hvað er að í okkar samfélagi og hvað veldur? Er okkur virkilega meira umhugað um grímuskyldu eða hvort við komumst á barinn eða í jólaglöggið án þess að fara í hraðpróf?
Hvað er að í okkar litla samfélagi?
Geðheilbrigðisþjónusta er í molum og ekki virðist nokkur leið til að sannfæra stjórnvöld um mikilvægi forvarna og gjaldfrjálsrar geðheilbrigðisþjónustu. Ekki nokkur leið þó flestum sé ljós sá langtímaávinningur. Því þó að við séum hænuskrefi nær því að gera bót þar á fylgir fjármagnið ekki. Meiru máli skiptir að lækka bankaskatt og veiðigjöld og vinna í að aðlaga lög og regluverk til frekari arðsemi sérhagsmunafla og til fjárfestinga þeirra í innviðum. Forgangsverkefni eins og glerhöll undir ríkisbanka á dýrasta byggingarreit bæjarins, lækkun bankaskatts, sala ríkiseigna á undirverði til útvalinna, fordæmalausum fjáraustri til atvinnulífsins og óstjórnlegri meðvirkni með skattaundanskotum og græðgi útgerðarfyrirtækjanna.
Meðvirkni þeirra er meðvirkni okkar. Öðruvísi hefði núverandi ríkisstjórn ekki umboð.
Og meðvirknin kostar mannslíf.
Vitskert veröld
Skipuð vitstola verum
Sem heyja stríð sín á milli
Ég segi skoðun mína
Hvað get ég gert
Ég er einn af þeim og þeir eru ég
En oft fæ ég snert
Af blygðun, mig langar til dauðans,
Höfundur er formaður VR.