Fjárfestar í Bandaríkjunum bíða nú með nokkurri eftirvæntingu eftir því hvenær Seðlabanki Bandaríkjanna byrjar að hækka vexti, eftir langt tímabil örvunaraðgerða þar sem vaxtastig hefur verið við núllið. Til einföldunar má segja að Seðlabanki Bandaríkjanna, eins og aðrir seðlabankar, hafi séð til þess að hjól efnahagslífisins hafi snúist eins og þau hafa gert, með því að auka peningamagn í umferð og auka framboðið af ódýru lánsfé.
Atvinnuleysi minnkar
Það sem ræður úrslitum um það hvenær vextir munu hækka eru ytri aðstæður í bandarískum efnahag, sem hafa farið hratt batnandi að undanförnu. Tölur frá því í dag sína að atvinnuleysi er nú komið í 5,1 prósent, en 173 þúsund ný störf urðu til í hagkerfinu í ágúst. Þetta eru töluvert betri aðstæður á vinnumarkaðnum en gert var ráð fyrir samkvæmt spám, en atvinnuleysi mælist nú sambærilegt við það sem það var í apríl 2008, áður en verstu andartök niðursveiflunnar á fjármálamarkaði fóru að hafa versnandi áhrif á heimsbúskapinn.
Vaxtapólitíkin og versnandi heimsbúskapur
Fjárfestingabankarnir og sjóðirnir í Bandaríkjunum, sem oft eru settir undir Wall Street-hattinn, bíða þess nú að Seðlabanki Bandaríkjanna hefji vaxtahækkunarskeiðið sem Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, boðaði í byrjun árs að gæti hafist um mitt þetta ár, ef aðstæður þróuðust eins og spár bankans gerðu ráð fyrir fyrir, einkum á vinnumarkaði. Þessi orð hjá Yellen, sem síðan hefur mátt greina í ítarlegum skrifum hennar þar sem framtíðarhorfur eru greindar, þykja til marks um að bankinn muni aðeins hefja vaxtahækkunarferil ef bandaríska hagkerfið er farið að sýna skýr merki um uppsveiflu.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar við vaxtahækkun, samkvæmt umfjöllun The Economist í gær, og segir að horfur í heimsbúskapnum hafi versnað að undanförnu. Óstöðugleiki sé mikill í augnablikinu, og kínverska hagkerfið sé farið að sína merki um kólnun. Af þessum ástæðum þurfi seðlabankar, einkum sá áhrifamesti í heiminum, Seðlabanki Bandaríkjanna, að fara varlega. Gjaldmiðlastríð milli hagkerfa heimsins geti annars orðið „blóðugt“ fyrir allan almenning.
How Yellen Can Raise Rates Amid Currency Wars http://t.co/pw9GqCCyES
Auglýsing
— Janet Yellen (@The_Yellen) February 12, 2015
Wall Street á allt undir ríkisvaldinu - Hvar er jafnvægispunkturinn?
Hér er ekkert nýtt á ferðinni. Seðlabankar hafa alltaf verið áhrifamiklir á fjármálamörkuðum, enda hugmyndin um að þeir séu banki bankanna, þegar á reynir, ennþá í fullu gildi og hefur líklega aldrei verið jafn augljós og um þessar mundir. Talið um hina ósýnilegu hönd markaðarsins á lítið skylt við stöðu mála á Wall Street, þar sem markaðurinn bíður þess að ríkisvaldið gefi tóninn fyrir það sem koma skal. Höndina sjá allir og hún kemur frá seðlabanka skattgreiðenda. Hin kapítalíska veröld hér vestanhafs er nú ekki frumlegri en svo.
En á meðan leikreglurnar eru þessar sem að framan er lýst, er ekki skrítið að ákvarðanir um vaxtahækkanir, eftir næstum átta ára tímabil þar sem ókeypis peningar hafa flætt um fjármálakerfin, sé beðið með nokkurri spennu. Helstu spár, sem fagtímarit vitna til, gera ráð fyrir því að stýrivextir í Bandaríkjunum muni hækka um 0,25 prósentustig innan næstu tveggja mánaða.