Ísland er nú að stíga eitt stærsta skrefið í endurreisnarstarfinu eftir hrun bankanna. Seðlabankinn hefur samþykkt 379 milljarða stöðugleikaframlag frá slitabúum föllnu bankanna, og telur stöðugleika ekki ógnað með veitingu á undanþágu frá fjármagnshöftum.
Hörmulegur rekstur og óábyrgur
Þessi staða nú markar tímamót í endurreisnarstarfinu frá því bankarnir hrundu eins og spilaborg dagana 7. til 9. október 2008. Það ætti að vera öllum hollt núna, að hugsa til þess hversu yfirgengilegt tjónið var af hörmulegum og óábyrgum rekstri hinna föllnu banka. Það á ekki að koma neinum á óvart að öllum steinum sé velt við, og athugað hvort lög hafi verið brotin. Það hefur heldur ekki komið á óvart að sjá það staðfest endurtekið í Hæstarétti, að stórkostleg og fordæmalaus lögbrot voru framin í starfsemi þeirra, einkum og sér í lagi þegar kom að fjármögnun þeirra á eigin hlutafé. Engin dæmi hafa komið fram á erlendum vettvangi, um slíka gjörninga í viðlíka umfangi.
Stofnanir taki dóma til sín
Þó spjótin beinist eðlilega að efsta lagi stjórnenda bankanna, þá ættu eftirlitsstofnanir, eins og Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið, einnig að taka suma dóma sem fallið hafa, þar sem fjármögnun bankanna á eigin hlutafé er undir, til sín. Þessar stofnanir sáu ekki merkin, þrátt fyrir að þau hafi átt að vera hrópandi augljós þeim sem voru að vinna við að horfa ofan í rekstur þeirra. Að mörgu leyti er það óskiljanlegt, þrátt fyrir allt sem fram hefur komið, er bankarnir hafi fengið að fjármagna á bilinu 30 til 60 prósent af eigin hlutafé, að minnsta kosti, samkvæmt frumgögnum um fjármögnun þeirra sem birt hafa verið í skýrslu RNA. Einhver hefði átt að grípa í taumana, greina vandann.Tjónið vegna óábyrgrar starfsemi bankanna verður seint metið að öllu leyti til fjár, en þessi tímamót nú, þar sem er verið að slíta búum þeirra, án þess að hagkerfið fari á hliðina á nýjan leik, ætti að gefa vísbendingu um alvarleika þess. Samfélagið er ennþá undir oki hinna föllnu banka, sjö árum eftir fall þeirra, og situr uppi með skaðað orðspor, fjármagnshöft og færri tækifæri fólks.
Hvernig gat þetta gerst?
Töluverð umræða hefur verið um það á erlendum vettvangi, hvernig hin alþjóðalega fjármálakreppa, sem svo sannarlega hafði áhrif á Íslandi líka, gat átt sér stað með jafn áhrifamiklum hætti og raunin varð.
Margir flóknir hlutir mynduðu slæmar aðstæður, á því leikur enginn vafi, og ekki ætlunin að gera þau atriði að umtalsefni hér. Sitt sýnist hverjum um þau, þó afleiðingarnar séu óumdeildar.
Það sem hlýtur að skipta miklu máli, þegar jafn margir hlutir fara útaf sporinu og hér varð raunin, er að horfa til þess hvernig megi læra af mistökunum. Þetta á ekki aðeins við um sérhæfð atriði sem tengjast fjármálakerfinu eingöngu, heldur ekki síður önnur atriði sem styrkja samfélagsgerðina sem heild.
Rannsóknir þarf að efla
Rannsóknarstarf á háskólastigi er líklega sá vettvangur sem mest getur hjálpað til við að efla alþjóðleg tengsl Íslands og innviðina um leið. Undanfarin ár hefur ekki tekist, að gefa háskólastarfi þann slagkraft sem það þarf, svo að hér geti blómstrað öflugt þekkingarsamfélag til framtíðar litið.
Vissulega þarf að fara ofan í kjölinn á því, hvort háskólastigið sé óhagkvæmt og kröftum of mikið dreift, líkt og Ríkisendurskoðun hefur bent á. En í alþjóðlegum samanburði vantar meira fjármagn í rannsóknarstarf, líkt og fólkið sem er í forsvari fyrir háskóla í landinu hefur ítrekað bent á. Framfarirnar og lærdómurinn af mistökum fortíðarinnar byrjar þar, í smáatriðavinnunnni. Ekki einangrað á einu sviði, heldur heildrænt á flestum sviðum samfélagsins.
Vonandi mun stjórnvöldum, sem nú eru að leiða Ísland upp úr mest aðkallandi vandamálunum vegna falls bankanna, bera gæfu til þess að forgangsraða fjármunum í þágu rannsókna á næstu misserum. Það er ekki víst að það sé til jafn mikilla vinsælda fallið, eins og að úthluta milljarðatugum beint úr ríkissjóði til fólks, en það er góð og nauðsynleg framtíðarfjárfesting. Og hjálpar samfélaginu að læra af mistökum, stórum sem smáum, og taka skref fram á við.