Hlutabréf í bandaríska álfyrirtækinu Alcoa, móðurfélag
Fjarðaráls, hafa lækkað um yfir 40 prósent á þessu ári miðað við sama tímabil í fyrra.
Japanski bankarisinn Nomura breytti stöðu þessara bréfa í sínu safni úr kaupa
og í halda. Jafnframt lækkaði Nomura mat sitt á hlutbréfunum úr 14 dollurum á
hlut og niður í 8 dollara. Í leiðinni var stöðu hlutabréfa í Century Aluminium,
móðurfélags Norðuráls, breytt á sama hátt og verðmatið á hlutum þess félags
lækkað úr 12 dollurum niður í 4 dollara á hlut.
Nomura telur að heimsmarkaðsverð á áli haldist á sömu slóðum og það er í dag fram yfir árið 2017. Áltonnið kostar undir 1.500 dollurum á málmmarkaðinum (LME) í London þessa stundina. Það er rétt yfir jafnvægisverðinu (breakeven) hjá best reknu álverum heimsins en það er talið vera um 1.450 dollarar á tonnið. Um 90 prósent af öllum álverum í Kína, stærsta álframleiðenda heimsins, eru rekin með tapi í dag.
Nýlega birti Ríkisútvarpið frétt um að sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vildu fá 70 milljóna króna styrk frá skattgreiðendum til að undirbúa hugsanlegt álver við Húnaflóa. Beiðni um þennan styrk var komið til fjárlaganefndar. Það mætti eiginlega segja að fjárlaganefnd gerði betur í að henda þessu fé út um gluggana á annarri hæð Alþingis heldur en senda það norður. Þá kæmi það allavega þeim til góða sem ættu leið framhjá alþingishúsinu á því augnabliki sem seðlarnir streymdu niður í Kirkjustrætið.
Versnandi staða
Að undirbúa álversbyggingu í dag á Íslandi verður að teljast undarlegt eins og staðan er á álmörkuðum heimsins. Staða sem ekki er líklegt að batni a.m.k. næstu tvö til þrjú árin. Sem dæmi um erfiðleikana má nefna að verð á áli var hið lægsta í sex ár á markaðinum í London (LME) fyrir viku síðan. Hér heima sjáum við að álverið í Straumsvík er í kröggum, og það ekki bara vegna yfirvofandi verkfalls að sögn forstjórans, álverið á Grundartanga er það eina sem heldur móðurfélaginu Century Aluminium á floti (vegna mjög hagstæðs orkuverðs) og Alcoa móðurfélag Fjarðaráls ætlar að loka þremur af fjórum álverum sínum í Bandaríkjunum.
Undarleg áform
Hugsanlegt álver við Húnaflóa mun verða kínversk framkvæmd. Sennilegt er, miðað við fyrirliggjandi áform um stærð þess, að það verður rekið með miklu tapi í upphafi nema það fái orkuna svo gott sem gefins. Áform Kínverja eru svo enn undarlegri þegar horft er til þess að í dag eru um 90 prósent allra álvera í Kína rekin með tapi að því er kemur fram í úttekt ráðgjafafyrirtækisins AZ China. Í sumum tilviklum er tapið falið með gífurlegum niðurgreiðslum stjórnvalda á orkuverðinu til þeirra. Samt sem áður hefur álframleiðsla Kínverja aukist um 620.000 tonn í ár miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta er sama magn og nemur ársframleiðslu þeirra þriggja álvera sem Century Aluminium rekur í Bandaríkjunum. Raunar ætlar Century að draga verulega úr álframleiðslu sinni í Bandaríkjunum á næsta ári eins og Alcoa. Talið er að aðeins átta álver verði starfandi þar í landi eftir áramótin.
Þrýsta á stjórnvöld
Í frétt á Reuters í síðustu viku kom fram að bæði Alcoa og Century Aluminium beita bandarísk stjórnvöld þrýstingi í dag til að fá þau til að draga úr innflutningi á áli frá Kína. Fyrrgreind fyrirtæki benda m.a. á að Kínverjar nýti sér önnur lönd, eins og Víetnam og Mexíkó, til að komast hjá innflutningsgjöldum í Bandaríkjunum. Það er Kínverjar sendi þangað „hálfunnið“ ál sem síðan er selt til Bandaríkjanna sem fullunnið án þess að nokkurt hafi gerst í raun annað en að umskipa þessu áli í höfnum fyrrgreindra landa.
Á móti þessum áformum stendur svo breiður hópur fyrirtækja sem vill hafa möguleika á því áfram að kaupa ódýrt ál frá Kína. Þetta eru fyrirtæki á borð dósaverksmiðjur/brugghús, bílaframleiðendur og flugvélaframleiðendur. Það er því erfitt að sjá að álfyrirtækin hafi erindi sem erfiði í þessu máli.
Vampírukolkrabbinn kemst í feitt
Álverð eftir hrun náði hæstu hæðum árið 2011 þegar það stóð í tæpum 2.700 dollurum á tonnið hjá LME. Síðan hefur það sífellt lækkað og var síðast yfir 2.000 dollurum í fyrrasumar. Ári áður, það er sumarið 2013, hafði The New York Times birt greinar um hvernig fjárfestingarbankinn Goldman Sachs, stundum nefndur vampírukolkrabbinn, hafði hagnast gífurlega á kostnað almennings með því að flytja stöðugt álblokkir milli vöruhúsa í sinni eigu á sömu lóðinni. Eftir að stjórnvöld gripu í taumana á þessari „hringekju“ og stöðvuðu hana hefur álverðið aldrei náð yfir 2.000 dollara markið.
Goldman Sachs, og fleiri bankar, hófu að kaupa iðnaðarskemmur í Detroit í gífurlegum mæli þegar álverðið var sem hæst árið 2011. Þær voru notaðar til að geyma fullunnið ál áður en það var selt til notenda. Eftir að „hringekjan“ fór í gang lengdist biðtími notenda eftir áli úr um sex vikum og upp í allt að 16 mánuði með tilheyrandi geymslukostnaði og verðhækkunum sem runnu beint í vasa Goldman Sachs. Bankinn sagði tafirnar vera vegna skorts á vörubílstjórum og lyfturum að því er kom fram í New York Times. Blaðið komst að því að „hringekjan“ hefði kostað bandaríska neytendur um 3 milljarða dollara, eða nær 400 milljarða kr. á ári, en um þetta var meðal annars fjallað í leiðara The New York Times. málið.
Kínversku kaupin á eyrinni
Kínverska leiðin til að reyna að halda álverðinu í
horfinu er nokkuð öðruvísi en „tilfærslunar“ hjá Goldman Sachs. Þar á bæ er
beinn eða dulinn ríkisstyrkur það sem heldur álverum á floti í núverandi stöðu
á álmarkaðinum. Í nýlegri umfjöllun á Reuters var greint frá einu dæmi af
mörgum um hvernig kínversk stjórnvöld styrkja álframleiðslu sína. Um er að ræða
Liancheng álverið í Gansu héraði. Álverið sem framleiðir 550.000 tonn á ári er
í eigu ríkisfyrirtækisins Chinalco. Þetta álver hefur tapað samtals 313
milljónum dollara eða hátt í 40 milljörðum kr. frá árinu 2011 að því er fram
kemur á vefsíðu Sambands málmiðnaðarins í Kína. Reksturinn var svo erfiður að
aðstoðarforstjóri þess, Jiang Yinggang sagði fyrr í ár að það þyrfti að loka
því. Til lokunnar kom þó aldrei þar sem héraðsstjóri Gansi taldi svo mikilvægt
að halda álverinu opnu að hann lækkaði orkukostnað þess nægilega til að það
gæti náð jafnvægisverði í framleiðslunni miðað við álverðið í dag. Þetta er
afgreiðsla sem álver á Íslandi geta aðeins látið sig dreyma um að gerist
hérlendis.