Lífeyrissjóðir landsins ætla sér að kaupa Arion banka og viðræður gætu hafist strax í næstu viku. Þeir ætla ekki að taka þátt í þeim kaupendahópum sem fjármálafyrirtækin Virðing og Arctica Finance hafa verið að reyna að setja saman undanfarnar vikur, þrátt fyrir mikinn þrýsting á stærstu sjóði landsins um að gera það.
Stærstu lífeyrissjóðir landsins, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður munu leiða kaupin. Öllum lífeyrissjóðum landsins verður boðið að vera með og gangi kaupin eftir ætla lífeyrissjóðirnir að skrá Arion banka á markað strax á næsta ári.
Þessi atburðarrás hefur verið að teiknast upp í liðinni viku. Viðmælendur Kjarnans innan lífeyrissjóðakerfisins segja að sjóðirnir séu ekki síður að horfa til þess hvernig kaup þeirra á banka muni líta út í augum almennings eins og þeirrar ávöxtunar sem slík kaup geti leitt af sér. Sjóðirnir vilja að það sé enginn vafi um að þeir ætli sér ekki að færa hópi einkafjárfesta völd og auð með þátttöku þeirra í kaupum á einni stærstu og kerfislega mikilvægustu eign íslensks hagkerfis.
Ekki hægt að kaupa banka án lífeyrissjóða
Fyrir liggur að Arion banki verður ekki keyptur af innlendum aðilum nema með aðkomu lífeyrissjóða landsins. Umfang kaupanna, sem verður líklega um 100 milljarðar króna, er það mikið að aðrir fjárfestar á íslenska markaðnum hafa ekki bolmagn til að ráðast í þau án þeirra aðkomu. Þess vegna hafa þau tvö fjármálafyrirtæki sem hafa reynt að koma saman kaupendahópi að Arion banka, Arctica Finance og Virðing, róið að því öllum árum að fá stærstu lífeyrissjóði landsins til liðs við sig.
Eðli aðkomu fyrirtækjanna tveggja að hinum fyrirhuguðu kaupum er ólíkt. Virðing ætlaði sér að vera í ráðgjafarhlutverki og fá þóknanir fyrir aðkomu sína. Á meðal einkafjárfesta sem tengjast þeim hópi sem Virðing var að setja saman eru Hreggviður Jónsson, stjórnarformaður og aðaleigandi Veritas, og Sigurbjörn Þorkelsson, sem starfaði lengi sem yfirmaður hjá Lehman Brothers, var einn eigandi Haga og stofnaði fyrr á þessu ári verðbréfamiðlunina Fossa markaði með nokkrum fyrrum lykilstarfsmönnum úr Straumi. Sigurbjörn hefur verið nokkuð áberandi í fjárfestingum á Íslandi á undanförnum árum, og þá í slagtogi við fjárfestanna Árna Hauksson og Hallbjörn Karlsson. Þeir keyptu meðal annars saman hlut í Símanum í umdeildum viðskiptum fyrr á þessu ári.
Þá hefur nafn Bjarna Ármanssonar, fyrrum bankastjóra Glitnis, verið nefnt í þessu samhengi. Kjarninn hefur hins vegar fengið staðfest að hann komi hvergi nærri hópnum né öðrum sem ætla sér að reyna að eignast íslenskan banka.
Gamla Kaupþing vs. gamli Landsbankinn
Arctica Finance ætlaði sér hins vegar sjálft að taka þátt í kaupunum með ýmsum einkafjárfestum sem eru í viðskiptum við fyrirtækið og lífeyrissjóði landsins.
Aðkoma fyrirtækjanna að hugsanlegum kaupum hefur verið tortryggð vegna ýmissa þátta. Það hefur meðal annars verið bent á að Virðingu sé stýrt af fólki sem áður var í lykilstöðum innan Kaupþings. Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, var áður aðstoðarframkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Kaupþingi. Hann var einnig um tíma aðstoðarframkvæmdastjóri fjárstýringar og markaðsviðskipta hjá Arion banka eftir hrun.
Ármann Þorvaldsson, fyrrum bankastjóri Kaupþing Singer&Friedlander í London og þá einn helsti stjórnandi Kaupþingssamstæðunnar, er í dag framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar hjá Virðingu. Frosti Reyr Rúnarsson, áður forstöðumaður verðbréfamiðlunar hjá Kaupþingi, er nú framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Virðingar. Og þá er Ásgeir Jónsson, fyrrum forstöðumaður greiningadeildar Kaupþings, efnahagsráðgjafi Virðingar.
Arctica Finance er síðan stýrt af Bjarna Þórði Bjarnasyni, aðstoðarframkvæmdarstjóra og Stefáni Þór Bjarnasyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Bjarni Þórður á 50,2 prósent hlut og Stefán Þór 33,5 prósent hlut í Arctica. Bjarni var forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans áður en sá banki hrundi haustið 2008 og Stefán Þór var yfir fyrirtækjaráðgjöf bankans á Íslandi. Fleiri starfsmenn Arctica störfuðu með þeim þar. Bjarni Þórður situr m.a. í stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.
Lífeyrissjóðirnir vilja forðast tortryggni
Stjórnir og stjórnendur stærstu lífeyrissjóða landsins ákváðu hins vegar undir lok síðustu viku að fara ekki í samstarf með Virðingu eða Arctica. Þess í stað ætla þeir að bjóða sjálfir beint í 87 prósent hlut slitastjórnar Kaupþings í Arion banka, án milliliða á borð við ofangreind fyrirtæki. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru nokkrar hliðar á þeirri ákvörðun.
Í fyrsta lagi leist forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna illa á að þurfa að velja á milli Virðingar og Arctica Finance. Hvor hópurinn sem yrði fyrir valinu þá yrði ákvörðun lífeyrissjóðanna alltaf tortyggð og ástæður þess að annar hópurinn hafi verið valin fram yfir hinn dregin í efa. Fortíðartengsl stjórnenda fyrirtækjanna tveggja við tvo af föllnu bönkunum, sem kostuðu lífeyrissjóðina mikið tap þegar þeir féllu, voru einnig nefnd sem ástæða sem, með réttu eða röngu, myndi gera samstarf við Virðingu eða Arctica Finance við kaup á banka tortryggileg.
Í öðru lagi gætir óþols innan lífeyrissjóðakerfisins gagnvart því að milliliðir séu að hagnast stórkostlega á baki sjóðanna í fjárfestingum. Það sé í raun engin þörf á því. Lífeyrissjóðirnir geti ráðist sjálfir, og án aðkomu milliliðanna, í fjárfestingar sem þessar og án þess að greiða háar þóknanir fyrir veitta þjónustu.
Í þriðja lagi er forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna mjög umhugað um hvernig kaup á banka munu líta út í augum almennings. Þeir eru, samkvæmt viðmælendum Kjarnans, uppteknir af því almannatengslahlið málsins. Þessar áhyggjur eru sérstaklega fyrirferðamiklar hjá fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar í stjórnum lífeyrissjóða. „Sjóðirnir vilja ekki sýnast taka einhverja einkafjárfestaklíku fram yfir aðra,“ sagði einn viðmælandi Kjarnans innan úr lífeyrissjóðakerfinu.
Auk þess skiptir máli í þessu samhengi að lífeyrissjóðir ætla sér ekki að vera virkir eigendur í fyrirtækjum sem þeir eiga. Í ljósi þess að lífeyrissjóðirnir hefðu alltaf þurft að kaupa þorra þess hlutar i Arion sem er til sölu myndu völd þeirra einkafjárfesta sem yrðu með í kaupunum því ýkjast mjög umfram þann hlut sem þeir myndu kaupa. Þannig gæti lítill hópur einkafjárfesta verið með tögl og haldir í stjórnun banka í krafti minnihlutaeignar sinnar, vegna óvirkni lífeyrissjóðanna.
Brenndir af umtali og umfjöllun um Símasöluna
Það fer heldur ekki á milli mála að aðdragandi skráningu Símans á markað hefur farið mjög illa í margar lykilleikmenn í lífeyrissjóðakerfinu. Það er einkum tvennt sem ber þar að nefna.
Snemma á þessu ári var handsalað samkomulag um að stjórnendur Símans og alþjóðlegir fjárfestar myndu fá að kaupa fimm prósent hlut í Símanum af Arion banka á genginu 2,5 krónur á hlut. Þessi ráðstöfun naut stuðnings innan lífeyrissjóðanna, sem eru samanlangt stærstu eigendur Símans í dag. Það þótti skynsamlegt að binda stjórnendur Símans, meðal annars Orra Hauksson forstjóra hans, við fyrirtækið til lengri tíma og fá inn alþjóðlega fjárfesta. Einn þeirra sem greint var frá að myndi taka þátt í viðskiptunum var Sigurbjörn Þorkelsson. Sökum reynslu hans á alþjóðafjármálamarkaði var ekki mikil andstaða við þátttöku hans í kaupunum.
Þegar það kom hins vegar í ljós, nokkrum dögum áður en almennu hlutafjárútboði í Símanum, þar sem fagfjárfestar á borð við lífeyrissjóðina voru að greiða tugprósenta hærra verð fyrir hluti í Símanum en ofangreindur hópur greiddi, að Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson, viðskiptafélagar Sigurbjörns, hefðu tekið þátt í viðskiptunum, varð mikil reiði innan lífeyrissjóðanna. Sérstaklega þar sem félag Sigurbjörns, Árna og Hallbjörns keypti stærstan hluta þeirra bréfa sem seld voru á lægra verði í aðdraganda skráningar. Skilningsleysi gætir á meðal lífeyrissjóðanna gagnvart þeirri ákvörðun Arion banka, seljanda bréfanna, að selja umsvifamiklum innlendum einkafjárfestum bréf á lægra verði en fagfjárfestum á borð við lífeyrissjóðina.
Þá er sú ákvörðun Arion banka að selja völdum hópi viðskiptavina fimm prósent hlut í Símanum á 2,8 krónur á hlut nokkrum dögum fyrir útboð þar sem meðalgengi reyndist 3,33 krónur á hlut, harðlega gagnrýnd innan lífeyrissjóða líkt og víðar í samfélaginu. Arion banki hefur viðurkennt að ekki hafi verið vel að sölunni staðið. Þeir sem keyptu bréfin halda þeim hins vegar og geta selt þau eftir einn og hálfan mánuð. Gengi Símans hefur hækkað 26 prósent frá því að vildarviðskiptavinirnir fengu að kaupa. Virði hlutarins hefur hækkað um 360 milljónir króna frá því að hann var keyptur.
Þurfa að vinna saman til að dæmið gangi upp
Lífeyrissjóðunum er því mjög umhugað um eins lítil tortryggni og mögulegt muni umlykja kaupin á Arion banka. Og svo hagnast þeir auðvitað meira á viðskiptunum ef millilðunum og þóknunum þeirra er sleppt.
Ljóst er þó að flestir lífeyrissjóðir landsins þurfa að vinna saman ef að kaupunum á Arion á að verða. Stærstu sjóðir landsins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR og Gildi, munu taka stóra hluti í bankanum, allt að tíu prósent hvor. Aðeins minni sjóðir munu geta tekið í kringum fimm prósent hlut hver og svo koll af kolli. Þannig ætla sjóðirnir sér að kaupa þann 87 prósent hlut slitastjórnar Kaupþings sem er til sölu og vera eigendur bankans á móti íslenska ríkinu, sem á 13 prósent.
Stefnt er að því að fara í viðræður og ganga frá kaupunum með fyrirvara á næstu vikum. Í kjölfarið, gangi það ferli snuðrulaust fyrir sig, verður að framkvæmda ítarlega áreiðanleikakönnun á Arion banka áður en hægt verður formlega að ganga frá kaupunum. Það gæti því gerst á fyrri hluta næsta árs. Og gangi kaupin eftir er það skýr stefna lífeyrissjóðanna að skrá Arion banka síðan á markað. Sú skráning, sem yrði sú allra stærsta sem átt hefur sér stað á Íslandi eftir hrun, myndi gefa öllum Íslendingum jaft tækifæri til að kaupa hluti í bankanum. Og hún gæti orðið að veruleika strax á næsta ári.