Árásir í París og eftirleikurinn
Gríðarlegur viðbúnaður hefur verið í Evrópu eftir að hryðjuverkamenn drápu 129 manns í París á föstudag. Stórum samkomum hefur verið aflýst og lögreglan hefur leitað ábyrgðamannana.
Eftir hryðjuverkaárásirnar í París á föstudaginn, þar sem alls 139 manns létust, hefur Evrópa lagt áherslu á samstöðu með Frökkum. Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur lýst yfir margra mánaða neyðarástandi í landinu, lýst yfir stríði á hendur hryðjuverkamönnunum og vitorðsmönnum þeirra og lagt til stjórnarskrárbreytingar í Frakklandi. Árásirnar eru þær skæðustu í Frakklandi síðan í Seinni heimstyrjöldinni.
Hér að neðan má sjá valdar ljósmyndir af atburðunum síðustu daga.

Fyrir utan Bataclan-tónleikastaðinn
Mynd: EPA
Á tónleikum bandarísku rokkhljómsveitarinnar Eagels of death metal á Bataclan í 11. hverfi í París hófu byssumenn að skjóta skipulega á fólk með hríðskotabyssum í um það bil 20 mínútur.

Sprengjur í nágrenni fótboltaleiks
Mynd: EPA
Frakkar tóku á móti Þýskalandi á Stade de France leikvanginum á föstudag. Skelfing greip um sig þegar sprengingar dundu um völlinn. Sjálfsvígssprengjur höfðu þá verið sprengdar í nágrenni vallarins. Talið er að tilræðismennirnir hafi ekki komist inn á völlinn eða ekki hætt sér í það og sprengt á samkomustöðum í nágrenninu.

Skotbardagar
Mynd: EPA
Lögreglan átti í skotbardögum við vígamenn sem höfðu ráðist á fólk á veitingastaðnum Le Petit Cabodge á föstudagskvöldið. Þungvopnaða lögreglumenn mátti sjá á götum úti. Myndböndum af skotbardögum lögreglu við vígamennina var svo dreift á samfélagsmiðlum í kjölfarið.

Særðir fluttir á sjúkrahús
Mynd: EPA
Bráðaliðar hlúðu að slösuðum og fluttu á sjúkrahús á föstudagskvöldið. Um 430 slösuðust í hryðjuverkaárásunum, þar af hlutu 77 manns alvarleg sár.

Umfangsmikil rannsókn
Mynd: EPA
Tæknideild frönsku lögreglunnar rannsökuðu staðina þar sem hryðjuverkin voru framin. Gríðarlega umfangsmikil rannsókn á atburðum föstudagsins hófst strax á laugardagsmorgun og mun hún væntanlega stand yfir um nokkurt skeið.

Mikil sorg
Mynd: EPA
Ættingjar, vinir og vegfarendur flyktust að stöðunum þar sem hryðjuverkin voru framin á laugardag. Þessi kona grét fyrir utan kaffihúsið Carillon.

Kerry og Lavrov
Mynd: EPA
Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands, þeir John Kerry og Sergei Lavrov, ræddust við í lok alþjóðlegrar ráðstefnu um málefni Sýrlands í Austurríki á laugardag. Til ráðstefnunnar hafði verið boðað áður en hryðjuverkin voru framin í París og þar átti að ræða leiðir til að koma í veg fyrir frekari blóðsúthellingar í Sýrlandi. Fulltrúar 17 landa sátu ráðstefnuna.

Samstaða á Trafalgar-torgi
Mynd: EPA
Hundruð manns komu saman á Trafalgar-torgi í miðborg London á laugardagsvöldið til að sýna samstöðu með Frökkum eftir hryðjuverkaárásirnar. Helstu byggingar víða um heim voru lýstar í frönsku fánalitunum og fólk veifaði franska fánanum og hélt á skiltum með hvatningarorðum til Frakka.

Ást í stað stríðs
Mynd: EPA
Rósum var komið fyrir í götunum sem byssukúlurnar skildu eftir sig í París á vetingastaðnum Carillon. Alls létust 139 manns í hryðjuverkaárásunum, þar af átta árásarmenn.

Fágætur fundur
Mynd: EPA
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ræddu saman augliti til auglitis í hléi á fundi 20 stærstu iðnvelda heims (G20) í Tyrklandi á sunnudag. Fágætt er að forsetar þessara landa eigi svo nánar samræður. Með þeim voru helstu öryggisráðgjafar landanna tveggja. Á fundi G20-ríkjanna voru málefni Sýrlands rædd en Bandaríkin og Vesturlönd fljúga frá Tryklandi til að kasta sprengjum á yfirráðasvæði Íslamska ríkisins í Sýrlandi.

Lýsti yfir stríðsástandi í Frakklandi
Mynd: EPA
Francois Hollande, forseti Frakklands, ávarpaði franska þingið á mánudag og fór fram á lagabreytingar til að auðvelda Frökkum að koma í veg fyrir árásir eins og þær sem hafa átt sér stað á þessu ári í Frakklandi. Einnig lagði hann til stjórnarskrárbreytingar svo hægt væri að vísa grunuðum hryðjuverkamönnum úr landi.

Árás á lýðræðið
Mynd: EPA
Helstu byggingar og minnismerki víða um heim voru lýst upp í frönsku fánalitunum í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París. Eiffelturninum var lokað um helgina, opnaður og svo lokaður aftur af ótta við fleiri árásir. Viðbrögð margra stjórnmálaleiðtoga verið að hryðjuverkaárásirnar séu árás á lýðræði Vesturlanda og þá lifnaðarhætti sem við búum við. Brýnt hefur verið fyrir almenningi að halda áfram að lifa lífi sínu eins og ekkert hafi í skorist.

Hryðjuverkamennirnir handsamaðir
Mynd: EPA
Sjö grunaðir hryðjuverkamenn voru handteknir eftir áhlaup lögreglu í Saint Denis í norðanverði París. Tveir hryðjuverkamannana létust í áhlaupinu; ein kona sprengdi sig í loft upp og annar var skotinn til bana af leyniskyttu.