Hrun á heimsmarkaðsverði olíu hefur verið
mikil búbót fyrir útgerðina á þessu ári miðað við árið í fyrra. Gróflega
reiknað þarf útgerðin í dag að borga rúmlega 10 milljörðum kr. minna fyrir
olíuna á ársgrundvelli miðað við árið í fyrra. Og þessi búbót mun halda áfram,
allavega vel fram á næsta ár og jafnvel lengur að mati sérfræðinga á
olíumarkaðinum.
Olíunotkun íslenska fiskiskipaflotans er í kringum 164 kílótonn eða rúmlega 184 milljónir lítra á ári. Þetta magn af olíu kostaði útgerðina 17,1 milljarð kr., á ársgrundvelli, miðað við verðið á Brent-olíunni og gengi dollarans í fyrrasumar. Í dag þarf útgerðina hinsvegar aðeins að borga 6,8 milljarða kr. fyrir sama magn af olíu m.v. sömu forsendur. Hér er gengið út frá að verðið á tunnunni af Brent-olíunni var 110 dollarar í fyrrasumar en er komið niður í 45 dollara í dag. Verðið var raunar komið niður í 45 dollara í ágúst s.l. Gengi dollarans stóð í 135 kr. í fyrrasumar en er 132 kr. í dag.
Svipaður hagnaður
HB Grandi birti uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung ársins í vikunni. Þar kemur fram að það sem ef er árinu nemur hagnaður fyrirtækisins 4,5 milljörðum kr. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 4,7 milljörðum kr. Hagnaður er sum sé svipaður milli ára þrátt fyrir makrílbann Rússa og á lækkandi olíuverð þar eflaust stóran hlut að máli. Fram kemur í yfirliti yfir afkomu HB Granda á heimasíðu fyrirtækisins að tekjutap vegna makrílbannsins sé áætlað á bilinu 1,4 til rúmlega 2 milljarða kr. Tekið er fram að erfitt sé að áætla þetta tap. Það er hinsvegar ljóst að lækkandi olíuverð m.a. bætir þetta tap að stórum hluta eins og sést á hagnaðartölunum.
Óeðlilega eðlilegur markaður
„Óeðlilega eðlilegur markaður“ var fyrirsögnin á nýlegri úttekt tímaritsins The Economist á olíumarkaðinum. Þar kemur fram að allt frá tímum John Rockerfeller og fyrirtækis hans, Standard Oil, undir lok þarsíðustu aldar hafi markaðurinn verið allt annað en eðlilegur. Menn hafi ætíð reynt að hafa áhrif á hann sér til hagsbóta. Sérstaklega eftir að OPEC ríkin fóru að möndla sín í millum upp úr 1960 hvernig best væri að halda olíuverðinu sem hæstu. Þetta var m.a. gert með kvótum og samdrætti í framleiðslunni ef olíuverðið gaf eitthvað eftir.
Eftir að Bandaríkjamenn hófu framleiðslu á leirgasi (fracking) í miklum mæli fyrir tæpum tveimur árum hefur olíumarkaðurinn verið rekinn meira og minna á lögmálum framboðs og eftirspurnar. Og framboðið er ærið þar sem Saudi Arabar hafa síðan hafnað öllum óskum annarra OPEC ríkja um að draga úr framleiðslu sinni til að hækka verðið. Raunar hafa þeir bætt í ef eitthvað er. Markmið Saudi Araba er að ganga af leirgasiðnaðinum dauðum í Bandaríkjunum og víðar. En fram kemur í The Economist að bandarísku framleiðendurnir hafi reynst útsjónarsamri en gert var ráð fyrir þannig að engan veginn sé hægt að sjá fyrir endann á þessu stríði.
Gera ráð fyrir lágu olíuverði áfram
Í dag er ekki hægt að finna neina sérfræðinga sem spá því að olíuverðið nái þeim hæðum sem það var í s.l. sumar á næstu árum. Allavega ekki fram yfir árið 2020. Bjartsýnasta spá Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA) segir að olíuverðið muni hækka stöðugt fram til 2020 þegar það nái 80 dollurum á tunnuna. Hinsvegar fylgir með hliðarspá um að allt eins gæti olíuverðið haldist um eða 50 dollurum á tunnuna fram yfir 2020.
Hægt er að finna aðra sérfræðinga sem segja þessar spár IEA allt of bjartsýnar og segja að allt eins gæti olíuverðið hrapað niður í 25 dollara á tunnuna strax á næsta ári. Spár sem þessar ættu að hljóma sem ljúf tónlist í eyrum íslenskra útgerðarmanna.
Ástæðan fyrir lágu olíuverði þessa stundina og næstu árin er mikið offramboð samfara minnkandi notkun. Framboðið mun sennilega aukast eitthvað á næstunni þegar Íran fær aftur aðgang að alþjóðlegum olíumörkuðum. Hvað minnkandi notkun varðar eru helstu þættir m.a. samdráttur í kínverska efnahagskerfinu og víðar, aukin áhersla margra ríkja á notkun sjálfbærra orkugjafa og vélahönnun í bílum og öðrum farartækjum sem miðar að því að draga úr eldsneytisnotkun þeirra.
Sádí-Arabar reyna að klóra í bakkann
Framundan er desemberfundur OPEC ríkjanna og ljóst er að þar munu koma fram miklar kröfur um að ríkin reyni hvað þau geti til að hífa olíuverðið upp. Á vefsíðunni Investing.com kemur fram að Saudi Arabar hafi aðeins reynt að klóra í bakkann eftir síðustu helgi en ekki haft erindi sem erfiði. Yfirvöld í þessu olíuríki gáfu út þá yfirlýsingu s.l. mánudag að þau væru nú viljug til þess að vinna með OPEC og olíuríkjum utan samtakanna um að draga úr framleiðslu til að hækka verðið. Þetta hafði þau áhrif að tunnan af Brent-olíunni hækkaði um dollar í stuttan tíma. En verðið féll strax aftur niður í 45 dollara á tunnuna, eða um tveimur klukkutímum síðar, vegna þess að fjárfestar hafa áhyggjur af hinum miklu olíubirgðum sem safnast hafa upp á síðustu mánuðum vegna offramboðs á markaðinum – birgðasöfnun sem enginn sér fyrir endann á í augnablikinu. Útgerðin, og raunar allir sem nota bensín og olíu á Íslandi, munu því njóta hins lága olíuverð áfram á næstu árum eins og staðan er í dag.