Gistinætur á hótelum í október voru 238 þúsund sem er 30 prósent aukning miðað við október í fyrra, samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti á vef sínum 4. desember síðastliðinn.
Þetta er í takt við flestar spár um aukningu umsvifa í ferðaþjónustu, en þær hafa gert ráð fyrir miklum og hröðum vexti, eða um 20 til 28 prósent fjölgun ferðamanna á þessu ári, og síðan áfram á næstu tveimur árum.
Fjölgun hjá útlendingum en fækkun hjá Íslendingum
Mikil fjölgun varð á gistinóttum útlendinga, en nóttum Íslendinga fækkaði að sama skapi. Gistinætur erlendra gesta voru 88 prósent af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 40 prósent frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fækkaði um tólf prósent.
Eingöngu er átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.
Flestar gistinætur á hótelum í október voru á höfuðborgarsvæðinu eða tæplega 166 þúsund sem er 29 prósent aukning miðað við október 2014. Næst flestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 34.400. Erlendir gestir með flestar gistinætur í október voru; Bretar með 44.300, Bandaríkjamenn með 28.800 og Þjóðverjar með 12.700 gistinætur.
Fjölgun um 20 prósent
Á tólf mánaða tímabili nóvember 2014 til október 2015 voru gistinætur á hótelum rúmlega 2,7 milljónir sem er fjölgun um tuttugu prósent miðað við sama tímabil ári fyrr.
Greiningardeild Arion banka spáir því að ferðamönnum muni fjölga um 27,5 prósent í ár, miðað við árið í fyrra, og heildarfjöldi verði rúmlega 1,2 milljónir. Á næsta ári fjölgi þeim í 1,5 milljónir og á árunum 2017 og 2018, muni þeim fjölga um 500 þúsund og verða um tvær milljónir á árinu 2018.
Gríðarlega mikill vöxtur hefur verið í ferðaþjónustu á síðustu árum. Fjölgunin var 20,7 prósent árið 2013 miðað við árið á undan, 24,1 prósent árið 2014 og samkvæmt spá verður hún 27,5 prósent á þessu ári, eins og áður sagði.