Bankasýsla ríkisins hefur farið frá því að vera óþörf stofnun í að verða ein áhrifamesta stofnun landsins á örfáum mánuðum. Í apríl stóð til að leggja hana niður en samkvæmt nýbirtum breytingartillögum við fjárlagafrumvarp næsta árs fær hún þrefalt hærri upphæð en á fjárlögum ársins 2015 og á að setja sig í stellingar til að taka á móti Íslandsbanka, þegar kröfuhafar föllnu bankanna afhenda ríkinu hann.
Auk þess er Bankasýslan á fullu við það að undirbúa sölu á allt að 30 prósent hlut í Landsbankanum, hún réð nýverið til sín sérfræðinga vegna þeirrar vinnu og ekkert fararsnið virðist vera á henni.
Hvað gerðist eiginlega?
Í apríl átti að leggja Bankasýsluna niður
Það vakti mikla athygli þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum þann 1. apríl síðastliðinn. Samkvæmt lögunum átti að verða mikil breyting á því skipulagi sem hafði verið á eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum eftir hrun, þegar það sat með ansi stóran hlut af bankakerfinu í fanginu.
Samkvæmt frumvarpinu átti að leggja Bankasýslu ríkisins, sem í dag fer með eignarhluti ríkisins í bönkum, niður og færa eignarhluti í fjármálafyrirtækjum undir fjármála- og efnahagsráðherra. Hann átti auk þess að setja sérstaka eigendastefnu ríkisins sem tekur til þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkið á eignarhluti í, skipa þriggja manna ráðgjafanefnd, án tilnefningar, til að veita honum ráðgjöf um meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og undirbúa sölu og sölumeðferð þeirra hluta.
Það var því ljóst að færa átti allt söluferli þeirra banka sem ríkið á hlut í og ætlar sér að selja frá Bankasýslu ríkisins og yfir til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Ráðherrann sem réði því hverju sinni gæti þá, að eigin frumkvæði, eða að fenginni tillögu ráðgjafanefndar sem hann einn skipar, stýrt nýju bankaeinkavæðingarferli. Þegar slíkt ákvörðun liggur fyrir skal lögð áhersla á „opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Við sölu skal kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði“.
Ríkiskaup áttu að annast sölumeðferðina og skila ráðherranum rökstuddu mati á því hvaða tilboð sé best. Ráðherra átti hins vegar einn að taka ákvörðun um hvort að taka eigi tilboði í viðkomandi eignarhlut í banka eða ekki.
Lögin áttu, samkvæmt frumvarpi, að taka gildi í byrjun næsta árs.
Bankasýslan auglýsir eftir fólki
Þrátt fyrir þennan vilja ráðandi afla, sem birtist skýrt í frumvarpi Bjarna, hélt Bankasýslan áfram að starfa eins og ekkert hefði í skorist. Hún gerði áfram ráð fyrir því að hún myndi sjá um sölu á eignarhlutnum í Landsbankanum sem til stendur að selja. Það kom m.a. fram í bréfi sem stofnunin sendi Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, í september, þess efnis að stofnunin myndi skila af sér tillögu til ráðherrans um sölumeðferð á 30 prósenta eignarhlut ríkisins í Landsbankanum fyrir 31. janúar á næsta ári.
Í október auglýsti Bankasýslan svo eftir starfsfólki í verkefni tengd fyrirhugaðri sölumeðferð ríkisins á eignarhlut í Landsbankanum hf. Bankasýslan óskaði eftir sérfræðingi í eignaumsýslu og lögfræðingi og hyggst ráða tvo til þrjá einstaklinga í tímabundin verkefni. Seint í nóvember voru Hrafn Árnason og Þórólfur Heiðar Þorsteinsson ráðnir til Bankasýslunnar í verkefnið. Hrafn var áður forstöðumaður VÍB, eignastýringarsviðs Íslandsbanka, en Þórólfur Heiðar starfaði síðast sem lögmaður hjá BBA Legal.
Engin ákvörðun verið tekin í október
Kjarninn beindi þeirri spurningu til fjármála- og efnahagsráðuneytisins í október hvort enn stæði til að leggja niður Bankasýsluna. Þá var ný búið að tilkynna að íslenska ríkið muni eignast allt hlutafé í Íslandsbanka ef nauðasamningar Glitnis verða samþykktir fyrir 15. mars. Þá mun íslenska ríkið eiga tvo af þremur stóru viðskiptabönkum landsins. Eins og lögin eru núna myndi Bankasýsla ríkisins fara með það eignarhald og eftir atvikum undirbúa sölu bankanna.
Í svari ráðuneytisins þá kom fram að engin ákvörðun hefði verið tekin um framtíðarfyrirkomulag þeirra verkefna sem nú væru á borði Bankasýslu ríkisins. Að óbreyttu yrði Bankasýslan ekki lögð niður um áramót líkt og frumvarpið sem Bjarni lagði fram í apríl gerði ráð fyrir.
Framlög til Bankasýslu þrefölduð
Þrátt fyrir þessa stefnubreytingu var ekki gert ráð fyrir einni krónu í rekstur Bankasýslu ríkisins á fjárlögum ársins 2016. Þá náði frumvarpið um lög um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum ekki fram að ganga á síðasta þingi og er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi þingvetur.
Því virtist staðan vera sú að ríkisstjórnin ætlaði ekki að ýta breytingum á þessum mikilvægu málum í gegn, en heldur var ekki gert ráð fyrir að fyrri skipulag, með Bankasýslu ríkisins sem miðpunkt, myndi halda sér.
Þ.e. þar til að breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið fóru að detta inn í kjölfar þess að það var tekið úr nefnd síðastliðinn laugardag. Í einni slíkri kemur fram að Bankasýslan fái 97 milljónir króna á næsta ári. Það er þrisvar sinnum hærri upphæð en stofnunin fékk á fjárlögum ársins 2015. Í stað þess að leggja niður Bankasýsluna, væntanlega vegna þess að hún hefur þótt óþörf, hafa fjárframlög til hennar verið þrefölduð.
Bankasýslan mun sjá um stærstu einkavæðingar Íslandssögunnar
Auk þess eru henni falin ný og krefjandi verkefni. Í annarri breytingartillögu segir að það eigi að „færa eignarhluti í fjármálafyrirtækjum, sem afhentir kunna að verða sem hluti af stöðugleikaframlagi, til Bankasýslu ríkisins á grundvelli laga um Bankasýslu ríkisins.“ Það þýðir að Íslandsbanki mun fara til Bankasýslunnar þegar kröfuhafar afhenda ríkinu hann.
Eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum, 98 prósent, er sem stendur langstærsta eignin sem er í umsjón Bankasýslunnar. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár kemur fram að gert er ráð fyrir að sala á allt að 30 prósenta hlut fari fram á seinni hluta ársins, en það verður ein stærsta einkavæðing sögunnar.
Heimild til þess að selja hlut af hluta ríkisins í Landsbankanum hefur verið í lögum frá árinu 2011. Í fjarlagafrumvarpi ársins 2016 kemur fram að ríkið geri ráð fyrir því að um 71 milljarður króna fáist fyrir 30 prósenta hlut og að ágóðinn verði greiddur inn á skuldabréf sem voru gefin út til að fjármagna fallnar fjármálastofnanir árið 2008.
Til viðbótar hefur Bjarni Benediktsson ítrekað sagt að það sé ekki framtíðarlausn að ríkið eigi allt hlutafé í Íslandsbanka. Því má búast við að ríkið muni selja Íslandsbanka þegar það eignast hann.
Heimild til þess að selja hlut af hluta ríkisins í Landsbankanum hefur verið í lögum frá árinu 2011. Í frumvarpinu kemur fram að ríkið geri ráð fyrir því að um 71 milljarður króna fáist fyrir 30 prósenta hlut og að ágóðinn verði greiddur inn á skuldabréf sem voru gefin út til að fjármagna fallnar fjármálastofnanir árið 2008.