Það er ómissandi þáttur á mörgum heimilum að horfa á jólakvikmynd. Margar eru orðnar sígildar og eru sýndar í sjónvarpi á hverjum einustu jólum. Flestar eru gamansamar barna eða fjölskyldumyndir þar sem ákveðin boðskapur eða gildi eru áberandi. Það er þó ekki algilt og í raun er eina skilyrðið til þess að kvikmynd geti talist jólamynd að hún gerist í kringum hátíðarnar og að þær séu í vissum forgrunni. Hér eru nokkrar af þeim allra bestu.
10. Joyeux Noel – 2005
Franska kvikmyndin Joyeux Noel (Gleðileg jól) fjallar um einn merkasta atburð í sögu hernaðar, jólavopnahléið árið 1914 í fyrri heimsstyrjöldinni. Þá tóku dátarnir það upp á sitt einsdæmi að hætta að berjast um stund og í stað þess gáfu þeir hvorum öðrum gjafir, sungu og spiluðu knattspyrnu. Þetta gerðist víða á hinni löngu vesturvíglínu í Frakklandi og Belgíu. Herforingjarnir voru aftur á móti ekki ánægðir með uppátækið. Hermönnum voru mörgum hverjum refsað fyrir athæfið og komið var í veg fyrir að þetta endurtæki sig ári seinna. Í myndinni eru sýnd þrjú mismunandi sjónarhorn, þ.e. franskt, breskt og þýskt og því er hún á þremur tungumálum. Myndin daðrar við það að vera helst til of væmin en boðskapurinn kemst þó til skila. Hún sýnir raunverulegan sameiningarmátt jólanna.
9. Edward Scissorhands – 1990
Hinn gotneski stíll kvikmyndagerðarmannsins Tim Burton minnir mann frekar á hrekkjavökuna en jólin. Engu að síður gerði hann þrjár jólamyndir í upphafi tíunda áratugarins: The Nightmare Before Christmas, Batman Returns og Edward Scissorhands. Edward (Johnny Depp) er drengur sem búinn er til af öldnum uppfinningamanni líkt og í sögunni af Gosa. Uppfinningamaðurinn deyr þó áður en hann nær að klára að búa til drenginn og því hefur hann einungis skæri í stað handa. Tim Burton og Johnny Depp hafa unnið saman að sjö kvikmyndum og er samband þeirra fyrir löngu orðið fyrirsjáanlegt og leiðigjarnt. Edward Scissorhands var hins vegar fyrsta myndin sem þeir gerðu saman og stendur enn tímans tönn. Það sem stendur upp úr er fegurð leikmyndarinnar, þá sérstaklega ísskúlptúrarnir sem Edward býr til fyrir ástina sína Kim (Winona Ryder).
8. The Shop Around the Corner – 1940
It´s a Wonderful Life er þekktasta jólamyndin sem stórleikarinn James Stewart lék í en The Shop Around the Corner er gimsteinn sem oft er litið fram hjá. Þetta er krúttleg ástarsaga byggð á ungversku leikriti sem gerist að mestu leyti í lítilli verslun í Búdapest. Tveimur starfsmönnum í versluninni, Alfred (Stewart)og Klöru (Maureen O´Sullavan), kemur illa saman en þau vita þó ekki að þau eru í raun pennavinir. Sem pennavinir verða þau svo ástfangin þó að þau haldi að þau hafi aldrei hist. Myndin gerist í aðdraganda jólanna og jólaösin í versluninni er stór partur af henni. Myndin endar svo á aðfangadegi þar sem Alfred og Klara fella loks hugi saman. Myndin var leikstýrð af þýska stórleikstjóranum Ernst Lubitsch sem taldi hana vera sína bestu mynd á ferlinum.
7. Emil í Lönneberga – 1971
Kvikmyndirnar um Emil í Kattholti eru ekki ein heild heldur samansafn af vignettum rétt eins og bækurnar alkunnu sem Astrid Lindgren skrifaði. Hver vignetta er saga af einhverju skammarstriki Emils. Hápunktur fyrstu kvikmyndarinnar eru jólin og hvernig Emil eyðileggur jólaboð fjölskyldunnar með því að bjóða öllum fátæklingunum í sveitinni upp á veislumatinn sem bjóða átti frændfólki hans. Hvort þetta er eiginlegt skammarstrik er þó umdeilanlegt því hér kemur hinn sanni jólaandi fram. Emil lýsir því yfir að „á jólunum verður allt lifandi að fá að borða“ að „maturinn eigi að vera þar sem hann gerir gagn“. Upptalningin og lýsingin á öllum jólamatnum er líka eftirminnileg og þá sérstaklega af þeim ótal tegundum af pylsum sem étnar voru í Smálöndunum í upphafi seinustu aldar. Myndin er því góð heimild um jólahald fyrr á tímum.
6. Gremlins – 1984
Gremlins skautar milli þess að vera gamanmynd, hryllingsmynd og ævintýramynd sem jafnframt gerist á jólunum. Í myndinni fær unglingspilturinn Billy Peltzer undarlega veru í jólagjöf sem faðir hans keypti af gömlum Kínverja. Veran sem Kínverjinn kallar Mogwai en Peltzer feðgar nefna Gizmo á svo eftir að valda gríðarlegum usla þegar hún kemst í kynni við vatn. Myndin sló rækilega í gegn og Gizmo varð svo vinsæll og þótti svo krúttlegur að ennþá eru seldir bangsar og önnur leikföng í hans líki. Framhaldsmyndin Gremlins 2: The New Batch frá árinu 1990, sem ekki var jólamynd og hafði allt annað andrúmsloft, þótti aftur á móti algerlega misheppnuð. Serían er þó ekki dauð úr öllum æðum því á komandi árum munum við fá að sjá þriðja innleggið.
5. Die Hard – 1988
Ein einkennilegasta jólamynd allra tíma hlýtur að vera Die Hard. Spennumynd sem fjallar um gíslatöku í háhýsi og löggu sem brýst inn í það til að bjarga eiginkonu sinni. Hríðskotabyssur, sprengingar, blóð og einnar-línu-frasar einkenna myndina. Myndin gerði til að mynda setninguna: „Yippie-ki-yay, motherfucker!“ heimsþekkta. Engu að síður er þetta jólamynd og ein af þeim allra bestu. Hún gerist öll á aðfangadag jóla, jólaskraut sést alls staðar í myndinni og það sem kannski mestu máli skiptir þá er tónlistin að miklu leyti jólatónlist. Það er þó ekki alltaf hefðbundin jólatónlist sem heyrist í myndinni því t.a.m. má heyra rappslagarann Christmas in Hollis með hljómsveitinni Run D.M.C. Framhaldsmyndin Die Hard 2 sem kom út tveimur árum seinna gerist einmitt líka á jólunum.
4. Fanny och Alexander – 1982
Eitt mesta meistaraverk sænska snillingsins Ingmars Bergman er fjölskyldusagan Fanny og Alexander. Myndin sem séð er frá sjónarhorni systkina frá Uppsölum skömmu eftir aldamótin 1900 hefur reyndar bæði verið gefin út sem bíómynd og sem þáttaröð. Myndin hefst í jólaboði hjá Ekdahl fjölskyldunni og það er eftirminnilegasti hluti myndarinnar. Fjöldi manns er samankomin og allsnægtir, fjör og hamingja svífa yfir öllu, sérstaklega hjá börnunum. Myndin tekur þó skarpa beygju þegar fjölskyldufaðirinn deyr og móðirin giftist biskupi sem er bæði strangur og grimmur. Í myndinni reyndi Bergman að endurgera þau jól sem hann mundi eftir sem barn í Uppsölum. Hún er því mjög persónulegt verk og hans hinsta bíómynd í fullri lengd. Myndin hlaut fern óskarsverðlaun m.a. fyrir kvikmyndatöku. En að henni stóð hinn mikli meistari Sven Nykvist.
3. The Miracle on 34th Street – 1947
Myndin er ein af þessum sígildu amerísku jólamyndum sem sýndar eru á hverju ári í sjónvarpi þar ytra. Hún fjallar um jólasveininn sem kemur til New York og fær vinnu hjá Macy´s stórversluninni. Hann er góðhjartaður og snjall en jafnframt heiðarlegur og þrjóskur. Sveinki lendir bæði inn á geðdeild og í réttarsal þar sem hann þarf að sýna fram á það að hann sé í raun og veru jólasveinninn þar sem fæstir nema þá börnin trúa honum. En eins og titillinn gefur til kynna þá fjallar myndin aðallega um trúnna á eitthvað yfirnáttúrulegt.Annað gamalkunnugt jólaþema kemur einnig við sögu, þ.e. græðgin. Galdur myndarinnar er þó aðallega fólginn í breska leikaranum Edmund Gwenn sem leikur sveinka af stakri snilld. Svo vel reyndar að hann fékk óskarsverðlaun fyrir vikið fyrir leik í aukahlutverki.
2. Home Alone – 1990
Home Alone er ein af vinsælustu kvikmyndum allra tíma. Þetta er gamansöm fjölskyldumynd úr smiðju John Hughes sem gerði hinn 10 ára gamla Macauley Culkin að heimsfrægri barnastjörnu. Fyrri helmingur myndarinnar minnir um margt dönsku barnabókina Palli var einn í heiminum, þ.e. ungur drengur óskar sér þess að fjölskylda hans hverfi og það gerist. Það hefur ýmsa kosti að vera aleinn og eftirlitslaus heima hjá sér en það er aftur á móti einmanalegt að vera aleinn um jólin. Seinni helmingur myndarinnar, þegar innbrotsþjófar brjótast inn í húsið, er eins og svæsnasti Tomma og Jenna þáttur þar sem ofbeldið verður nánast yfirgengilegt en á kómískan hátt þó. Vinsæl framhaldsmynd var gerð tveimur árum seinna með sömu leikurum og nokkurn veginn sömu formúlunni.
1. Scrooged – 1988
Jólasaga var skrifuð af Charles Dickens árið 1843 og hefur verið margkvikmynduð í gegnum tíðina. Í Scrooged er sagan þó sett í nútímabúning og gerð mun gamansamari. Bill Murray leikur aðalhlutverkið, kaldrifjaða sjónvarpsframleiðandann Frank Cross (byggður á Ebenezer Scrooge), sem þrælar starfsfólki sínu út á jólunum. En í sjónvarpsverinu er einmitt verið að setja upp Jólasögu Dickens. Rétt eins og í Jólasögu er hann heimsóttur af draugi forvera síns og svo þremur draugum sem sýna honum hina bagalegu fortíð, nútíð og framtíð. Inn í þetta er svo tvinnuð ástarsaga hjá Cross og fyrrverandi kærustu hans, sem leikin er af Karen Allen. Auðvitað endar þetta allt vel og allir syngja og dansa saman í lokin við Annie Lennox lagið Put a Little Love in Your Heart.