Í bænum Calais er stærstu flóttamannabúðir Frakklands. Þar hafast við um 4.500 flóttamenn í tjaldbúðum og freista þess að komast yfir Ermasundið til Bretlands. Flestir þeirra eru frá Sýrlandi. Á þessu svæði, sem er kallað frumskógurinn, hefur myndast neyðarástand undanfarna mánuði: kuldi, hungur og mikil örvænting hefur gripið um sig þegar fólk hefur reynt að ryðjast inn í Ermasundsgöngin.
Borgaryfirvöld og ýmis félagasamtök hafa reynt sitt besta til þess að veita flóttamönnum einhverja lágmarksþjónustu og hjálp. Margir hafa fært þeim föt, teppi, mat og lyf í vetrarkuldanum. Einn þeirra sem nú leggur þeim lið er listamaðurinn og huldumaðurinn Bansky. Hann hefur málað fjórar mynd á veggi í Calais; ein af þeim sýnir sýrlenska flóttamanninn Steve Jobs.
Arfleið flóttamanna
Með þessari mynd vill Bansky minna á að flóttamenn eru
ekki vandamál heldur auðlind. Flóttamaðurinn Steve Jobs stofnaði eitt
verðmætasta fyrirtæki heims, Apple, sem
skilar meira en sjö milljörðum dollara árlega í bandaríska ríkiskassann.
Listaverkið er því áminning til Donald Trump, Marine le Pen og þvílíkra
stjórnmálamanna sem vilja herða innflytjendalöggjöf og landamæraeftirlit.
Bansky er einn þekktasti listamaður heims þótt hann fari ávalt huldu höfði, þekktur fyrir pólitísk og róttæk götulistaverk Flóttamenn í Calais hafa séð sér leik á borði við þetta uppátæki hans og eru farnir að rukka inn aðgangseyri.
Verk Bansky eru milljóna virði þótt hann skilji þau eftir úti á götu. Borgaryfirvöld ætluðu sér því að skella plastramma eða einhverju yfir þessi málverk til þess að vernda þau, en flóttamennirnir, sem hafa tekiðmiklu ástfóstri við þau, hafa alveg séð um að gæta þeirra og rukka nú inn sjö pund til þess að fá að berja þau augum með góðfúslegu leyfi listamannsins. Verkið er þeirra. Hann hefur sömleiðis tilkynnt að allt það efni sem notað var í sýningunni Dismaland, sem var einskonar stílfæring á Disneylandi, verði flutt til Calais og endurunnið til þess að byggja skýli.
Grafalvarlegt ástand
Stöðugur straumur flóttamanna til Calais hefur skapað mörg vandamál. Þeir telja grasið grænna hinum megin við sundið. Kannski ekki að ósekju. Margir franskir stjórnmálamenn, eins og Marine le Pen, hafa lýst yfir mikilli andúð sinni á flóttamönnum. Flóttamenn finna sig ekki, af einhverjum ástæðum, velkomna í Frakklandi lengur.
Margir íbúar Calais eru orðnir langþreyttir á ástandinu. Uppþot eru tíð, fólk hefur kastað grjóti og öðru lauslegu í átt að bílum. Gremja og spenna hefur verið vaxandi. Bílaumferð og lestarsamgöngur hafa margoft tafist vegna ýmissa vandamála sem fylgja flóttamannabúðunum. Fólk hefur látist í átroðningi þegar það hefur ruðst inn í Ermasundsgöngin þar sem gangandi farþegum er ávalt meinaður aðgangur. Þeir hafa rutt niður girðingum og oft hefur komið til átaka við landamæraverði.
Héraðskosningarnar í norðurhluta landsins snerust að mestu leyti um flóttamennina í Calais. Marine le Pen var sjálf í framboði sem héraðsstjóri og boðaði harða stefnu í garð innflytjenda. Hún hikaði ekki við að tengja saman hryðjuverkin í París við flóttamenn og hlaut ríflega 40% atvæða í fyrri umferð kosninganna. Skuggalegar niðurstöður sem sýna að stór hluti almennings á þessu svæði vill flóttamennina burt. Í seinni umferð kosninganna drógu Sósíalistar sig frá og hvöttu alla til þess að kjósa frekar hægri bandalag Sarkozy og halda þar með Þjóðfylkingunni frá völdum. Það tókst og Marine le Pen hafði ekki erindi sem erfiði.
En vandamálið er enn óleyst. Hvað á að gera við alla þessa flóttamenn í Calais. Sem vilja ekki búa í Frakklandi en fá heldur ekki fara til Bretlands? Ráðaleysi yfirvalda er algjört.