Þrír menn voru í dag dæmdir til þungrar fangelsisvistar vegna aðkomu þeirra að hinu svokallaða Stím-máli í héraði. Lárus Welding, fyrrum forstjóri Glitnis, hlaut þyngstan dóm, fimm ára fangelsisvist. Verði dómurinn staðfestur í Hæstarétti, en honum verður án vafa áfrýjað þangað, munu allir þrír forstjórar stærstu banka Íslands fyrir hrun sitja í fangelsi á sama tíma. Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, hefur þegar hlotið nokkra dóma og afplánar sem stendur á Kvíabryggju. Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbanka Íslands, var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti vegna aðkomu sinnar að Ímon-málinu svokallaða.
Auk Lárusar hlutu þeir Jóhannes Baldursson, fyrrum framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Glitni, tveggja ára fangelsi og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi bankastjóri Saga Capital, átján mánaða fangelsisdóm í Stím-málinu. Jóhannes hafði áður hlotið þriggja ára fangelsisdóm í Hæstarétti fyrr í þessum mánuði í svokölluðu BK-47 máli.
Þetta mál er fyrir margar sakir mjög áhugavert. Stím-málið var eitt af fyrstu málunum tengdum bankahruninu sem rataði í fjölmiðla í kjölfar þess. Að málinu koma margir af umsvifamestu viðskipta- og bankamönnum þjóðarinnar á fyrirhrunsárunum. Í raun væri hægt að gera fantagóða bíómynd byggða á sögu Stím.
Saga Stím er því reyfarakennd og tilurð og tilgangur félagsins er að mörgu leyti lýsandi fyrir það ástand sem ríkti í íslensku viðskiptalífi mánuðina fyrir bankahrunið.
Stím verður til í Rússlandi
Byrjum á byrjuninni. Þann 14. nóvember 2007 var tilkynnt um að félag sem hét FS37 ehf. hefði keypt bréf í fjárfestingafélaginu FL Group og Glitni, banka sem FL Group og tengd félög áttu stærstan hluta í, fyrir samtals 24,8 milljarða króna. Við kaupin eignaðist FS37, sem nokkrum dögum síðar breytti nafni sínu í Stím, 4,3 prósent hlut í Glitni og 4,1 prósent hlut í FL Group. Í dómi héraðsdóms, sem birtur var í dag, kemur fram að Stím-hugmyndin hafi verið rædd og skipulögð í ferð yfirmanna Glitnis til Rússlands síðla árs 2007.
Lítið sem ekkert var vitað um Stím til að byrja með, hverjir stóðu að baki félaginu eða hvernig það var fjármagnað. Félagið rataði fyrst í fjölmiðla á aðfangadag 2007 þegar Morgunblaðið greindi frá því að yfirtökunefnd hefði ákveðið að skoða eignarhald FL Group, sem þá var skráð félag á markaði, að lokinni uppstokkun og hlutafjárhækkun sem þá var nýyfirstaðin. Ástæðan var sú að mikil tengsl virtust vera á milli stærstu hluthafanna, Baugs-veldis Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, félags Hannesar Smárasonar, Fons Pálma Haraldssonar og annarra félaga sem áttu minni hluti. Á meðal þeirra sem talin voru upp í fréttinni var Stím, sem á þessum tíma var svarthol í augum almennings. Engin vissi hver átti félagið.
Þó höfðu flestir blaða- og fréttamenn sem störfuðu við viðskiptaumfjöllun heyrt sögur af Stími fyrir bankahrun. Að það hefði verið búið til í kringum snúning sem átti að skera FL Group og Glitni niður úr snöru. Bréfin sem Stím keypti hefðu verið keypt af Glitni og bankinn sat uppi með þau á veltubók sinni. Enginn markaður hafði verið fyrir bréfin á því verði sem Stím greiddi fyrir þau og tilgangurinn var alltaf sagður sá að „hífa upp“ verðið á Glitni og stærsta eiganda bankans, FL Group. Ef það tækist ekki myndi fara illa fyrir báðum. Sem á endanum varð raunin.
Afar illa gekk hins vegar að fá nokkurt staðfest um málið. Það var fyrst í Silfri Egils 21. september 2008, þegar Lárus Welding var gestur þáttarins að efnislega var rætt um Stím á opinberum vettvangi. Þá spurði þáttastjórnandinn Egill Helgason Lárus um orðróm um lán Glitnis til Stím. Lárus svaraði því til að Stím væri „eflaust einn af okkar viðskiptavinum“.
Átta dögum eftir viðtalið féll Glitnir og íslenska bankahrunið hófst formlega.
Nennti ekki að tala um Stím
Einu upplýsingarnar sem hægt var að nálgast um Stím voru þær að stjórnarformaður félagsins væri skráður útgerðarmaðurinn Jakob Valgeir Flosason frá Bolungarvík, og að félagið væri skráð á sama heimilisfang og fjárfestingabankinn Saga Capital á Akureyri.
Í samtali við Morgunblaðið 20. nóvember 2008 sagði Jakob Valgeir að hann vildi ekkert segja um málið. „Ég er búinn að taka ákvörðun um að tjá mig ekkert um þetta félag. Ég nenni ekkert að segja já eða nei. Ég sé engan hag í að tjá mig um þetta félag“. Í sömu fréttaskýringu var greint frá því að Saga Capital veitti heldur engar upplýsingar um félagið.
Þremur dögum síðar skrifaði Agnes Bragadóttir fréttaskýringu í Morgunblaðið þar sem ýmsar ítarlegar upplýsingar um lánveitingar Glitnis til Stím voru opinberaðar og tortryggðar.
Þar sagði meðal annars: „Það voru nokkrir „stórlaxar“ úr hópi stærstu hluthafa í FL Group, þeir Jón Ásgeir Jóhannesson fyrir Baug, Hannes Smárason fyrir Oddaflug og einn eða tveir aðrir, sem ákváðu á leynifundi í október í fyrrahaust, að nú þyrftu þeir að taka höndum saman, stofna félag, kaupa upp þau fáu bréf í FL sem voru raunverulega á markaði og ná þannig að halda uppi gengi bréfa FL sem hafði ekki gert neitt annað en að hríðfalla[...]FS 37 ehf var stofnað „í samvinnu við" Jakob Valgeir Flosason. Glitnir lánaði tæpa 20 milljarða til félagsins, sem notaði rúma 8 milljarða til þess að kaupa upp hið litla bréfamagn í FL sem var í umferð og um leið var keyptur hluti í Glitni, í sama tilgangi, þ.e. að halda uppi gengi á fallandi bréfum í Glitni. Við þessa afgreiðslu Glitnis á láni til leynifélagsins FS37 ehf., sem skömmu síðar var breytt í Stím ehf., fór allt á fleygiferð meðal starfsmanna Glitnis, sem höfðu einhverjar hugmyndir um lánveitinguna. Það átti jafnt við um yfirmenn sem almenna starfsmenn. Þeir telja alveg ljóst að aldrei hafi nokkrar ábyrgðir verið lagðar fram vegna þessarar lánveitingar, ekkert áhættumat hafi farið fram og í lánabókum bankans sé ekki að finna nokkurt nafn sem sé ábyrgt fyrir lánveitingunni“.
Jón Ásgeir hvattur til að fara í meiðyrðamál
Jón Ásgeir brást ókvæða við þessum ávirðingum. Í grein eftir hann sem birtist í Fréttablaðinu strax í kjölfarið, sem bar heitið „Órökstuddar dylgjur“, sagði Jón Ásgeir að það hafi verið „tóm þvæla“ að hann hafi stofnað til Stíms ehf. „Það stendur ekki steinn yfir steini í svikabrigslum Agnesar. Það er líklega vegna þess að hún hefur ákveðið fyrirfram, eins og hirðin sem hún tilheyrir, að allt sem tengist mér og mínum félögum sé tóm spilling og svikamylla. Hugsanlega veit Agnes betur, en tilgangurinn helgar meðalið“.
Í samtali við Fréttablaðið mánudaginn 24. nóvember 2008 ítrekaði Jón Ásgeir afstöðu sína gagnvart Stími. „Ég tengist því á engan hátt, hef ekki sett krónu í það félag,“ sagði Jón Ásgeir við Fréttablaðið, sem á þeim tíma var í eigu hans, en er nú í aðaleigu eiginkonu hans. Jón Ásgeir sagðist einnig hafa íhugað að fara í mál við Agnesi Bragadóttur vegna fréttaflutningsins. „Lögfræðingar hafa haft samband við mig í dag og sagt að ég eigi mikinn rétt í þessu máli“.
Ekki leynifélag, en samt leynifélag
Þann 29. nóvember 2008 sendi Jakob Valgeir, skráður stjórnarformaður Stím, síðan frá sér fréttatilkynningu þar sem hann hann upplýsti um hverjir það voru sem stóðu að Stími, hvernig félagið var fjármagnað og hvað það gerði. „Stím ehf. er ekki leynifélag. Félagið var myndað af hópi fjárfesta og í einu og öllu var stofnað til þess samkvæmt íslenskum lögum. Því hefur verið haldið fram að ég hafi fengið greitt fyrir að ljá félaginu nafn mitt. Þetta er alfarið rangt og ég setti eigin fjármuni í Stím ehf.[...] Ég hefði viljað komast hjá því að tjá mig opinberlega um mín persónulegu fjármál en tel mig tilneyddan til þess eftir þær rangfærslur sem ítrekað hafa verið settar fram. Ég óska jafnframt eftir því að einkalíf mitt og minnar fjölskyldu njóti þeirrar friðhelgi sem almennt er talið eðlilegt,“ sagði meðal annars í tilkynningunni.
Það sem vakti mikla athygli í tilkynningu Jakobs Valgeirs var að þar kom fram að félag í eigu Glitnis ætti þriðjung í Stími. Glitnir hafði því stofnað félag, haft frumkvæði að því að fá fjárfesta inn í það, lánað því á þriðja tug milljarða króna til að kaupa hlutabréf í sjálfum sér og stærsta eiganda sínum, tók einungis veð í bréfunum sjálfum og átti áfram stóran hlut í félaginu.
Allir töpuðu nema Saga Capital
Innihald Stím-viðskiptanna var síðan rakið ítarlega í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem kom út í apríl 2010. Þar kom fram, án nokkurs vafa, að tilbúningur Stím og fjármögnun var til umfjöllunar á áhættunefndarfundum hjá Glitni síðari hluta nóvembermánaðar 2007, skömmu eftir Rússlandsferð yfirmanna bankans.
Viðskiptablaðið greindi frá því í nóvember 2010 að Saga Capital, sem var einn fjárfestanna í Stími, hafi fengið þau lán sem bankinn setti inn í Stím greidd að fullu til baka. Það gerðist með því að fagfjárfestingasjóðurinn GLB FX, sem var í vörslu Glitnis, keypti skuldabréf af Saga Capital sem útgefið var af Stími, í ágúst 2008.
Stím varð gjaldþrota og skiptum á búi þess lauk í september 2014. Lýstar kröfur í bú félagsins voru rúmlega 24 milljarðar króna. 0,06 prósent fékkst upp í kröfurnar. Slitastjórn Glitnis átti nær allar kröfurnar, og þar af leiðandi tapið.
Sjóður látinn kaupa verðlaust bréf
Í febrúar 2014 dúkkaði Stím aftur upp í íslenskri umræðu, nú vegna þess að embætti sérstaks saksóknara hafði birt þremur mönnum: Lárusi Welding, Jóhannesi Baldurssyni og Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, ákæru vegna viðskipta félagsins.
Lárus Welding var ákærður fyrir umboðssvik í tveimur liðum vegna lánveitinga Glitnis til Stím sem áttu sér stað í nóvember 2007 og í janúar 2008, en hann var forstjóri Glitnis á þeim tíma.
Jóhannes og Þorvaldur Lúðvík, sem hafa verið vinir frá því að þeir voru ungir menn, voru ákærðir vegna kaupa fagfjárfestasjóðsins GLB FX á víkjandi skuldabréfi af Saga Capital í ágúst 2008. Saga hafði lánað Stím milljarð króna en þegar ljóst varð að Stím var komið með neikvætt eigið fé setti Þorvaldur Lúðvík mikinn þrýsting á Glitni að kaupa af sér skuldabréfið.
Það var loks gert í ágúst 2008, skömmu fyrir bankahrun, og öll upphæðin auk vaxta endurgreidd til Sögu Capital. Hún nam um 1,2 milljarði króna. Í ákæru málsins segir að með því hafi tap vegna Stím verið fært af Sögu Capital yfir á þá sem áttu hlutdeild í sjóðnum. Þar á meðal voru íslenskir lífeyrissjóðir.
Í dómi héraðsdóms í dag segir að dómurinn telji einsýnt að „ákærðu Jóhannes og Þorvaldur hafi í sameiningu unnið að því að Saga Capital fjárfestingarbanki hf. yrði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni vegna lánveitingar sinnar til Stíms ehf.[...] . Í þeim ráðagerðum hafi komið upp sú hugmynd að GLB FX fagfjárfestingasjóðurinn, sem vistaður var hjá Glitni banka hf. samkvæmt sérstökum samningi og starfsmenn markaðsviðskipta önnuðust fjárfestingar fyrir, yrði kaupandi að skuldabréfinu. Þegar þeim hugmyndum var hrint í framkvæmd hafði bréfið takmarkað ef nokkuð verðgildi, svo sem endurskoðendur Sögu Capital fjárfestingarbanka hf. höfðu fært í vinnubækur sínar. Það var einnig viðhorf ákærða Þorvaldar samkvæmt því er hann ritaði í vinnudagbók sína 11. desember 2007.[...] [Magnús Pálmi] hefur lýst því að ákærði Jóhannes hafi þrýst mjög á sig um að GLB FX fagfjárfestingasjóðurinn myndi kaupa umrætt skuldabréf. Hafi ákærði Jóhannes verið búinn að lofa Sögu Capital fjárfestingarbanka því“.
Þar segir einnig að mönnunum tveimur, Jóhannesi og Þorvaldi Lúðvík, hafi verið fullljóst að bréfið var verðlítið eða verðlaust þegar það var keypt á fullu verði af Saga Capital af sjóði sem átti aldrei að kaupa slík bréf.
Neituðu allir sök
Málarekstur í Stím-málinu fór síðan fram í nóvember síðastliðnum fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Kjarninn birti þá greinargerð Lárusar Welding í málinu, þar sem hann hafnar því að hafa brotið lög í málinu og lögmaður hans gagnrýnir málatilbúnað sérstaks saksóknara harkalega.
„Samantekið þá er rangt að ákærði hafi staðið að þeirri lánveitingu sem ákært er vegna á allt öðrum forsendum en samþykkt hafi verið í áhættunefnd bankans. Í ákæru er beinlínis lagt til grundvallar að áhættunefnd bankans hafi tekið ákvörðun um að veita lánið. Ekki hefur verið gert líklegt að lánveitingin hafi falið í sér brot gegn ákvæðum í lánareglum Glitnis um tryggingar. Nettó fjárstreymi til Glitnis vegna Stím-viðskiptanna var jákvætt um a,m,k. 2.350 milljónir króna. Ákvörðun um að lána Stím var ótvírætt til þess fallin að draga úr fjárhagslegri áhættu bankans og bæta eiginfjárstöðu hans. Ákæruvaldið hefur ekki með neinu móti gert sennilegt að ákvörðunin, sem háð var viðskiptalegu mati ákærða og annarra nefndarmanna í áhættunefnd, hafi verið óforsvaranleg,“ segir meðal annars í samantektarorðum í greinargerðinni.
Jóhannes og Þorvaldur Lúðvík neituðu einnig báðir sök.
Lykilvitni samdi sig frá ákæru
Réttarhöldin voru að mörgu leyti ótrúleg, og fordæmalaus. Reimar Pétursson, verjandi Jóhannesar, stal að öðrum ólöstuðum senunni með sókn sinni að lykilvitni í málinu, Magnúsi Pálma Örnólfssyni.
Magnús Pálmi var yfirmaður eigin viðskipta hjá Glitni og undirmaður Jóhannesar. Hann er líka einn tveggja manna sem hafa fengið réttarvernd gegn ákæru í hrunmálum þar sem fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að þeir hafi brotið af sér, gegn því að veita saksóknara upplýsingar sem styrki málatilbúnað hans.
Réttarverndin byggir á lögum um embætti sérstaks saksóknara frá árinu 2008 þar sem er að finna svokallað uppljóstraraákvæði. Þar segir að skilyrði fyrir veitingu réttarverndar séu að „talið sé líklegt að þessar upplýsingar eða gögn geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót við fyrirliggjandi sönnunargögn. Þá er það skilyrði fyrir beitingu þessarar heimildar að rökstuddur grunur sé um að upplýsingar eða gögn tengist alvarlegu broti, fyrirséð sé að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn og ástæða sé til að ætla að án þeirra muni reynast torvelt að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir broti“.
Orðnir hræddir í desember 2009
Ljóst var strax á árinu 2009 að mennirnir sem tengdust málinu voru orðnir hræddir um að það gæti haft afleiðingar fyrir þá. Magnús Pálmi fór til að mynda og hitti Jóhannes í desember á því ári. Í dómi héraðsdóms segir: „Hafi vitnið grunað að þessi viðskipti yrðu til rannsóknar og spurt ákærða hvernig hann ætlaði að bregðast við málinu. Hafi þeir rætt saman um að reyna að verja málið og hvernig púsla mætti því saman. Vitnið hafi í tvígang farið í skýrslutökur hjá embætti sérstaks saksóknara. Í þeim yfirheyrslum hafi vitnið hengt sig á að ekkert tjón hefði orðið af viðskiptunum. Í seinni yfirheyrslunni, sem verið hafi í desember 2011, hafi vitnið fundið að það hefði ,,tapað“ málinu. Ekki hafi verið hægt að verja kaupin á skuldabréfinu. Eftir yfirheyrsluna hafi vitnið hitt ákærða Jóhannes og sagt honum að því litist ekki á málið. Hafi vitnið eftir þennan fund velt fyrir sér hvort það ætti að breyta framburði sínum. Eftir umhugsun hafi vitnið ákveðið að segja eins og var. Hafi það, ásamt verjanda sínum, óskað eftir fundi með embætti sérstaks saksóknara þar sem vitnið hafi sagt að það ætlaði að segja alla söguna. Hafi vitnið um leið óskað eftir því að fá að njóta verndar samkvæmt 5. gr. laga um embætti sérstaks saksóknara. Í framhaldi hafi vitnið gefið skýrslu 23. nóvember 2011 þar sem það hafi breytt fyrri framburði sínum og sagt eins og var“.
Í dómi héraðsdóms segir reyndar að Magnús Pálmi hafi ekki þótt neitt sérstaklega gott vitni. Í tveimur fyrstu yfirheyrslum sem haldnar voru yfir honum sagði Magnús Pálmi að hann hefði einn tekið þá ákvörðun að kaupa skuldabréf í eigu Sögu Capital. Hann breytti þeim framburði við þriðju yfirheyrslu og sagði þá að Jóhannes hefði þrýst á sig að kaupa hið verðlausa bréf. Í dómnum segir: „Líta verður til þess að á því stigi hafði lögregla kynnt honum gögn sem þóttu leiða í ljós sekt [Magnúsar Pálma]. Á því stigi hafði lögregla jafnframt kynnt honum þá tilgátu að til hafi komið þrýstingur frá yfirmanni hans um að samþykkja kaupin. Svo sem hér greinir hefur [Magnús Pálmi] orðið missaga undir meðförum málsins. Dómurinn telur að skoða verði framburð [Magnúsar Pálma] í þessu ljósi sem og sönnunargildi framburðar hans“.
Ásakaður um „furðuviðskipti“
Sakborningar í málinu eru samt sem áður ekki að fara að gefa Magnúsi Pálma neinar jólagjafir í ár og heiftin sem ríkir í garð hans kom bersýnilega í ljós í réttarhöldunum í málinu. Í endursögn mbl.is, sem sat allt réttarhaldið, kom fram að Reimar Pétursson, verjandi Jóhannesar, hafi ítrekað spurt Magnús Pálma hvort Stím hafi verið notað til að geyma samninga sem aðrir áttu að hagnast á, eða til að færa yfir tap vildarviðskiptavina Magnúsar í bankanum.
Þessir aðrir sem Magnús Pálmi átti að láta hafa hagnast voru vinir hans frá Ísafirði og Bolungarvík, þeir Ástmar Ingvarsson, Jakob Valgeir Flosason og Gunnar Torfason. Í réttarhöldunum kom einnig fram að þessi hópur, ásamt Magnúsi Pálma, hafi haldið áfram að starfa saman eftir bankahrun.
Samkvæmt mbl.is sagði Reimar að Magnús Pálmi hefði gert gjaldmiðlasamninga upp á marga milljarða króna þegar hann fékk Stím til skuldastýringar og gaf sterklega í skyn að Magnús Pálmi hefði flutt mikinn hagnað sem skapast hefði hjá Stím vegna stöðutöku gegn krónunni yfir á ofangreinda vini sína og að í staðinn hafi hann fengið lánafyrirgreiðslu sem ekki hafi verið ætlunin að greiða til baka. Reimar sagði að samningarnir sem Magnús Pálmi gerði hefðu verið „furðusamningar“. Vegna þess að Magnús Pálmi hefði deilt þessum hagnaði á valda viðskiptavini hefði Stím farið á mis við 9,7 milljarða króna inneign. „Varstu að kaupa [Stím] skuldabréfið til að styðja við þessa menn,“ spurði Reimar Magnús Pálma sem svaraði neitandi.
Hæstiréttur sýknar sjaldnast
Niðurstaða héraðsdóms var samt sem áður afdráttarlaus: mennirnir þrír eru sekir um það sem þeim var gefið að sök í Stím-málinu. Allir þrír dómarar málsins voru sammála um það.
Þeirri niðurstöðu verður án nokkurs vafa áfrýjað til Hæstaréttar líkt og siður er fyrir í málum sem þessum en þar hefur ekki verið mikla miskunn að finna í þeim hrunmálum sem hingað til hafa ratað þangað. Í þeim sjö stóru hrunmálum sem lokið hefur með dómi Hæstaréttar hefur einungis verið sýknað í einu, hinu svokallaða Vafningsmáli.
Það verður því athyglisvert hvernig Hæstiréttur mun taka á Stím þegar málið ratar þangað og hvort nýr endir verði saminn.