rússnesk orrustuþota
Auglýsing

Undanfarin ár hafa samtök kennd við íslamskt ríki farið með ófriði, sér í lagi í ríkjum þar sem upplausn ríkir og stjórnarfar er í molum, eins og Írak, Sýrlandi og Líbýu. Eftir að samtökin færðu sig upp á skaftið með stríðsyfirlýsingum og hryðjuverkum í vestrænum borgum hefur þeim verið lýst sem mestu ógn sem heimurinn stendur frammi fyrir.

Í gömlum spakmælum segir eitthvað á þá leið að velferð sé ekki háð því sem hendir á lífsleiðinni, heldur hvernig brugðist er við í þeim aðstæðum sem upp koma. Þetta má setja í stærra samhengi þar sem viðbrögð alþjóðasamfélagsins við hryðjuverkavandanum eru lykilatriði.

Auglýsing

Varhugavert er í því sambandi að saka þá sem vilja stíga varlega til jarðar, og t.d. efast um gildi loftárása á liðsmenn Íslamska ríkisins, um barnalega einfeldni eða samúð með hryðjuverkamönnum. Það er mjög mikilvægt að aðgerðir til að ráða niðurlögum þessara öfgaafla séu yfirvegaðar og byggðar á staðreyndum en ekki hræðsluáróðri, heift og pólitískri sýndarmennsku.

Uppblásnar æsifréttir

Ummæli þjóðarleiðtoga og umfjöllun fjölmiðla í æsifréttastíl eru til þess fallin að fólk telur hættuna á hryðjuverkum almennt vera að aukast. Raunveruleikinn er þó allt annar því rannsóknir og skrif fræðimanna leiða í ljós að hætta á hryðjuverkum á Vesturlöndum er hverfandi. Nánari skoðun sýnir einnig að það eru sjaldnast íslamskir öfgamenn að baki þeim hryðjuverkum sem þó eru framin.

Hér er ekki gert lítið úr hugsanlegri aukinni ógn eða þeim skelfilegu voðaverkum sem framin hafa verið. Hins vegar má færa fyrir því rök að þindarlaus og uppblásin umfjöllun verði einungis til að styðja við málstað hinna ofstækisfullu hryðjuverkamanna. Hún hjálpi þeim að ná fram ætlunarverkinu: að hræða fólk, skipta í fylkingar og grafa undan stöðugleika vestrænna ríkja, kalla fram ofsafengin viðbrögð eins og loftárásir, takmarkanir á ferðafrelsi og hraklega meðferð flóttamanna.

Það flækir einmitt málið að við þetta blandast umræða um aukinn flóttamannastraum til Evrópu. M.a. áttu hryðjuverkamennirnir sem stóðu að ódæðunum í París í nóvember að hafa smeygt sér í raðir flóttamanna til að komast milli landa. Sannarlega vafasamar vangaveltur þar sem hryðjuverkamennirnir voru flestir Evrópubúar búsettir í Frakklandi og Belgíu. Í umræðunni er einnig grautað saman hættunni á öfga-Íslamstrú, aðlögun innflytjenda í nýju samfélagi og aukinni hættu á hryðjuverkum.

Í kjölfar voðaverkana í París voru viðbrögð Francois Hollande eins og við mátti búast og minntu á viðbrögð George W. Bush eftir hryðjuverkin 11. september árið 2001. Hollande lýsti umsvifalaust yfir stríði gegn Íslamska ríkinu og franski loftherinn hélt nánast samstundis í árásarferðir sem beindust að liðsmönnum þess.

Það er býsna áhrifaríkt að sjá myndir af orrustuþotum taka á loft af flugmóðurskipi því birtingarmynd valdsins verður vart mikið skýrari. Slíkt vekur með fólki þá tilfinningu að verið sé að bregðast við – „gera eitthvað“ – í nafni þjóðarinnar. Það þjappar fólki saman, fylkir því að baki leiðtoganum og styrkir völd hans.   

Loftárásir Frakka í kjölfar hryðjuverkana í París í nóvember virtust þó hvorki herfræðilega né pólitískt úthugsaðar ­– nema þá til heimabrúks. Sýndust þær frekar vera sviðsettar hefndaraðgerðir því önnur ríki drógu sig í hlé á meðan Frakkar fengu að athafna sig svo þeir ættu sviðið örugglega einir. Það minnir dálítið á atriði í sjónvarpsþætti þar sem löggan lítur undan á meðan eiginmaðurinn, fullur hefndarþorsta, fær að ganga í skrokk á ódámnum sem svívirti konu hans.

Á að semja við hryðjuverkamenn?

Þegar hryðjuverkamenn láta til skarar skríða og hafa að einhverju leyti tekið frumkvæði með tilheyrandi ógn og skelfingu, er úr vöndu að ráða. Sumir vilja fara þá leið að semja ekki við hryðjuverkamenn en aðrir hafa bent á að sé samningaleiðinni kastað fyrir róða þá þurfi menn að vera tilbúnir að taka afleiðingunum og berjast þar til yfir lýkur.

Í kjölfar árásanna 11. september hafa Bandaríkjamenn varið óheyrilegum fjárhæðum til að uppræta hryðjuverkastarfsemi í Miðausturlöndum, Afganistan og víðar – og herstyrkur vestrænna ríkja, Bandaríkjanna og NATO-ríkjanna er gríðarlega mikill í samanburði við herstyrk Íslamska ríkisins.

Þrátt fyrir yfirlýst stríð gegn hryðjuverkum, allan þennan hernaðarmátt og linnulausar loftárásir með háþróuðum vopnum gegn tilteknum skotmörkum, virðast þau hryðjuverkasamtök sem barist er gegn fremur dafna en hitt. Þrátt fyrir allar þessar aðgerðir spratt upp það sem kallað er Íslamska ríkið, samtök sem talin eru ógna heimsfriðnum svo mjög að öflugasta herveldi heims skelfur á beinunum.

Erfitt að komast hjá beitingu hervalds – en hvað svo?

Aðferðirnar virka því greinilega ekki. Jafnframt hefur verið bent á að andstæðingurinn, sem vestræn ríki standa frammi fyrir nú, hafi engan áhuga á samningaviðræðum. Þannig að jafnvel þótt reynt væri að fara þá leið væri það tæpast vænlegt til árangurs. Vera kann að eina leiðin sé að láta reyna á hinn gríðarlega herstyrk sem vesturveldin búa yfir.

Slíkum hernaðarúrræðum þarf að beita af yfirvegun, jafnt á pólitískum og herfræðilegum forsendum, fremur en með „stríði gegn hryðjuverkum“ eða tilfallandi refsiaðgerðum eins og loftárásum til að friða reiðar þjóðir og tryggja vinsældir. Þessar aðgerðir þyrftu jafnframt að vera með samþykki Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og viðtækum stuðningi alþjóðasamfélagsins.

Forsetar ræða málin.

Barack Obama hefur sagt að samstaða hafi náðst um aðgerðir til að takast á við Íslamska ríkið. Sú samstaða virðist þó lítið meira en orðin tóm og ástæðan eru mismunandi hagsmunir ríkja. Má þar nefna að Tyrkir virðast hafa frítt spil í þessari baráttu, kaupa olíu af Íslamska ríkinu og fá að óhindrað að berja á sveitum Kúrda sem þó hafa barist hvað hetjulegast gegn öfgasamtökunum. Einnig hafa sumir haldið því fram að aðgerðir Rússa í Sýrlandi snúist meira um að halda Assad forseta við völd en að ráða niðurlögum Íslamska ríkisins.

Ef beita á hervaldi væri einn möguleiki að NATO kæmi að málum því Bandalagið hefur mikla burði og sterkan bakgrunn til slíkra verkefna. NATO býr yfir víðtækum úrræðum, en aðildarríki þess ráða m.a. yfir þremur milljónum manna undir vopnum, meira en 25.000 flugvélum, 800 herskipum, og 50 AWACS flugvélum. Jafnframt eru bandalagsríkin ábyrg fyrir um helmingi af landsframleiðslu heimsins.

Liðsmenn Íslamska ríkisins dreifa sér gjarnan á meðal almennra borgara inni í borgum, sem er einmitt eitt af því sem gerir sprengjuárásir og hefðbundinn hernað gegn þeim að slæmum kosti. NATO hefur gefið sig út fyrir að vera meira en hernaðarlegt varnarbandalag – þar sem pólitísk og borgaraleg úrræði þurfi einnig að koma til þegar stilla eigi til friðar í átökum – og ætti að geta starfað í þeim anda að verkefninu.

Meginmáli skiptir þó það sem á eftir kemur, sú uppbygging sem þarf að eiga sér stað eftir að hernaðaraðgerðum líkur. Þó NATO hafi náð þeim hernaðarlegu markmiðum sem lagt var upp með í Líbýu árið 2011, gleymdist algerlega að taka með í reikninginn hvað tæki við eftir að Muammar Gaddafi var komið frá völdum. Þar hefur því ríkt upplausnarástand sem er gróðrarstía fyrir öfgaöfl og hryðjuverkamenn.

Í raun má segja að það sama hafi verið uppi á teningnum eftir innrásina í Írak. Þá gerðu Bandaríkjamenn þau mistökleysa upp her og lögreglu landsins og senda menn heim launalausa. Afleiðingarnar voru alger upplausn og hundruð þúsunda óánægðra vopnfærra manna í atvinnuleit, sem m.a. lagði ákveðinn grunn fyrir Íslamska ríkið.

Vestrænt skipulag og gildi eiga ekki við

Hafa ber í huga að uppreisnarmenn og skæruliðasveitir hafa oft og tíðum takmarkaðan áhuga á að koma á stöðugu lýðræðissamfélagi að vestrænni fyrirmynd hinna fullvalda ríkja. Grundvöllur slíkra mótherja er heldur ekki endilega tiltekið landsvæði, ríki eða þær formlegu stofnanir sem því tilheyra, sem bíði þess að vera endurreist – heldur málstaður, hugsjónir eða baráttumál sem lúta öðrum lögmálum en hið vestræna kerfi sem reynt er að koma á. Þetta á einmitt við um Íslamska ríkið.

Yfirgangur og stjórnsemi Vesturlanda í Miðausturlöndum og víðar er eitt af því sem skapað hefur það ástand sem upp er komið. Þar er einn þátturinn stuðningur Vesturlanda við þau stjórnvöld sem hliðholl eru vestrænum hagsmunum, sem gjarnan tengjast olíu. Hann viðheldur mikilli misskiptingu í þeim samfélögum þar sem hryðjuverkamennirnir vaxa upp og tryggir gjarnan yfirþyrmandi auð og völd tiltölulega fámennrar valdastéttar, á meðan almenningur ber skarðan hlut frá borði.

Líklega er farsælast að Vesturlönd reyni að forðast að vera að vasast í málefnum ríkja Miðausturlanda. Ósennilegt er að stríðið gegn öfgafullum jíhadistum vinnist, álíka ósennilegt og að stríðið gegn fíkniefnum eða glæpum vinnist endanlega, því hryðjuverkamenn og öfgahópar munu ætíð halda áfram að skipuleggja og fremja voðaverk, hvort sem Íslamska ríkið er til staðar eða ekki.

Segjum að það næðist í skottið á meirihluta liðsmanna Íslamska ríkisins, höfuðvígi þess væru jöfnuð við jörðu og fjárhagslegum grundvelli kippt þar undan. Í þeim aðgerðum er víst að fjöldi saklausra borgara léti lífið, borgir væru í rústum og samfélög sundruð. Úr þeim jarðvegi má telja víst að spryttu nýir hópar og samtök sem teldu sig eiga harma að hefna – og svo koll af kolli.

Það er því ljóst að yfirveguð viðbrögð sem taka mið af staðreyndum en ekki uppblásnum hræðsluáróðri, hefndarþörf og pólitískri sýndarmennsku, geta minkað líkurnar á slíkri niðurstöðu. Það er ekki barnaleg einfeldni heldur herkænska.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBjarni Bragi Kjartansson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None