Á aðventu gerðist tvennt sem getur haft gríðarmikil jákvæð áhrif fyrir afganska efnahaginn, sem þarfnast sárlega góðra frétta. Viku fyrir aðfangadag gerðist Afganistan meðlimur í Alþjóðaviðskiptastofnuninni WTO. Fjórum dögum áður höfðu afgönsk stjórnvöld undirritað viljayfirlýsingu um gríðarmiklar gasleiðslur sem eiga að liggja þvert yfir landið og flytja gas frá Túrkmenistan til Indlands.
En kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið. Aðgangur að mörkuðum og háar fjárhæðir í samningum gefa fögur fyrirheit, en leiðin er löng þaðan og að takmarkinu um traustan efnahag. Það traust sem vinnst við góða samninga, hverfur á ný við tíðar fréttir um landvinninga talibana undanfarið ár.
Afganska ríkið er að miklu leyti rekið með fjárgjöfum alþjóðasamfélagsins. Alþjóðabankinn stýrir gríðarmiklum sjóði sem borgar m.a. laun kennara og embættismanna og heldur uppi miklu af daglegum rekstri. Um þrír fjórðu af vergri þjóðarframleiðslu er gjafafé frá erlendum ríkjum og eiturlyfjaframleiðsla stendur fyrir helmingnum af restinni. Ríkið græðir vitaskuld lítið á þeim iðnaði, nema síður sé. Því er nauðsynlegt að byggja upp aðrar tekjulindir, sem núverandi forseti vinnur hörðum höndum að.
Hæfur forseti í kviksyndi erfiðra stjórnmála
Alþjóðasamfélagið gladdist innilega þegar Ashraf Ghani mældist með forystu í könnunum fyrir afgönsku forsetakosningarnar 2014. Hann er með doktorsgráðu í mannfræði en hefur skrifað mikið um það hvernig eigi að byggja upp brothætt ríki eftir stríðsátök. Hann hefur m.a. unnið fyrir Alþjóðabankann og kennt við bandarísku háskólana Berkeley og John Hopkins. Hann var fjármálaráðherra í fyrstu ríkisstjórninni eftir fall talibana 2002-2004. Þá kom hann miklu í verk á stuttum tíma; vann hratt og ákveðið að því að koma hlutunum í rétt horf.
Ghani hlaut flest atkvæði í annarri umferð en aðalkeppinauturinn neitaði að sætta sig við úrslitin vegna umfangsmikils kosningasvindls. Það stefndi í óefni. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, flaug til Afganistans til að miðla málum. Keppinautarnir enduðu nauðugir í samsteypustjórn, en samstarfið hefur verið stirt. Ghani er í raun með stjórnarandstöðuna inni á gafli og þarf að gera málamiðlanir um hverja minnstu ákvörðun. Stjórnin hefur fyrir vikið verið frekar máttlaus.
Ghani hefur þrátt fyrir það gert ýmislegt gott, sérstaklega þegar kemur að samstarfi við nágrannaríkin og alþjóðasamfélagið, sbr gasleiðsluna og WTO-aðildina. Hann hefur sett upp tíu ára plan, um að landið skuli vera óháð erlendum fjárgjöfum árið 2024. Stóru sóknarfærin í áætluninni eru annars vegar auðæfin sem eru fólgin í steindum og málmum í afgönskum fjöllum, hins vegar að öryggisástandið leyfi vöruflutninga og verslunarleiðir í gegnum landið. Það blæs hins vegar ekki byrlega fyrir áætlanir forsetans. Byrjum á gasleiðslunni.
Gasleiðsla upp á náð og miskunn talibana
TAPI-gasleiðslan, sem Túrkmenistan, Afganistan, Pakistan og Indland komu sér saman um á dögunum, hefur lengi verið á teikniborðinu. Hugmyndin er að flytja gas í stórum stíl frá framleiðandanum Túrkmenistan til stórra markaða í Pakistan og Indlandi. Stysta leiðin liggur þvert yfir Afganistan.
Ef af verður, getur þetta verið mikil lyftistöng fyrir afganskan efnahag: miklar innviðaframkvæmdir og tekjur af samstarfinu. Án efa myndi landið líka fá dável af gasi í sinn hlut, sem yrði kærkomin búbót og hluti af lausninni á viðvarandi orkuskorti.
Verkefninu myndu fylgja miklar vegaframkvæmdir
og –viðgerðir, sem einar og sér myndu gera það auðsóttara að koma afgönskum
vörum, aðallega landbúnaðarafurðum, á markað. Afganski forsetinn hefur kallað
leiðsluna “nýja silkiveginn”, sem vísar til þess tíma þegar Afganistan lá í
alfaraleið alþjóðlegra viðskipta, þ.e.a.s. á miðöldum.