Raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða hefur aðeins verið 1,7% að meðaltali á ári undanfarinn áratug. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu OECD um lífeyrissjóði þeirra ríkja sem tilheyra samtökunum. Til samanburðar má nefna að þessi ávöxtun var 5,4% hjá dönskum lífeyrissjóðum og rúmlega 4% hjá þeim norsku á sama tímabili. Af þeim 26 þjóðum sem bornar eru saman í skýrslunni eru aðeins fimm fyrir neðan Ísland þegar kemur að raunávöxtun lífeyrisjóða þeirra. Meðal þeirra eru Bandaríkin, Japan og Tékkland en hjá þeim þjóðum er raunávöxtunin um eða undir 0,5%,
Breskir lífeyrissjóðir hafa staðið sig best í að ávaxta fé sitt á áratugnum fram að árslokum 2014 en raunávöxtun þeirra hefur verið 6,5% að meðaltali á ári. Af öðrum þjóðum má nefna Holland með 4,8% ávöxtun og Kanada með 4,7%. Athyglisvert er að á einu línuritanna í skýrslunni má sjá að hollenska lífeyrissjóðakerfið fór mun verr út úr hruninu 2008 en það íslenska. Samt sem áður er hollenska lífeyrissjóðakerfið með nær þrefalt betri raunávöxtun en það íslenska.
Síðasta ár í lagi
Skýrsla OECD fjallar að mestu um árið 2014, það er nær frá desemberlokum 2013 til þarsíðustu áramóta. Á því ári eru íslenskir lífeyrissjóðir aðeins að rétta úr kútnum og eru fyrir ofan meðaltalið þegar kemur að raunávöxtun en hún reyndist 7,2% hjá þeim íslensku. Einfalt meðaltal er 6,8%, og svokallað vegið meðaltal (weighted average) er 5%, meðal þjóða OECD. Danskir lífeyrissjóðir eru með langbestu ávöxtunina og raunar er hún ævintýraleg eða 16,7% á umræddu ári. Næst á eftir koma Hollendingar með álíka ávöxtun eða rúmlega 15% og Belgar eru í þriðja sæti með 10,7%. Í neðstu sætunum eru Bandaríkin, Japan og Tékkland með raunávöxtun upp á 1,2 til 3,4%.
Erfitt umhverfi
Í formálanum að skýrslunni er farið almennum orðum um þá stöðu sem lífeyrissjóðir þjóðanna innan OECD þurfa að glíma við í dag þegar kemur að ávöxtun á fjármunum þeirra. Sú staða er vægast sagt erfið. Vestrænar þjóðir búa nú almenn við lélegan hagvöxt, litla verðbólgu og lága vexti. Þetta er krefjandi staða fyrir lífeyrissjóðina og býður þeirri hættu heim, að mati skýrsluhöfuna, að sjóðirnir leiti í auknum mæli í áhættusamari fjárfestingar en ríkisskuldabréf og aðra álíka örugga pappíra.
Fjárfestingargeta lífeyrissjóðanna innan OECD er gríðarleg þegar á heildina er litið. Samanlagðar eignir þeirra fóru yfir 25 trilljón dollara markið í fyrsta sinn í sögunni á síðasta ári. Þessar eignir eru að stærstum hluta bundnar í skulda- og verðbréfum, hlutafé og innlánum eða lausafé. Af þeim eru 51,3% í skulda- og verðbréfum, 23,8% í hlutafé og 9,6% í inneignum eða lausafé. Það sem eftir stendur eru fjárfestingar af ýmsum toga eins og t.d. einkahlutafélög í Brasilíu, landareignir og byggingar í Kanada, afleiður í Bretlandi og ýmsar eignir í Bandaríkjunum, að því er segir í skýrslunni.
Mikilvægi lífeyrissjóða mikið á Íslandi
Fram kemur í skýrslunni að mikilvægi lífeyrissjóða í samhengi við hlutfall af landsframleiðslu sé einn mest á Íslandi af öllum þjóðum innan OECD. Aðeins Hollandi skorar hærra hvað þetta varðar á samanburðarlista yfir þjóðirnar. Umfang lífeyrissjóða í Hollandi er rúmlega 159% af landsframleiðslu landsins. Á Íslandi er umfangið 146,8% og Sviss vermir svo þriðja sætið með umfang upp á 120,3%.
Hvað hin Norðurlöndin varðar kemur fram að umfangið í Finnlandi er 51% og í Danmörku 48,6% en í Svíþjóð og Noregi aðeins í kringum 9% hjá hvoru landi.
Neðst á þessum lista eru lönd á borð við Grikkland og Frakkland með umfang á um eða undir 0,6% en í þeim löndum sér hið opinbera nær alfarið um lífeyrissjóðsgreiðslur til þegna sinna.
Höftin hamla
Í fyrrgreindum samanburði verður að geta þess að
lagalegt umhverfi íslenskra lífeyrissjóða takmarkaði getu þeirra til erlendra
fjárfestinga fyrir hrunið 2008. Eftir hrunið hafa þeir svo verið bundnir innan
gjaldeyrishafta. Í fyrra var hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðann þannig
aðeins 22% af heildareignum þeirra.
Þetta hlutfall fór hæst í tæp 30% fyrir hrunið 2008. Í Danmörku er hlutfall
erlendra eigna þarlendra lífeyrirsjóða rúmlega 31% og í Noregi er það tæp 29%.
(Hér er norski olíusjóðurinn ekki talinn með en yfir 90% allra eigna hans eru
erlendar.)