Ráðlegging greinenda hjá Royal Bank of Scotland (RBS) til viðskiptavina, um að selja öll hlutabréf og færa fjármuni í „skjól“, ríkisskuldabréf eða annað, hefur vakið marga til umhugsunar um hvað sé á seyði á alþjóðamörkuðum. Þessi ráðlegging bankans, sem breska ríkið á um 80 prósent hlut í eftir þjóðnýtingu á haustmánuðum 2008, kemur í kjölfarið á slæmum upphafsdögum á mörkuðum á árinu og viðvörunum frá George Soros, fjárfestinum þekkta, en hann telur aðstæður nú líka sem sem voru fyrir hendi á árinu 2008, þegar fjármálakreppa skall á með hruni banka og vantrausti á mörkuðum.
Í bréfi sínu til viðskiptavina, sem er hluti af vikulegri útgáfu greinenda bankans, kemur fram að fjárfestar ættu að fara varlega á árinu 2016, og fátt bendi til annars en að verðhjöðnun muni leika markaði grátt. Það ræður ekki síst miklu mikið verðfall á hrávöru, einkum og sér í lagi olíu. Hún hefur lækkað mikið að undanförnu og kostar tunnan af hráolíu nú um 30 Bandaríkjdali og er talið líklegt að hún lækki enn meira ef olíuframleiðsluríki taka ekki ákvörðun um að draga úr framboði, með því að minnka framleiðsluna meira en gert hefur verið.
Samkvæmt því sem fram kemur í bréfinu gæti hlutabréfaverð fallið um 20 prósent og mikil hætta á að almennur slaki einkenni markaði, það er að eftirspurn minnki mikið og fjárfestar haldi að sér höndum. Við slíkar aðstæður gerist aðeins eitt; hlutabréfaverð lækkar og það hratt.