Landsbankinn vissi að Visa Inc. átti valrétt um kaup á Visa Europe áður en bankinn seldi hlut 31,2 prósent hlut í Borgun í nóvember 2014. Samið hafði verið um valréttinn árið 2007 en hann var ótímabundinn og óvíst var hvenær og hvort af honum yrði. Bankinn vissi einnig af áformum Borgunar um að auka umsvif sín erlendis á árinu 2015 en segir að það hafi ekki legið fyrir að hvaða marki þau áform yrðu í samstarfi við Visa. Þá fékk Landsbankinn aðgang að upplýsingum um rekstur Borgunar áður en bankinn gekk frá sölu á hlut sínum.
Ekki hafi þó legið fyrir, þegar Landsbankinn seldi hlut sinn til stjórnenda Borgunar og meðfjárfesta sinna seint í nóvember 2014, hversu háum fjárhæðum samruni Visa Inc. og Visa Europe myndi skila Borgun. Þetta kemur fram í svari Landsbankans við fyrirspurn Kjarnans um þá vitneskju sem bankinn hafði um valréttinn fyrir söluna á hlut hans í Borgun.
Visa Inc ákvað seint á síðasta ári að kaupa Visa Europe á um þrjú þúsund milljarða króna. Kaupin munu gera það að verkum að íslensku greiðslukortafyrirtækin Valitor og Borgun munu hagnast um á annan tug milljarða króna. Landsbankinn tekur fram í svari sínu að bankinn geri ráð fyrir því að hagnast um nokkra milljarða króna vegna sölu hans á hlut sínum í Valitor á árinu 2015, en í þeirri sölu var gerður samningur um hlutdeild í ágóða vegna samrunans. Slíkur samningur var hins vegar ekki gerður þegar hluturinn í Borgun var seldur, og því rennur milljarða króna ágóði Borgunar vegna samrunans ekki til ríkisbankans, heldur stjórnenda Borgunar og meðfjárfesta þeirra auk Íslandsbanka, sem er stærsti eigandi Borgunar.
Ljóst að kaupverðið yrði hátt áður en Landsbankinn seldi
Tilkynnt var um sölu Landsbankans á 31,2 prósent hlut í Borgun 25. nóvember 2014. Hluturinn var seldur á 2,2 milljarða króna. Hann var ekki settur í opið söluferli og öðrum áhugasömum fjárfestum gafst ekki kostur á að bjóða í hlutinn. Í febrúar 2015, tæpum þremur mánuðum eftir að kaupin gengu í gegn, ákváðu eigendur Borgunar að greiða sér út 800 milljónir króna í arð vegna frammistöðu fyrirtækisins á árinu 2014. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, og bankaráð bankans hafa gengist við því að selja hefði átt hlutinn í opnu söluferli. Viðbúið er að stjórnendur Landsbankans, sem er í 98 prósent eigu íslenska ríkisins, muni þurfa að mæta fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að skýra söluna á Borgun á næstunni.
Fjórum dögum áður en tilkynnt var um söluna, 21. nóvember 2014, birtist frétt á heimasíðu Bloomberg-fréttaveitunar, sem er ein stærsta viðskiptafréttaveita í heimi, um að Visa Inc. gerði sér grein fyrir því að fyrirtækið þyrfti að greiða meira en 1.300 milljarða króna ef það ætlaði að nýta sér valrétt sinn á kaupum á Visa Europe.
Kom ekki til álita að gera samning um viðbótargreiðslur
Í svari Landsbankans við fyrirspurn Kjarnans segir að það hafi ekki komið til umræðu þegar hluturinn í Borgun var seldur til helstu stjórnenda fyrirtækisins og meðfjárfesta þeirra á 2,2 milljarða króna að valrétturinn milli Visa Europe og Visa Inc. gæti mögulega skilað Borgun verulegum fjárhæðum. „Við vissum að Borgun stefndi á að auka viðskipti sín erlendis. Það lá ekki fyrir hvort þau umsvif myndu byggjast á samstarfi við Visa, Mastercard eða aðrar kortasamstæður.“
Aldrei kom heldur til álita að hálfu Landsbankans að gera samning samhliða sölunni á hlut í Borgun sem tryggði bankanum viðbótargreiðslu ef valréttur Visa Inc. um kaup á Visa Europe yrði, en Landsbankinn gerði slíkar samning þegar hann seldi hlut sinn í öðru greiðslukortafyrirtæki, Valitor, til Arion banka í fyrra. Að sögn Landsbankans er ástæðan fyrst og fremst sú að bankinn hafði aðallega gefið úr Visa-kort og eingöngu gert það í gegnum Valitor. „Landsbankinn hafði á hinn bóginn ekki gefið út Visa-kort í samvinnu við Borgun. Því voru hagsmunir Landsbankans vegna valréttarins miklir í tilfelli Valitor. Þegar Landsbankinn seldi hlut sinn í Valitor til Arion banka voru þessir hagsmunir tryggðir, þ.e. samið var um að viðbótargreiðsla rynni til Landsbankans ef valrétturinn yrði virkjaður. Jafnframt var samið um að Landsbankinn héldi áfram að gefa út Visa-kort. Hagsmunir bankans voru þannig tryggðir hvað útgáfu á Visa-kortum varðar til næstu ára en einnig miðað við viðskipti fyrri ára. Landsbankinn gerir ráð fyrir að hagnast um nokkra milljarða á þessum viðskiptum. Landsbankinn hafði ekki rök eða forsendur til greiðslna samkvæmt fyrrnefndum valrétti vegna sölu hlutabréfa í Borgun, líkt og í tilfelli Valitor. Af þessum sökum kom ekki til álita að gera sambærilegan samning við kaupendur af hlutum í Borgun um viðbótargreiðslur.“
Landsbankinn segist heldur ekki hafa séð það fyrir sér að Borgun myndi fá háar viðbótargreiðslur vegna samruna Visa Europe og Visa Inc., líkt og nú virðist stefna í. Sú upphæð byggi að mestu á auknum umsvifum Borgunar erlendis eftir að Landsbankinn seldi, samkvæmt þeim upplýsingum sem Landsbankinn hefur fengið um málið.
Fékk aðgang að upplýsingum um rekstur Borgunar
Kjarninn spurði stjórnendur Landsbankans hvort þeir hafi vitað af þeim áformum stjórnenda Borgunar að auka umsvif sín mjög erlendis á árinu 2015 áður en að salan á 31,2 prósent hlut bankans í fyrirtækinu fór fram í nóvember 2014.
Í svari bankans segir að í tengslum við viðskiptin hafi Landsbankinn fengið aðgang að upplýsingum um rekstur Borgunar á grundvelli trúnaðaryfirlýsingar. „Bankinn fékk m.a. aðgang að fjárhagsuppgjörum félagsins og sögulegum rekstrartölum. Landsbankinn fékk einnig kynningu á rekstraráætlunum félagsins og tækifæri til að eiga samtal við stjórnendur um starfsemina og framtíðaráform félagsins. Upplýsingarnar sem bankinn fékk voru þó takmarkaðar af samkeppnissjónarmiðum, meðal annars varðandi umfang viðskipta við viðskiptavini og samstarfsaðila Borgunar. Við söluna lá ekki fyrir að hvaða marki áformin um aukin erlend viðskipti yrðu í samstarfi við Visa, Mastercard eða aðrar kortasamstæður.“
Landsbankinn segir einnig að hann hafi talið útrásaráform Borgunar mjög áhættusöm.