Hringstraumar Kyrrahafsins bera með sér ógrynnin öll af
plastrusli sem marar í hálfu kafi um miðbik stærsta úthafs í heimi. Undir
yfirborðinu og uppi í loftinu berst lífríkið í bökkum. Plastþekjan birgir úti
ljós sem átan þarfnast til ljóstillífunar; átan sem er undirstaðan í lífríki
sjávar. Í staðinn fyrir að gagnast átunni, brýtur sólarljósið plastið niður í
örsnifsi sem rata ofan í maga fiska og fugla og inn í meltingarkerfi marglytta
og allra handa sjávardýra. Ef þau eru óheppin, eru plasteindirnar einnig búnar
að drekka í sig eiturefni á borð við PCB eða skordýraeitrið DDT.
Það er erfitt að meta stærð plastflákans í Kyrrahafinu. Varkárasta matið er 700.000 ferkílómetrar, sjö sinnum stærð Íslands, en stóryrtustu fullyrðingarnar hljóða upp á 15 milljónir ferkílómetra. Það er rétt aðeins minna en Rússland. Í öllu falli er víst að ruslaflákinn á skilið enska nafnið, the great pacific garbage patch, nafngift sem minnir að vissu leyti á mikilmennskubrjálæði nýlendutímans.
Viljiði fá vondu fréttirnar núna? Ruslaflákarnir eru ekki einn, heldur fimm. Sá stærsti er í norðurhluta Kyrrahafsins, annar í suðurhlutanum, einn í Suður- og annar í Norður-Atlantshafi og sá fimmti í Indlandshafi. Þá er ótalið allt vegalaust og óskipulagt rusl sem er bara í ruglinu einhvers staðar úti á reginhafi. Ný skýrsla Alþjóðaefnahagsráðsins um plast í höfunum býður upp á skuggalegar lýsingar sem ræna mann nætursvefninum.
Getur ekki einhver tekið þetta rusl úr sjónum?
Ruslaflákinn uppgötvaðist árið 1997. Æ síðan hefur fólk leitað að lausnum á vandanum. Er ekki bara hægt að ná þessu í eina góða hringnót og fara með þetta í endurvinnsluna? Nei, það er flóknara en svo af því að a) þetta er svo langt úti á hafi og b) þetta er svo mikið magn plasts sem þyrfti að sigla með aftur í land að það yrði dýr og langvinn hreinsunaraðgerð. Þetta myndi taka hundruð ef ekki þúsundir ára, og þó varla ná að anna því plastmagni sem berst í hafið á hverjum degi. Þar að auki er megnið svo litlar plasteindir að þær verða ekki fangaðar með neinu neti.
Í stuttu máli hafði engum tekist að finna góða lausn á vandanum. Ekki fyrr en hollenski verkfræðineminn Boyan Slat fékk svo góða hugmynd að hann ákvað að hætta í skólanum og bjarga heiminum í staðinn.
18 ára stráklingur til bjargar
Fyrstu viðbrögðin voru ekki hvetjandi. Í stuttu máli trúði enginn á hann. Hann kynnti hugmyndina á TedX ráðstefnu í heimabænum Delft en hún féll í grýttan jarðveg. Hann stofnaði samt sem áður samtökin The Ocean Cleanup til að þróa hugmyndina áfram. Hann sendi út mörg hundruð styrkumsóknir en fékk ekkert svar. Hann var 18 ára. Hver gat trúað á einhvern strákling sem hafði ekki einu sinni lokið fyrsta árinu í verkfræði? Evrurnar runnu út úr sparibauknum án þess að neitt kæmi inn í staðinn.
Svo kviknaði ljósið í enda ganganna. Eða, öll ljósin í göngunum kviknuðu í einni hendingu. Bandarískt umhverfisfréttablogg skrifaði um TedX fyrirlesturinn hans og birti myndbandið. Þar með snerist gæfan Boyan í vil.
Hundruð þúsunda sáu myndbandið. Inn streymdu tölvupóstar frá fólki sem spurði hvernig það gæti hjálpað. Boyan skráði sig á hópfjármögnunarsíðu og safnaði inn 80.000 Bandaríkjadölum á tveimur vikum. Hjólin byrjuðu að snúast. Nú er ekki lengur neinn hörgull á fjármagni, samstarfsaðilum eða sérfræðingum sem keppast um að fá að vinna að verkefninu með honum.
Hvernig? Já, hvernig í ósköpunum?
Boyan segist geta hreinsað upp hálfan Kyrrahafsruslaflákann á tíu árum. Allir fimm ruslaflákarnir munu taka 25 ár. Tæknin er í þróun en á að vera komin í gagnið 2020.
Núna, tæpum þremur árum eftir að Boyan kynnti hugmyndina fyrst, er komið annað hljóð í strokkinn. Hann hefur fengið verðlaun og viðurkenningar, m.a. frá Sameinuðu þjóðunum, og hefur lent á allra handa listum yfir klárt hugsjónafólk. Tæknin sem Ocean Cleanup er að þróa þykir lofa svo góðu að hún lenti á lista tímaritsins Time yfir 25 bestu uppfinningar 2015 og var tilnefnd í flokknum hönnun ársins hjá London Design Museum.
Kjarninn í hugmyndinni er þessi: til hvers að sigla um og fanga ruslið, þegar þú getur látið hafstraumana koma með ruslið til þín? Hugmyndin gengur í raun út á að setja hundrað kílómetra langa fljótandi ruslasíu út í höfin. Prufumódelin líkjast gulum miðgarðsormi sem flýtur á yfirborðinu. Niður úr þessum flotbelgjum hangir jafnlöng ruslasía. Hún er sérhönnuð til þess að valda ekki skaða á lífríkinu. Fiskar geta auðveldlega synt undir hana og eiga ekki að geta fest í henni.
Hugmyndin er að hafstraumarnir renni sér undir ruslasíuna, ruslið verði eftir þar og öldurnar haldi áfram án þess. Fyrir hvern hring sem hafstraumarnir fara verða þeir hreinni og hreinni. Auðvitað verður eftir sem áður að ná í ruslið út á reginhaf og fara með það í land en þó er mikið sparað við að sleppa við að eltast við það á bátum um höfin breið. Ef þetta gengur eftir verður bara hægt að sækja það í síuna og fara með það í endurvinnsluna.
Kostnaðurinn við verkefnið greiðist að hluta til af endursöluvirði plastsins til endurvinnslu. Þegar fram líða stundir getur það orðið tískufyrirbæri að selja hluti úr sjávarplasti. Hollenski tískuvöruframleiðandinn G-Star Raw hefur þegar sett á markaðinn gallabuxur sem eru framleiddar úr endurunnu plasti sem var safnað upp í kalifornískum fjörum. Ryksuguframleiðandinn Electrolux setti á markað ryksugu framleidda úr sama hráefni og hefur lagt ríka áherslu á að fræða fólk um mengun í höfunum.
Ein af stærstu áskorununum er að sjálfsögðu hvernig hægt er að byggja 100 kílómetra flotbauju sem þolir ógnarkrafta Kyrrahafsins, með allt að 27 ölduhæð. Þeir sem vilja kynna sér tæknilausnirnar í þaula geta gert það á síðu The Ocean Cleanup.
Nú er sem fyrr segir verið að prófa prótótýpur með þetta í huga. Innan skamms verður kílómetra prufusía sett út í Norðursjóinn, út af ströndum Hollands. Síðar á árinu á að leggja út aðra, tvöfalt lengri, í hafið út af Japan.
Fylgist með og krossið fingur. Þetta gæti verið lausnin á einu af stóru umverfisvandamálum heimsins.