Jóhann Jóhannsson hlaut nýverið sína aðra óskarsverðlaunatilnefningu fyrir tónlistina í spennumyndinni Sicario. Hann stígur því inn í fámennan hóp úrvalstónskálda sem hafa gætt kvikmyndir lífi í gegnum tíðina með tónlist sem út af fyrir sig eru mikil listaverk. Sum af bestu tónskáldunum ná aldrei þessum árangri en hér á eftir verður fjallað um þau tíu helstu sem unnið hafa styttuna frægu.
Sinfóníuhljómsveit Íslands flytur tónlist Jóhanns Jóhannssonar á sérstökum Kvikmyndatónleikum í Eldborg 17. mars. Þar heimsfrumflytur hljómsveitin nýjar hljómsveitarsvítur sem Jóhann útbjó sérstaklega fyrir sveitina samsettar úr tónlist hans við The Theory of Everything, Prisoners og nýjustu mynd hans Sicario. Þetta er í fyrsta sinn sem tónlistin hljómar í þessum búningi.
Ennfremur hefur Jóhann valið tónlist annara kvikmyndatónskálda sem hann hefur mætur á til flutnings á tónleikunum, t.d. John Williams.
Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur áður leikið tónlist Jóhanns en skemmst er að minnast tónleika sveitarinnar á Iceland Airwaves 2014 þegar Sinfóníann lék tónlist hans við heimildamyndina The Miners Hymn’s undir sýningu myndarinnar.
10. Vangelis
Hinn 72 ára gamli Grikki Evangelos Odysseas Papathanassiou, betur þekktur sem Vangelis, sló í gegn sem hljómborðsleikari í popp og rokkhljómsveitum í heimalandi sínu á sjöunda áratugnum. Á sama tíma hóf hann að semja kvikmyndatónlist en helgaði sig því þó aldrei. Hann hefur komið víða við, t.d. samið mikið fyrir heimildarmyndir, sjónvarpsþætti, tölvuleiki o.fl. Auk þess hefur hann aldrei skilið við poppið, hvort sem er með hljómsveitum eða í eigin sólóferli.
Kvikmyndatónlist hans svipar mjög til annarra verka hans, hann leikur sér með elektrónísk hljóð og hljómborðið eða píanóið er yfirleitt í forgrunni. Hápunktur ferils hans var á níunda ártugnum og í upphafi þess tíunda, þá samdi hann tónlist fyrir m.a. Blade Runner, The Bounty og 1492: Conquest of Paradise. Hann fékk sína einu óskarstilnefningu árið 1981 fyrir Chariots of Fire og vann styttuna einnig. Það er hans frægasta stef og hefur verið notað við hin ýmsu tækifæri, t.d. á ólympíuleikunum árið 2012 í London.
9. Elmer Bernstein
Bernstein var einn af afkastamestu tónskáldunum í Hollywood um áratuga skeið. Hann var fæddur í New York árið 1922 og ólst upp undir handleiðslu hins mikla ameríska tónskálds Aaron Copland. Hann hóf að semja kvikmyndatónlist upp úr 1950 en lenti snemma í vandræðum vegna tengsla sinna við kommúnistahreyfinguna. Hann var kallaður fyrir nefnd Josephs McCarthys og var um stund óæskilegur í Hollywood. Það stóð þó stutt yfir og Bernstein vann sér sess sem einn helsti vestra og stríðsmynda lagahöfundur bransans. Verk hans þóttu lífleg og hressandi, þá sérstaklega í myndum á borð við The Magnificent Seven og The Great Escape. Bernstein fékk alls 14 óskarstilnefningar á rúmlega 50 ára ferli sínum og a.m.k. eina á hverjum einasta áratug. Hann vann þó einungis einu sinni, árið 1968 fyrir hinn lítið þekkta söngleik Thoroughly Modern Millie. Bernstein lést árið 2004.
8. Hans Zimmer
Zimmer fæddist í Vestur-Þýskalandi árið 1957 en flutti ungur til Bretlands. Þar spilaði hann á hljómborð í popphljómsveitum á áttunda og níunda áratugnum en hann fór aldrei í tónlistarnám. Hann hefur þó aldrei verið hræddur við að grúska og prufa sig áfram með ýmsa hluti. Um miðjan níunda áratuginn hóf hann að semja tónlist fyrir lítið þekktar kvikmyndir og þótti frumlegur þar sem hann blandaði hefðbundnum klassískum stefum við raftónlist. Fyrsta stóra tækifæri hans var Rain Man árið 1988 og fékk hann mikla athygli og sína fyrstu óskarstilnefningu (af tíu) fyrir vikið. Allar götur síðan hefur Zimmer átt fastan sess í Hollywood og orðið þekktur fyrir spennu og ævintýramyndir á borð við Crimson Tide, The Pirates of the Caribbean og Inception. Hann er þó langt því frá einhæfur og hefur t.a.m. samið töluvert af tónlist fyrir teiknimyndir. Árið 1994 fékk hann einmitt óskarsverðlaun fyrir The Lion King.
7. John Barry
Barry fæddist árið 1933 í York í Bretlandi og ólst þar upp. Hann spilaði á trompet í jazz-hljómsveitum á sjötta áratugnum en hóf að semja tónlist fyrir breskar kvikmyndir á þeim sjöunda. Í upphafi ferilsins notaði hann jazz, og þá sérstaklega big band jazz mikið við að skora kvikmyndir. Árið 1962 kom út Dr. No, fyrsta myndin um spæjara hennar hátignar James Bond og Barry hlaut töluverða athygli fyrir það.
Hann var alla tíð kenndur við Bond seríuna og samdi tónlist fyrir alls 11 myndir um spæjarann, þar á meðal titillagið og hið goðsagnakennda lag Goldfinger sem Shirley Bassey söng. Seinna flutti Barry til Bandaríkjanna og gerðist hefðbundinn Hollywood tónlistarmaður og einbeitti sér þá meira af klassískri tónlist þó að jazzinn væri aldrei langt undan. Barry hlaut alls 7 tilnefningar til óskarsverðlauna og vann 5 sinnum, þar á meðal fyrir Out of Africa og Dances With Wolves. Hann lést árið 2011.
6. Jerry Goldsmith
Goldsmith fæddist kreppuárið mikla 1929 í Los Angeles. Tónlistarferill hans hófst á sjötta áratugnum hjá CBS fjölmiðlarisanum þar sem hann samdi stef fyrir sjónvarps og útvarpsþætti. Hann hóf snemma að semja tónlist fyrir kvikmyndir og sanka að sér óskarstilnefningum. Þegar hálfrar aldar ferli hans lauk hafði hann hlotið alls 18 tilnefningar. Hann samdi mikið fyrir vísindaskáldskap og hryllingsmyndir og árið 1976 fékk hann einmitt sína einu styttu, fyrir hryllingsmyndina The Omen. Goldsmith þótti eitt frumlegasta tónskáld sem starfað hefur í Hollywood. Hann nýtti sér þjóðlega tónlist frá öllum heimshornum, jazz, popp, o.fl. og einnig gerði hann tilraunir með ýmis hljóðfæri á borð við didgeridoo og hið svokallaða blaster beam. Meðal þekktustu kvikmyndatónlistar Goldsmiths má nefna Planet of the Apes, Chinatown, Star Trek og Total Recall. Hann lést árið 2004.
5. Howard Shore
Howard Shore er 69 ára Kanadamaður, fæddur og uppalinn í Toronto. Hann hóf tónlistarferil sinn sem saxófónleikari í jazz-hljómsveitinni Lighthouse undir lok sjöunda áratugsins en á þeim áttunda fékk hann starf við sjónvarpsþættina Saturday Night Live. Skömmu seinna komst hann í kynni við leikstjórann og samlanda sinn, David Cronenberg og þá var framtíð hans ráðin.
Shore samdi yfirleitt tónlist fyrir drungalegar og óhugnanlegar kvikmyndir og tónlistin var í samræmi við það. Hann komst á kortið árið 1991 fyrir The Silence of the Lambs en áratug seinna fékk Peter Jackson honum það verkefni að semja fyrir The Lord of the Rings þríleikinn. Það var allt öðruvísi verkefni en Shore hafði áður unnið að, epískt og mikilfenglegt. Hann fékk innblástur frá Niflungahringi Richards Wagner og notfærði sér kóra. Fyrir The Lord of the Rings hlaut Howard Shore alls þrenn Óskarsverðlaun.
4. Bernard Herrmann
Herrmann var einn áhrifamesti kvikmyndatónlistarmaður sögunnar. Hann var fæddur í New York árið 1911 og hóf að semja tónlist á unglingsárum. Hann nam tónlist við NYU og Juillard og fékk starf hjá CBS stöðinni aðeins 23 ára gamall. Hjá CBS komst Herrmann í kynni við Orson Welles og samdi í kjölfarið tónlistina fyrir fyrstu kvikmyndir hans, þar á meðal hina goðsagnakenndu Citizen Kane árið 1941. Það sama ár vann hann sín einu óskarsverðlaun, fyrir kvikmyndina All That Money Can Buy.
Það var þó ekki fyrir samstarfið við Welles sem Herrmanns verður minnst. Skömmu seinna kynntist hann Alfred Hitchcock og unnu þeir saman að sjö kvikmyndum og þ.m.t. frægustu verk leikstjórans North by Northwest, Vertigo og Psycho. Á sjötta áratugnum samdi Herrmann mikið fyrir vísindaskáldskap og varð þekktur fyrir notkun sína á hinu sérstaka hljóðfæri þeramíni. Herrmann bjó í Bretlandi seinustu ár ævi sinnar en hann lést árið 1975. Ári seinna var hann tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir tvö af seinustu verkum sínum, Taxi Driver og Obsession.
3. James Horner
Bandaríkjamaðurinn James Horner var sprenglærður í tónlist úr skólum á borð við Royal College of Music í London og UCLA í Los Angeles. Honum leiddist dægurtónlist og hóf að semja klassíska tónlist fyrir kvikmyndir á þrítugsaldri. Á níunda áratugnum skapaði hann sér sess í Hollywood, þá sérstaklega fyrir samstarfið við kvikmyndaleikstjórann James Cameron. Árið 1986 fékk hann fyrstu óskarstilnefningu sína af níu fyrir tónlistina í Aliens. Hann samdi mörg fræg kvikmyndaskor á komandi árum, m.a. fyrir Glory, Braveheart og Apollo 13 en árið 1997 komst hann í sögubækurnar fyrir tónlistina í meistarverki Camerons Titanic.
Fyrir hana vann Horner tvenn óskarsverðlaun og verkið er enn söluhæsta kvikmyndaplata allra tíma. Horner leit á Dmitri Shostakovich sem sinn helsta áhrifavald en allan feril sinn mátti hann sæta ásökunum um ófrumleika. Bæði að hann stæli stefum frá kollegum sínum og gömlu meisturunum og einnig að hann endurnýtti sín eigin stef. James Horner lést þann 22. júní síðastliðinn í flugslysi.
2. John Williams
Enginn kvikmyndatónlistarmaður hefur getið sér viðlíka frægð og Bandaríkjamaðurinn John Williams. Williams er fæddur árið 1932, lærði á píano í Juillard og spilaði með jazz hljómsveitum á sjötta áratugnum. Hann lét á sér bera á sjöunda áratugnum en það var samstarfið við Steven Spielberg og George Lucas sem átti eftir að marka allan hans feril. Williams er nokkuð hefðbundinn lagahöfundur sem hefur þó samið ógrynni af stefum sem allir þekkja. Það hefur skilað sér á rauða dreglinum og hefur hann hlotið alls 50 óskarstilnefningar og 5 sinnum hefur hann unnið styttuna. Framleiðandinn Walt Disney er sá eini sem hefur hlotið fleiri tilnefningar en Williams. Meðal verka hans má nefna Jaws, Star Wars, E.T.,Indiana Jones, Jurassic Park, Schindler´s List og Harry Potter. Þó að John Williams sé kominn á níræðisaldur er hann enn að og er einn af keppinautum Jóhanns Jóhannssonar í ár, með tónlistina í Star Wars: The Force Awakens.
1. Ennio Morricone
Morricone er Rómverji í húð og hár, fæddur í borginni eilífu árið 1928. Hann spilaði á trompet í jazzhljómsveitum og samdi popplög áður en hann hóf að gera kvikmyndatónlist í heimalandi sínu upp úr 1960.
Hann er afkastamikill bæði í kvikmyndatónlist og öðru sem hann hefur tekið sér fyrir hendur og þykir mjög frumlegur þegar kemur að stíl og hljóðfæravali. Morricone hlaut mikla frægð fyrir tónlistina í hinum svokölluðu spaghettí vestrum sem hann gerði fyrir skólafélaga sinn Sergio Leone og fleiri leikstjóra á sjöunda og áttunda áratugnum. Þar notaði hann raddir og ýmsar hljóðupptökur á mjög sérstakan hátt. Morricone hefur 6 sinnum verið tilnefndur til óskarsverðlauna en aldrei unnið. Hann var þó sæmdur heiðursverðlaunum akademíunnar árið 2006. Morricone starfar alfarið í Róm og talar litla ensku en hefur þó samið tónlist fyrir fjölmargar amerískar og breskar kvikmyndir. Má þar nefna The Untouchables, The Thing og The Mission sem af mörgum er talin sú besta sem gerð hefur verið. Hinn 87 ára gamli Morricone er keppinautur Jóhanns Jóhannssonar í ár með The Hateful Eight.