Bandarískar B-52 sprengjuflugvélar flugu nokkrum sinnum í fyrra yfir Spratly-eyjaklasann nærri Filippseyjum. Stjórnvöld í Peking gera tilkall til eyjanna og brugðust ókvæða við og sökuðu Bandaríkjamenn um ögrun.
Mörgum fréttaskýrendum þóttu yfirlýsingar ríkisfulltrúa í Peking merkilegar í ljósi þess að eyjarnar eru flestar eyðileg sandrif í órafjarlægð frá meginlandi Kína. Öðrum þykja afskipti Bandaríkjanna óviðeigandi í ljósi þess að þau lögðu niður herstöðvar sínar á Filippseyjum fyrir löngu. Á meðan hefur Kína staðið fyrir mikilli uppbyggingu á Spratly svæðinu á undanförnum árum.
Í þessari deilu eru Filippseyjar eins og lítið peð sem minnir á smáþjóð sem eitt sinn háði sögufrægt Þorskastríð. Filippseyjar standa andspænis Kína eins og Davíð gegn Golíat. Báðir aðilar halda frammi sögulegum rökum um fiskveiðar og risavaxin herskip athafna sig við þröngar aðstæður innan um litla veiðibáta.
Hefðbundin utanríkisstefna Kína gengur út á friðsamlega samvinnu milli ríkja. Oft er vitnað til Deng Xiaoping heitins til að útskýra stefnuna með orðunum: „Vertu með höfuðið í lagi og haltu þig til hlés. Taktu aldrei að þér forystuna – en framkvæmdu stórvirki.“ Áðdáunarvert er að Kína heldur við þeirri stefnu á svæðinu þegar í harðbakkann slær. En á hinn bóginn er Kína að koma upp strangri landhelgisgæslu og filippeyskir sjómenn eru orðnir boðflennur á fiskimiðum forfeðra sinna.
Því er ólíkt farið með Þorskastríðið þá og nú að í stað þess að smáríki eins og Ísland þræti við hnignandi heimsveldið Bretland þá etja Filipseyjingar kappi við ört vaxandi stórveldi Kínverja. Líkt og þá vegur þungt þrautsegja ungra manna sem eru langt frá konum sínum og börnum með þolinmæðina eina að vopni.
Eyjaklasi með sjóræningjanöfn
Spratly er klasi smáeyja og sandrifja. Þær teygja sig út í mitt sunnanvert Suður Kínahaf frá hinni löngu Palawan eyju i samnefndu hérað á vestanverðum Filippseyjum. Eitt umdeildasta skerið ber nafn með rentu og kallast Prakkarastrikssker (e. Mischief Reef). Það er 250 km frá Palawan eyju en 1300 kílómetra frá meginlandi Kína.
Yfirráð Kína á svæðinu ná einungis til átta sandrifja og engra eyja. Sú staðreynd grefur undan stöðu Kína því samkvæmt Hafréttarsáttmálanum þarf strandlengju til að gera tilkall til yfirráða. Á úrræðagóðan hátt hefur Kína leyst það vandamál með því að breiða úr rifjunum með fjölda sanddæluskipa. Frá desember 2013 fram til ágústs 2015 höfðu landfyllingar Kína náð nærri 30 ferkílómetrum og ljóst var að flugbraut væri að rísa á Eldkrossskeri (e. Fiery Cross Reef). Í grein á Vísi í vikunni kom fram að kínversk farþegaflugfélög eru farin að mæta með kínverska ferðalanga á skerið.
Víetnamar ráða yfir 6 eyjum og 17 sandrifjum, Filippseyjingar 7 eyjum og 3 sandrifjum. Þar fyrir utan hafa nokkur önnur ríki í kring yfirráð yfir afmörkuðum hlutum eyjaklasans. En sandrifin 8 sem Kínverjar ráða eru dreifð víðs vegar um klasann svo að í krafti herskipa sinna stjórna þau fiskveiðum. Kínverskir bátar fá forgang en filippeyskum sjómönnum er meinaður aðgangur. Olíu er einnig að finna á svæðinu og túlka margir harða landhelgisgæslu Kínverjaá svæðinu sem undanfara olíuborana.
10.000 þriðjungsmílna steinabeðið og 9 strika línan
Tilkall Kína til Spratly eyjaklasans er byggt á tveimur rökum. Þau fyrri eru að eyjarnar séu óaðskiljanlegur hluti af kínversku áhrifasvæði allt aftur til keisaraalda. Því er haldið fram að kínverskir sjómenn hafi veitt þar allt frá 200 fyrir Krists burð og hafi hafst við á eyjunum. Fundist hafa kínverskir peningar og leirbrot því til vitnis. Kínverski sagnaritarinn Zhao Rugua gæti hafa vísað til þeirra í annálum um útlönd í kringum 1200 e.Kr. þar sem þær voru kallaðar 10.000 þriðjungsmílna steinabeð (kínverska lengdarmælieining li er álíka löng og þriðjungur úr mílu).
Önnur rök Kína byggja á gömlum kortum og svokallaðri 9 strika línu en það er brotalína sem umlykur nær allt hafsvæðið fyrir sunnan Kína. Hún liggur allt upp að landhelgi Malasíu og Filipseyja. Þetta er ekki hefðbundin 200 mílna landhelgi Kína heldur meira en 1000 mílna, eða u.þ.b. vegalengdina frá Hainan, syðstu eynnar við meginland Kína, til Palawan, næstu stóru eyjar Filipseyja við Spratly klasann.
Fyrstu kort Kína þar sem 9 strika línan kom fram voru birt árið 1947 á vegum Lýðveldisins Kína, ríkisstjórnar þjóðernissinnans Chiang Kai Shek. Þeir áttu á þeim tíma í borgarastríði við kommúnista undir leiðsögn Mao Zedong. Þeir voru endanlega hraktir burt frá meginlandinu árið 1949 til eyjarinnar Tævan, sem síðan þá hefur verið sjálfstætt ríki, alloft fjandsamlegt Alþýðulýðveldinu á meginlandi Kína. Alþýðulýðveldið hafði í fyrstu lítinn áhuga á Spratly en í kringum 1980 fóru þeir að sýna svæðinu áhuga. Frá 2013 hafa umsvifin stóraukist.
Stjórnvöld þjóðernissinna í Tævan gera einnig tilkall til Spratly eyja. Tilkall þeirra byggir á sama sögulega grunni og tilkall Alþýðulýðveldisins, með þeim afleiðingum að deilan er eitt af fáum málum þar sem ríkin tvö standa saman gagnvart nágrannaríkjunum. Eftir uppgjöf Japana og stríðslokayfirlýsingar í Potsdam og Kaíró gáfu þeir frá sér réttin eyjum í Suður Kínahafi og víðar. Rétturinn átti að færast til Lýðveldisins Kína sem er nú á Tævan en Spratly eyjar voru ekki nefndar sérstaklega. Við þetta bættist að réttur Japana til eyjanna varð til eftir innrás og hersetu en óljóst var með eiginleg viðurkennd yfirráð Spratly og annarra eyjaklasa eftir hernaðarlega yfirtöku.
Hafréttarsáttmáli SÞ og Alþjóðadómstóllinn í Haag
Tilkall Filippseyja til Spratly eyja byggir á landfræðilegum rökum og „fyrstir koma fyrstir fá“ reglunni eða Res Nullius á latínu. Landfræðilega má leiða líkum að því að eyjarnar séu hluti af landgrunni Filipseyja sem eru sjálfar eldfjallaeyjaklasi dreifður þar í kring. Ef horft er á kort af svæðinu er nokkuð ljóst að eyjaklasinn liggur á hafsvæðinu næst Malasíu og Filipseyjum og þá sérstaklega Palawan eyju sem tilheyrir þeim siðarnefndu.
Res nullius rökin byggja á því að eyjarnar hafi verið einskis manns land eftir seinni heimstyrjöldina. Í friðarsáttmála Japana við bandamenn var samið um að herlið og herseta þeirra legðist niður á hernumdum svæðum í Asíu, þ.á.m. Spratly. Umferð um eyjarnar lá að mestu niðri allt þar til filippeyskur kaupsýslumaður að nafni Tomas Cloma nam þar land árið 1956 og stofnaði Frelsislandið. Hann var handtekinn árið 1974 af filippeyskum stjórnvöldum og var neyddur til að selja eyjarnar til þeirra á einn pesóa. Ferdinand Marcos, forseti Filippseyja, lýsti því að þær væru hluti af Filippseyjum og kallaði þær Kalayaan á filippeysku.
Árið 2009 reyndi Kína að fá tilkall sitt byggt á 9 strika línuna viðurkennt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þeirri kröfu var að mestu hafnað þar sem strandlengja Kína lægi ekki að svæðinu eins Hafréttarsáttmáli SÞ (UNCLOS) kveður á um. Í kjölfar þessarar kröfu, ásamt stórauknum framkvæmdum Kínverja við landfyllingar og hernaðaruppbyggingu, á svæðinu fóru Filippseyingar með málið fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag árið 2013.
Kína neitaði að viðurkenna lögsögu dómstólsins. En sú afstaða dugði ekki til þar sem dómstóllinn ákvað samt að taka málið fyrir vegna þess m.a. að bæði ríkin höfðu innleitt Hafréttarsáttmálann. Fyrirspurnir Filipseyja í málinu endurspegluðu ákveðna kænsku. T.d. spurðu þeir ekki hvort sandrifin og landfyllingar Kína gætu talist eyjur með búsetu heldur hvort sandrifin mynduðu grundvöll 12 mílna efnahagslögsögu.
Fjallað var um málið í nóvember 2015. Fyrsta álit dómstólsins var Filippseyjum í vil. Þó svo hann hafi neitað að úrskurða um mál eins og hervæðingu og landhelgisgæslu Kínverja á svæðinu var t.d. ályktað að landfyllingar Kínverja brytu Hafréttarsáttmálann þar sem umhverfismat í samráði við nágrannaríki voru ekki framkvæmd. Dómstóllinn opnaði einnig fyrir ákvarðanatöku um rétt til fiskveiða en Kína hefur m.a. meinað filippeyskum sjómönnum að veiða í litlum flóa sem er aflokaður af hinum skeifulaga Scarborough grynningum. Aðfarirnar þar hafa um margt minnt á Þorskastríðið, þar sem risavaxin herskip sigla utan í illa búna fiskibáta.
Varnarsáttmáli við Bandaríkin
Aðkoma Bandaríkjanna að deilunni er margþætt. Að ósk Filipseyjinga fór bandríski herinn þaðan í burt árið 1992 og sagði skilið við risastór hernaðarmannvirki eins og flotastöðina Subic Bay. Stærstu bækistöð flughersins, Clark Airfield, var lokað eftir eldgos í Pinatubo fjalli árið áður. Subic Bay var stærsta herstöð Bandaríkjahers í Kyrrahafinu á seinni hluta 20. aldar. Þar má nú aftur sjá herskip Bandaríkjamanna leggjast bryggju og viðræður eru í gangi við Filipseyjar um að opna þar aftur herstöð.
Árið 2011 tilkynnti ríkisstjórn Obama um áherslubreytingu í varnarstefnu Bandaríkjanna. Horfið var frá Evrópu- og Mið Austurlanda-miðarðri utanríkisstefnu í átt til Kyrrahafsins (e. Strategic Pivot). Einn helsti hvatinn að nýrri stefnu er hernaðaruppbygging Kína á þessum slóðum. Kína flytur inn helming af allri olíuþörf sinni og talið er að 80% fari um Malacca sund á milli Malasíu, Singapúr og Indónesíu. Á meðan Kínverjar reyna að tryggja siglingaleiðir sínar eru Bandaríkin að lappa upp á gömul vinatengsl á svæðinu. Herstöð Bandaríkjanna í Singapúr skammt frá Malacca er þrándur í augum Kínverja.
BRP Sierra Madre
Einn áhugaverðasti angi deilunnar er vera átta filippeyskra hermanna á skipsflaki sem strandaði á Ayungin grynningunum rétt fyrir utan Prakkastriksskerið þar sem Kínverjar eru búnir að byggja flugbraut og myndarlega byggð. Skipið heitir BRP Sierra Madre og notuðu Bandaríkjamenn það í seinni heimstyrjöldinni áður en filippeyski herinn fékk það til afnota.
Nú er flakið að ryðga í sundur og búa hermennirnir við sönginn í kinnungnum og drepa tímann með því að hlusta á lýsingar af körfuboltaleikjum og dorga með veiðafærum gerðum úr afgangsmálmum úr skipinu. New York Times birti ítarlega grein um líf mannanna sem fá að tala við konur sínar og börn einu sinni í viku í gegnum gervihnattarsíma. Matarsending kemur einu sinni í mánuði og hver hermaður dvelur um hálft ár í flakinu. Alþjóðadómstóllinn neitaði að álykta um hvort Kína mætti stjórna siglingum til og frá skipinu.
Spratly eyjar með öll sín skrautlegu nöfn og einmana eyjaskeggja munu án efa verða ein mikilvægasta milliríkjadeilan í Austur-Asíu á næstu árum. Meiri spenna ríkir milli annarra ríkja eins og Japan, Kína, Kóreu og Víetnam. En það sem er hættulegt við Spratly deiluna er að filipeyski herinn er illa búinn, bandaríski sjó- og flugherinn er eins og naut í flagi og Kínverska lanhelgisgæslan er eins og strangur kennari í vitlausri skólastofu. Aðkoma Alþjóðadómstólsins í Haag að málinu hefur hrundið af stað ferli sem leitt getur til lausnar á grundvelli Hafréttarsáttmála SÞ.
Þangað til mun B-52 vélar Bandaríkjann halda áfram að sveima yfir svæðið. Hrollvekjandi er að vita af þeim og bandarískum tundarspillum í þröngum sundum og grynningum innan um kínverska sjóherinn. Eins gott að það sé enginn flækjufótur í því þrátefli.